Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Engar ástæðulausar ábendingar?

Athygli vekur að Vinnumálastofnun segist hafa sparað um 150 milljónir króna á einu ári vegna rannsókna ssem settar voru í gang í kjölvar ábendinga um bótasvik. Þessar ábendingar munu allar hafa komið vegna kæruhnapps sem settur var upp á heimasíðu stofnunarinnar.

Aðferðin er að mati Persónuverndar ólögleg.

Athygli vekur að Vinnumálastofnun er ekki spurð um þær ábendingar sem komið hafi í gegnum áðurnefndan hnapp og ekki hafa reynst grunnur fyrir rannsókn eða ákæru.

Þögnin um þetta er einstaklega hávær. Hún getur þó stafað af því að ástæðulausar ábendingar eru ekki til - eða hvað?

Vitað er að margir eru afar fljótir til og dæma samborgara sínamiskunarlaus, eru jafnvel til í að fullnægja dómnum samstundis. Lítum til dæmis á athugasemdadálka fjölmargra bloggara eða fréttasíðna fjölmiðla. Þar vantar aldeilis ekki ákærurna. Og svo snöggir eru margir að taka undir með safaríkri frétt að jafnvel þó hún reynist röng standa ákærendurnir fast við sinn keip.

Gaman væri því að vita hvort vefsíða Vinnumálastofnunar sé laus við „dómstóla götunnar“. 


mbl.is Spara 150 milljónir með hnappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær ár með Steve Jobs

Fréttir um að Steve Jobs hafi sagt af sér sem forstjóri Apple koma alls ekki á óvart. Raunar hefur hann aðeins gegnt starfinu í orði kveðnu. Veikindi mannsins hafa verið mikil og hann lítur alls ekki vel út eftir að hafa fengið krabbamein.

Steve Jobs er mikið ólíkindartól. Metnaður hans er gríðarlegur en samskiptahæfileikar hans voru framan af honum til lítils sóma. Enginn efast þó um hæfileikana. Hann stofnaði og byggði upp Apple. Þegar vel tók að ganga ýttu fjárfestar honum til hliðar en þá fór allt á verri veg hjá Apple undir stjórn manns sem hafði það sér til ágætis að hafa verið forstjóri Pepsíkólas. Þrautaráðið var nokkrum árum síðar að fá hann til baka. Það reyndist afskapleg farsæl ráðning.

Apple er stórveldi með Makka, iPod, iPhone og iPad og frábær stýrikerfi og stórkostleg forrit.

Það var 1984 eða 85 að góðir vinir, hjónin Helga Ólafsdóttir og Guðmundur Björnsson, sýndu mér skrýtna tölvu sem þau kölluðu Macintosh, rétt eins og nammið. Þetta var upphafið en farsælli notkun á tölvu sem ég sé ekki fyrir að ég hætti nokkurn tímann að nota.

Ég hef aldrei séð eftir því að hafa notað Makka. Stundum var það þó erfitt, sérstaklega á þeim tíma sem Apple taldi Steve Jobs vera óþarfan. Oftast hefur verið frábært að nota Makka og sérstaklega síðustu árin. Og alla tíð hef ég afþakkað PC tölvu þar sem ég hef unnið en komið með Makkann minn á vettvang.

Auðvitað hefur maður orðið fyrir aðkasti. Margir gáfumenn hafa reynt að telja mér trú um að Makkinn væri alveg ómögulegur. Fæstir þekktu þó tölvuna af eigin raun. Sá var nú eiginlega munurinn á mér og þeim að ég átti lengi tölvu með Windows stýrikerfi, notaði hana fyrst og fremst fyrir bókhald á þeim árum sem gott bókhaldsforrit fékkst ekki á Makka.

Þrátt fyrir mótbyr sem fyrst og fremst hefur byggst á ati og gríni í minn garð hefur uppreisn mín með Makkann byggst á því að hann er öruggur í rekstri, bilar lítt og er svo ákaflega skemmtilegur í notkun. Ánægjulegast hafa þau augnablik verið þegar andskotar mínir hafa komið og beðið mig um að gera einhver viðvik á Makkann sem þeir kunna ekki á Windows. 

Ég nota núna MacBook Pro fartölvu, 2.66 GHz og Intel Core i7, 8 GB minni og stýrikerfið er Mac OX Lion 10.7.1. Frábær tölva sem þolir að fá kókglas yfir hnappaborðið (mæli samt ekki með slíku). Með tölvunni nota ég svo 23" skjá frá Apple sem ég keypti fyrir sex árum. Þetta er afskaplega skemmtileg vinnustöð þó svo að ég þurfi nú að fá mér nýjan og stærri skjá.

Í vor ætlaði ég að kaupa iPad en þess í stað fékk ég með iPhone sem mig hefur dreymt um frá því hann kom á markaðinn árið 2007.

iPhone er gjörbreyting á viðhorfi til síma. Í raun og veru er ekki hægt að bera saman iPhone og hefðbundna gsm síma. Þetta er allt annað tæki, eiginlega tölva. Síminn er aðeins hluti af því.

Steve Jobs er búinn að marka línuna. Þó hann hætti hjá Apple þá vita þeir sem við taka sem og allt fyrirtækið hvert markmið þess er og á að vera. Apple verður vonandi um ókomna tíð frumherji og neytendavænt fyrirtæki. Steve Jobs er vinur minn, jafnvel þó hann viti ekki af því, og ég óska honum langlífis.


mbl.is Jobs hættir sem forstjóri Apple
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blönk og ráðlaus í baktjaldamakki

Ríkisstjórnin er blönk eins og ríkissjóður. Hún kann ekki að afla fjár, aðeins eyða. Hún hefur ekkert getað sýnt í hagstjórn, hefur haldið í horfinu rétt eins og hefði verið verkefni allra sem að stjórn landsins hefðu komið.

Nú er Útlendingastofnun að sligast fjárhagslega en innanríkisráðherra segir einungis að ríkissjóður sé tómur.

Munum eftir annarri stofnun, Bankasýslu ríkisins. Forstjóri hennar sagði af sér en sagði í ársskýrslu stofnunarinnar:

Þá hefði gætt þeirrar tilhneigingar að aðrar leikreglur ættu að gilda um Landsbankann en aðra banka, en hann er í meirihlutaeigu ríkisins. Dæmi um þetta væri frumvarp til upplýsingalaga og þá stöðu að laun bankastjóra Landsbankans eru ákvörðuð af kjararáði. Ljóst sé að laun bankastjóra Landsbankans standist ekki samanburð og sé það óviðunandi.

Þriðja stofnunin er Byggðastofnun. Nú þykist iðnaðarráðherra bera ein ábyrgð á henni og skipar í stjórnina án samráðs við aðra stjórnmálaflokka og raunar án þess að láta nokkurn mann vita. Ástæðan er einföld. Fyrirkomulag við skipun stjórnar samrýmdist ekki reglum ESB en yfirstandandi eru nú aðlögunarferli stjórnsýslunnar að skipulaginu í Bussel. 

Er þetta ekki lýsandi fyrir ríkisstjórnina. Blankheit, ráðleysi og baktjaldamakk.


mbl.is Útlendingastofnun að sligast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lottóvinningur Norðurþings

Gorgeirinn í íslenskum sveitarstjórnarmönnum ríður stundum ekki við einteyming ... Í tilefni þess að kínverkst fjárfestingarfyrirtæki hefur keypt jörðina Grímsstaði á Fjöllum lætur Bergur Elías Ágústson, sveitarstjóri Norðurþings, hafa eftir sér eftirfarandi í Morgunblaðinu í morgun:

Bergur segir fyrirhugað verkefni falla vel að stefnumótun þeirra á Norðausturlandi. 

Það er aldeilis. Maður sér kallinn draga upp vasaklútinn og snýta sér hressilega og bjóða síðan aðra umferð á handarbakið - á kostnað sveitarfélagsins.

Nei, því trúir ekki nokkur maður að í stefnumótun Norðurþings sé gert ráð fyrir einu eða fleiri verkefnum upp á milljarðartugi í ferðaþjónustu. 

Kínverska fyrirtækið er einfaldlega lottóvinningur fyrir íbúa og sveitarfélag. Þó afskaplega vel hafi verið staðið að uppbyggingu í ferðaþjónustu í Norðurþingi held ég að enginn hafi séð fyrir þau not af Grímsstöðum sem Kínverjarnir kunna að sjá.

Ekki er eftir annað en að óska Bergi Elías og íbúum sveitarfélagsins til hamingju með lottóvinninginn. Bið þá lengstra orða að ganga hægt um gleðinnar dyr, stórveldi hafa alltaf verið varasöm í viðskiptum. Og sumum gagnast síst af öllu stóri vinningurinn, hann getur oft snúist í andhverfu sína.

Það er síðan langur vegur frá þeim móttökum sem hinn sveitarstjórinn Bergur Elías sýnir Kirverjum og viðhorfi ríkisstjórnar Íslands. Forsætisráðherra þjóðarinnar sýndi Kínverjum hroka og dónaskap þegar hún sagðist ekki hafa tíma til að taka á móti forsætisráðherra Kína í júní.


mbl.is Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvað stendur Guðmundur Steingrímsson?

Margir hafa heyrt getið um þingmanninn Guðmund Steingrímsson. Góð vinkona mín sagðist hafa lesið frábæra grein eftir manninn fyrir mörgum árum og hún átti hana enn. Annar sagði Guðmund vera góðan tónlistarmann og sá þriðji sagðist þekkja Guðmund sem góðan dreng.

Af einhverri kerskni bætti ég því við að án efa væri hann góður við börnin sín ...! Gott og vel. fólk er almennt gott og vel meinandi. Það vitum við. Hins vegar vita fæstir mikið um stjórnmálamanninn Guðmund Steingrímsson. Hvernig fást upplýsinga um hann? Jú, auðvitað á maður að kanna feril mannsins sem þingmanns.

Það er einmitt það sem Óli Björn Kárason, varaþingmaður, og útgefandi vefsíðunnar T24, hefur gert. Hann segir á vefsíðu sinni:

Eftir að Guðmundur var kjörinn þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn hefur hann lagt fram átta fyrirspurnir og tvær þingsályktunartillögur. Hann hefur auk þess verið meðflutningsmaður á nokkrum málum. Hvorki fyrirspurnirnar eða þingsályktunartillögurnar tvær benda til þess að Guðmundur Steingrímsson fylgi djúpri pólitískri sannfæringu. Fyrri tillagan til þingsályktunar var um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun. Sú tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þingmenn allra flokka stóðu með tillögunni enda ekki um pólitískt mál að ræða. Síðari tillagan til þingsályktunar var um að seinka klukkunni um eina klukkustund. Sú tillaga fékk ekki afgreiðslu.

Átta fyrirspurnir Guðmundar eru af ýmsum toga allt frá póstsamgöngum til rafmagnsöryggis og markaðsmála.

Þingmál Guðmundar Steingrímssonar:

Fyrirspurnir:

  • Niðurstaða nefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum til dómsmrh.
  • Raforkuöryggi á Vestfjörðum til iðnrh.
  • Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna til féltrmrh.
  • Staða atvinnulausra sem ekki eiga rétt á bótum til velfrh.
  • Biðlisti eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar til velfrh.
  • Póstsamgöngur við afskekktar byggðir til samgrh.
  • Tækni- og raungreinamenntun til menntmrh.
  • Markaðsátakið ,,Inspired by Iceland" til iðnrh.
Þingsályktunartillögur:
  • Notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun Þál. 16/138
  • Seinkun klukkunnar og bjartari morgnar
Með öðrum orðum: Ekki er með nokkru móti hægt að draga nokkra ályktun um pólitíska hugmyndafræði Guðmundar, ef litið er til þeirra mála sem hann hefur haft forystu um eftir að hann settist á þing 2009. Í þeim efnum er hann óskrifað blað. 

Nú þá veit ég það. Alþingismaður hefur yfirgefið flokk sinn og stefnir á að stofna nýjan. Ekki fæ ég skilið út á hvað ágreiningurinn við gamla flokkinn er né heldur hvað maðurinn ætlar sér að stefna í stjórnmálum. Hitt er ljóst hvað hann hefur gert. Það eflir eflaust von og trú í hjörtum þeirra sem samfagna.

Hinn ritfæri bloggari Sigurður Þór Guðjónsson (http://nimbus.blog.is) getur stundum verið skemmtilega beittur. Ekki veit ég hvort hann er að tala um úrsögn Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum þegar hann skrifar eftirfarandi. Til skýringar skal þess getið að nafni minn er sérhæfir sig í skrifum um veður:

Ég gjöri hér með kunnugt að ég hefi í hyggju að stofna nýtt stjórnmálaafl, hvers afl verður ekkert smáræði.

Ég ætla að stofna Góðviðrisflokkinn því ég er engan veginn sáttur við það veður sem að mér er haldið með eigi litlu gerræði og stundum beinu harðræði. Helsta baráttumál hins nýja flokks mun verða jöfnun veðurgæðanna milli landshluta og betra veður um allt land með sterku ívafi af evrópulofti. 

Ég finn alveg rokstuðning úr öllum áttum.  

Út á þetta myndi ég kjósa Góðviðrisflokkinn. 

Mörg mál og margir meirihlutar í stjórnmálaflokki

Fyrri leiðari Morgunblaðsins í dag, þriðjudag, er mjög merkilegur. Hann nefnist: „Flokkar lýðræðisríkja lúta lögmálum“. Að hluta til er hann um svipað efni og ég skrifaði um í gær, sá pistill fjallaði um einnota stjórnmálaflokka, þá sem byggjast í kringum eitt mál.

Mér þykir eftirfarandi klausa úr niðurlagi leiðarans afskaplega góð og lýsandi fyrir það sem stjórnmálaflokkar og raunar margvíslegur annar félagsskapur gengur út á:

Mat vilhallra fréttaskýrenda um að viðkomandi flokkur hafi skaðast mjög við að missa hótunarmenn úr sínum röðum stenst sjaldan skoðun. Þvert á móti anda flokksmenn oftast léttara þegar slík niðurstaða er loks fengin og andrúmsloftið hreinsast. Það þýðir ekki að mistök hafi verið að taka nokkurt tillit til sjónarmiða sem voru á skjön við ótvíræða afstöðu meirihluta viðkomandi flokks. Menn eru saman í flokki vegna samstöðu um meginsjónarmið, sem standa ofar flestum dægurmálum. Flokksþátttaka þýðir ekki að þar séu menn sammála um hvað eina. En tillitið til minnihlutasjónarmiða innan flokks á sín takmörk og það hljóta flestir að skilja.

Það segir sig sjálft að fæstir eru sammála um nærri tuttugu málefni sem fram eru sett í tiltölulega löngu máli hjá einum stjórnmálaflokki. Um eftirfarandi mál er til dæmis rætt í nefndum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

  1. Almenn stjórnmálaályktun
  2. Efnahags- og skattamál
  3. Fjölskyldumál
  4. Heilbrigðis- og tryggingamál
  5. Jafnréttismál
  6. Landbúnaðarmál
  7. Málefni eldri borgara
  8. Menningarmál
  9. Réttarfars- og stjórnskipunarmál
  10. Samgöngumál
  11. Sjávarútvegsmál
  12. Skóla- og fræðslumál
  13. Sveitarstjórnar- og skipulagsmál
  14. Umhverfismál og auðlindanýtingu
  15. Utanríkismál
  16. Viðskipta- og neytendamál
  17. Vísinda- og nýsköpunarmál

Hundruðir manna koma  að gerð hverrar tillögu. Í upphafi er hún samin af málefnanefnd sem fjöldi manns situr í. Drög að ályktun er fyrirfram send út til landsfundarfulltrúa og á sjálfum landsfundinum er nefnd um hverja ályktun og í þeim sitja tugir ef ekki hundruðir manna.

Á síðasta landsfundi sat ég í nefnd sem ræddi almenna stjórnmálaályktun undir forsæti Einars K. Guðfinnssonar, alþingismanns. Nefndin ræddi fyrirfram samin drög að ályktun. Svo mikil óánægja var með hana að henni var hent eftir kona kom með einfaldari og betri ályktun. Hún var engu að síður rædd og talsverðar breytingar gerðar á textanum.

Þó svo að vel og lýðræðislega sé unnið þurfa menn ekki að vera sammála öllu. Sjaldnast eru ályktanir samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. Oft eru fjölmargir á móti og það er eðlilegt. Þeir sem bíða lægri hlut hlaupa ekki út og boða stofnun stjórnmálaflokks vegna minnihlutaskoðunar í landbúnaðarmálum eða sjávarútvegsmálum. Þeir sem starfa svo þröngt innan stjórnmálaflokks, hafa ekki víðsýni að skilja þá einföldu staðreynd að meirihlutinn ræður, eiga ekki að starfa innan stjórnmálaflokks. 

Já, meirihlutinn ræður. Það er svo skrýtið með þennan meirihluta. Hverjir tilheyra honum? Margir þeirra sem eru í meirihluta í einu máli eru ef til vill í minnihluta við atkvæðagreiðslu annars. Þannig gerast nú hlutirnir. Meirihluti er sjaldnast sami hópur. Ég gæti trúað því að um helmingur landsfundarfulltrúa hafi í einhverju tilviki verið í minnihluta í atkvæðagreiðslu, einu sinni eða oftar.

Og hvað með það þó ég nái ekki öllum mínum áhugamálum fram. Ég er þó þess fullviss að ég næði ekki meiri árangri innan annarra flokka.

Svo má ekki gleyma grunngildum stjórnmálaflokks sem hljóta að standast tímans tönn þó ályktanir séu breytilegar frá einum tíma til annars. Stjórnmálaflokkur er auðvitað ekkert annað en fólkið sem er í honum - og fólk breytist.


Einnota stjórnmálaflokkar og minniháttar spámenn

Fjölmargt er aðeins ætlað til nota í eitt skipti. Sóunin er slík að mikill iðnaður hefur byggst utan um vörur sem aðeins eru ætlaðar til nota einu sinni. Sérstaklega má nefna umbúðir af ýmsu tagi. Þetta er ekki talið jákvætt.

Stjórnmálaflokkar eru og eiga að vera öðru vísi. Þeir geta ekki verið einnota. Félagar í þeim verða að taka afstöðu til fjölmargra mála. Ekki eru allir á eitt sáttir um t.d. einstök mál en láta sig hafa það.

Stjórnmálaflokkar geta verið einnota og er þá átt við að þeir hafi aðeins eitt stefnumál. Slíkir flokkar bera óhamingju með sér. Ástæðan er einfaldlega sú að fulltrúar þeirra þurfa í sveitarstjórnum eða á Alþingi að taka afstöðu til fleiri mála en þess eins sem flokkurinn var myndaður í kringum. Þar af leiðir að óánægja með slíkan flokk verður mikil.

Maður styður flokk vegna heildarinnar. Hrifning vegna eins málsflokks getur breyst í óbeit þegar skoðuð er afgreiðsla hans vegna annarra mála.

Til eru þeir sem styðja ekki Vinstri græna vegna afstöðu forystu hans í Evrópumálum. Þrír þingmenn flokksins hafa yfirgefið flokkinn vegna þessa en þeir eru ábyggilega jafn miklir sósíalistar og þeir sem ekki flúðu.

Kona nokkur sat í stjórnarskrárráði. Hún vill að ráðsliðar stofni sérstakan flokk sem hafi það eitt að markmiði að breyta stjórnarskránni. Hún hefur reynslu í þessu því hún sat á þingi fyrir kvennalista og barðist fyrir hugsjónum hans í kvenréttindamálum. Þeir sem kusu flokkinn vegna þessa síðarnefnda fengu aðrar skoðanir hennar í kaupbæti. 

Eins málefnis stjórnmálaflokkur getur verið eins og umbúðir - einnota. Hann skilar engu af sér, allir eru óánægðir þegar fulltrúar slíkra flokka taka afstöðu til annarra mála en hins eina og sanna.

Og nú virðist nýr flokkur vera í startholunum, flokkur sem á að koma þjóðinni gegn vilja hennar í Evrópusambandið. Takk fyrir það, en ég held mig við minn gamla. Svo veltur maður því fyrir sér hvaða afstöðu hinn nýi flokkur ætlar að taka í umhverfismálum eða öðrum mikilvægum málaflokkum.

Hitt verð ég þó að segja að minniháttar spámenn geta verið óskaplega skemmtilegir. Þeir lífga upp á dægurþrasið og svo hin norræna velferðarstjórn verðu ekki lengur upphaf og endir alls ills.

 


Tónlistarstjóri Hörpu og trikkið hennar ...

Blaðamenn geta verið skelfing vitlausir, jafnt í nálgun frétta sem útvinnslu þeirra. Verri eru þó oft viðmælendur, fólk sem hefur til dæmis erfiðan eða slæman málstað að verja. Allir skynsamir ráðgjafar í almannatengslum gefa fyrst og fremst eitt ráð: Komdu hreint fram, ekki fela neitt eða sópa undir teppið. 

Einföld skynsemi bendir til þess að allt sem reynt er að fela kemst fyrr eða síðar upp á yfirborðið og þá verða málin miklu verri en áður.

Því er nú haldið fram að á menningarnótt hafi stjórnendur Hörpu leigt skip til einkaveislu fyrir 150 manns. Að minnsta kosti segir frá því í DV í dag. Út af fyrir sig getur verið réttlætanlegt fyrir fyrirtæki að bjóða til einkaveislu og þá miða við blaðamenn eða einhverja sem skipta máli fyrir rekstur hússins til framtíðar. Aumlegt er þó ef aðeins einhverjar silkihúfur hafi verið í þessari veislu og því enginn ábati að halda hana.

Blaðamaður DV leitaði upplýsinga hjá tónlistarstjóra Hörpu, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur. Hún sagðist ekki mega vera að því að svara blaðamanni en sagðist ætla að senda honum tölvupóst. Þá segir í fréttinni:

Eftir að hún kvaddi blaðamann virðist sem hún hafi ekki slitið símtalinu en snéri sér að einhverjum sem var hjá henni og mátti greinilega heyra hana segja: „Núna nota ég trikkið sko, þeir eru að fara að blása þetta upp, að það hafi verið eitthvað elítuboð á Hafsúlunni. Hvort þetta sé rétt, þessi orðrómur. Þá nota ég trikkið sem Andrés kenndi mér, bara að segja þeim að senda þér, að þú sért að rjúka inn á fund, bara að senda tölvupóst,“ sagði Steinunn Birna. Gera má ráð fyrir því að Steinunn hafi þarna verið að vísa í almannatengilinn Andrés Jónsson. 

Þetta sem Steinunn Birna nefnir er ekki „trikk“ heldur einföld leið til að komast hjá því að svara réttmætri fyrirspurn. Tilraunastarfsemi tónlistarstjórans er algjörlega óviðeigandi og henni til háborinnar skammar, sé fréttin rétt.

Ég á afskaplega bágt með að trúa því að sá ágæti maður Andrés Jónsson, almannatengill, kenni viðskiptavinum sínum að brúka „trikk“ frekar en að koma heiðarlega fram. Ég gæti nú reynt að bera í bætifláka fyrir þennan kunningja minn og vil gjarnan trúa því, að hann hafi átt við í einhvers konar krísuástandi megi nota svona aðferð til að vinna tíma og undirbúa fréttatilkynningu. Á móti kemur að það á engan veginn við í þessu tilviki, einkaveislan varð ekki krísuástand fyrr en að henni lokinni.

Allir vita, hvort sem þeir bera titil tónlistarstjóra, almannatengils, blaðamanns eða einhvern annan, að 150 manna veisla, beint eða óbeint á kostnað skattborgaranna, verður ekki falin. Of margir koma að þessu máli til að hljótt geti farið.

Það verður svo spennandi að frétta meira af „trikkunum“ í Hörpu og enn ríkari ástæða til að hvetja blaðamann DV til að láta ekki niðurlægja sig og fjölmiðilinn á þennan hátt ... 


17% minni notkun á litaðri olíu

Þessi frétt um sölu á litaðri olíu og minotkun á henni segir afar lítið. Hún er ein af þessum pólitískt lituðu fréttum sem koma frá Vegagerðinni.

Staðreyndin er sú að sala á litaðri olíu hefur minnkað um 17% vegna þess að atvinnulífið er í spennitreyju. Ástæðan ef sú að almennt hefur notkun á eldsneyti hefur dregist saman og má þar um kenna hækkandi álögum ríkisvaldsins. Munum að lituð olía er ekki fyrir almenning hún er fyrst og fremst fyrir atvinnulífið með einstaka undantekniingum skv. upplýsingum frá RSK:

Olía er undanþegin gjaldskyldu í eftirfarandi tilvikum, skv. 4. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, þegar í hana hefur verið bætt litar- og merkiefnum:

  1. Til nota á skip og báta.
  2. Til húshitunar og hitunar almenningssundlauga.
  3. Til nota í iðnaði og á vinnuvélar.
  4. Til nota á dráttarvélar.
  5. Til raforkuframleiðslu.
  6. Til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota.
  7. Til nota á beltabifreiðar og námuökutæki sem eingöngu eru notuð utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum.
  8. Til nota á bifreiðir í eigu björgunarsveita.

 Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum. Komi í ljós að notuð sé lituð olía á ökutæki sem ekki hefur til þess heimild varðar það sektum ...

Í fréttinni kemur fram að gerðar hafi verið 609 athuganir á þessu ári en 1764 í fyrra. Að meðaltali hefur því 122 ökutæki verið könnuð á þessu ári á mánuði og mánaðarlega 6 mál að meðaltali send til saksóknara. Þetta er sama meðaltal og í fyrra. Það vekur engu að síður athygli að í fyrra voru að meðaltali 147 ökutæki könnuð.

Niðurstaðan er engu að síður sú að aðeins sex málum hefur á fyrstu fimm mánuðum þessa og síðasta árs verið vísað til saksóknara.

Það er ofboðslega lítið, tæpt 1% á þessu ári og miklu minna á því síðasta. Spurningin er sú hvað þetta eftirlit kostar og hvort það borgi sig að halda því úti. Eru til einfaldari aðferðir sé á annað borð vilji fyrir því að sumir fái olíuna á lægra verði en aðri?. Væri til dæmis hagkvæmara betra að endurgreiða ofangreindum aðilum kaup á olíu og sleppa því einfaldlega að lita hana?


mbl.is Dregið hefur úr misnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýrt evrópskt fjármálakerfi

Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annaðhvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur.

Þetta sagði Pétur J. Eiríksson fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair og núvernadi stjórnarformaður Hörpunnar. 

Martin Blessing, bankastjóri Commerzbank í Þýskalandi, er ábyggilega sömu skoðunar þegar hann heldur því fram og hefur til þess stuðning fjölmargra annarra, að nauðsynegt sé að koma á fót embætti fjármálaráðherra fyrir öll ríki Evrusvæðinsins.

Nei, nei. Það þýðir ekki miðstýring. Með þessu er einfaldlega verið að færa völd frá ríkjum ESB til Brussel.

En hvað veit ég sosum, illa lesin maðurinn ... Mikið óskaplega gat Pétur J. Eiríksson verið seinheppinn með grein sína.

Staðreyndin er hins vegar sú að æ fleiri eru komnir á þá skoðun að efnahagssvæði Evrunnar geti ekki stað undir sér nema með styrkri miðstýringu. Annars fer allt í bál og brand eins og á sér stað. 

 


mbl.is Eitt evrópskt fjármálaráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband