Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Eldgos í Brennisteinsfjöllum ... eða ekki

ReykjanesEnga athygli vekur að í morgun, rétt fyrir klukkan átta var jarðskjálfti við Kleifarvatn upp á 3 stig. Það þykir nokkuð mikið á þessum slóðum. Svona stórir jarðskjálftar í Kötluöskjunni eða Bárðarbungu fá umsvifalaust stríðsfyrirsagnir á vefmiðlum.

Skjálftinn var tæpan einn km frá Systrastapa en hann er gengur út í vatnið vestanvert nálægt því miðju.f

Annað sem vekur athygli leikmannsins eru skjálftahrina hefur verið í nokkrar vikur suðaustan við Fagradalsfjall. Fjallið er um átta km norðaustan við Grindavík. 

Jarðfræði Reykjaness er dálítið skrýtin. Þar eru sprungur sem hafa norður-suður stefnu. Þetta eru svokallaðar sniðgengissprungur sem þýðir að verði hreyfing í þeim fara barmar þeirra í gagnstæðar áttir.

Sex eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og fullt af gjám og misgengjum. þetta eru Reykjanes, Eldvörp-Svartsengiu, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill.

Merkilegast er að á Reykjanesi verða varla stærri jarðskjálftar en sem sex stiga. Sú kenning er uppi og hefur líklega verið sönnuð að skjálfti í einu kerfi geti búið til spennu sem framkalli síðar skjálfta í næsta kerfi fyrir austan.

Leikmannsþankarnir eru á þá leiða að hugsanlega hafa skjálftarnir við Fagradalsfjall búið til mikla spennu sem olli svo stóra skjálftanum í Krýsuvíkurkerfinu í morgun. Spurningin er sú hvort að sá skjálfti hafi verið nógu stór til að losa úr allri spennu Fagradalskerfisins.

Hvað næst gerist veit enginn. Hugsanlega verður jarðskjálfti í Brennisteinsfjallakerfinu og þá er komið að „the scary moment“, staðreyndinni sem allir óttast. Sko, Brennisteinsfjallakerfið hefur lengi verið virkasta eldstöðvakerfið á Reykjanesi, mest hraun hafa runnið þaðan.

Nú er ég ekki að spá gosi á þessum slóðum nema þar verði gos á næstunni en verði það ekki er þetta bara leikmannstal ... Hef ekki hundsvit á jarðfræði.


Stjórnmálafræðingur sem malar og malar í beinni útsendingu

StjórnarmyndunarumboðiðBein útsending Ríkissjónvarpsins frá Bessastöð var vægast sagt undarleg. Þarna var fullt af fjölmiðlamönnum biðu eftir formanni Sjálfstæðisflokksins og forsetanum. Fyrir algjöra tilviljun var stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann staddur þarna.

Fyrsta spurningin sem stjórnmálafræðingurinn fékk var þessi: Hvað er líklegast að gerist núna?

Hvað er eiginlega að Ríkissjónvarpinu? Hvers vegna í ósköpunum er verið að láta einhvern stjórnmálafræðing vera að mala og mala um allt og ekkert? Eiríkur Bergmann býr ekki yfir neinni spádómsgáfu og veit ekkert í smáatriðum hvað gerist umfram okkur hin.

Allir vita að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gengur inn til forsetans og að loknum fundi gengur hann út. Ekki þarf stjórnmálfræðing til að lýsa skrefum Bjarna. Ekki þarf heldur stjórnmálafræðing til að lýsa möguleikum á stjórnarmyndun, þetta liggur allt fyrir og er gömul tugga og hundleiðing.

Dómgreindarbrestur fréttastofu Sjónvarpsins er hrikalegur. Hún getur ekki boðið upp á beinar útsendingar sem hafa það eitt að markmiði að láta fréttamenn mala eða stjórnmálafræðinga vera að sýna sig. Henni dugar einfaldlega að taka upp fréttamannafund Bjarna og/eða Guðna að loknum fundi þeirra og sýna svo í fréttatímum.

Og spurningarnar, maður lifandi ... Þegar spurningum er varpað til viðmælenda þurfa fréttamenn að hafa nokkuð glögga mynd af því sem þeir vilja vita. Annars verður þetta bara tilgangslaust mal. Og þannig var beina útsending.

Eiríkur, Bjarni vill ekkert segja, kvartaði fréttamaðurinn, eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafði gengið inn á Bessastaði án þess að ræða fyrst við fréttamenn. Þvílíkt rugl. Auðvitað vissu allir að Bjarni myndi ekki halda blaðamannafund áður en hann talaði við forsetann. Jafnvel stjórnmálafræðingar vita þetta.

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, er orðinn jafn þreyttur sem álitsgjafi eins og annar stjórnmálafræðingur var hér áður fyrr alltaf í sjónvarpi og útvarpi, Svanur Kristjánsson. Ef ekki er hægt að finna aðra álitsgjafa er ástæða til að leit út fyrir raðir stjórnmálafræðinga. Það væri nú engin goðgá að gefa aumingja Eiríki frí í svona tvö ár.

Myndin er af stjórnarmyndunarumboðinu sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skilaði inn til forsetans. Skjalið er álíka trúverðugt og fréttastofa Ríkisútvarpsins.


Nakinn maður með froðukjaft

TrúðurStaðreyndin er sú að ég hef engan húmor fyrir sjálfum mér. Hlæ aldrei með þegar verið er að grínast í mér, fitja bara upp á trýnið og legg ævilanga fæð á þá sem slíkt gera. Hins vegar er eftirfarandi örsaga svo bráðfyndin að gamalt, lítið notað bros rifnar upp hjá mér. Það hjálpar vissulega að langt er síðan sagan gerðist. Örugglega tveir sólarhringar.

Stundum liggur á. Þá er hlaupið og hamast þangað til öllu er lokið og hægt að slaka á. Meðan á því gengur er samt sem áður vissara að hafa augun opin, taka eftir umhverfinu og gæta sín á að gera ekki neitt sem hefur óafturkræfar afleiðingar, alvarlegar eða skoplegar.

Laugardagur til leiðinda

Þannig var að á seinni part laugardags var ég að sinna fjölskyldumálum, skutla fólki bæjarleið og svo annað álíka eins og að versla í kvöldmatinn. Eins og berserkur hamaðist ég við að klára allt þetta svo ég kæmist nú í sund fyrir kvöldið.

sturtaOg mér tókst það. Svínbeygði inn í götuna við sundlaug Vesturbæjar, lagði hart á stýrið til að komast í bílastæðið (ók við það næstum því á virðulegan mann sem raunar var á hlaupum), rauk út úr bílnum, læsti honum með fjarstýringunni, hljóp að innganginum, tróð mér á milli fólks sem þar stóð eins og kjánar og kjaftaði og reykti, staðnæmdist við afgreiðsluna, leit á afgreiðslukonuna sem gaf mér engan gaum, skellti kortinu á lesarann, hoppaði ofan í kjallarann, rann til á blaut gólfinu, reif mig úr fötunum, tróð þeim í skápinn og renndi mér fótskriðu inn í sturtuna, skrúfaði frá og naut þess að finna heitt vatnið ylja mér um kroppinn.

Þá góndi ég upp í loftið í sælu og afslappelsi.

Slökkviliðsmaðurinn

dýfa„Hvað í fjandanum ertu að gera hér.“ Reiðileg rödd bergmálaði um tómar sturturnar. Hann var alklæddur með slöngu í höndunum eins og slökkviliðsmaður sem var að leita að eldinum.

„Ha ég ...“ Hváði ég aldeilis undrandi yfir bergmálinu og litaðist um í kringum mig en sá engan. Ekki nokkurn mann nema hrópandann.

„Já, þú,“ hrópaði meintur slökkviliðsmaður.

„Tja ..., hvað heldurðu?“ Ég hugsaði mig um eitt andartak til að finna eitthvað fáránlega út í hött til að rugla í manninum en fann ekkert svo ég sagði bara vera í sturtu eins og allir gera sem leggja leið sína inn í þessi húsakynni sundlaugarinnar.

„Hvernig komstu hingað inn, spurði náunginn. „Við erum fyrir löngum búin að loka.“

Úbbs ...

Og þarna stóð ég eins og drottinn hafði skapað mig með ekkert annað en sápufroðu mér til afsökunar og hún dugði skammt. Ég stamaði ...

„Við erum búin að loka, þú átt ekkert að vera hérna,“ fullyrti maðurinn. „Hvernig komstu inn?“

Þó ég sé fljótfær og stundum vitlaus er ég oft fljótur að ná tökum á aðstæðum. Og nú var ég búinn að ná mér og átti auðvelt með að svara í sömu tónhæð og maðurinn. Auðvitað átti ég ekki að svara, heldur skammast mín og hrökklast út sömu leið og ég hafði komið inn. En þar sem ég var bókstaflega með allt á hælum mér, og rúmlega það, fannst mér illt að viðurkenna sök mína svo ég þráaðist við með hávaða og tuði.

Slökkvi„Ég gekk bara inn eins og ég er vanur. Heldurðu að ég hafi kannski komið inn um glugga, ha? ... já heldurðu það kannski, ha ...?“ hrópaði ég og froðan sem lak niður andlit mitt frussaðist í áttina að manninum.

Sástu ekkert?

„Sástu ekki að það var lokað, sástu ekki skiltið, sástu ekki að gólfið bar blautt, sástu ekki að það er ekki nokkur maður hérna niðri,“ hrópaði maðurinn en náði ekki í hálfkvisti við hávaðann í mér.

„Nei, ég var ekkert að pæla í neinu. Ég er aldrei að velta öðrum fyrir mér,“ sagði ég aðeins lægra og mundi þá eftir að hafa séð að lyklar voru í hverjum skáp og gólfið rennblautt. Ósjálfrátt sljákkaði aðeins í mér við þetta endurlit og ég fann svo glöggt að staða mín batnaði ekki hætis hót þó ég hrópaði.

„Hva, sérðu ekki neitt maður, ertu algjörlega blindur?“

„Skiptir einhverju máli hvernig ég kom inn eða hvað ég hafi séð eða ekki séð. Hér er ég hvort sem þér líkar það betur eða verr. Og það er ykkur að kenna að maður geti komist hingað niður eftir lokun.“ Þetta fundust mér alveg prýðileg rök og þau höfðu smávægileg áhrif.

„Já, helvítis hliðið lokast ekki sjálfkrafa,“ viðurkenndi maðurinn, aðeins lágværari en áður.

„Ég get ekkert að því gert,“ sagði ég. „Komst hingað niður án þess að neinn stoppaði mig og afsakaðu það,“ sagði ég. Mér fannst hálfur sigur unninn, staðan allt í einu 14:2 fyrir hrópandann.

NakinnNakinn maður með kjaft

„Ekkert mál,“ sagði maðurinn, sem mér fannst vera slökkviliðsmaður en var líklega starfsmaður laugarinnar, kannski sturtuvörður. Svo hvarf hann inn um einhverjar dyr.

Sá óþægilegi grunur læddist þarna að mér að þrátt fyrir hrópin hafi hann verið að því kominn að springa úr hlátri. Það er skiljanlegt, því hvað er hlægilegra en nakinn maður með kjaftbrúk. Auðvitað á maður að þegja og koma sér hljóðlega í burtu.

Og það gerði ég á mettíma. Tók á rás um leið og maðurinn hvarf, skolaði af mér sápuna, þurrkaði mér, hentist í fötin og hljóp upp. Í afgreiðslunni var fjöldi fólks, sem betur fer ekki allir farnir og því tók enginn eftir mér þegar ég laumaðist út. Ekki einu sinni afgreiðslukonan bak við glerið. Tæplega 35 sekúndur liðu frá því að sturtuvörðurinn hvarf og þar til ég var kominn út í bíl.

Ég komst þó alla vega í sturtu, hugsaði ég, og reyndi að finna eitthvað jákvætt við atburðinn. Innst inni vissi ég þó að ég hefði verið bölvaður asni að gefa ekki gaum að öllu því sem gaf til kynna að laugin væri lokuð.

Held að best sé nú að halda sig víðs fjarri vesturbæjarlauginni næstu vikurnar eða þangað til sturtuverðinum hefur tekist að gleyma mér. Jæja, kannski þarf hann eitt eða tvö ár eða að hann gerir það, kannski aldrei. Nú er þó fyllilega ástæða að biðja hann hér með afsökunar á kjaftbrúki mínu. Það var ekki viðeigandi (en gerir þó söguna aðeins skemmtilegri í endursögninni).


Jón Þór Ólafsson þingmaður hótar og hótar en enginn hlustar

Óttarr Proppé er vingjarnlegasti og kurteisasti maður sem þið hittið. Eflaust þolir hann ekki að vera hataður eins og mun gerast þegar hann styður aftur og aftur og aftur spillingu forystu XD í þingsal, á nefndarfundum, í atkvæðagreiðslum.

Lög um bitlinga. Óttar Proppé. Já.
Lög á verkföll kennara. Óttar Proppé. Já.
Lög um einkavæðingu heilbrigðisþjónustu. Já.

Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, um formann Bjartrar framtíðar. Ástæðan er án efa sú að Óttar tekur þátt í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. 

Píratar ætluðu eins og svo margir aðrir stjórnmálaflokkar að breyta umræðuhefðinni í íslenskri pólitík. Frá stofnun flokksins hefur ekkert breyst. Jón Þór og fleiri Píratar hafa hins vegar tileinkað sér gamaldags umræðuhefð sem byggir á illu umtali og almennum leiðindum. 

Fyrir örfáum dögum hótaði Jón Þór að kæra úrskurð kjararáðs nema því aðeins forseti Íslands, kjararáð og formenn þingflokkanna lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi.

Enginn hefur gefið út neina yfirlýsingu til að þóknast þingmanninum. Enn stendur úrskurður kjararáðs óhaggaður og Jón Þór hefur ekki kært einn eða neinn né höfðað mál.

Hann stendur hins vegar eftir eins og kjáni, búinn að hóta kæru en enginn hlustar

Hvað er verra en að vera stóryrtur þingmaður sem enginn tekur mark á? 

 

 


Ég fann stjórnarmyndunarumboðið ... og skilaði því til Guðna

StjórnarmyndunarumboðiðIlla gengur að mynda ríkisstjórn og flestir hafa verið að búast við að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins skilaði inn stjórnarmyndunarumboðinu. Það gerði hann hins vegar ekki í gær og ekki dag.

En ástæðan er ekki sú sem allir halda, að Bjarni sé að reyna til þrautar. Nei, nei, hann gafst upp fyrir löngu.

Vandinn er bara sá að hann getur ekki skilað inn stjórnarmyndunarumboðinu vegna þess að hann týndi því.

Og hvað haldið þið, lesendur góðir ...? Jú, ég fann það fyrir algjöra tilviljun í fyrradag.

Þetta er mikið leyndarskjal sem enginn hefur séð nema formenn stjórnmálaflokka. Raunar er það glænýtt því Guðni Th. Jóhannesson hefur af skiljanlegum ástæðum aldrei áður veitt umboð til stjórnarmyndunar.

Jæja, ég fann umboðið á bekk í austurhorni Austurvallar, þar sem trén slúta yfir og veita dálítið skjól fyrir vindi og rigningu. Þarna lá það í algjöru tilgangsleysi og beið því sem verða vildi.

Og ... vitið þið hvað, lesendur góðir? Ég hafði umboðið til stjórnarmyndunar í höndunum, notaði það ekki og skilaði því til forseta Íslands.

Þetta mun vera í fyrsta sinn í gjörvallri stjórnmálasögu Íslands að maður sem hvorki er forsætisráðherra, formaður stjórnmálaflokks eða alþingismaður hefur skila umboði til stjórnarmyndunar til forseta Íslands.

Raunar var komið fram yfir afgreiðslutíma hjá forsetanum og ég nennti ekki að hjóla suður á Bessastaði svo ég stakk blaðinu í plastpoka og tróð því inn um bréfalúguna á Sóleyjargötu. Má vera að það hafi krumpast dálítið en ég hafði vit á því að taka mynd af því áður.

Núna sé ég dálítið því að hafa ekki hitt forsetann og fengið einhvern til að taka mynd af mér við athöfnina, hefði farið í sunnudagsfötin og sett á mig bindi. Þetta hefði ábyggilega þótt dálítið fyndin mynd, ekki síst fyrir hann Guðna.

Smellið á myndina af umboðinu til að sjá umboðið betur.


Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni

Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni sem er sunnan Hafnarfjarðar. Það myndi kosta meira en 100 milljarða króna auk þess sem hann verður aldrei jafngóður og sá í Reykjavík.

Þessu má líkja við að fjölskylda teldi gáfulegra að setja fjölskyldubílinn í brotajárn og kaupa annan á miklu lakari en á hærra verði en sá gamli var metinn á. 

Þjóðin hefur efni á að byggja nýtt sjúkrahús vegna þess að það gamla er úrelt og ekki nógu hentugt. Flugvöllurinn í Reykjavík er í afar góðu standi og getur staðið undir innanlandsflugi um ókomna framtíð.

Viðhald á fjölda bygginga í eigu ríkisins hefur verið vanrækt í fjölda ára, sá kostnaður er upp á tugi milljarða. Vegakerfið er enn í uppbyggingu og heldur ekki í við aukna umferð. Um tíu milljarða kostar að breikka einbreiða brýr. Víðast um land þarf að tvöfalda vegi. Fjölga þarf heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum og svo má lengi telja upp brýn verkefni sem bíða úrlausnar. 

Þjóðin getur ekki frestað þessum og fjölda annarra framkvæmda öllu lengur til þess eins að byggja flugvöll í Hvassahrauni.

Borgarstjórinn í Reykjavík segir innanlandsflugið á tímamótum. Það er rangt.

Einu krossgöturnar sem þjóðin stendur nú frammi fyrir eru vegna þeirrar pólitísku stefnu meirihlutans í Reykjavík að leggja flugvöllinn af. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti landsmanna á móti því.

Beinar hótanir eða duldar fara stjórnmálamönnum illa. Tillaga borgarstjórans um flugvöllinn er ekkert annað. Hann stingur upp á að flugvöllurinn verði um takmarkaðan tíma á sama stað ef annar verði byggður í Hvassahrauni. Fjöldi fólks hefur fært rök fyrir því að flutningur flugvallarins úr Reykjavík sé tóm vitleysa, meðal þeirra er Ómar Ragnarsson.

 

Borgarstjórinn að hann geti villt um fyrir Akureyringum og öðrum með því að leggja til að miðstöð sjúkraflugs verði á Akureyri. Vonlítið er að þeir kokgleypi þá beitu.

Pólitík borgarstjórans í Reykjavík eru ekkert annað en léleg tilraun til að reyna að færa umræðuna frá kjarna málsins; að flugvöllurinn verði um ókomna framtíð í Reykjavík. Í því eru fólgnir hagsmunir þjóðarinnar.


mbl.is Neyðarbraut eða ekki, þar er efinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsögðu hlutirnir og álitsgjafaspekin

Gallup76% kíkja á veðurspána daglega. Eru þá hin 24% yfirleitt illa klædd? Hegðun almennings þarf ekki að koma á óvart frekar en veðrið.

Þetta segir í auglýsingu Gallup sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðs dagsins. Hún er snjöll að mörgu leyti. Hlutfallstalan vekur athygli og lesandinn er eiginlega nauðbeyður til að lesa áfram, og hefur án efa gaman af. Þá er tilgangi auglýsingarinnar náð.

Hins vegar er rökleiðslan ekkert sérstök þó hún sé í sjálfu sér dálítið sniðug en hún vakti upp dálitlar pælingar hjá mér.

Undanfarið hef ég verið að hnýta dálítið í fjölmiðla og álitsgjafa þeirra, sérstaklega stjórnmálafræðinga.

Ástæðan er sú að fjölmiðlar geta varla birt fréttir um staðreyndir án þess að hafa heimildir fyrir þeim, svokallaða álitsgjafa sem segja eiginlega ekkert annað en það sem þokkalega vel gefið fólk hefur þegar áttað sig á. Álitsgjafarnir eru margir einstaklega klárir í innihaldslausu tali.

  • Þegar skoðanakannanir fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sýna að lítill munur sé á fylgi tveggja frambjóðanda er hringt í stjórnmálafræðinginn og hann segir að staðan sé „tvísýn“.
  • Þegar margir bílar eru á samtímis á götum borgarinnar eða þjóðvegum er lögreglumaðurinn kallaður til og hann segir kallar ástandið „mikla umferð“.
  • Eitthvað blaut fellur af himni ofan og lendir á öllum án tillits til efnahags, trúarbragða eða synda og þá er veðurfræðingurinn kallaður til og sá segir eftir dálitla umhugsuna að nú „rignir“.
  • Þegar hamarshögg berast frá húsi er byggingafræðingurinn kallaður til að hann veit hvað er að gerast, verið er að „byggja hús“.
  • Grasið vex og byggakrarnir bylgjast í sumargolunni. Bóndinn svarar fjölmiðlinum og segir að „sprettan“ sé góð.

Sko, þetta eru hinir sjálfsögðu hlutir sem allir vita og átta sig á. Ég þarf ekki veðurfræðing til að segja mér að úti rigni. Ég hef djúpan skilning á því að hvað umferð er og margir bíla eða margt fólk á ferð kallast í daglegu tali mikil umferð. Það fer ekki framhjá neinum þegar verið er að byggja hús og allur gróður vex að sumri til og oft er vöxturinn hraður og góður.

Vandinn vex þó þegar fjölmiðlarnir vilja fá stjórnmálafræðinginn eða aðra álíka álitsgjafa til að spá fram í tímann rétt eins og menntun þeirra og meintar gáfur gefi þeim meiri og víðtækari sýn en okkur hinum.

Hvað gerist núna, getur Bjarni myndað ríkisstjó?n.“ Og fræðingurinn gerir sig greindarlegan og svarar án umhugsunar: „Tja, annað hvort myndar hann stjórn eða ekki ...“ Ég geri mér í hugarlund að þá brjótist út fögnuður á ritstjórninni yfir þessu einstaka og framsýna svari.

Hér á landi hefur notkun regnhlífa ekki tíðkast eins og í „lygnari“ löndum. Í skóla í Noregi deildum við stundum um hvort sá væri svartsýnismaður sem að morgni dags færi með regnhlíf í vinnuna jafnvel þó á þeirri stundu væri sól í heiði og ekki ský á himni. Hvað mætti þá kalla þann sem ekki tekur regnhlíf með sér í þrátt fyrir skýjaðan himinn? Bjartsýnann ...?

Ég fer daglega inn á vef Veðurstofunnar og lít á veðurspána. Hins vegar vel ég aldrei fatnað eftir henni. Mér dugar nefnilega að líta út um gluggann og eins og flestir veit ég nokkurn veginn hvernig veðrið verður þann daginn.

Líklega er ég einn af þeim sem er alltaf að safna upplýsingum og en kann ekki að nota þær í réttu samhengi.

 

 

 

 


Konuandlit í Jökulsárlóni

FallegAna1ar myndir heilla mig. Á vef CNN sá ég þessar sérkennilegu myndir sem „götulistamaðurinn“ Sean Yoro  frá Hawaii gerði hér á landi.

Listaverkið nefnist „A'o 'Ana“ eða Aðvörun (e. Warning).

Myndin er tekin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Þarna er eins og að kona rétt setji andlit sitt upp úr vatnsborðinu.

Auðvitað er þetta tilbúningur en engu að síður heillandi í umhverfi sínu. 

Mér skilst að listamaðurinn máli mynd af konunni og komi fyrir víða um heim og taki myndir síðan myndir af listaverkinu í einstöku umhverfi. Tilgangurinn er að verkja athygli á afleiðingum hlýnunar jarðar.

Smellið á myndirnar og sjáið þær stærri.

Ana2

 

 

 

 

 

 

Ana3


Einföld skýring á sigri Trumps, unga fólkið kaus ekki

Skoðanakannanir eru ekki ósvipaðar kosningum því þær mæla afstöðu fólks á þeirri stundu sem þær eru gerðar, ekkert annað. Forspárgildi þeirra er fólgið í því að fólk breyti ekki um skoðun og kjósi eins á kjördag.

Stærsti munurinn er hins vegar sá að í skoðanakönnunum er leitað til fólks. Í kosningum þarf fólk að fara á kjörstað.

Á þessu tvennu munar „nennu“ ef svo má að orðið komast, það er að segja, fyrirhöfninni að þurfa að fara á kjörstaðinn og hugsanlega bíða þar í nokkra stund í biðröð til að kjósa. 

Tengt þessu er yngri kynslóðir meta oft á tíðum lýðræðislegan rétt sinn léttar en eldri kynslóðir sem meta kosningarétt sinn sem tæki til að hafa áhrif. Þetta erfyrst og fremst spurning um hugarfar.  

Forvitnilegt verður að sjá kannanir um kosningaþátttöku kjósenda í forsetakosningunum eftir aldri. 

Til samanburðar má taka þjóðaratkvæðið Breta um Brexit. Samkvæmt könnunum hefur komið í ljós að yngra fólk vildi vera áfram í ESB en eldra fólk kaus að yfirgefa sambandið. Þó þetta sé staðreynd hefur lítill gaumur hefur verið gefinn að því að ungt fólk mætti síður á kjörstað en það eldra.

Samkvæmt Sky Data er aldurshlutfall þeirra sem kusu í Brexit eftirfarandi:

18-24: 35%
25-34: 58%
35-44: 72%
45-54: 75%
55-64: 81%
65+: 83%

Þetta eru sláandi niðurstöður. Spyrja má hvaði hefð gerst ef meðaltal kosningaþátttöku allra hópa hefði verið nær 80%.

Í skoðanakönnunum hefur því verið hampað að stuðningur við Clinton hafi verið mikill í yngri aldurhópum og meðal menntaðs fólks. Ég held að ástæðan fyrir tapi hennar sé sú að yngra fólkið einfaldlega ekki mætt á kjörstað. 

Samkvæmt lista á vefritinu Vox yfir stuðningi fólks 18 til 30 ára við forsetafrabjóðendur kemur í þetta í ljós:

  • Af afrískum uppruna: 55% styðja Clinton en 1% Trump, óákv/kjósa ekki: 28%
  • Af asískum uppruna: 52% styðja Clinton en 12% Trump, óákv/kjósa ekki: 22%
  • Af S-Amerískum uppruna: 43% styðja Clinton, 11% Trump, óákv/kjósa ekki: 29%
  • Hvítir: 27% styðja Clinton, 27% Trump, óákv/kjósa ekki: 23%
  • Allir 18-30 ára: 36% styðja Clinton, 18% Trump, óákv/kjósa ekki: 23%

Takið eftir því hversu hátt hlutfall ætlar ekki að kjósa eða er óákveðið. Líkur benda til að hinir ungu stuðningsmenn Clintons samkvæmt þessum lista hafi hreinlega ekki mætt á kjörstað. Það munaði ábyggilega um minna en þetta fyrir Clinton en sáralítið fyrir Trump.

Ég er ekkert sérstakur aðdáandi Hillary Clinton og enn síður Donald Trumps en vakti þó fram eftir til að fylgjast með úrslitunum. Rétt áður en að ég fór að sofa fannst mér að austurströndin væri ekkert sérstaklega fylgjandi Clinton eins og ég hafði haldið. Í ljós kom að Trump tók Flórída, óákveðna fylkið., það var slæmur fyrirboði. Svo vaknaði maður eftir nokkurra stunda svefn og fékk fréttirnar að Trump væri með fleiri kjörmenn og því orðinn forseti. Dapur dagur.

Mér þótti hins vegar fyndin afstaða eins vinar míns sem sagði um úrslitin: 

Vonandi sér Kölski sig um hönd og segir að við þurfum að gleyma öllu sem hann hafi sagt. Það var nú bara til að fá athygli. Nú er tími til að sameina og byggja upp og það sérstaklega innan USA, segir hann. Svo mun kerfið bara éta hann.

 

Viðbót

SpáSeinni part dags rakst ég á sundurliðaða útgönguspá á CNN þar sem fram koma athyglisverðar upplýsingar. 

  • Karlar, 48% kjörsókn, 41% kaus Clinton og 53% Trump
  • Konur, 52% kjörsókn; 54% kaus Clinton, 42% Trump

Einnig fylgir aldurskipting kjósenda. Athyglisvert er að bera hana saman við aldurshlutfallið samkvæmt Sky Data hér að ofan. Hún er eins í meginatriðum.

Unga fólkið kýs ekki eins og það eldra. Tæpur fjórðungur yngra fólks nýtir kosningarétt sinn. Þetta er alþjóðlegt mein.

 


mbl.is Hverju breytir sigurinn á alþjóðavísu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins fimm jarðskjálftar í dag ...

SkjálftarJarðskjálftar á Íslandi koma í hviðum, stundum eru þeir mörg hundruð en svo fellur á kyrrð og ró, rétt eins og í dag, þriðudaginn 8. nóvember.

Frá miðnætti hafa orðið fimm jarðskjálftar, sem þykir nú ansi lítið, raunar svo ómerkilegt að varla er orð um það hafandi nema fyrir þá sök eina að þeir gerast sjaldan færri.

Fyrir nokkrum vikum var allt á öðrum endanum vegna hrinu skjálfta í Mýrdalsjökli. Allt tekur enda um síðir. 

Í dag var einn skjálfti sunnan við Brennissteinsfjöll á Reykjanesi, tveir voru sunnan við Herðubreið, einn varð í Goðalandi og einn í öskju Mýrdalsjökuls.

Þegar eldgosinu í Eyjafjallajökli lauk komu fram alls kyns spámenn og héldu því fram að Katla myndi gjósa á sama ári eða því næsta. Engin rök voru fyrir þessu önnur en draumar og spádómar í kaffibolla. 

Ekki eru allir skjálftar fyrir eldgosum en þversögnin felst í því að á undan eldgosum verða jarðskjálftar.

Myndin er af korti Veðurstofunnar og sýnir það skjálfta síðustu þriggja daga. Rauðu deplarnir eru þeir nýjustu.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband