Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Katrín og Steingrímur eru ólík en sammála um skatthækkanir

Það hefur verið mjög góður andi í þessari vinnu, málefnaleg og góð skoðanaskipti. Í okkar hópi er ekkert uppnám af einu né neinu tagi. Og fjarri því að þar sé unnið með einhverjum hótunum. Þetta er það sem heitir á góðri íslensku rakalaus Moggalygi.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum allsherjarmálaráðherra í vinstristjórninni 2009 til 2013, í viðtali við visir.is. Hann heldur þessu fram vegna fréttar Morgunblaðs dagsins um að Vinstri grænir áformi skattahækkanir verði af myndun fimmflokkaríkisstjórnarinnar (langt orð). 

Steingrímur gapir vel að vanda enda orðhákur mikill. Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, sagði hins vegar á Facebook: 

Þessar áherslur Vinstri grænna ættu ekki að koma neinum á óvart. Við lofum nefnilega ekki auknum útgjöldum í heilbrigðisþjónustu og skólamálum (sem allir segjast vilja) nema við teljum að við getum aflað tekna á móti og að þeirra tekna sé aflað með réttlátum hætti.

Eins og vant er þarfnast orð Katrínar túlkunar við. Lausnarorðin hjá Katrínu eru feitletruð. Sem sagt, Vinstri græn ætla ekki að afla tekna með óréttlátum hætti ...

Þá er það spurningin hversu langt nær réttlæti hennar yfir sjálfsaflafé almennings. Við fengum að kynnast því meðan Katrín var menntamálaráðherra í vinstri stjórninni sem kennd er við Steingrím og Jóhönnu.

Hún samþykkti skattlagningu á almenning á ráðherratíma sínum og líklega heldur hún því fram að allar skatthækkanirnar sem hún og Steingrímur stóðu að hafi verið réttlátar ...

Af þessum tveimur tilvitnuðu orðum Steingríms og Katrínar eru þau sammála um að hækka þurfi skatta. Þá stendur það út af borðinu hvað sé Moggalygi og hvað ekki eða þá ekkert.

Eflaust ríkir hinn mesti friður við borð formannanna sem eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Kattasmölunin er ekki enn í umræðunni.

Katrín Jakobsdóttir talar flátt. Þegar hún segist ætla að afla tekna með réttlátum hætti á hún við skattahækkanir og þá er vissara að gæta að sér. 


mbl.is Ætti ekki að koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmáti framkvæmdastjóra Icelandair hótela

Já, Canopy by Hilton og við erum fyrsta hótelið worldwide og Reykjavík er up and coming áfangastaður sem að komandi kynslóðir elska með náttúruna okkar og kúlturnum okkar og þar af leiðandi var þetta bara svona match made in heaven að við myndum verða fyrsta destinationið til að opna hótelið.

Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, vekur í pistli athygli á ofangreindum orðum framkvæmdastjóra Icelandair hótela í viðtali við Stöð2, sjá hér. Sagt er frá opnum hótels sem ekki er einu einnig hægt að durslast til skíra íslensku nafni.

Er það annars ekki rétt munað hjá mér að flugvélar Icelandair eru skírðar rammíslenskum sérnöfnum? Hvað hefur breyst hjá fyrirtækinu?

Sannast sagna er alveg grátbroslegt að fylgjast talsmáta fjölda fólks sem vart getur tjáð sig á íslensku öðru vísi en með enskuslettum. Yfirleitt veldur einhver minnimáttarkennd þessu. Ég man til dæmis ekki eftir því að forstjóri Icelandair Group, Björgólfur Jóhannsson, hafi slett ensku í þeim útvarps- eða sjónvarpsviðtölum sem ég hef heyrt. Er eitthvað að breytast hjá Icelandair?

Enskan sækir á íslenskt mál, rýrir það og breytir því. Vandamál bæði fullorðinna og einnig ungs fólks er kæruleysi á borð við talsmáta framkvæmdastjórans hér að ofan, rýr orðaforði sem er afleiðing minnkandi bóklesturs og almenn andskotans leti.

Ó ... svo gleymdi ég nefna að nefna þykistuleikinn, að sletta ensku til að sýnast vera eitthvað annað og meira en fólk í raun og veru er.


Hvað annað en að skora mark?

Skor er m.a. stigafjöldi í íþróttakeppni. Sögnin að skora, um það að ná árangri, hefur ekki öðlast fullan tilverurétt en sést þó oft: „Ísland skorar hátt í alþjóðlegum samanburði.“ Við erum þá ofarlega á blaði eða lista, fáum háa einkunn, erum framarlega eða í fremstu röð. Nú, eða hátt metin.

Svo segir í frábærum dálki í Morgunblaðinu. Ég hnautum þó í dag um að þar er sagt að sögnin að skora hafi ekki náð fullum tilverurétti, líklega á höfundurinn við íslenskt mál.

Skyldi maðurinn aldrei hafa heyrt um að fótboltamenn skori mark? Varla er hægt að orða einn atburð skýrar.

Þetta orð hefur verið með fullan tilverurétt í íslensku máli frá því ég man eftir mér og ábyggilega í langan tíma fyrir mína daga.

Víst er það úr ensku; „gain (a point, goal, run, etc.) in a competitive game: McCartney scored a fine goal“.

Á móti má benda á að til dæmis nafnorðið togari er komið beint úr ensku og hefur öðlast hér tilverurétt. Fletti orðinu upp í netorðabók og fékk meðal annars nokkuð forvitnilega skýringu um upprunann:

„Mid 16th century (as a verb): probably from Middle Dutch traghelen ‘to drag’ (related to traghel ‘dragnet’), perhaps from Latin tragula ‘dragnet“.

Flestir Íslendingar vita hvað dragnet er. Margir hefa verið á dragnetaveiðum (ekki er þó átt við að tilgangurinn sé að veiða dragnet, heldur í það).

 


Illa hönnuð göngubrú virkar eins og stífla

FyrirJákvætt er að borgaryfirvöld skuli hafa sett brýr yfir Elliðaárnar, aðra rétt fyrir ofan gamla og ljóta rafstöðvarhúsið og hina við göngin undir Reykjanesbrautina.

Vandinn er bara sá að í vatnavöxtum hefur vestari áin alltaf flætt úr farvegi sínum við undirgöngin.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var 8. október 2015 sést hvernig flæðir upp úr farveginum. Þarna var auðvitað ófært enda fáir sem hvort eð er fóru þarna um. 

Síðan var byggð brú á þessum stað og aðstæður gjörbreyttust. Hönnuðir vissu greinilega ekki að vatnavextir hækka yfirborð á, annars hefðu þeir haft brúna bogadregna eða hækkað hana örlítið.

eftirÞess vegna er hún fyrirstaða þegar vex í ánni, rétt eins og sést á meðfylgjandi mynd sem tekin var 14. október 2016. Einnig má hér benda á góða mynd á mbl.is.

Brúin er breið og góð og er í beinu framhaldi af göngu- og hjólastígunum. Gallinn er bara sá að hún tekur á sig vatn, virkar eins og stífla, og veitir því að hluta að mynni undirganganna sem liggja aðeins lægra og þar myndast stundum stór pollur, gangandi og hjólandi umferð til leiðinda.


mbl.is Vatnsyfirborðið nærri brúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill skjálfti í Bárðarbungu

SkjálftarEkki telst til tíðinda þó jörð skjálfi nema mikill skjálft mælist. Í gærkvöldi hófst skjálftahrina í norðanverðri Bárðarbungu. Um tuttugu skjálftar, eitt stig eða meiri, hafa orðið þarna á einum sólarhring, það er frá því um kl. 19 í gærkvöldi.

Merkilegast er að einn skjálfti náði að verða 4 stig, sem er nú frekar sjaldgæft. Annars voru samtals sex skjálftar stærri en þrjú stig. Allir eru skjálftarnir á mismunandi dýpi, allt frá 100 m undir yfirborði og niður í átta km.

Á meðfylgjandi korti frá Veðurstofunni sjást upptök skjálftanna.

Skjálftar yfir þremur stigum eru merktir með stjörnu. Hrinan er eins og vant er í norðurhluta Bárðarbungu, líklegast á jaðri öskjunnar.

Vinstra megin á kortinu er Tungnafellsjökull og nyrst í Vatnajökli er Dyngjujökull.


Gvendur hali spáir eins og stjórnmálafræðingur

Gvendur haliGvendur hali nefnist maður nokkur sem hefur ágæta sýn yfir íslensk stjórnmál. Hann er hissa á því að aldrei skuli nokkur blaða- eða fréttamaður tala við sig en upphefji í staðinn svokallað stjórnmálafræðinga.

Til að bæta úr skák tók ég viðtal við þennan ágæta mann og fer það hér á eftir:

Fyrirsögn: 

Telur að ríkisstjórn geti verið mynduð

Guðmundur H. Herlaugsson, spáfræðingur Lækjartorgs, seg­ir mjög erfitt að átta sig á hvort Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna, muni tak­ast að mynda fimm flokka stjórn.

„Það verður reynt til þraut­ar með þetta en það er mjög erfitt að átta sig á því hvort það geng­ur. Ég held að það gæti al­veg tek­ist,“ seg­ir Gvendur hali (hann óskar eftir því að vera kallaður svo).

„Svo verður maður að meta hvernig sam­setn­ing­in er, hvernig mál­efna­samn­ing­ur­inn lít­ur út og hvar ásteyt­ing­ar­stein­arn­ir eru, ef maður ætl­ar að spá því hversu lang­líf hún verður.“

Hálf þjóðin vildi gera Kötu að forseta

Spurður um hvort Katrín formaður Vinstri grænna sú rétta til að leiða nýja ríkisstjórn: 

„Já og nei Kannski eru sú rétta, kannski ekki. Sumir draga hana í efa aðrir ekki.“ 

Rökrétt skref

Að mati Gvends hala er það rökrétt skref hjá Katrínu að reyna að mynda ríkisstjórn. 

„Annars myndi hún ekki mynda ríkisstjórn. Það væri líka rökrétt skref, veltur bara á því í hvaða átt hún gengur, ætli hún á annað borð að fara í göngu.

Sko, það virðist að Vinstri grænir horfir til vinstri stjórnar enda felst það í nafni flokksins. Sumum kann að koma það á óvart, öðrum ekki. Ennfremur, sko, að er breidd í þessari stjórnarhugmynd. Hvað annað? Fimm flokka ríkisstjórn er óneitanlega breið hins vegar er kristaltært að dýptina vantar.“

En verða núverandi ríkisstjórnarflokkar með í samstarfinu? 

„Gerist það, þá verða stjórnarflokkarnir sjö, ef ekki þá verða þeir færri og þar með minni meirihluti og minni breidd. Vandinn er bara sá að verði stjórnarflokkarnir með í ríkisstjórn vinstri flokkanna, hverjir eiga þá að vera í stjórnarandstöðu? Hitt vita allir að þekking og reynsla vinstri flokkanna er að vera í stjórnarandstöðu“

Viðreisn og Björt framtíð staðið fast á sínum málum

Hann bætir við að þó allir séu tiltölulega jákvæðir þá standi menn á sínum málum, sem sé neikvætt.

„Ef aðeins einn stendur á sínum málum verður allt auðveldara. Standi aðrir á þessum eina á hann erfiðar uppdráttar.

Við sjáum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa staðið fast á sínu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Má vera að þeir verði slakari gegn Vinstri grænum, kannski ekki, og þó ...“

Bjarni vonsvikinn

Gvendur hali sagði greinilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki hamingjusamur vegna þess að upp úr slitnaði milli hans, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar.

„Sjáðu nú til ... Bjarni kann að vera vonsvikinn, en það eru fleiri og það kemur dagur eftir föstudaginn í síðustu viku rétt eins og í dag.“

Ekki algjörir græningjar

Gvendur hali dró nú fram kristalskúlu sína og stakk henni í samband við netið. Hann rýndi í hana og sagði að vissulega sé óreynt fólk innan um á Alþingi. Hann bendir þó á að hjá Pírötum sé fólk með malbiksreynslu og reykingum.

„Ég bendi bara á að ef helmingurinn af þingflokknum er með meiri eða minni þingreynslu er hinn helmingur það ekki. Þetta er svona eins og að segja að þrír plús tveir séu fimm rétt þegar tveir plús þrír séu líka fimm, en þó ekki endilega sama fimman.“

Geturðu skýrt þetta nánar, Gvendur hali?

„Hélt að þetta lægi nú í augum uppi, Sigurður minn. Sko fjórir plús fimm eru níu, rétt eins og fimm plús fjórir eru líka níu, þó þarf ekki að vera að það sé sama nían heldur ný nýja. Þrjár endur á þingi verða ekkert endilega tíu endur nema þeim sé fjölgað og hvaða gagn er af því ef helmingurinn er reynslulaus?

Hmmm ...

„En talandi um reynslulítið fólk þá er hægt að minna fólk á að fólk kaus fólk árið 1991 og þá varð nýtt fólk þingfólk án þess að verða nokkru sinn ráðherrafólk, þó einstaka hafi orðið ráðherra í langan tíma,“ greindi Gvendur hali Herlaugsson frá og kippti kristalkúlunni úr sambandi.

Hér er ekki verið að bera saman viðtalið við Gvend hala við viðtal mbl.is við stjórnamálafræðing og prófessor með viðlíka þekkingu og er að finna hér. Þó verður að segjast eins og er að Gvendur hali er skýr enda stundum nefndur Guðmundur skýrari.


mbl.is Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagmunir þjóðarinnar eru aðrir en hagsmunir verslunarinnar

ungarHvers vegna eru íslensk stjórnvöld með reglur um að innflutt kjöt sé fryst? Svarið er einfalt, það er einfaldlega vegna sjúkdómahættu.

Ef reglur Evrópusambandsins um innflutning á landbúnaðarafurðir, sem  Ísland hefur lögleitt, eru þess eðlis að opna skuli landið fyrir landbúnaðarsjúkdómum sem grassera í Evrópu þá er ekkert annað uppi á borðinu en að nema lögin úr gildi. 

Í öðru lagi skiptir stóru máli að landbúnaður hér innanlands getur hvorki keppt í verði eða magni við útlendar landbúnaðarafurðir. Við erum einfaldlega jaðarsvæði og örsmár markaður.

Þriðja atriðið er fæðuöryggi landsins. Óheftur innflutningur landbúnaðarafurða gerir þjóðina fæðulausa komi eitthvað í veg fyrir eðlilegar samgöngu á hafi eða í lofti.

Fjórðu rökin eru að í öllum löndum Evrópu eru landsbúnaðarafurðir niðurgreiddar og þar með innflutningur hingað. Vart er að treysta því að svo verði til frambúðar og hversu mikið hækka þau í verði þegar dregur úr niðurgreiðslum eða þær hætta.

Það er algjörlega óábyrg afstaða að heimta ótakmarkaðan innflutning landbúnaðarafurða og sú krafa kemur nær eingöngu frá hagsmunaaðilum, innflytjendum og verslunum.

Innlend framleiðsla er dýr, sú útlenda ódýr, buddan ræður. Hver er þó staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar ef við getum ekki brauðfætt landsmenn þegar eitthvað bjátar á í samgöngukerfi heimsins? Á íslensk þjóð að vera að öllu leyti háð innflutningi matvæla? 

Skilyrði um að opna fyrir óheftan innflutning landbúnaðarafurða frá Evrópu er ógn við sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar.

Sjá hér nánar um notkun hormóna í landbúnaði og hér um notkun á sýlalyfjum til að efla vöxt sláturdýra.

Ég leitaði mér að myndefni við þennan pistil og mér til gríðarlegs hryllings fann ég ótal vefsíður sem segja frá takmarkalausri grimmd í sláturhúsum í Evrópu og annars staðar. Ég hreinlega fékk það ekki af mér að birta slíka mynd hér.

Staðreyndin er að minnsta kosti þessi: Íslensk sláturhús eru mjög vel rekin og meðferð sláturdýra er mannúðleg. Myndin sem hér fylgir er úr erlendu kjúklingasláturhúsi. Ungar fylgja með eggjaskurn yfir í gáma þar sem þess líf þeirra fjarar skjótlega út og öllum er andskotans sama.

Fyrir mig og mína vil ég frekar dýrari íslenskar landbúnaðarvörur vitandi að reglum um slátrun er fylgt og veit að hér eru hvorki notaðar sýklalyf eða hormónalyf í sama mæli og víðast annar staðar. Vel má vera að ég geti fengið hjá Ferskum kjötvörum ódýrt kjöt en ég get aldrei geta treyst uppruna þess eða hvernig staðið var að slátrun dýrsins.


mbl.is Ríkið tapar máli um innflutningsbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpínan, gleðigjafi fyrir menn og mófugla

HeiðmörkÞeir fuglar eru nefndir mófuglar sem verpa í móum og mýrum. Nefna má lóu, spóa, stelk, sendling, kjóa, rjúpu, hrossaguk og fleiri tegundir.

Auðvitað kunna fuglar ekki að tjá sig en með rannsóknum hefur verið hægt að finna út hvaða kröfur þessir fuglar gera til umhverfisins. Til dæmis hefur komið fram að þeir kjósa frekar að gera hreiður sín í lúpínubreiðum en víðast hvar annars staðar.

Í grein í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences er grein sem nefnist „Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species“ og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson er að finna forvitnilega rannsókn um mófugla.

Á vef Skógrætarinnar segir um rannsóknina:

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman:

    1. Óuppgrædd svæði,
    2. Endurheimt mólendi og
    3. Land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu.

Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.

MorsárdalurÉg hef lengi dáðst að lúpínu og þá sérstaklega hversu hratt hún breiðist út, jafnvel á örfoka landi. Hún er algjör gleðigjafi fyrir augð þegar hún blómstrar. Þetta er nú samt einungis það sé sjá má með berum augum. Gagnsemi lúpínunnar er ekki síður fólgin í því að hún vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu og skilar því í jarðveginn, öðrum jurtum til gagns.

Köfnunarefni (nitur) skortir stórlega í íslenskum jarðvegi en fáist það verður gjörbreyting á. Skógrækt er tilvalin í svæðum þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Það hefur til dæmis gerst á stórkostlegan hátt í Bæjarstaðaskógi við Mórsárdal og víðar.

Sumir sjá ofsjónum yfir framgangi lúpínunnar, meðal annars fyrrum umhverfisráðherra Vinstri grænna sem fyrirskipaði upprætingu hennar með öllum tiltækum ráðum meðal annarshvatti hann til að eitrað væri fyrir henni.

Sem betur fer er herferðin gegn lúpínu löngu töpuð. Við útbreiðsluna verður ekki ráðið á annan hátt en að rækta skóg. Staðreyndin er  nefnilega sú að þessi fallega blágræna jurt þrífst ekki í skugga. Meðan stjórnendur margra sveitarfélaga geta ekki á sér heilum tekið vegna útbreiðslu lúpínunnar, moka henni í burtu eða eitra, taka aðrir henni fagnandi og stunda skógrækt. Síðarnefnda aðferðin er margfallt ódýrari en eiturhernaðurinn.

Víst er að mófuglarnir hafa talað og sagt hvar þeim líður best. Gróðurinn er foldarskart eins og Jónas Hallgrímsson orti forðum. Því miður þekkti hann ekki lúpínuna annars hefði hann ort henni ódauðleg ljóð.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

 


Þessi fundur er bara fyrir fjölmiðla

VGSæll, Logi.

Sæl, Katrín.

Nei, ert þú gengin aftur, Oddný? Ég meina, varstu ekki hætt?

Jú, ég var og er hætt sem formaður en hann Logi þarf á aðstoð að halda. Ég þarf að halda í hendina á honum svona til að byrja með, hann er svo nýr greyið. Samfylkingin má ekki við neinum byrjendamistökum ef ske kynni að kosið verði aftur. Flokkur með best stefnu í heimi má hreinlega ekki falla af þingi.

Hvað um það, verið velkomin hingað. Eins og þið vitið er ég með stjórnarmyndunarumboðið. Það er að vísu orðið dálítið þvælt eftir að hafa verið hjá honum Bjarna í tvær vikur en það dugar.

Já, það er orðið langt síðan að sósíalisti hefur fengið að mynda ríkisstjórn. Var það ekki Lúðvík Jósefsson sem reyndi það síðast?

Skiptir engu, Oddný mín. Nú vil ég spyrja ykkur, kæru vinir og félagar: Er Samfylking tilbúin til að mynda ríkisstjórn með okkur VG og fleiri flokkum.

Alveg tvímælalaust. Ekki spurning. Við styðjum öll góð mál, hvað sem það kostar.

Hvað segir þú Logi, spurningunni er eiginlega beint til þín sem formanns.

Tja ... ég er bara sammála. Er þaki Oddný ...?

Jú, auðvitað, ég var að segjaða. Hins vegar gerum við þá kröfu að fá tvö ráðherraembætti, sérstaklega innanríkisráðuneytið og einnig utanríkisráðuneytið. Svo viljum við að nýja ríkisstjórnin sæki aftur um inngöngu í ESB.

Elsku Oddný mín, auðvitað munum við skoða að láta ykkur frá tvö ráðuneyti. Og við í VG höfum ekkert á móti því að ganga í ESB. En heyrðu, ansi er alltaf þessi jakki alltaf fallegur. Hvar fékkstu hann?

Þetta er nú bara jakki úr Hagkaup en alveg gasalega lekker, svona eins og peysan þín.

Þessi drusla? Hana keypti ég fyrir mörgum árum í Kolaportinu, en hún dugar von úr viti. En naglalakkið þitt, Oddný mín, en hvað það er nú rautt og fallegt.

Já, þessi tónn í rauða litnum er algjört æði ...

Ahem ... Oddný, má ég ekki bara fara. Ha? Mér heyrist að fundurinn sé búinn.

Jú, farðu bara Logi minn. Við stelpurnar ætlum að halda áfram að spjalla næsta klukkutímann, þetta er svona fyrir fjölmiðla. Þú skilur ...

Mundu samt, að ef einhver fréttamaður spyr þá ertu að fara á mikilvægan fund en þú teljir mjög líklegt sé að við náum saman um myndun ríkisstjórnar.

Geri það, bæ ...


mbl.is Katrín fundar með Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pattstaða í pólitíkinni og krafa um nýjar kosningar

Pattstaða er komin upp í íslenskum stjórnmálum. Eftir að Sjálfstæðisflokknum mistókst að mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð er fátt bitastætt eftir. 

Í stuttri en skilmerkilegri frétt á mbl.is er grein gerð fyrir möguleikum formanns VG á ríkisstjórnum. 

Þeir eru þessir:

Þriggja flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Pírat­ar = 41 þingmaður, 10+21+10

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn = 39 þing­menn, 10+21+8

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Viðreisn = 38 þing­menn 10+21+7

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Björt framtíð = 35 þing­menn 10+21+4

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Sam­fylk­ing­in = 34 þing­menn 10+21+3

Fjög­urra flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Pírat­ar + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Viðreisn = 35 þing­menn, 10+10+8+7

VG + Pírat­ar + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Björt framtíð = 32 þing­menn, 10+10+8+4

Fimm flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Pírat­ar + Viðreisn + Björt framtíð + Sam­fylk­ing­in = 34 þing­menn, 10+10+7+4+3

VG + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Viðreisn + Björt framtíð + Sam­fylk­ing­in = 32 þing­menn, 10+10+7+4+3

Samkvæmt yfirlýsingum formanns Vinstri grænna kemur samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki til greina. Raunar hafa flokksmenn VG látið að því liggja að samstarf við Framsóknarflokkinn komi ekki heldur til greina.

Einn kostur í stöðunni

Aðeins einn kostur er þá eftir og það er fimm flokka ríkisstjórn VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Sú ríkisstjórn yrði nyti stuðnings 34 þingmanna, eins tveggja manna meirihluta. Það yrði ekki ásættanleg ríkisstjórn þegar litið er á hversu frábrugðnir flokkarnir eru, sérstaklega sker Viðreisn sig frá hinum, og ansi ólíklegt að sá flokkur láti til leiðast.

Neita samstarfi

Stjórnmálaflokkarnir hafa málað sig út í horn með því að neita að starfa með einstökum öðrum flokkum. Til viðbótar kemur sú einfalda staðreynd að hin skítuga orðræða í pólitíkinni hefur verið slík á undanförnum árum að mikið þarf til þess að til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geti sætt sig við samstarf við Vinstri græna og Pírata.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að annað hvort verða forystumenn flokkanna, þingmennirnir, að sættast við aðra flokka og mynda ríkisstjórn. Kostirnir eru þriggja flokka ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins með Framsóknarflokkinn, Viðreisn eða Bjarta framtíð sem þriðji flokkurinn.

Orðræðan undanfarin ár

Fjöldi Sjálfstæðismanna leggst hart gegn samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Þeir telja að flokkurinn muni setja mikið niður með því að starfa með fólki sem hefur stundað róg um Sjálfstæðisflokkinn í langan tíma. Slíkt verður ekki verið fyrirgefið á samri stundu og tilboð um ráðherrastóla býðst og ekki heldur þó forsætisráðherrastóllinn sé innifalinn.

Í Sjálfstæðismönnum er mikil þykkja gagnvart VG og fleiri flokkum. Það er ómögulegt ástanda og bendir aðeins til þess eins að orðræðan í íslenskri pólitík er ónýt og eyðileggjandi fyrir þjóðina. 

Stjórnmál geta ekki gengið út á róg, ruddaskap og hálfsannleika en þannig er það nú hjá mörgum stjórnmálaflokkum, sérstaklega í Vinstri grænum. Er þá nokkur furða þó Sjálfstæðismenn hafni samstarfi við flokkinn.

Nýjar kosningar

Eina staðan í stjórnmálum er að kjósa aftur. Flokkarnir verða að leita til þjóðarinnar og láta hana leysa úr þeirri pattstöðu sem komin er. Líklegast er best að kjósa í febrúar og starfsstjórn Sjálfstæðiflokksins og Framsóknar starfi þangað til.


mbl.is Hvaða kosti hefur Katrín?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband