Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Útbúnaður er svo góður að útveran er hættulaus

KuldiKuldi hefur lítil sem engin áhrif á vel búið fólk sem sefur í svefnpoka í tjaldi. Fréttamaðurinn sem skrifar meðfylgjandi frétt hefur örugglega enga reynslu af slíku.

Vindkæling hefur ekki heldur nein áhrif því tjaldið ver mennina fyrir henni og þar að auki svefnpokinn. Sé svefnpoki góður eru flestir léttklæddir inni í honum, annar myndi enginn þola þar við.

Um daginn gisti ég í húsi á Hornströndum. Fyrstu nóttina var um fimm gráðu frost úti og svipaður kuldi innan dyra. Það var ekki fyrr en aðra eða þriðju nótt að við náðum að koma kyndingunni í húsinu í gagnið. Ekkert amaði þó að okkur sem þarna gistum. Auðvitað vorum við allir með góða svefnpoka.

Annars held ég að markvisst sé verið að ala á aumingjaskap hér á landi. Fjölmiðlar gera alltof mikið úr útiveru og telja það aðeins á færi ofurmenna að ferðast um að vetrarlagi, ganga á fjöll eða vera yfirleitt úti í rigningu í höfuðborginni og nágrenni. Hugtakið „gluggaveður“ er eitt af því sem fjölmiðlar hafa fundið upp öllum til óþurftar.

Alla mína æfi hef ég stundað útveru, ferðast um landið að sumar og vetrarlagi með góðu fólki. Af reynslu minni er útilokað að illa fari fyrir þeim sem þetta stunda nema því aðeins að alvarleg mistök séu gerð.

Fatnaður og útbúnaður er að verða svo frábær að hann ver fólk einfaldlega fyrir grandi. Þó þarf alltaf skynsemi að vera með í för. Án hennar er hættan vís, ekki aðeins í ferðalögum heldur einnig þegar gengið er yfir umferðagötu eða dvalið innandyra.

Svo má hafa það hugfast að flestir enda líf sitt í mjúku rúmi í hlýjum húsakynnum. 


mbl.is Sofa í tjaldi í kuldanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont er að brúka dauða mæla

SkjalftiÞeirri kenningu vex óðum fylgi meðal virtra jarðvísindamanna að jarðskjálftar verði ekki í Mýrdalsjökli að neinu ráði meðan jörð skelfur undir hafsbotni fyrir norðan.

Vinsælli kenningu hefur verið varpað fyrir róða en hún fjallar um að innan tveggja ára frá gosi í Eyjafjallajökli muni gjósa í Mýrdalsjökli. Sú kenning byggist auðvitað á því að náttúra landsins kunni á almanak.

Þriðja kenningin kemur frá draumamanni þeim sem hefur verið undirrituðum til ráðuneytis. Hann hefur, ásamt nokkrum öðrum dómsdagsspámönnum sem ritað hafa í athugasemdakerfið hér, spáð miklum ragnarökum. Þessi ágæti maður hefur nú verið ráðinn til að fylgjast með skjálftamælum, gps-mælum og óróamælum á suðurhluta landsins. Afleiðinguna má sjá á kortinu hér vinstra megin.

Sú kenning er nú uppi meðal jarðvísindamanna að annað hvort hafi draumabrandur þessi eyðilagt mælana eða þá að ekkert sé að gerast í Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli eða nærsveitum.

Skiptast menn einkum í tvo hópa, annar vill reka draumabrand þennan en hinn hópurinn vill endurmennta hann. Hvorugt mun vera hægt þar sem hann er orðinn ríkisstarfsmaður og ekki verður hreyft við honum fyrr en hann nær 65 ára aldri.

„Vont er oss að brúka dauða mæla,“ mælti þá einhver og bankaði án árangurs í tölvuna sína.


Bjarni á ekki að láta undan

Sjálfstæðismenn eiga ekki að láta undan þrýstingi utan úr bæ. Bjarni Benediktsson er formaður flokksins og hann á að vera það þar til breytingar verða gerðar á stöðu hans á landsfundi. Landsfundur er hinn rétti vettvangur.

Skoðanakönnun Viðskiptablaðsins var skemmdarverk og þjónar engum öðrum tilgangi en að grafa undan formanninum. Má næst búast við því að Viðskiptablaðið komi með álíka skoðanakönnun sem beint er gegn einstökum þingmönnum flokksins?

Viðskiptablaðið er fjölmiðill og á ekki að taka afstöðu í stjórnmálum og allra síst í innanflokksmálum stjórnmálaflokka.

Menn geta svo haft sína skoðun á því hvernig formaðurinn hefur staðið sig og rökrætt það. Upp úr stendur þó það eitt að stefna Sjálfstæðisflokksins skiptir mestu.

Árásir á Bjarna minna eindregið á þann vanda sem Geir Hallgrímsson, fyrrum formaður flokksins átti við að etja og það voru einkum andskotar hans innan flokksins sem gerðu þeim sómamanni lífið erfitt og um leið dró úr fylgi flokksins. 


mbl.is Tilgangurinn að grafa undan Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikil endurnýjun þingsins getur verið neikvæð

Nauðsynlegt er að Alþingi endurnýi sig. Ástæðan er einfaldlega sú að löggjafarþinginu er nauðsyn á að fá nýtt fólk með nýjar skoðanir. Því til viðbótar þar fólkið í landinu að endurnýja reglulega fulltrúa sína á þingi. Að öðrum kosti er hætta á stöðnun.

Á móti getur of mikil endurnýjun leitt til ófarnaðar. Starf Alþingis er og á vera í föstum skorðum. Lausung í starfi þingsins er beinlínis hættuleg. Hægt er að færa rök fyrir því að það sé lýðræðislegt að margir stjórnmálaflokkar eigi sæti á þinginu en það getur líka leitt til ófarnaðar í stjórn landsins.

Verði reyndin sú að allt að helmingur þingmanna hverfi af þingi og í staðin komi fólk sem hafi enga reynslu af löggjafarstörfum, enga stjórnmálalega reynslu og samvinnu er illt í efni.

Á móti kemur að ferskari vinda kunna að blása um sali þingsins og samhugur ríki þar. Margir minnast Borgarahreyfingarinnar og draga þetta í efa.


mbl.is Mesta endurnýjun í sögu Alþingis?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er víst að taflið gangi upp þó Bjarni hætti

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var afar einlægur í viðtalinu í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Raunar eignlægari en hann hefur verið áður. Eiginlega gaf hann of mikið upp, svo mikið að mikið fát kom á stjórnendur og þeir urðu svo undrandi að þeir spurðu sömu spurninganna aftur og aftur með mismunandi orðalagi. Þetta skemmdi þáttinn og ekki síður sýndust stjórnendur fá fyrirskipanir í eyrað um að hamra enn og aftur á hugleiðingum Bjarna. Hann átti hins vegar ekki að láta teyma sig svona langt.

Hingað til hefur enginn stjórnmálaleiðtogi láð máls á því að hætta formennsku fyrir flokki þó á hafi bjátað. Nú hafa hins vegar nýir menn komist til valda, nýjar kynslóðir. Þetta fólk fer ekki leynt með hugsanir sínar. Hér áður fyrr þráuðust hinir bestu menn við þangað til allt var komið í óefni.

Ef til vill er málið þannig vaxið að Sjálfstæðisflokkurinn geti grætt á því ef formaðurinn segi af sér og varaformaðurinn taki við. Þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til þess þá er ekki víst að taflið gangi upp eins og til er ætlast. Það eru aðeins sextán dagar í kjördag.

Ég styð Bjarna Benediktsson þó svo að hann hafi ekki ekki verið mitt val í upphafi. Síðan hafa liðið fjögur ár og hann hefur vaxið í starfi, er málefnalegur og duglegur og umfram allt heiðarlegur. Allt þetta er kostur fyrir stjórnmálaleiðtoga.

Af ofangreindu má ráða að ég kýs Sjálfstæðisflokkinn hver svo sem formaðurinn er. Að mínu mati skiptir stefna flokksins meira máli. Það er hins vegar stór vandi flokksins hversu slaklega hann hefur komið henni á framfæri. Allt annað finnst mér aukaatriði.


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sófakommarnir í SAF krefjast skattlagningar

Samtök ferðaþjónustunnar dæla ferðamönnum inn í landið og af þeim hefur ríkissjóður meira en eitt hundrað milljarða tekjur á hverju ári ef ekki meira. Þetta eru virðisaukaskattur, margvíslegir tollar og gjöld, launagjöld og fleira og fleira, beinar og óbeinar tekjur.

Þrátt fyrir allar þessar tekjur gerir ríkisvaldið sáralítið fyrir svokallaða ferðamannastaði né heldur að það sinni forvörnum í umhverfismálum. Átroðningur ferðamanna er mikill og um leið er ábyrgð ferðaþjónustuaðila jafnvel meiri þar sem þeir fara í halarófu á sömu staðina.

Svo tekur SAF undir með grátkórnum sem heldur því ranglega fram að ekkert fé sé til úrbóta á ferðamannastöðum og ætlar að skattleggja ferðamenn undir fölsku yfirskini. Náttúrupassi er ekkert annað en huggulegt orð fyrir aukna skattheimtu, raunar það sem hingað til hefur verið kallað glápgjald. Þetta er gjald fyrir að fá að stíga niður fæti, ganga um og gera eiginlega það sem flestir frjálsir menn hafa hingað til mátt gerða.

Auðvitað er til nóg fé, það sem vantar er bara vilji, vilji til að skipta því. 

SAF veldur gríðarlegum vonbrigðum. Samtökin hafa gefist upp á að berja á ríkisvaldinu sem gleypir allar tekjur af ferðaþjónustunni og lætur sáralítið til baka. Maður hefði nú haldið að innan þessara samtaka fælist einn og einn sem einhver dugur er í. Þegar upp er staðið virðast þetta allt vera bölvaðar druslur, sófakommar sem velja aukna skattheimtu. 


mbl.is Reiðubúin til viðræðna um útgáfu náttúrupassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur skattlagður ofan í drep

Ég held því fram að þrennt ráði breytingum á flokkafylgi fyrir komandi kosningar:

  1. Skuldastaða heimilanna vegna íbúðalána
  2. Atvinnuleysi
  3. Almenna fjárhagslega þrengingar

Stjórnmálamenn hafa margir hverjir neitað að horfast í augu við ofangreit. Samfylkingin og Vinstri grænir hafa dæmt sig úr leik vegna verka sinna sem í kjölfar hrunsins gerðu ekkert með vanda almenning og létu frekar kné fylgja kviði og skattlögðu almenning ofan í drep.

Framsóknarflokkurinn hefur sýnt þessum vandamálum áhuga og virðist þar með ná árangri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð að sýna almenningi frá á ágæti stefnu sinnar sem samþykkt var á síðasta landsfundi.

Í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun segir Ragnar Árnason, hagfræðingur og prófessor:

Þannig sjáum við að skattahækkanirnar stuðla að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti. Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Að mestu leyti er ég sammála Ragnari en skil þó ekki hvernig fasteignaverð getur hækkað mikið umfram það sem gerst hefur miðað við óseldar íbúðir svo ekki sé talað um íbúðir sem fjármálastofnanir hafa eignast og ekki sett á markað. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að skattahækkanir hafa skemmt fyrir efnahag landsins og þar með framlengt kreppuna. Það munar líka um 12% atvinnuleysi. Forkólfar ríkisstjórnarinnar þreytast lítt á því að ljúga til um atvinnuleysið sem sagt er undir 5%. Þeir hrósa sér af því að hafa með brellum en ekki atvinnu breytt atvinnuleysinu.

Þeir gleyma því að þúsundir landsmanna fá ekki að skrá sig á atvinnuleysisskrá. Þetta er fólk sem stundaði atvinnurekstur í eigin nafni, jarðvinnslu, húsasmíðar og fleira. Síðan var fólk rekið úr landi vegna einbeitts samdráttar ríkisstjórnar í efnahag landsins og í þriðja lagi átti margt fólk ekki annars úrkosta en að fara í nám. 

Ragnar segir í lok greinar sinnar og taka nú flestir undir orð hans:

Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.  


Og allt bara fjórflokknum að kenna ...

Reglurnar eru mjög flóknar og ruglingslegar enda samdar af fjórflokknum sem hefur verið við völd hér á landi síðastliðin 97 ár með misgóðum árangri. 

Þvílíkt bull er ekki ofangreint. Þetta er röksemdafærsla Guðmundar F. Jónssonar, formanns Hægri grænna, fyrir því að vera ekki á kjörskrá. Þetta er ekki sannfærandi.

Maðurinn fellur í þá gryfju að kenna einhverjum öðrum um hrakningar sínar. Hann er ekki á kjörskrá og getur því ekki boðið sig fram.

Af orðum hans má skilja að mannvonska ein ráði því að hann fái ekki að bjóða sig fram og það sé fjórum stjórnmálaflokkum að kanna. Auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá manninum. Hvort sem reglur um kjörgengi eru réttlátar eða ekki þá gerði hann sig sekan um stórkostleg mistök. Eftir langvarandi dvöl erlendis og búsetu þar lét hann hjálagt að kanna stöðu sína eins og flestir myndu nú gera.

Þetta mælir nú ekki með manninum né heldur stjórnmálaflokknum hans. Er ekki líklegt að verk hans í stjórnmálum munu bera merki álíka fljótfærni? Er honum í raun treystandi fyrst hann klikkaði á grundvallaratriði? Mun hann halda áfram að kenna einhverjum öðrum um mistök sín eða flokksins? 


mbl.is „Íslenskt ríkisfang dugar ekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er óendanleg refsing fyrir glæp réttlætanleg?

Ofbeldi má ekki að líðast. Þess vegna láta stofnanir þjóðfélagsins til sín taka þegar einn beitir annan ofbeldi. Lögregla rannsakar, saksóknari ákærir og dómstóll dæmir samkvæmt framkomnum gögnum. Ofbeldismaðurinn fær venjulega réttláta refsingu byggða á lögum.

Vandinn við ofbeldi er tvískiptur. Annars vegar sá sem snýr að þolandanum. Til er að hann jafni sig aldrei á því, beri jafnvel líkamleg merki þess. Í mörgum tilvikum skiptir litlu máli þó gerandanum sé refsað, sálrænu og líkamlegu afleiðingarnar þolandans breytast alls ekkert við það.

Hins vegar snýr vandinn að gerandanum. Oft er hlýtur það að vera þannig að sá sem gerist sekur um glæp og er refsað sér að sér, gerist betri maður og brýtur ekki framar af sér gegn nokkrum manni.

Óháð máli þess sem nauðgaði stúlku á Húsavík, velti ég því fyrir mér hvort lífið geti nokkurn tímann haldið eðlilega áfram fyrir þann sem gerst hefur sekur um glæp.

Ég velti því einnig fyrir mér hversu viðurstyggilegt það er þegar hluti af samfélagi tekur til varna fyrir þann sem brýtur af sér eða ræðast gegn fórnarlambinu.

Dómstóll götunnar er afskaplega lélegur og hlutdrægur og hefur sjaldnast rétt fyrir sér. Miklu betur fer á því að stofnanir samfélagsins taki á ofbeldinu.

Svo virðist sem almenningur eigi auðvelt sé að spana upp einhverja samúð með málstað sem þó fæstir þekkja til hlítar.

Um leið er hægt að byggja upp samúð með þolanda ofbeldis þá fær gerandinn á sig aðra refsingu, allt er rifjað upp og honum kann enn á ný gert kannski ómögulegt að halda áfram með líf sitt.

Auðvitað eru svona mál flókin og erfið. Svo er það svo óskaplega auðvelt að taka afstöðu og gera hlutina svarta og hvíta. Glæpur sé ekkert annað en glæpur og sekur maður skal með reglulegu millibili látinn rifja upp sekt sína. Og skyndilega er gerandinn orðinn þolandi og samfélagið orðið að geranda. Enginn friður fyrir stöðugri hefnd.

Munum samt að samkvæmt gildum sem flestir hallast að þá er fyrirgefningin afar mikilvæg og grundvöllur þess að samfélagið helst saman. 

Með þessum orðum mínum er ég ekki að taka aðra afstöðu til nauðgunarmálsins á Húsavík árið 1999. Ég geri enga frekari fyrirvara, þekki ekki til málsatvika að öðru leyti en þeirra sem birst hafa í fjölmiðlum.

Mér finnst samt að stundum eigi fólk að líta í eigin barm og spyrja sig hvenær nóg sé komið. 

Svo má einnig spyrja af hvaða hvötum fólk dæmir heilt bæjarfélag vegna aðgerða mikils minnihluta bæjarbúa.


mbl.is Prestar eiga ekki að leita sátta í ofbeldismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkar þá koltvísýringskvóti Íslands?

Stórmerkilegt að eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hafi haft áhrif á svifríkið í hafinu sem aftur hefur haft jákvæð áhrif á andrúmsloftið.

Svifið gegnir veigamiklu hlutverki í fæðukeðju hafsins, en það dregur líka í sig koltvísýring úr andrúmsloftinu og gegnir því stóru hlutverki varðandi gróðurhúsaáhrifin.

Eldgosið hlýtur þá að þýða að koltvísýringskvóti landsins hækkar.


mbl.is Eldgosið hafði líka jákvæð áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband