Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Atvinnuleysið ekki lengur rætt ...

12.533 Íslendingar voru atvinnulausir í maí. Þeir eru óhreinu börnin hennar Evu (raunar Jóhönnu). Ekki má tala umatvinnuleysið, ekki má tala um að efla atvinnulífið, ekki má tala um auknar erlendar fjárfestingar. Allt er háð skilyrðum.

Og á meðan valsar Steingrímur J. Sigfússon um í fjölmiðlum og gumar af góðum árangri í stjórn landsins. Hann nefnir þó aldrei hina atvinnulausu og verði honum það á þá er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Steingrímur kann þá list manna best að kenna öðrum um. Samt hefur hann setið slímsetu í ríkisstjórn í tvö ár og brotið allt sem hann áður lofaði. 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 7,4%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær Gunnar á Völlum

Gunnar á Völlum er eitt af því skemmtilegasta sem finna má í íslenskum fjölmiðlum. Kemur þar margt til. Gunnar er með afbrigðum orðheppinn, hann fer ótroðnar brautir og síðast en ekki síst þá hefur hann svo ákaflega „skemmtilegt“ andlit að maður veit hreinlega ekki hvort hann er að leika eða hann sé svo illa gefinn sem hann lætur líta út fyrir.

Til viðbótar kemur að myndatakan er ágæt og miklum tíma er eytt í að klippa saman stutt uppistand svo þegar saman kemur er ágætlega samhangandi þáttur sem varpar nýju ljósi á íslenska knattspyrnu.

Morgunblaðsmenn eiga miklar þakkir skyldar fyrir góðan þátt. 


mbl.is Enginn fuglasöngur í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsgögnin færð til í stofunni

Upplýst hefur verið að tjöruskúrinn og ristabrauðssneiðin að Laugavegi 4 og 6 hafi kostað einn milljarð. Þessi milljarður er í boði stærðfræðisnillingsins Dags B sem vegna kjarkleysis flutti hann á herðar borgarbúa. Rök hans fólust í að kostnaður við ákvörðunina hefði enginn orðið ef ríkið hefði tekið hann á sig. Þessa snilld í hugarreikningi opinberaði hann aftur á dögunum þegar hann hélt því fram að hagræðing í rekstri í tíð Sjálfstæðiflokksins, sem skilaði 1,5 milljarði króna, væri bara vaxtamunur. Jón Gnarr hefði ekki getað toppað þetta; slík er foráttuheimskan sem tröllríður gáfumannasamfélaginu.

Af mörgum góðum aðsendum greinum í Morgunblaðinu í dag er sú eftir Ragnhildi Kolka, lífeindafræðings, áberandi best. Skáletraði textinn hér fyrir ofan er úr greininni sem er á blaðsíðu 17.

Ragnhildur tuskar í stuttri grein borgarstjórnarmeirihutann sundur og saman, dregur af honum hrikalegt háð og tiltekur dæmi sem borgarfulltrúar hljóta að skammast sín fyrir.

Líta má á þessa grein sem grafskrift borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík. Hann á sér ekki lengur viðreisnar von. 


Ónýtanleg áskrift að Stöð2 er peningasóun

Verðlagshækkanir eiga eftir að hrynja yfir þjóðfélagið. Ég sagði í morgun upp áskrift að Stöð2. Ástæðan var þó ekki væntanlegar hækkanir heldur fyrst og fremst afar léleg þjónusta.

Ég er að fara í sumarfrí og ætla ekki að nýta mér sjónvarp, raunar engar stöðvar næstu þrjár vikur. Barnsleg rödd á þjónustuveri Stöðvar2 fullyrti við mig að reglurnar leyfðu ekki að hægt sé að loka fyrir hluta tímabils áskriftar.

Á móti fullyrti ég að reglur mína leyfðu mér ekki að greiða fyrir áskrift sem ég nýti ekki. Og ég er þess fullviss að ég er ekki einn um slíkar reglur.

Hin barnslega rödd á þjónustuveri Stöðvar2 bauð mér þá að loka fyrir áskrift í júlí. Því hafnaði ég vegna þess að ég hef þá reglu að sú þjónusta sem ég kaupi sé nýtanleg á þeim tíma er ég óska. Og ég er þess fullviss að ég er ekki einn um slíkar reglur.

Samkvæmt þessu á ég ekki samleið með Stöð2 lengur. Því miður, hún er að mesti leiti þokkaleg. Hins vegar er það út í hött að hafa reglur sem gera notandann óánægðan.

Nú er staðan sú að ég er fjúkandi illur út í Stöð2 og frétta margir, beint og óbeint. Fyrir vikið má búast við því að mörg hundruð manns eða jafnvel fleiri fái neikvæðar fréttir af Stöð2.

Má hún við því? Fyrst hún hefur svona reglur hlýtur hún að þola það.

Við lesendur mína vil ég ítreka þetta: Ekki skipta við fyrirtæki sem hefur reglur er reynast slæmar fyrir fjárhag ykkar. Ónýtanleg áskrift er peningasóun. 

Viðbót: Ástæðunni fyrir ofangreindri reglu Stöðvar2 var gaukað að mér. Hún er sú að Stöð2 græðir á henni, svo einfalt er það. Sjónvarpsstöðin veit að áskrifandinn er varnarlaus ætli hann að fá lokun sem gildir yfir mánaðamót. Áskrifandinn vill síður láta loka þegar hann getur nýtt sér áskriftina og hann er ekki heldur tilbúinn til að loka hluta af áskriftartíma og hluta af viðverutíma sínum. Þess vegna er skákað í því skjólinu að áskrifandinn vilji frekar halda áfram en hætta. Auðvitað eru til undantekningar eins og ég sem láta ekki vaða ofan í budduna án leyfis. Hins vegar er reglan ekki til komin af tæknilegum ástæðum, á það skal lögð áhersla.


mbl.is Skriða hækkana vofir yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foss hefur breiða merkingu

12_gluggafoss.jpgskan034.jpg

Nokkuð langt er síðan Morsárjökul tók að slitna og því viðbúið að í hömrunum mynduðust fossar. Sama er eflaust að gerast innst inni í Kálfafellsdal. á báðum stöðum er fallið mikið.

En hvað er foss? Ég hef oft velt þessari spurningu fyrir mér. Stórkostlegur munur er til dæmis á Seljalandsfossi og Breiðafossi í Botnsá. Sá fyrrnefndi fellur glæsilega, óslitinn, ofan af brún og niður í hylinn djúpa. Sá síðarnefndi er allt öðru vísi. Hann er bylgjast eiginlega um þrep í landslaginu en fellir í raun ekki.

Gymur er vatnsmikill og fellur ofan í djúpt gljúfur meðan Háifoss í Þjórsárdal snertir ekki hamrana að baki sér. Dynjandi fyrir vestan er einn glæsilegasti foss landsins, en fellur þó ekki óbrotinn heldur kembist niður hamrabelti, fegurri sjón er varla að finna á gjörvöllu landinu.

860711-5_her_281125.jpgmynd020.jpg

Einhver sýndi mér litla „bunu“ í Grímsá (minnir mig) á Snæfellsnesi og var hún varla hefur verið meira en rúmur meter á hæð en engu að síður bar hún nafnið Fjallfoss.

Foss er í hugum okkar flestra vatnsfall sem hefur rúma merkingu. Allt frá því að vera aðeins meira en óslitið rennsli og sjáanlegt fall, meira en flúðir.


mbl.is Stórfenglegir fossar í klettabelti innst á Morsárjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við eigum enga vini, þurfum að standa á eigin fótum

Staða málsins er nú nákvæmlega sú sem þjóðin óskaði eftir. Hún hafnaði öllum Icesave samningum og knúði þá aumu norrænu velferðarstjórn með allar sínar skjaldborgir til að fara að sínum skipunum. Í sjálfu sér er það gott að Árni Páll Árnason og nafni hans skuli nú gera það sem rétt er. Betra hefði verið að það hefði gerst fyrr.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur rétt fyrir sér. Málið er grafalvarlegt eftir niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA en við höfum sterkan málstað að velja. Á móti kemur sú staðreynd að við getum ekki treyst því að niðurstaða í dómsmáli sem höfðað verður gegn Íslendingum. Málstaður Evrópuríkja er einfaldlega sá að verði ríkisábyrgðin dæmd ógild myndi það hafa óheyrilegar afleiðingar fyrir fjármálastöðugleika í ESB.

Það er því mín spá að ESA mun leita allra ráða til að hafa áhrif á dómsniðurstöðurnar og skiptir þá engu hversu traust rök Íslendinga eru. Málið er því fyrirfram tapað.

Við Íslendingar eigum því miður enga vini í Evrópu, vinskapurinn dugar yfileitt ansi lítið í deilum milli þjóða Hvert ríki stendur með sínum sjónarmiðum gegn öllum öðrum. Þar af leiðandi á það að vera markmið Íslendinga að standa undir eigin rekstri og tilvist á eigin forsendum en ekki annarra.


mbl.is Órofa samstaða um málsvörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hóf er best í skattlagningu, óhóf veldur skaða

Ekki veit ég hvað er „meiri árangur í skattheimtu“. Staðreyndin er hins vegar sú að innheimta álagðs skatts hlýtur að byggjast á því hvort hann sé hóflegur. Dæmi sanna að einhvers staðar liggur lína sem kalla má þolmörk eða jafnvel þolinmæðismörk. Sé farið yfir hana brestur eitthvað.

Tökum einfalt neysludæmi. Mjólk þykir holl og sömuleiðis ávaxtasafi. Þessar tvær vörutegundir keppa sín á milli um hylli neytenda. Ef mjólkin hækkar og verður eitthvað dýrari en ávaxtasafi þá liggur í hlutarins eðli að sala á mjólk dregst saman en safinn selst betur.

Álögð gjöld á eldsneyti hefur það í för með sér að verðið hækkar og afleiðingin er sú að fólk dregur úr akstri. Þeir sem ekki eiga kost á því, t.d. íbúar víða á landsbyggðinni lenda einfaldlega í þeim ósköpum að ráðstöfunarfé þeirra minnkar.

Einhvers staðar liggja þolmörkin í áfengisverði. Hækki það mikið grípa margir til þess ráðs að brugga sinn eigin mjöð og jafnvel selja við lægra verði en áfengið í ríkinu. 

Sama hlýtur að gilda með skattinn. Hækki hann leita menn allra ráða til að losna við hann að hluta eða öllu leyti. Skattsvik hljóta að vera í beinu samhengi við hækkanir á skattprósentunni. Neiti stjórnvöld að trúa því þá er eðlilegt að menn segi að ná þurfi „meiri árangri í skattheimtu“. 

Hófleg skattheimta er skynsamlegri. Þá fær þorri fólks það á tilfinninguna að það taki því ekki að brúka einhver bellibrögð til að losna við að borga tiltölulega lítinn skatt.

Hér er einfaldlega verið að benda á að hóf er ekki síður hollt og gott í skattamálum en annars staðar.

Hins vegar þurfa stjórnvöld að vera þess meðvituð að fólk bregst við áreit á misjafnan hátt. Sumir láta sig hafa hækkanir á verðlagi og sköttum, aðrir eiga þess kost að bregðast við á einhvern hátt og þá fær Aðalsteinn Hákonarson, sviðsstjóri eftirlitssviðs RSK og kollegar hans nóg að gera.

Ég er ekki endilega viss um að þeir vilji vera í önnum við að finna upp nýjar og nýjar aðferðir til að auka árangurinn í skattheimtunni. Þá er þetta orðin einhvers konar glíma, endalaus krókur á móti bragði á báða bóga.

Því til viðbótar er ég ekki viss um að lítil þjóð hafi efni á að hafa fjölda manns í skattheimtu. Þá endar það eins og hjá Austur-Þjóðverjum þegar leynilögregla Stasi tók til sín æ meira af útgjöldum ríkisins og minna var til brýnni verkefna og að lokum hrundi kerfið. 


mbl.is Núverandi mannskapur nægir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðskattur, ónýttur tekjustofn fyrir Steingrím

Ég las í morgun góða grein eftir kunningja minn, Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann og formann Blóðgjafafélags Íslands. Þá datt mér í hug ónýttur tekjustofn fyrir Steingrím vin okkar Sigfússon, en hann sérhæfir sig í skattlagningu á Íslandi auk þess að vera fjármálaráðherra.

Í flestum rennur blóð, nema ef vera skyldi ríkisstjórninni. Allir framleiða blóð, svo fremi sem þeir eru á lífi. Renni blóðið ekki má gera ráð fyrir að viðkomandi sé dáinn.Nú, þessi framleiðsla er náttúruleg. Og vinsælt er að halda því fram að nýting á náttúrulegum auðlindum skuli skattleggja.

Steingrímur gæti sem best skattlagt blóð landsmanna. Gert til dæmis kröfu um það að hver Íslendingur skili 25 lítrum af blóði á ári eða borgaði í beinhörðum krónum til dæmis þúsund kall per líter. Þetta myndi þýða tekjustofn upp á 35 milljarða fyrir ríkissjóð og líklega helmingurinn innheimtist í krónum.

Þetta er auðvitað hin besta hugmynd. Ólafur Helgi Kjartansson þyrfti ekki lengur að hvetja menn til að gefa blóð, það verður beinlínis tekið. Blóðgjafafélagið verður síðan nokkurs konar áróðursapparat fyrir fjármálaráðherra og formaðurinn gæti brúkað kaskeit í embættiserindum þess.

Sé alveg fyrir mér hvernig blóðbankanum verði breytt í innheimtustofnun blóðskatts. Lögreglan dragi menn inn og léti tappa af þeim ... 

Embættisheiti Steingríms gæti líka lengst. Eftirlæt lesendum um að koma með tillögur.


Ófagleg vinnubrögð forsætisráðherra

Forsætisráðherra fór á svig við jafnréttislög og réði þann mann sem hún kaus að hafa nálægt sér í starfi skrifsstofustjóra ráðuneytisins en hafnaði þeim sem í raun var frambærilegri.

Nú segir forsætisráðherra á Alþingi að hún vilji leita sátta í málinu og koma þannig í veg fyrir að hæfasti umsækjandinn stefni ráðuneytinu fyrir dóm.

Þetta er alls ekki nógu gott. Forsætisráðherra getur ekki brotið viljandi jafnréttislög og skákað síðan í því skjólinu að ráðuneytið greiði bara bætur og málið er úr sögunni.

Þannig eiga stjórnvöld ekki að vinna. Þetta eru að auki ófagleg vinnubrögð og ber vott um virðingarleysi gagnvart umsækjendum um starf hjá hinu opinbera. 


mbl.is „Ég vil leita sátta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi misskilur stöðuna herfilega ...

Helgi Hjörvar alþingismaður talar eins og hann viti ekki um hvað barist er um. Hann veit ósköp vel að það sem skiptir mestu máli er atvinna fyrir 15.000 manns sem eru atvinnulausir í dag. Hins vegar baðar Helgi út öllum öngum, rétt eins og aðrir stjórnarsinnar, og reynir að beina athyglinni að allt öðru.

Þjóðin lifir í kreppu. Þúsundir manna hafa ekki atvinnu. Fyrirtækin í landinu eru mörg hver fjárvana og hins vegar er búið að skola burt skuldum annarra. Ójafnvægið er gríðarlegt.

Ofan á þetta er skuldastaða heimilanna. Ríkisstjórnin hefur tekið þá afstöðu að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin, nóg hafi verið gert fyrir þau rétt eins og vegna atvinnuleysisins.

Þetta er hrikaleg staða og aðeins vegna þessa verður að henda þessari ríkisstjórn út í ystu myrkur. Við þurfum á nýjum kosningum að halda. Kvótakerfið er ekki vandamál dagsins, ekki heldur stjórnarskráin, forsetinn eða Icesave. Hrunið er ekki einu sinni vandamál dagsins í dag. Það sem mestu skiptir eru þær lausnir sem meirihlutinn á Alþingi hefur fram að færa. Því miður eru þær engar.

Vandamál dagsins eru þeir sem ekki hafa vinnu og ástæðan fyrir því að atvinnulífið kemst ekki í gang. Helgi veit þetta en hann er bara málaliði sem er að vinna vinnuna sína, talar vélrænt og engin eldmóður að baki.


mbl.is Orrusta um auðlindir þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband