Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Jón er rökþrota og vegur að umsagnaraðilanum

Það er alltaf gamla sagan með þetta lið úr VG. Þegar það verður rökþrota þá er gripið til þess að skrökva. „Við höfum þjóðina með okkur ...“, segir Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og bliknar hvergi.

Auðvitað er þetta tóm þvæla og byggist ekki nema á umhverfi Jóns. Gallinn er bara sá að hann hlustar ekki á fólk. Hann veit ekki skoðun þjóðarinnar einfaldlega vegna þess að hann fylgist ekki með.

Jón getur ekki varið þetta blessaða frumvarp. Allir leggjast gegn því og sérfræðingurinn segir að frumvarpið sé illa gert. Hvað segir á Nonni: Grétar Áss er ekki alvitur. Rökþrota maður grípur til þess óyndisúrræðis að vega að manni persónulega. Þetta er ekki verjandi. 


mbl.is „Við höfum þjóðina með okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankin í eilífum PR vandræðum

„...lækka skuldir skilvísra viðskiptavina sinna ...“ Út af fyrir sig er þetta virðingarvert hjá Landsbankanum og koma jafnframt í veg fyrir að þeir skilvísu lendi í vanskilum síðar meir.

Hins vegar er þetta alveg dæmigert fyrir Landsbankann, þann auma viðskiptabanka minn, að hugsa ekkert um þá sem þegar hafa lent í vandræðum, gera þeim kleift að komast í skil. Staðreyndin er nú einu sinni svo að bankinn græðir stórar fjárhæðir á vanskilum.

Þetta minni mig á fundarherferð Landsbankans í vetur þegar hann vildi gefa almenningi kost á að tala við forráðamenn bankans. Bankinn bauð hins vegar ekki upp á fundi nema á stöku stað á landinu og alls ekki á öllum þeim stöðum þar sem hann er með útibú.

Eitthvað finnst mér þessi banki ekki ná neinum hæðum í almannatengslum sínum. Þvert á móti virðist flest sem hann gerir snúast upp í andhverfu sína. Þetta sést glögglega þegar frétt Morgunblaðsins er lesin.


mbl.is Markmiðið að stuðla að greiðslugetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattleggja út yfir gröf og dauða

Gríska leiðin hlýtur að vera mjög áhugaverð frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda. Ekki beinlínis þannig að ástæða sé til að draga í efa að íslenskir launþegar ríkisins séu ekki að mestu leyti tórandi. Heldur er meiri ástæða til að líta til þeirra sem sannarlega eru farnir yfir móðuna miklu. Þar getur nú verið tekjuleið, Steingrímur ...

Grikki hafa borgað þeim dauðu laun og líklega hafa þau verið skattlögð. 

Er ekki ástæða fyrir fjármálaráðherrann núverandi, þann mesta skattmann sem sest hefur í það embætti, að kanna hvort ekki sé hægt að skattleggja andaða launþega ríkisins?

Steingrímur, nú er um að gera að standa sig. Skattleggja fólk út yfir gröf og dauða ... 


mbl.is Eftirlaun út yfir gröf og dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld í Þýskalandi vita ekkert

Fréttaflutningur af kólígerlasýkingunni í Þýskalandi virðist benda eindregið til þess að stjórnvöld viti ekkert um uppruna hennar. Fyrst var agúrkur og tómatar frá Spáni sagði smitberar en Spánverjar ætluðu ekki að láta Þjóðverja kenna sér um og hótuðu málsókn.

Það lá því beinast við fyrir Þjóðverja að finna blóraböggul innanlands og hann fannst í miklum flýti. Þeir völdu baunaspírur, líklega vegna þess að salan í þeim er minni en í öðrum tegundum grænmetis. Því miður var hamagangurinn svo mikill að ekki reyndist mögulegt að sanna áburðinn á þann framleiðanda sem valinn var til að taka skellinn.

Stjórnvöld vita ennþá ekkert í sinn haus um uppruna sýkingarinnar. Þessi staðreynd er dálítið uggvekjandi fyrir heimamenn og ekki síðar aðra.


mbl.is Kólígerlar ekki á baunaspírum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðbergur Bergsson og einn flugvöllur á Spáni

Rithöfundar eru þeir einu sem eru fullkomlega í anda frjálshyggjunnar, þeirra vinna er frjálst framtak og einstaklingshyggja.“ Guðbergur segir ekki hægt að kenna frjálsu framtaki um hrunið. Hrunið eigi rætur í græðgi ...

Þetta er úr viðtali við Guðberg Bergsson í DV. Hann er undarlegur fýr; rithöfundur, gleðimaður og prisípmaður. Hann er á leiðinni til Spánar. Þar ætlar hann að afsala sér hluta af arfi (hvernig skyldi það nú vera gert?). Sá er Alicante flugvöllur á austurströndinni. Stór og mikill flugvöllur og svo virðist sem hann sé afar verðmætur þó ekki sé hann stærstur.

Wikipedia segir mér að á síðasta ári hafi 9,4 milljónir farþega farið um völlinn, 74 þúsund flug og þrjú þúsund tonn af vörum. Þetta þýðir að hann er sjötti stærsti á Spáni og einn af 50 stærstu í Evrópu.

Flugvöllurinn hét áður El Altet og var opnaður 4. maí 1967, á valdatíma einræðisherrans Francisco Paulino Hermenegildo Teódulo Franco y Bahamonde sem ríkti á Spáni þar til hann hrökk upp af 1975 og var fáum harmdauði. Stjórn hans mun hafa tekið lönd eignarnámi til að búa til Alicante flugvöll og er það ástæðan fyrir því að hinn íslenski rithöfundur vill ekkert með flugvöllinn hafa.

Frá upphafi borgarastríðsins, 17. júlí 1936, á Spáni voru íbúar Alicante að langmestu leyti hliðhollir lýðveldissinnum. Borgin féll þó þremur árum síðar ekki síst vegna loftárása. Franco naut við þær stuðnings ítalskra fasista.

Margt hefur breyst á liðnum áratugum á Alicante. Líklegast er sú mest að senior Bergsson frá Islandia hefur eignast flugvöllinn. Og nú ætlar hann út með lögfræðingi sínu og þvo hendur sínar af forugri fortíð vallarins. 

Ég er ekki sammála Guðbergi. Mér finnst að hann eigi að selja flugvöllinn hæstbjóðanda og koma heim með hluta andvirðisins og leggja í framleiðsluatvinnuvegi á Íslandi. Við þurfum á fjárfestingum að halda.

Spánverjar eru þó í miklu meiri neyð en Íslendingar. Þess vegna á Guðbergur að leggja stærsta hlutann af sölu Alicante flugvallar í framleiðsluatvinnuvegi á Alicante svæðinu. Tileinka það lýðveldissinnum og þeim sem Francó stal landinu frá til að búa til flugvöll.

Peningar eru afl þess sem gera þarf. Prinsípmaður sem starfað hefur alla sína tíð í „anda frjálshyggjunnar“ verður ekki skotaskuld úr því að láta fjármagnið vinna græðgislaust, öllum til hagsbóta.

Þar verður ekki hrun er prisípmenn halda vakandi auga yfir verðmætasköpuninni.  


Dómstóll götunnar í boði ríkisins ...

Margir hafa tekið eftir því hversu oft Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur reynst vera glöggskyggn á þjóðlífið þaðan sem hún nú stendur á hliðarlínunni.

Hún gagnrýnir saksóknara Alþingis með fáum en meitluðum orðum og í þeim er kjarni málsins falinn:

Hvernig dettur henni í hug að ákæruvaldið sé rétti aðilinn til að halda úti trúverðugri vefsíðu um landsdómsmálið? Og svo býðst hún til að gera þar grein fyrir sjónarmiðum hins ákærða!

Um þetta dæmalausa og ótrúlega mál er varla fleira að segja nema ef til vill sú grunsemd sem læðist að svo mörgum að upphefð saksóknara hafi einfaldlega stigið henni til höfuðs og ruglað dómgreindina. Sé svo er ekki við góðu að búast á öðrum sviðum málareksturs hennar gegn fyrrverandi forsætisráðherra.


mbl.is Saksóknari tapað áttum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saksóknari á ekki að standa í áróðursstríði

Það er ekki verkefni saksóknara, hvorki Alþingis, sérstaks né saksóknara ríkisins að halda úti vefsíðu um málarekstur sinn. Það geta aðrir gert. Vefsíða er hluti af áróðri sem saksóknari á ekki að standa að, hvorki beint né óbeint.

Vefsíða saksóknara Alþingis er gjörsamlega óþörf. Saksóknari bítur svo höfuðið af skömminni með því að bjóða hinum ákærða afnot af síðunni.

Almenningur hlýtur að sjá að svona á ekki að sinna málarekstri á Íslandi, að minnsta kosti á ákæruvaldið ekki að gera það.

Saksóknari Alþingis gerði mikil mistök með því að opna þessa vefsíðu. Hann getur dregið út skömm sinni með því að loka henni hið snarasta. 


mbl.is Verjanda velkomið að vera með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálftar við Tungnakvíslajökul

Það vekur athygli leikmanna eins og mín hversu viðvarandi jarðskjálftar, þó frekar litlir, eru við upptök Tungnakvíslajökuls. Sá fellur til úr Mýrdalsjökli til vesturs. Þarna hafa verið jarðskjálftar í lengri, lengri tíma. Það þýðir á leikmannamáli ábyggilega meira en tvö ár.

Þannig jarðskjálftar voru líka í nokkuð langan tíma við upptök Steinsholtsjökuls en sá fellur til norðurs úr Eyjafjallajökli. Þeir enduðu að lokum í eldgosi.

Ekki eru þó allir jarðskjálftar fyrirboðar um eldgos. Finnst mér þó ansi mikið íshrun úr Tungnakvíslajökli og ári lengi. En hvað vitum við leikmenn? 


mbl.is Skjálftar mældust við Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegið að mannorði með PR herferð

Það er einstakt að saksóknari opni vefsíðu þar sem hann viðrar gögn gagnvart ákærðum manni. Þannig gera þeir einir sem standa í áróðurs- og hatursherferð og vilja ná fá almenning í lið með sér. Má búast við því að saksóknari birti öll sín gögn á þessari vefsíðu þar sem hann einhliða reynir að eyðileggja mannorð hins ákærða. Í þessu sambandi verður að muna að ekki eru öll gögn sem saksóknari leggur fram þess eðlis að þau verði til að ná fram sakfellingu. Eðli mál samkvæmt mun fjölda þeirra verða vísað frá með þeim rökstuðningin að þau skipti engu fyrir málssóknina. Eða mun verjandi fá pláss á vefsíðunni til að skýra út sjónarmið verjanda. 

Þá eru nú málaflækjur orðnar um allt frábrugðnar þeim sem hingað til afa tíðkast hér á landi. 

PR herferð saksóknara er greinilega ætlað að dreifa athygli almennings og ná fram samúð með málssókninni og andúð gegn fyrrverandi forsætisráðherra sem Alþingi ákvað með meirihluta pólitískra andstæðinga hans að ákæra fyrir landsdómi. Og í þokkabót er síðan líka á ensku.

Ákæruvaldið á að vinna vinnu sína en ekki bera hana á torg. Nóg er sam á einn mann lagt að sækja hann til saka fyrir Landsdómi. Nú er ætlunin að eyðilegga mannorð manns áður en dómur gengur.

Á vefnum er látið sem ekkert hafi í skorist. Engin tilraun gerð til að skýra út fyrir almenningi hvers vegna að hálft ár leið frá því að saksóknari gaf út ákæru. Engin skýring er heldur á því að framlengja þurfti kjörtíma landsdóms. Engin skýring er heldur á því hvers vegna ákæran er því sem næst samhljóða niðurstöðum Atlanefndarinnar. Engin skýring er á því hvað saksóknari hafi verið að gera frá því hann var skipaður. Eina sem uppúr stendur er að hann hefur opnað heimasíðu.


mbl.is Opnar vefsíðu um mál Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir klofnir í herðar niður ...

Fyrir síðustu Alþingiskosningar heyrðist oft sagt að Vinstri grænir væru heiðarlegir og málefnalegir. Þeir stæðu fastir á málefnum og þrátt fyrir að tíminn liði breyttu þeir ekki um skoðun. Þetta átti við um utanríkismál, umhverfismál, fjármál og margt fleira. Þetta var meðal annars ástæðan fyrir góðri útkomu þeirra í kosningunum.

Nú heyrast þessar raddir ekki lengur.  Vinstri grænir eru klofnir í herðar niður. Ásmundur Daði kominn í Framsóknarflokkinn og Atli og Lilja hafa sagt sig út þingflokki VG. Meira að segja innan ríkisstjórnarliðs VG er óeining. Þar er Jón Bjarnason, sjávarútvegsö og landbúnaðarráðherra, einn í ólgusjó Samfylkingarinnar, og líkur benda til að hann eigi eins og Ásmundur Daði miklu meiri samleið með Framsóknarflokknum.

Þeir sem hrökklast hafa úr VG bera þingflokkinn ekki góða söguna. Þar hefur síst af öllu ríkt heiðarleiki og málefnaleg vinna. Þar hefur allt verið svikið í utanríkismálum, umhverfismálum, fjármálum og margt fleira.

Svo stendur fjármálaráðherra einn upp og með veikum rómi reynir hann að sannfæra landsmenn um að eignabruninn vegna hrunsins hafi ekki bitnað neitt sérstaklega á almenningi. Þeir trúa honum sem enn standa keikir eftir hrunið, sérstaklega erlendir kröfuhafar bankanna, þeir soga til sín hagvöxtinn þessi misserin. 

Það er segin saga að erfitt er að losa sig úr lygavef. Þess vegna megum við búast við því að VG reyni að leiða umræðuna á einhverjar allt aðrar götur, villigötur. Þeir hafa lagt fram frumvarp um úrsögn úr Nató, þeir eiga eftir að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið, þeir eiga eftir að krefjast þess að tóbak verði selt í apótekum, þeir eiga eftir að krefjast friðlýsingar landssvæða, þeir eiga ótalsinnum eftir að benda á frjálshyggju og kapítalisma sem ástæðuna fyrir hruninu og þeir eiga eftir að krefjast rannsóknar á þátttöku Íslands í stríðinu í Íran (... nei, auðvitað gera þeir það ekki, það beinir augum almennings á þátt VG í stríðinu í Líbíu).

Aldrei nokkurn tímann hefur einn stjórnmálaflokkur gert jafnmikið á sig á jafn stuttum tíma eins og Vinstri grænir. Þeir eru ekki stjórntækir, þeir eru í eðli sínu stjórnarandstöðuflokkur. 


mbl.is „Má segja að ég sé kominn heim“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband