Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Ó, hvað þetta er yndislegt

Nú fer áróðurinn fyrir ESB aðild Íslands að verða eins og hvatningahróp á fótboltaleik í útlandinu. „Áfram Ísland“, og Íslendingar falla áreiðanlega í stafi.

Eða er þetta ekki að verða eins og í spurningaleiknum Útsvar sem var á dagskránni í Ríkissjónvarpinu í vetur: „Áfram Húsavík, við stöndum með okkar mönnum. Rakarastofan.“

Og í Austurríki hljómar hvatningin svona: Áfram Ísland, við höldum með ykkur ...

Auðvitað er þetta ekkert annað en áróður fyrir ESB aðild, hversu fjarlægur sem hann kann að virðast. Næst kemur hvatning frá Frakklandi í einhverri annarri mynd, þá frá Póllandi og svo framvegis.

Ó, hvað þetta er yndælt fólk í Evrópusambandinu. Sýnum því kurteisi og göngum í ESB ... eða þannig.


mbl.is 30,7% lesenda AT vilja Ísland í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíminn í ógöngum í Sádi-Arabíu

Konur í Sádi-Arabíu búa í steinrunnu kerfi. Andlit konungsfjölskyldunnar sjást um allt, andlit kvenna eru bak við slæðu, hulin með valdi. Hvergi annars staðar í heiminum er nútíminn í öðrum eins ógöngum. Skýjakljúfar rísa úr eyðimörkinni, en konur mega ekki taka sömu lyftu og karlar. Þær mega ekki heldur ganga um götur, aka bíl eða fara úr landi án leyfis karlkyns vörslumanns.
 
Af mörgum góðum aðsendum greinum í Morgunblaðinu í morgun, 23. júní, er sú eftir Mai Yamani sú átakanlegasta. Hún ræðir um stöðu kvenna í Sádi-Arabíu og eins og má lesa hér að ofan eru konurnar eiginlega ekkert annað en húsdýr. Þær hafa eiginlega engin réttindi á borð við karla.
 
Höfundurinn, Mai Yamani er fædd í Egyptalandi, móðir hennar er frá Íran og faðirinn frá Saudi-Arabíu. Hún er vel menntuð, lærði mannfræði á vesturlöndum, hefur kennt í Sádi-Arabíu en er nú eftirsótt sem álitsgjafi um Islam og stjórnmál í arabalöndum.
 
Í greininni segir hún frá borgaralegri óhlýðni kvenna:
 
21. maí rauf hugrökk kona, Ma- nal al Sharif að nafni, þögnina og doðann og dirfðist að brjóta bannið við að konur setjist undir stýrið. Í viku mátti hún dúsa í fangelsi í Sádi-Arabíu. Innan tveggja daga frá því að hún var sett í hald höfðu 500 þúsund manns horft á ferðalag hennar á YouTube. Þúsundir kvenna, óþreyjufullar og niðurlægðar vegna bannsins, studdu „ökudag“ 17. júní og tóku samkvæmt baráttusíðunni á Facebook 42 konur þátt í að brjóta bannið. 
 
Af þessu og fleiru má ráða að konur eru tvímælalaust það afl sem einræðisstjórnir í arabalöndum þurfa mest að óttast. Rísi þær upp, allar sem ein, munu hinar friðsömu byltingar í Egyptalandi og Túnis virðast sem gárur á vatni í samanburðinum. Bylting arabískra kvenna munu gjörbreyta arabaheiminum öllum hvort sem körlum líkar það vel eða illa.

Stórir og litlir verktakar horfnir

Ögmundur Jónasson talaði um að stórir verktakar vildu fara í vegaframkvæmdir utan ríkisreiknings. Það er einfaldlega rangt hjá honum því það eru engir stórir verktakar til lengur,“ segir Árni og bendir á að stærstu fyrirtækin eins og Ístak og ÍAV einbeiti sér nú að nýjum verkefnum erlendis, eins og við jarðgangagerð í Noregi. Þeir verktakar fari utan sem eigi kost á því.

Þetta eru sláandi upplýsingar en þó er ekki öll sagan sögð. Fyrir það fyrsta kemur það eflaust flestum á óvart að stóru verktakarnir eru ekki til lengur. Þeir eru farnir.

En hvað með þá litlu, einstaklinganna með einföld tæki, ekki aðeins í mannvirkjagerð heldur þessa verktaka sem eru víðast tilbúnir til að sinna öllum þeim verkefnum sem gefast; iðnaðarmenn eins og rafvirkja, málara og húsasmiði, einstaklinga með sendibíla eða stærri flutningstæki, gröfumennina sem ýmist ryðja snjó af götum og bílastæðum eða sinna öðrum vekrefnum þegar jörð er auð ... Þeir eru líklega flestir farnir, þó ekki á atvinnuleysisskrá heldur hafa þeir lent milli stafs og hurðar í langan tíma áður en þeir komast á þá skrá, komist þeir þangað einhvern tímann.

Þetta er fólkið sem ríkisstjórnin hefur gleymt, fólkið sem Vinnumálastofnun veit ekkert um.

Og þá er komið að því viðurnefni sem ríkisstjórnin tók sér í upphafi, norræn velferðarstjórn. Hún stendur ekki undir því nafni, hafi það einhvern tímann haft einhverja meiningu. Þetta er ógæfusamlegt ríkisstjórn. Hún er í eðli sínu harmleikur, því þrátt fyrir góðan vilja þá hefur hún hvorki þekkingu né vilja til að takast á við vandamálin. Hún snérist strax í það að verða steinrunnin stofnun, búið til skattaáþján, atvinnuleysi og landflótta. Er þá aðeins fátt eitt upptalið af ógæfuverkum hennar.


mbl.is Staða verktaka „skelfileg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar í Esjunni?

Gott er að Landhelgisgæslan bjargaði tveimur mönnu frá Esjunni. En klettar hennar eru margir og þeir eru víða. Sumir eru brattir, aðrir ekki. Víða er hátt upp í þá, annars staðar liggja þeir lægra. Frá höfuðborgarsvæðinu sjást ekki allir klettar Esju, þeir eru nefnilega líka norðan megin. 

Ekki í fyrsta sinn klikkar Mogginn minn á landafræðinni. Hjá Landhelgisgæslunni liggur ljóst fyrir hvar mennirnir lentu í sjálfheldu. Er ekki í lagi að segja frá því? Esjan er gríðarstór og margir hluta hennar bera nöfn.


mbl.is Mönnunum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru höfundarnir?

Hverjir skyldu nú hafa skrifað þessa skýrslu, starfsmenn OECD eða starfsmenn fjármálaráðuneytisins undir pólitískri leiðsögn.

Fjármálaráðherra gagnrýndi oft hér á árum áður skýrslur OECD og fullyrt að uppistaðan í þeim væri frá fjármálaráðuneytinu.

Nú er ekki úr vegi að spyrja hvort að allur sá fagurgali í skýrslu OECD um þróun íslensks efnahagslífs sé ættaður frá gagnrýnandanum sjálfum eða endurspegli vonir og þrár þess sem er skrifaður fyrir henni?

Staðreyndin er einfaldlega sú að útgefandi og höfundur skýrslunnar að þessu sinni er ekki sami aðilinn. Þarf eitthvað frekar að ræða skýrsluna efnislega?

 


mbl.is Á leið út úr efnahagsvanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ferðafélag Íslands

Vel virðist ganga hjá Ferðafélagi Íslands þessi misserin. Rífandi gangur er í félaginu, nýjungar eru margar og fjölmargir frískir ferðalangar leggjast á árarnar og fleyta þessu gamla og góða félagi fram á við eftir nokkuð langan tíma stöðnunar.

Það er því ágætt að Ferðafélagið kaupi skálasvæðið í Húsadal og styrki þar með starfsemi sína. í rúmt ár hafa og jafnvel lengur hafa nokkrir ferðafélagsmenn unnið að gamalli hugmynd um göngubrú yfir Markarfljót. Verði hún að veruleika mum Húsadalur verða fyrsti kostur þeirra sem nýta sér hana. Aðstaðan í Langadal er lengra í burtu og Útivist er þriðji og sísti kosturinn fyrir þetta fólk, fyrst og fremst vegna vegalengdarinnar. Þetta eru stærstu kaup Ferðafélagsins síðan það keyti aðstöðuna í Hvanngili við Fjallabaksveg syðri.

Næst virðist vera á dagskránni hjá Ferðafélaginu að rífa þann forljóta og leiðinlega skála sem réttnefndur er Fúkki. Hann er á Fimmvörðuhálsi, á endastöð vegarslóðans. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef verður þetta gert síðla sumar og nýji Fúkki verður eins og sá gamli, svokallaður A skáli.

Gangi þetta eftir þrengist nú aðeins um Útivist sem hefur haft aðstöðu sína á Fimmvörðuhálsi og í Básum í langan tíma. Útivist hefur eftir því sem ég best veit engin plön um að stækka Fimmvörðuskála sinn og virðist vera sátt við aðstöðu sína í Básum. Ekki lítur út fyrir annað en að Útivist ætli sér að vera áfram lítið og sætt Básafélag. Án efa er markaður fyrir slíkt en óneitanlega sakna margir þeirra tíma er félagið óð út um allt land, var í fararbroddi með trússferðir, jeppaferðir og hjólaferðir. Fór sjaldnast í spor annarra heldur byggði upp víða og nam land, tild dæmis sunnan Torfajökuls.

Um leið og maður óskar Ferðafélaginu til hamingju með drift og dugnað fer ekki hjá því að söknuður bærist í hjarta vegna síns gamla félags sem er nú nær því að vera eins og Ferðafélagið var um langt skeið, þugnlamaleg og svifasein stofnun. 


mbl.is Ferðafélagið kaupir Húsadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver greiðir, skilanefndin eða íslensk stjórnvöld?

Hollt og gott væri nú að fá á því skýringu hver mun inna af hendi greiðslur til Breta og Hollendinga. Hvort það er þrotabú/skilanefnd gamla Landsbankans sem vélar um uppgjör í búinu og hefur samskipti við kröfuhafa hvaða nafni sem þeir nefnast og sér um innheimtur og sölu eigna? Eða er það íslenska ríkið sem gerir í raun ekkert af áðurnefndu?

Eftir því sem ég best man hefur skilanefnd gamla Landsbankans gefið það út að eignir hans muni standa undir rúmlega 90% af Icesave reikningunum. Þar af leiðir að að það er ekki Ísland né íslenska ríkið sem mun greiða þessar skuldir heldur skilanefndin eða þrotabúið. 

Grundvöllur synjunar á Icesave samningunum var sá að skuldin kæmi ekki íslenskum almenningi og þar af leiðandi stjórnvöldum hér við. 


mbl.is Byrjað að greiða í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brestur í vinskap Seðlabanka og ríkisstjórnar?

Maður fer nú að hafa áhyggjur af því að eitthvað hafi slest upp á vinskapinn milli Seðlabankastjóra og ráðherranna, forsætis- og fjármála.

Eins og það var nú gaman þegar allt lék í lyndi og ríkisstjórnin var búin að losa sig við Davíð Oddsson og hina seðlabankastjóranna. Og muniði þegar Jóhanna ákvað að borga Má hærri laun en leyfilegt er samkvæmt reglunum. Þvílíkir prakkarar. Og svo spiluðu þau ping pong saman; ríkisstjórnin sagðist vera að vinna í efnahagsmálum og Seðlabankinn svaraði með því að hæla ríkisstjórninn fyrir efnahagsstefnuna. Og ríkisstjórnin barðist gegn hagmunum heimilanna og Seðlabankinn gekk í hjónaband með Fjármálaeftirlitinu og svo túlkuðu þau hæstaréttardóminn um gengisbundin lán bönkunum í hag.

... ó, hvað þetta voru nú góðir dagar.

En núna vogar Seðlabankinn að segja að verðbólgan sé á uppleið og „ef núverandi gengi krónunnar styrkist ekki á næstunni þá er útlit fyrir að launahækkanir sem felast í nýgerðum kjarasamningum vera meiri en samræmist verðbólgumarkmiðinu til lengdar.“ Það gengur auðvitað ekki ... Ríkisstjórnin á ekkert pong við því.

Við skulum nú vona að allt lagist nú á milli þessara indælu leikfélaga, Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. 


mbl.is Vaxtahækkun líkleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi og einkavinavæðing

Í lok maí voru 13.296 án atvinnu hér á landi. Því til viðbótar fluttu um tvö þúsund vinnufærir af landi brott umfram aðflutta. Atvinnuástandið er með öðrum orðum skelfilegt og fer því miður ekki batnandi.
Á bak við þessar tölur er mikil þjáning, ekki aðeins hinna atvinnulausu heldur einnig þeirra nánustu. Á sama tíma gera stjórnvöld ekkert annað í atvinnumálum en þvælast fyrir, hækka skatta, hindra nýsköpun og vega að grónum atvinnugreinum.
 
Tvær greinar í Morgunblaðinu í morgun vöktu athygli mína. Annars vegar síðari leiðari blaðsins en ofangreind tilvitnun er úr honum. Þetta verður ekki betur orðað. Þó margt sé hægt að finna að störfum norrænu velferðarstjórnarinnar þá verður meðhöndlun hennar á atvinnuleysi og atvinnulífi henni til ævarandi skammar.
 
Hin greinin sem mér fannst góð er á blaðsíðu 20 og er eftir Halldór Friðrik Þorsteinsson og ber fyrirsögnina Byr í boði hins opinbera. Þetta er afar góð grein og hafi einhvern tímann verið ástæða til að tala um einkavinavæðingu þá er það í uppgjöri Byrs.
 
Halldór segir í niðurlagi greinarinnar: 
 
Málið er enn alvarlegra þegar litið er til þess umboðs sem málsaðilar hafa. Slitastjórnarfólk þiggur umboð sitt frá Héraðsdómi Reykjavíkur og eru því opinberir sýslunarmenn. Stjórn Byrs er skipuð af fjár- málaráðuneytinu til að gæta al- mannahagsmuna og sjá til þess að góðir viðskiptahættir séu hafðir í fyr- irrúmi. Með vali sínu á fyrirtæki sem augljós þríþætt hagsmunatengsl ættu að útiloka frá allri aðkomu yf- irleitt, skapar stjórnin tortryggni í kringum verkefnið og teflir árangri þess í tvísýnu. Það verða seint talin fagleg vinnubrögð. 

Svört vinna handan sársaukamarka

Fyrir öllu eru takmörk. Ég hef áður nefnt það að einhvers staðar liggur lína sem kalla má þolmörk eða jafnvel þolinmæðismörk. Sé farið yfir hana brestur eitthvað. 

Það gengur sannarlega út yfir allan þjófabálk að ráðast í „sérstakt átak til að hvetja til þess að atvinnurekendur og launþegar standi rétt að samningum sín á milli,“ eins og segir í þessari frétt mbl.is.

Þegar skattheimta er orðin svo mikil eins og hún er hér á landi bresta þolmörk og til verða sársaukamörk. Hvað á sá að taka til bragðs sem hefur um það að velja að vinna sér inn 100.000 krónur á svörtu eða fá aðeins 52.000 krónur.

Ég þekki fjölda fólks sem eru í þeim aðstæðum að grípa fegins hendi eitt hundrað þúsund krónurnar. Ég þekki líka fólk sem býsnast yfir því að þá sé verið sé að stela frá samfélaginu, leggja ekki það til sem þarf, fólk sem talar fjálglega um heilbrigðismál og félagsmál en hefur aldrei staðið í þeim sporum að þurfa að skrapa botninn á buddunni til að eiga fyrir nauðsynjum.

Ríkisskattstjóri segir að „vísbendingar væru um að svört atvinnustarfsemi hefði aukist að undanförnu“. Þetta er rétt hjá honum. Til viðbótar má þess geta að opinberar álögur á eldsneyti hafa dregið úr akstri fólks, þrengt í ólinni hjá landsbyggðarfólki. Fólk bruggar, stendur í skiptivinnu, bílar eldast og hægt er að láta gera við bílinn svart, hægt er að kaupa gistingu á svörtu og Samfylkingin heldur fundi í skólum til að þurfa ekki að greiða hótelum eða veitingastöðum uppsett verð fyrir salarleigu.

Skítlegt ástand í boði ríkisstjórnar vinstri flokkanna. Og nú eigum við „að standa rétt“ að málum annars kemur Skúli Eggert á eftir manni. 


mbl.is Meira um svarta vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband