Hóf er best í skattlagningu, óhóf veldur skaða

Ekki veit ég hvað er „meiri árangur í skattheimtu“. Staðreyndin er hins vegar sú að innheimta álagðs skatts hlýtur að byggjast á því hvort hann sé hóflegur. Dæmi sanna að einhvers staðar liggur lína sem kalla má þolmörk eða jafnvel þolinmæðismörk. Sé farið yfir hana brestur eitthvað.

Tökum einfalt neysludæmi. Mjólk þykir holl og sömuleiðis ávaxtasafi. Þessar tvær vörutegundir keppa sín á milli um hylli neytenda. Ef mjólkin hækkar og verður eitthvað dýrari en ávaxtasafi þá liggur í hlutarins eðli að sala á mjólk dregst saman en safinn selst betur.

Álögð gjöld á eldsneyti hefur það í för með sér að verðið hækkar og afleiðingin er sú að fólk dregur úr akstri. Þeir sem ekki eiga kost á því, t.d. íbúar víða á landsbyggðinni lenda einfaldlega í þeim ósköpum að ráðstöfunarfé þeirra minnkar.

Einhvers staðar liggja þolmörkin í áfengisverði. Hækki það mikið grípa margir til þess ráðs að brugga sinn eigin mjöð og jafnvel selja við lægra verði en áfengið í ríkinu. 

Sama hlýtur að gilda með skattinn. Hækki hann leita menn allra ráða til að losna við hann að hluta eða öllu leyti. Skattsvik hljóta að vera í beinu samhengi við hækkanir á skattprósentunni. Neiti stjórnvöld að trúa því þá er eðlilegt að menn segi að ná þurfi „meiri árangri í skattheimtu“. 

Hófleg skattheimta er skynsamlegri. Þá fær þorri fólks það á tilfinninguna að það taki því ekki að brúka einhver bellibrögð til að losna við að borga tiltölulega lítinn skatt.

Hér er einfaldlega verið að benda á að hóf er ekki síður hollt og gott í skattamálum en annars staðar.

Hins vegar þurfa stjórnvöld að vera þess meðvituð að fólk bregst við áreit á misjafnan hátt. Sumir láta sig hafa hækkanir á verðlagi og sköttum, aðrir eiga þess kost að bregðast við á einhvern hátt og þá fær Aðalsteinn Hákonarson, sviðsstjóri eftirlitssviðs RSK og kollegar hans nóg að gera.

Ég er ekki endilega viss um að þeir vilji vera í önnum við að finna upp nýjar og nýjar aðferðir til að auka árangurinn í skattheimtunni. Þá er þetta orðin einhvers konar glíma, endalaus krókur á móti bragði á báða bóga.

Því til viðbótar er ég ekki viss um að lítil þjóð hafi efni á að hafa fjölda manns í skattheimtu. Þá endar það eins og hjá Austur-Þjóðverjum þegar leynilögregla Stasi tók til sín æ meira af útgjöldum ríkisins og minna var til brýnni verkefna og að lokum hrundi kerfið. 


mbl.is Núverandi mannskapur nægir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband