Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Pólitísk afskipti í gegnum fjölmiðla

Óþægileg þversögn er í fréttatilkynningu Bankasýslu ríkisins. Hún þvær hendur sínar af ákvörðun stjórnar Arion banka, telur fulltrúa ekki hafa gert neitt óeðlilegt en engu að síður hefur hún ákveðið að skipa ekki sama fulltrúa í stjórnina.

Þetta bendir einungis til þess að Bankasýslan hafi fengið tiltal úr stjórnarráðinu, beint frá Jóhönnu eða Steingrími, þess efnis að ríkisstjórnin muni ekki sætta sig við að þessi voðalegi fulltrúi setjist í stjórn Arion eftir næsta aðalfund.

Um þetta hefur forsætisráðherra geypað síðustu daga og vart getað haft hemil á óánægju sinni. Skýrari geta nú ekki pólitísku boðin verið til Bankasýslunnar en þau sem send eru út í fjölmiðlum. Og hver veit hvað gerst hefur í þeim bankherbergjum sem fjölmiðlar og almenningur hafa ekki aðgang að. 

Svo er það annað mál að jafnan þegar allt gengur á afturfótunum hjá ríkisstjórninni láta ráðherrarnir sem svo að smámálin séu stóru málin og við þau eigi þau allskostar. Um leið eru stóru málin orðin að smámálum sem engin ástæða er til að hafa áhyggjur af. Hvernig skyldi annars staðan vera með atvinnuleysið í landinu, uppbyggingu atvinnulífsins, stöðuna á Suðurnesjum, byggðamálin, gengismálin, vaxtamálin, fjárhagstöðu heimilanna ...? Þarf ég að halda áfram?

Nei. Jóhanna Sigurðardóttir skammast út í háu launin eins og það þau skipti einhverju máli. En því miður fækkar ekki atvinnulausum þótt forsætisráðherran blási og fnæsi eins og henni er einni lagið. En hún getur væntanlega tekið upp símann og hringt í fjármálaráðherrann og sagt: Jæja, Steingrímur, sástu hvernig ég afgreiddi Bankasýsluna ...? 


mbl.is Skipt um fulltrúa ríkis í bankaráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að reita foreldra til reiði og ekki von á góðu

Án stefnuskrár náði Jón Gnarr og flokkur hans kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur og stofnaði til meirihlutasamstarfs við Samfylkinguna. Tæpu ári síðar mótmælir blómi Reykjavíkur, foreldrar barnanna í skólum borgarinnar, stefnuleysi þessara sömu aðila.

Er þetta ekki nöturlegt? Nýr flokkur kemur fram, býður upp á nýtt og án efa gott fólk en hefur nú ekkert fram að færa nema reita þá til reiði sem síst skyldi og það vegna smáaura. Stefnuleysið er algjört, engin stefnuskrá til að vinna eftir, ekkert nema grínið sem lagt var upp með en hefur nú snúist upp í andstæðu sína rétt eins og nafn flokksins. 

Gerir borgarstjórnarmeirihlutinn sér ekki grein fyrir því hversu mikilvægir foreldrarnir eru fyrir borgina, fyrir allt samfélagið? Þetta er hvorki meira né minna en fólkið sem býr til börnin, elur þau upp, er kjarninn í efnahag samfélagsins, uppistaðan í atvinnulífinu, stefnumótendur framtíðarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Enginn ætti að reyna að gera þetta fólk að fífli. Það lætur hvorki Gnarr né aðra fikta í framtíð barnanna sinna, til þess er þeim málið allt of skylt.

Og reynsluleysi og glámskggni meirihlutans í borgarstjórn verður honum að falli því foreldrarnir eru svo fjölmennir að þeir geta dregið fram úr sínum röðum sérfræðinga á öllum sviðum. Meirihlutinn getur ekki einu sinni kallað til starfsmenn eða embættismenn borgarinnar sér til aðstoðar, því þeir eiga ekki nokkurn möguleika í að hrekja málstað foreldra. Best gæti ég trúað að stærsti hluti starfsfólks borgarinnar hafi einfaldlega megnustu andstyggð á framferði Gnarristanna, að minnsta kosti er það þannig með þá sem ég þekki og hef rætt við um þessi mál.

Samráð er samráð í orðsins fyllstu merkingu. Stjórn sveitarfélags, hvort sem það er lítið eða stórt, byggist á mildi en engu að síður festu. Lýðræði er ekkert annað en almennt samráð. Sé borgarsjóður blankur þarf að taka á þeim vanda á breiðum grundvelli og innan hans eru foreldar í borginni.

En er borgarsjóður blankur? Sjá menn fram á að hann verði blankur? Svarið er NEI. Borgarsjóður stendur ágætlega en hins vegar er sjálfsagt að hafa vara á sér á síðustu og verstu tímum.

Þess í stað veður Gnarrinn og félagar hans áfram án tillits til foreldra. Í skólum borgarinnar vofa yfir uppsagnir, mórallinn eru orðinn slæmur og enginn veit hvort hann fær að halda áfram störfum eða verði látinn hætta. Þetta eru ekki góðir stjórnunarhættir.

Tilraunastarfsemi borgarstjórnarmeirihlutans verður að linna. Í ljósi þess að ekki verður kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur fyrr en eftir þrjú ár er ástæða til að beina þeirri ósk, sem svo margir Reykvíkingar bera í brjósti, til meirihlutans að Jón Gnarr og félagar hans hreinlega segi sig úr borgarstjórn og eftirláti öðrum stjórn borgarinnar.

Flestum er orðið fyllilega ljóst að Jón ræður ekki við starf sitt, hann hefur engan undirbúning undir það, leggur ekkert til og skilur fæst. Dettur einhverjum í hug að borgarstjórinn muni úr þessu ná að verða stefnumótandi í rekstri borgarinnar eða stjórnmálum?

Já, eitt hundrað milljónir eru ekki milljarður, en betra hefði verið að vita það fyrirfram.


mbl.is Undirskriftir gegn breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk sem fórnar sér svo aðrir megi lifa

Hver er drifkraftur manna þegar hætta steðjar að? Mbl.is segir frá Líbíumanninum Mohammed Nabbous sem setti myndir um uppreisnina gegn Gaddafí á netið. Hann féll enda var hann líklega þegar orðinn skotmark hins alræmda einræðisherra sem þó þykist ekki annað hlutverk hafa en að vera byltingarleiðtogi. Sem slíkur hefur hann kvalið þjóð sína í þrjátíu ár.

Túnisar og Egyptar gengu fylktu liði út á göturnar, mættu byssukjöftunum og fjölmargir týndu lífi svo aðrir ættu vonarglætu um betri tíð. Í Túnis hófst byltingin með því að spillt lögregla valdstjórnarinnar hirti sölukerru af manni nokkrum sem hét Mohamed Bouazizi og þar með var fótunum kippt undan tilveru hans. Hann gat ekki lengur unnið fyrir sér og safnað peningum til að stofna fjölskyldu. Þessi sorglega saga endaði með því að hann hellti bensíni yfir sig og bar eld að um miðjan desember sl. Hann dó á sjúkrahúsi nokkru síðar og þann 14. janúar  hrökklaðist einræðisherrann Zine El Abidine Ben Ali frá. Þannig varð mótspyrna og andlát fátæks sölumanns upphafið að frelsisbyltingu. 

Fjölmiðlar hafa sagt frá hetjulegri baráttu slökkviliðsmanna og starfsmanna Fukishima kjarnorkuversins í Japan. Þrátt fyrir stórhættulega geislavirkni gera þeir sitt besta til að koma rafmagni á verið svo hægt sé að setja kælikerfið í gang. Þyrluflugmenn setja sig í stórkostlega hættu þegar þeir flytja vatn sem kastað er yfir verið. Allt gert til að tryggja öryggi samborgara sinna.

Þekktar eru sögur af slysinu í Chernobyl í Úkrainu. Hundruðir mann unnu hið óeigingjarnasta starf sem hugsast getur. Þeir komu í veg fyrir áframhaldandi geislamengun frá ónýtum kjarnaklúfi með því að hylja hann sandi og steypa loks yfir. Fyrir þetta máttu þeir gjalda með heilsu sinni og loks lífi. Þeir fórnuðu sér fyrir aðra.

Hvað fær fólk til að fórna heilsu sinni eða lífi á þennan hátt? Mannkynssagan er greinir frá svona fórnum karla og kvenna. Án efa hafa óteljandi þannig sögur glatast eða týnst og kannski fáir verið eftir til að segja frá. Lítum bara á uppgröftin í Pompeii, loftrýmin í vikrinum sem fyllt voru með gifsi og til urðu myndir af síðustu andartökum fólks sem reyndi allt hvað það gat til að verja börnin með líkama sínum. 

Grimmd mannkynsins er margrædd klisja en góðmennskan er því ábyggilega í blóð borið og flestir kjósa sér ekkert annað en frið svo þeir átt börn, alið þau upp, brauðfætt fjölskylduna og glaðst með henni og vinum á góðri stund og syrgt þegar svo ber undir. Við viljum ábyggilega öll vera í friði - í orðsins fyllstu merkingu, og flestir eru tilbúnir til að leggja mikið fyrir friðinn.


mbl.is ,,Ég er ekki hræddur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kva ... ertu að fótósjoppa myndirnar?

033_-_version_3.jpgLómagnúpur er einstakt fjall í orðsins fyllstu merkingu. Ég hef oft átt leið framhjá honum, ekki enn klifið’ann, en aldrei séð fjallið eins tilkomumikið eins og þann morgun í mars árið 2000 er ég tók meðfylgjandi mynd á slidesfilmu.

Myndin er stofustáss og þess vegna er ég oft spurður að því hvort ég hafi „fótósjoppað“ myndina. Og sé ég ekki nógu snöggur að svara er því iðulega bætt við að ég hljóti nú að vera ansi hreint góður með Photoshop forritið.

Nei, ég hef ekki átt við myndina er legg það ekki í vana minn að breyta myndunum mínum.

dsc_0015_090929_-_version_2.jpg

Í sumar hélt ég litla ljósmyndasýningu og þar sýndi ég meðal annars næstu mynd. Hún er af gamla Kaupfélagshúsinu á Skagaströnd og ég tók hana seint í september. Sólin var þá lágt á lofti en svo sterk að hún virkaði eins og galdrageisli er afhjúpaði viðgerðir og endurbætur á húsinu, - jafnvel frá upphafi.

Þá var ég spurður hvort myndin væri eitthvað „fótósjopptrix“ hjá mér. Nei, svaraði ég mæðulega. Ég kann einfaldlega ekki á Photoshop og breyti ekki myndum mínum. Það kemur þó fyrir að ég lagfæri myndir, klippi, rétti við, lýsi, eyk við eða minnka kontrast og svo framvegis.

dsc_0223_-_version_2.jpg

Á sömu sýningu var önnur mynd sem mörgum fannst með ótrúlega „óeðlilegri“ litasamsetningu. Hún sýnir húsin á golfvelli Golfklúbbs Skagastrandar og Steinnýjarstaðafjall baðað hnígandi skammdegissól enda myndin tekin um miðjan janúar. Blár himinninn þótt ekki alveg eins og heimamönnum samþykkja en það gerir ekkert til því þeir virðast hvort eð er ekki svo ýkja minnisgóðir. Gera sér jafnvel ekki grein fyrir stórkostlegri birtu og skýjafari við Húnaflóa. Víða hef ég farið en þarna eru aðstæður í orðsins fyllstu merkingu ... himneskar. Kjöraðstæður fyrir áhugaljósmyndarann svo fremi sem hann hefur myndavélina ávallt nærtæka.

101105-111_strandir.jpg

Og lokst náði ég mynd sem gerði marga kjaftstopp. Hvernig í ósköpunum er hægt að taka svona mynd? spurðu þeir. Ekki svo að færni mín í ljósmyndun væru svo merkileg, allir vita að hún er það ekki. Heldur hafði enginn séð útsýnið yfir Húnaflóa til Strandafjalla eins og myndin sýnir.

Hingað til hefur því ekki verið haldið því fram að myndin sé „fótósjoppuð“. Það gleður hjarta mitt. Hins vegar má taka það fram að hún er samsett, panórama. Tvær myndir skeyttar saman til að ná meiri breidd. Í forgrunninn er Spákonufellshöfði á Skagaströnd. Myndin er tekin í byrjun nóvember. 


Olíufélögin fylgja fordæmi Atlantsolíu

Og auðvitað fylgja hin olíufélögin eftir fordæmi Atlantsolíu. Þau ætla ekki, ferkar en fyrri daginn að láta Atlantsolíu njóta forystunnar.

Hafa lesendur tekið eftir því að Atlantsolía er alltaf með sama verð og hin olíufélögin. Hvernig skyldi standa á því?

Jú, þetta er á hinn veginn, olíufélögin passsa sig á því að vera með verð og Atlantsolía. Og þá má spyrja: Hafa þau kannski tekið sig saman um að gera þessu ágæta lággjaldafyrirtæki lífið leitt eða er umhyggjan fyrir okkur neytendum? Vona að það sé hið síðarnefnda. 


mbl.is Orkan og Atlantsolía lækka verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vildu Bretar ekki Icesave í breskt dótturfélag?

Þær upplýsingar sem fyrrverandi bankastjóri Landsbankans veitt í Héraðsdómi í morgun og sagt er frá í fréttinni virðast vera mjög merkilegar. Að minnsta kosti fyrir almennan borgara sem hefur þekkir ekki Icesave málið í öllum smáatriðum. 

Í fréttinni segir m.a.: 

Sagði Halldór, að bankinn hefði almennt fengið góða umsögn en fjármálaeftirlitið viljað setja strangari skilyrði um lausaféð. Í maí náðist hins vegar samkomulag við fjármálaeftirlitið, sem dró til baka kröfu um að Icesave-starfsemin í Bretlandi yrði færð í breskt dótturfélag.

Það er afar merkilegt að breska fjármálaeftirlitið hafi dregið til baka kröfu um að Icesave starfsemin yrði færð í breskt dótturfélag. Þessi staðreynd rennir stoðum undir rök þeirra sem neita að samþykka Icesave frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. 

Fyrrverandi fjármálaráðherra Breta sagði í dæmalausu viðtali Rúv, að Bretar hafi krafist þess að Icesave færu í dótturfélag.

Nú eru komnar fram upplýsingar sem ganga þvert á þá yfirlýsingu. Fjármálaeftirlitið dró einfaldlega kröfuna til baka. Hvers vegna sá það ekki ástæðu til að halda henni til streitu? 

Sök vegna Icesavi er ekki aðeins á annan veginn, Bretar eiga sinn þátt í því sem fór. Þeir kenna hins vegar íslenskum stjórnvöldum alfarið um vandann.

Í ljósi þessa, er nokkur ástæða til að samþykkja Icesave? Niðurstaða dómstóls hlýtur því að vera skipt ábyrgð, að minnsta kosti milli Breta og Íslendinga.

Þeir sem halda því fram að Íslendingar eigi að greiða kröfu Breta hljóta þar með að viðurkenna að krafan er lægri sú sem lögð er til grundvallar í samningnum sem greiða á atkvæði um í apríl.


mbl.is Ekki verðmyndandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill snjór á Holtavörðuheiði

holtavheidi_8.jpg

Varla er Holtavörðuheiðin ennþá ófær. Fór hana um miðjan dag í gær og þá var hún svipuð því sem sjá má á meðfylgjandi mynd úr vefmyndavélinni efst á heiðinni.

Í gær var snjór á veginum sunnan megin en sáralítið norðan. Þannig getur þetta verið núna að eftir sé að ryðja fyrir ofan Fornahvamm. Í svona hlýindum getur ekki verið að það sé mikið mál.

Veðurspáin var þannig í gær að það var útilokað annað en að leggja á heiðina um miðjan dag. Og miðað við sunnudagsumferð þá var hún mun meiri en ég var vanur og því fleiri sem ákváðu að hafa vaðið fyrir neðan sig og vera fyrr á ferðinni.


mbl.is Holtavörðuheiði enn ófær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langtíma atvinnuleysi eykst

Atvinnuleysið virðist vera hið gleymda vandamál þjóðarinnar. Fjölmiðlar eru hættir að fjalla um það, líklega orðnir leiðir. Miklu meira gaman að segja frá andstæðum skoðunum vegna Icesave, ESB umsóknar og uppsagnir hjá Reykjavíkurborg.

Hvorki ríkið né Reykjavíkurborg gerir nokkurn skapaðan hlut vegna atvinnuleyisins sem er þeim til háborinnar skammar.

Fram kemur í þessari frétt að tæplega átta þúsund manns hafa verið á atvinnuskrá lengur en sex mánuði og þeim fjölgar. Sér enginn hversu alvarlegt það er? Þeim sem hefur verið atvinnulausir í lengri tíma en eitt ár fjölgar líka. 

Tæplega fjórtán þúsund manns eru atvinnulausir á landinu og eru þá ekki taldið þeir sem hafa flúið til annarra landa til að hafa í sig og á.

Hvað er ríkisstjórnin að gera? Er hún upptekin í varnarbaráttu sinni vegna Icesave, ESB og annarra mála? Það er lítt til árangurs að vera alltaf í vörn. Ríkisstjórn sem hefur slíkt fyrir stefnu á að segja af sér eða það sem mikilvægar er, það þarf að bylta henni.

Atvinnuleysi er eitt af því versta sem getur gerst í samfélagi okkar og við þurfum nýtt fólk og nýja stefnu til að vinna bug á því. 


mbl.is 8,6% atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra liðið vann í frábærum leik

Leikur Barcelona og Asenal í meistaradeildinni var einn skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Miklir meistarar eru þeir í spænska liðinu. Mínir menn litu hreinlega á köflum út fyrir að vera klassa neðar. En þannig var það ekki. Í báðum liðum eru frábærir knattspyrnumenn og ótrúlegt er leikni þeirra, nákvæmir í sendingum, samhæfingin algjör.

Það spillir þó fyrir hversu oft þessir fótboltamenn meiða sig hrikalega. Þeir kútveltast í grasinu eins og börn á leik og grípa jafnan um öklann þó svo að sá brotlegi hafi hvergi komið nálægt þeim líkamshluta. Líklega er þetta merki til dómarans um að sá í grasinu eigi mikið bágt. Svo standa þeir upp og hlaupa um völlinn eins og ekkert hafi í skorist. Miklir leikarar eru knattspyrnumenn.

Brottvísun van Persie var, rétt eins og Arsene vinur minn segir, eyðilegging á stórkostlegum fótboltaleik. Ljóst var eftir það að Arsenal átti ekki sjéns í að jafna eða vinna leikinn. Eftir það átti liðið þó marga fína spretti og einu sinni var Bentner nærri því að jafna.

Niðurstaðan var hins vegar sú að betra liðið sigraði. 


mbl.is Wenger: UEFA-mönnum var brugðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk iTunes verslun í augsýn?

Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir okkur Makkavini enda höfum við Íslendingar þurft að horfa á þróunina hjá Apple að hluta til án þess að geta nýtt okkur vörurnar. Við höfum ekki afnot af þessari frábæru þjónustu sem iTunes veitir nema í gegnum krókaleiðir. Í því felst að maður þarf að svindla dálítið til að láta líta út fyrir að vera búsettur í Bandaríkjunum. Engu að síður er það eiginlega útilokað að eigna iPhone síma eða kaupa vöru frá iTunes.

Það er rétt sem Bjarni Ákason, forstjóri Eplabúðarinnar segir, að leysa þarf úr fjölmörgum álitamálum áður en iTunes hérlendis verður hér að veruleika. En í heild sinni er það bara rútínu verkefni. Aðalatriðið er að standa skil á virðisaukaskatti hér innanlands. Í daga er það þannig að maður getur keypt forrit án þess að neinn verði þess var viðskipti hafi farið fram nema seljandi og kaupandi. Færi ég í tölvuverslun og keypti sama forrit væri verðið án efa eitthvað hærra vegna þess að álagning verslunarinnar og að minnsta kosti virðisaukaskattur myndi bætast við. Það er auðvitað afskaplega hagstætt fyrirkomulag út frá buddupólitíkinni, en á móti kemur að við erum að rembast við að halda úti samfélagi með kostum þess og göllum og þar með greiðum við skatta og skyldur hér innanlands.

Ég held að það sé lágmarkið að með íslenskri iTunes síðu sé kostur gefinn á að kaupa iPhone og nýta App Store. Ástæða er því til að óska Bjarna Ákasyni góðs gengis. 


mbl.is Apple að hleypa Íslandi aftur inn úr kuldanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband