Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Niður með fjöllin og upp með dalina ... eða hvað

Hvað kemur ríkisstjórninni það við þó einkafyrirtæki borgi milljónir í mánaðarlaun? Þetta er nú meiri hringavitleysan í þingmanni sem virðist ástunda allt annað en skynsamlega rökræðu.

Há laun miðað við hóflega skattlagningu þýðir einfaldlega meira fé í samneyslu, skatttekjur hækka, fjármagnið veltur út í þjóðfélagið á margvíslegan hátt.

Hvað á fyrirtæki að gera við tekjur af rekstri sínum? Það greiðir starfsmönnum sínum laun og vissulega er launamunur innan allra fyrirtækja. Það þarf hins vegar ekki þingmann Samfylkingarinnar til að ákveða hvaða laun megi greiða. Sá sem tekur sér slíkt Bessaleyfi lendir fyrr eða síðar í vandræðum. Er ein milljón heilög tala eða margfeldi af mánaðarlaunum einhverrar stéttar réttari viðmiðun? Er skynsamlegra að skattleggja hagnað fyrirtækis eða laun starfsmanna sama fyrirtækis?

Hvað má þá hagnaður fyrirtækis vera þar til Ólínu Þorvarðardótur þykir „nóg komið af vitleysunni“. Ætlar þingmaðurinn að segja sjómanninum að hann sé með of há laun í eigin útgerð? Hvað á að gera við sjómann sem kemur í land eftir mánaðartúr á frystitogara og fær 1,7 milljón fyrir hlutinn? Hvað með höfund metsölubókarinnar? Hvað með náungann sem bjó til tæki er dregur úr mengun bíla og eykur afl þeirra? Mogginn sagði frá honum og hugsanlega selur hann rosalega af vöru sinni og mánaðarlaunin verða ofboðsleg.

Jú, niður með fjöllin og upp með dalina. Hversu klárir sem menn eru þá á enginn að fá að njóta afraksturs vinnu sinnar eða hugverka í háaum launum. Hol eru hvatningarhróp hinnar norrænu velferðarstjórnar og fylginauta hennar.


mbl.is Nóg komið af vitleysunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórlagaráðið líka skotið á kaf

Tillaga ríkisstjórnarinnar um skipun stjórnlagaráð er pólitískur leikur. Og auðvitað er þetta tillaga ríkisstjórnarinnar sem beitir fyrir sig þremur leppum. Ríkisstjórnin veit vel að hún er á gráu svæði og sú er ástæðan fyrir því að hún treystir sér ekki til að leggja fram tillöguna í eigin nafni. Ekki frekar en innanríkisráðherrann getur lagt nafn sitt við tillöguna.

Engu að síður á að halda málinu áfram. Sigurður Líndal hefur í raun skotið tillöguna á kaf. Miðað við rök hans mega þeir þingmenn sem samþykkja hana vera hrikalega illa að sér og taka leikaraskapinn framar þeirri staðreynd að þeir eiga vera þátttakendur í að reka þjóðfélag en ekki sandkassa. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að ríkisstjórnin hefur með handarbaksvinnubrögðum lent á afturendanum með þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnlagaþing. Í stað þess að viðurkenna mistökin á nú að berja í einhverja bresti og gera illt verra. Þetta hljóta allir að sjá nema nokkrir þeirra sem þegar hafa fagnað sigri í ógildri stjórnlagaþingskosningu og neita að viðurkenna staðreyndir. Þá finnst mörgum í því einhver sæmd að berja á dómurum Hæstaréttar. 

Nú er tími til kominn að alþingismenn meirihlutans taki sig á og viðurkenni þrískiptingu valds og greiði atkvæði gegn tillögu um stjórnlagaráð. Raunar má krefjast þess að þingmenn taki sjálfir við þessum kaleik og haldi áfram með endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nóg er vinnan og til verkefnisins fengu þeir m.a. ráðninguna.


mbl.is Tillagan á mjög gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórninni verður sífellt fótaskortur

Ekki skal hér gert lítið úr krossferð þingmanna gegn „of háum launum ríkisforstjóra“. Allir þeir sem hafa komið nálægt bókhaldi og launagreiðslum geta fullyrt að það sé afar einfalt mál að stjórna launum, jafnvel hjá ríkisbókhaldi. Ekki þarf því einhverja fundi með hverri silkihúfunni á fætur annarri.

Ákvörðun ríkisstjórnar um launalækkun þarf fjármálaráðherra einfaldlega að gefa út sem reglugerð og ganga úr skugga um að Fjársýsla ríkisins fari eftir henni við launagreiðslur.

Það er svo allt annað mál hvort ríkisforstjórar vilji eða vilji ekki það sem þeim er skammtað. Voru þeir í upphafi eitthvað spurðir? Þeir geta sótt sitt mál á öðrum stöðum séu þeir óhressir. Verra er ef ríkisstjórnin nái ekki fram því sem hún ákveður. Það segir eiginlega meira um ríkisstjórnina en flest annað. Í þessu tilviki á við gamla slagorðið: Vanhæf ríkisstjórn!

Ótrúlegt er að fylgjast með því hversu ríkisstjórninni verður sífellt fótaskortur á vegferð sinni. Hún getur eiginlega engu náð fram en skattahækkunum á landsmenn.


mbl.is Ríkisforstjórar lækka ekki laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur verið ...?

Getur verið að minni samdráttur í landsframleiðslu frá því 2009 þýði það eitt að ríkisstjórnin hafi ekki náð að byggja það upp sem tapaðist í hruninu?

Getur verið að skattastefna ríkisstjórnarinnar hafi áhrif landsframleiðsluna?

Getur verið að ríkisstjórnin kunni ekki ráð til að byggja upp atvinnulífið eftir hrunið?

Eða er getuleysi ríkisstjórnarinnar bara Sjálfstæðisflokknum að kenna? 


mbl.is 3,5% samdráttur árið 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er eiginlega týndur?

skan342_1067617.jpg

Ég er enn að bíða eftir sófaliðinu sem bölsótast á bloggsíðum yfir því að fólk gangi á jökla og til þess eins að þurfa að láta sækja sig.

En mikið skrambi öfunda ég þessa vösku skíðamenn á jöklinum. Gæti trúað því að þeir séu að ljúka skíðaferð á Öræfajökli, komið jafnvel yfir jökulinn frá Kverkfjöllum.

Svona á fólk að gera. Takast á við náttúruöflin og sigrast á þeim. Betra en að verða kransæðastíflunni að bráð í sófanum heima.

Einkenni sófaliðisins er þung umtalseitrun. Til skýringar skal þess getið að þetta er hraðsoðið nýyrði og á við um þá sem aldrei hafa lent í aðstæðum sem þessum en tala af mikilli speki um þær, venjulegast á niðrandi hátt.

Meðfylgjandi mynd var tekin á Vatnajökli fyrir mörgum árum. Veðrið var snælduvitlaust og hafði verið svo í þrjá daga og við félagarnir hröktumst hjálparlaust niður. Hef sjaldnast séð það verra nema nokkrum sinnum á Fimmvörðuhálsi. Þá týndist einn af þessum rauðklæddu, raunar sá sem er lengst til hægri á myndinni, og þurfti þyrlu til að finna hann. Þá var hann raunar kominn af Hálsinum og því fræðilega séð ekki lengur týndur.  Síðan hefur verið deilt um hver sé týndur, sá sem ekki finnst eða hinir, sem sá sem er „týndur“ finnur ekki. Á þennan hátt verða til heimspekilegar vangaveltur sem leiða ekki til neins.


mbl.is Göngumenn sóttir á snjóbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segjum NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni

Hafi Bretar og Hollendingar eitthvað upp á Ísland að klaga vegna starfsemi íslenskra banka eiga þeir að sækja málið á Íslandi. Ég gat ekki betur skilið Skúla Magnússon, ritara EFTA dómsstólsins.

Raunar er það svo, samkvæmt orðum Skúla, að ekki er til alþjóðlegur dómstóll til sem tekur á ágreiningsefnum Breta og Hollendinga gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Þeir þurfa að sækja málið á Íslandi.

Hvað er þá vandamálið? Af hverju ekki að láta það verða sem vill. Málareksturinn hlýtur að vera gagnvart Tryggingasjóði innistæðueiganda, en hann nýtur ekki ábyrðar ríkisins. Efni málsins er að Bretar og Hollendingar vilja fá þá peninga til baka sem þeir greiddu innistæðueigendum þegar Landsbankinn hrundi.

Hvers vegna í ósköpunum eiga Íslendingar að greiða aukna skatta vegna gjaldþrotsins. Í sjálfu sér skiptir engu máli hvort þær eru 37 milljarðar króna eða 500 milljarðar króna. Prinsippið er hið sama. Stjórnvöld eiga ekki í meginatriðum að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækja, hvorki í útlöndum né hér innanlands. 

Hvað liggur þá á? Af hverjum höfnum við ekki Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni? 


mbl.is Íslenskir dómstólar hafa lokaorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löglegur en blóðugur friður um menntun í Reykjavík

Bestiflokkurinn stendur nú í blóðugum niðurskurði í Reykjavík. Tilgangurinn með sameiningum skóla er fyrst og fremst sá að ná niður launakostnaði enda séð að vart er hægt að kreista meiri sparnað út úr menntamálum í borginni. Þess vegna á að segja upp skólastjórnendum, yfirvarpið er sameining skóla.

Hún er svo vitlaus sem mest má verða. Bestiflokkurinn tekur nú með upp merki R listans sem hafði það að markmiðið að breyta útliti Reykjavíkur eins og hann mest og best gat. Niðurstaðan er sú að ekkert samhengi er í borginni á milli kynslóða, hún tekur grundvallarbreytingum, því gamla er hent og öllu nýju fagnað. Sjálfsagðri íhaldsemi hefur fyrir löngu verið kastað fyrir róða.

Sama er verið að gera í skólamálum. Gera á skólana óþekkjanlega fyrir þá sem þar hafa numið. Þekkingu og færni er hér að engu gerð fyrir um 1% lækkun á útgjöldum.

Hvorki bestiflokkurinn né samfylkingin hafa neina stefnu eða eldmóð og hvað þá kjark í málefnum borgarinnar. Markmiðið er að sitja í vellaunaðri innivinnu eins og Gnarrinn orðar það. Hvergi vottar fyrir þeirri hugsun að hægt sé að breikka útsvarsgrundvöll borgarinnar, byggja upp atvinnulíf og styrkja það sem fyrir er svo tekjur borgarinnar geti aukist. Þess í stað er ráðist á menntastofnanir og reynt að skera þær niður við trog.

Svo heldur innifólkið því fram að ekki sé vegið að lögbundnum kröfum um menntun. Skárra væri það nú. Bestiflokkurinn og Samfylkingin ætla sem sagt ekki að brjóta lög en eru fyrir löngu búnir að rjúfa friðinn og blóðið rennur.


mbl.is Hættuleg sameiningaráform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er borgarstjórinn þegar vandi steðjar að?

Spaugað hefur verið með það að Regína Ástvaldsdóttir, skrifstofustjórin borgarinnar, sé í raun yfirborgarstjóri. Hvergi sést í Jón Gnarr, sem þó var kjörinn í embættið af fulltrúum Samfylkingarinnar og Besta floksins.

Þegar segja þarf slæmar fréttir birtist nafn Regínu en aldrei Jóns Gnarr. Honum hentar það miklu betur að stunda afþreyingu í skemmtiþáttum eða spássera í fylgd sjónvarpsmanna niður Laugaveginn og hallmæla trjám og gagnstéttum og fullyrða að hann vilji betri Laugaveg, fallegt og skemmtilegt mannlíf. Gnarrinn forðast slæmu málin sem og þau sem hann skilur ekki. Þess vegna er Regína yfirborgarstjóri.

Sá maður sem getur ekki tekið á hvoru tveggju, góðu málunum og þeim erfiðu, á ekkert erindi í sól borgarstjóra. Honum ferst að prédika fallegt og gott mannlíf þegar hann og aðrir í meirihluta borgarinnar hafa það að stefnumálum sínum að reka fólk úr störfum sínum. 


mbl.is Hagrætt um 300 milljónir á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

iPad2, ný og betri græja

ipad.jpg

Þarna er hún komin, græjan sem ég hef verið að bíða eftir. Fylgdist með kynningunni á makkavefum. Óhætt að segja að iPad 2 virðist vera frábær, mikil þróunarvinna að skila sér. Hann er léttari en áður og einnig þynnri, var 13,5 mm en sá nýji er 8,8 mm sem þýðir að hann er meira að segja þynnri en iPhone4.

Apple hefur þegar selt um 15 milljónir iPad og þann 11. mars fer salan á iPad2 í gang í Bandaríkjunum en 25. mars í Evrópu og ég tók sérstaklega eftir því að Ísland var þar nefnt með öðrum Evrópulöndum.

Markaðshlutdeildin er núna 90% og Apple ætlar að halda henni enda er stýrikerfið gott og til eru 65.000 forrit. Til samanburðar býður helsti keppinauturinn Android aðeins upp á eitt hundrað forrit.

Steve Jobs hélt því fram á kynningunni í San Francisco í dag að á meðan aðrir væru að reyna að líkja eftir fyrstu útgáfunni af iPad með frekar slökum árangri, væri Apple kominn langt frammúr henni og þar með allri samkeppni með þeirri nýju.

Þeir segja að iPad sé endurhannaður frá grunni, hleðslan á rafhlöðunni á að duga í tíu daga, örgjörvinn er tvöfalt hraðari. Safari, vafrinn, er hraðari, FaceTime forritið er samskiptaforrit með mynd, linsa er í báðar áttir á græjunni, forhlið og bakhlið, og fleira og fleira.

Gaman var að fylgjast með því á kynningunni hvernig iPad er notaður. Einna áhugaverðast var hvernig hann nýtist til kennslu einhverfra barna. Þetta er ekki lækning, sagði Steve Jobs af þessu tilefni, en iPad hjálpar. 


mbl.is Jobs kynnti iPad 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illa gengur honum að spá í framtíðina

Mangi er bara að plata. Það sést á líkamstjáningunni. Hann hörfar undan hljóðnemanum, liggur því sem næst flatur á bakinu og talar eins og véfréttin frá Delphi auk þess sem hann virðist ekki nenna svona viðtölum.

Sálfræðingur greindi formann íslensku samninganefndarinnar í Icesave málinu á svipaðan hátt og komst að því að sá var heldur betur að fela eitthvað. Eigum við ekki að senda sama sálfræðing á Manga?

Vörum okkur á öllu því sem kemur frá þessum þremur stéttum: Jarðfræðingum, veðurfræðingum og stjórnmálafræðingum. Best greina þær fortíð, þokkalegar túlka þær nútíð en rétt eins og spámiðlar skilja þær fátt af því sem eftir á að gerast. Þegar spurt er um hið síðarnefnda sendast þessir fræðingar úr einu í annað, varast að skilja neitt eftir sem hægt er að rukka þá um og síðan eru þeir farnir, mér liggur við að segja í reykskýi.

En grínlaust sagt þá tjáði mér draumspakur maður að þann 17. mars kl. 14:34 dragi til tíðinda á Reykjanesi. Það sem merkilegra er, að ég held að Mangi viti þetta.


mbl.is Er eldgos í vændum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband