Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Verkaskipting atvinnumanna í ránum

Ránið í úraverslun Michelsens er ekki það fyrsta sem verður í verslunum af þessu tagi. Athygli vekur að eigandinn býður nú eina milljón króna fyrir upplýsingar sem leiða til að skúrkarnir verði handteknir.

Viðbrögð á borð við þetta vekja athygli en það leiðir hugann að fyrirbyggjandi aðgerðum. Hvernig stendur þetta fyrirtæki að öryggismálum sínum? Hvers vegna er verslunin ekki með öryggismyndavél innan- og utandyra? Hvers vegna gera tryggingafélög ekki þá kröfu til verslana  og fyrirtækja sem eru með mjög dýra vöru að öryggismálin séu í lagi?

Hvernig standa önnur fyrirtæki að öryggismálum eða bíða þau líka aðgerðarlaus eftir ráni með milljón handbæra sem verðlaun fyrir veittar upplýsingar.

Fyrir nokkru upplýsti lögreglan um erlend glæpagengi sem hafa haslað sér völl hér á landi. Þau senda reglulega inn nokkra menn sem eiga að ræna verslanir. Þeir ráðast til atlögu, láta aðra fá þýfið og koma sér umsvifalaust úr landi. Þessi gengi byggja á sérhæfingu, einn hópur rænir, annar geymir þýfi, sá þriðji sér um að koma því úr landi og sá fjórði hefur umsjón með framkvæmdinni og leita að aðilum til að ræna.

Þetta eru atvinnumenn sem ganga hreint til verks. Þeir vita sem er að illa er staðið að öryggismálum í íslenskum verslunum og með verkaskiptingu er nær ómögulegt að ná til þeirra.

Hafi ránið í úraverslun Michelsen verið framið af svona gengi þá fóru ræningjarnir úr landi með síðdegisflugi til Evrópu. Nýr aðgerðarhópur kom líklega daginn eftir til landsins.


mbl.is Lögregla kannar fjölda ábendinga vegna myndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánsveð eru hluti af vandanum

Með lánsveði er átt við aukalán til kaupa á íbúð sem fengið er til dæmis á foreldrum kaupanda. Oft eiga foreldrar þess kost að veita barni og tengdabarni laust veð á eigin íbúð eða jafnvel að þeir taki lánið fyrir börn sín.

Við hrunið hækkuðu öll lán, líka lánin með lánsveðum. Þetta hefur ekki farið mjög hátt í umræðunni um stöðu skuldara. Engu að síður eru þau staðreynd og halda áfram að tikka þau íbúðin sé löngu farin.

Hvað á ungt fólk að gera í þessari stöðu? Margir standa fyrir þeim blákalda veruleika að það getur ekki staðið í skilum með veðlánin. Það sem verra er fólk mætir tortryggni. Því er óbeint haldið fram að það fari með rangt mál, lánsveðin séu hreinlega eyðslulán þeirra sem skráðir eru fyrir veðinu.

Fróðlegt verður að sjá hvernig verður tekið á málum þessa fólks í fjármálastofnunum.


mbl.is Hópur sem ekki hefur farið hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spara gífuryrðin, bíða niðurstöðu

Við hverju eru að búast af embætti Ríkislögreglustjóra? Að sjálfsögðu fara menn þar að lögum. Ef ekki þá myndi nú aldeilis hrikta í kerfinu.

Muna menn hvað gekk á fyrir nokkrum vikum? Embættið fékk á sig miklar ávirðingar og margir voru undrafljótir að trúa öllu upp á það.

Man eftir að gamli skólabróðir minn úr MR Illugi Jökulsson sakfelldi og dæmdi í litlum pistli. Hann sagði þann 28. september sl.:

 Það stendur alveg skýrt í lögum að útboð skulu fara fram þegar kaupa á vörur fyrir ríkið fyrir hærri upphæð en fimm milljónir.

En ríkislögreglustjóri telur að þessi lög gildi ekki um sig.

 Hann segir að “ógerlegt hefði verið að fara að ýtrustu lögum” í málinu.

 Sjá hér.

Þessi málflutningur er algjörlega makalaus.

Vissulega er þetta ekki óalgengt viðhorf á Íslandi, það verður að viðurkennast.

En þessi maður er ríkislögreglustjóri, for crying out loud!!

Einhvern veginn grunar mig að óbreyttir lögreglumenn eigi ansi oft eftir að heyra þetta á næstunni þegar þeir reyna að koma í veg fyrir lögbrot.

“Ja, því miður, mér var bara ógerlegt að fara að ýtrustu lögum í þessu efni.”

Það verður fróðlegt, skulum við segja, að fylgjast með því hvort ríkislögreglustjóri kemst upp mþetta!

Jú, ríkislögreglustjóri komst upp með þetta vegna þess að þetta var aldrei neitt mál, hann braut ekki lög. Hvað skyldi Illugi segja núna? Og hvað skyldu þeir 16 segja sem rituðu athugasemdir við pistil hans? Sumir þeirra voru ótrúlega fljótir að trúa.
  • „Halldór Á“ sagði: „Ég treysti á að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra veiti ríkislögreglustjóra áminningu fyrir þessi hreinu og kláru lögbrot.“ 
  • „Kristján“ sagði: „Í öllum öðrum löndum í okkar heimshluta væri maður í þessari stöðu búinn segja upp starfi sínu. En ekki á Íslandi. Ólöglegt og siðlaust.
  • Jafnaðarmaður“ sagði: „Ögmundur á að sjá sóma sinn í að setja þennan lögbrjót af á meðan málið er rannsakað.

Í lokin kom þó einn skynsamur, Gunnar Th. Gunnarsson og sagði: „Hér sitja margir í dómarasæti. Þetta mál verður væntanlega rannsakað ofan í kjölinn. Held að menn ættu að spara gífuryrðin, þangað til niðurstaða liggur fyrir.

Sannast sagna verður maður dálítið hissa á fólki, hvers vegna það er svona fljótt að samþykkja það sem kemur á prenti, sérstaklega ef það er eitthvað misjafnt. Betra væri ef við myndum spara gífuryrðin og bíða eftir niðurstöðum eins og Gunnar segir. En þá, enn og aftur, kemur áreiðanlega einhver og heldur því fram að það sé ekkert að marka Ögmund, hann sé jafnspilltur og aðrir stjórnmálamenn. Og nú er vissara að hætta áður en maður tekur undir þetta og það að óathuguðu máli ... 

 

 


mbl.is Lögreglan fór að lögum við innkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi einstæðra meðlagsgreiðenda og aðstæður þeirra?

Einstæður faðir, sá sem ekki hefur forræði fyrir barni sínu en þó umgengnisrétt á í gríðarlegum vanda. Allir vilja barni sínu vel og að sjálfsögðu fylgja því útgjöld, stundum jafnmikil eða meiri en móður. Til viðbótar þarf faðirinn að greiða svokallað meðlag. Fjárhagsleg staða margra er því oft erfið og vanskil algeng.

Það er e.t.v. tímanna tákn að Hagstofan telur hvert hænsni og svín í úttektum sínum, og veit hversu stórt hlutfall þjóðarinnar heitir Jón eða Gunna, en telur sér hins vegar ofviða að telja einstæða meðlagsgreiðendur og halda tölfræðilegum upplýsingum um málaflokkinn til haga. Sjálfsagt er þetta ástand til marks um viðhorf hins opinbera til meðlagsgreiðenda og e.t.v. sá mannskilningur sem hefur lagt grunninn fyrir jafnréttisbaráttuna á Íslandi. Hænsni, svín og annað búfé er sýnilegra hinu opinbera en einstæðir meðlagsgreiðendur. 

Þetta segir Gunnar Kristinn Þórðarson í grein í Morgunblaðinu í morgun en hún nefnist „Hænsni, svín og einstæðir meðlagsgreiðendur“. Hann heldur því fram að enginn viti hversu margir einstæðir meðlagsgreiðendur eru:

Ég leitaði upplýsinga hjá Creditinfo, Skattstjóra, Hagstofunni, Velferðarráðuneyti, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Tryggingastofnun og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Svör þeirra voru öll á einn veg. Engin þessara stofnana hafði nokkrar upplýsingar um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda; þær töldu ómögulegt í framkvæmd að komast yfir þær tölur og litu ekki á það sem skyldu sína að halda þeim til haga eða afla þeirra. 

Þetta finnst án efa fleirum en Gunnari athyglisvert. Hann hefur nú fengið því framgengt að Umboðsmaður Alþingis hefur samþykkt að taka fyrir erindi hans „um meint lögbrot Hagstofunnar, Tryggingarstofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga við að hafna formlegri beiðni minni um að taka saman fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda.“

Að mínu mati er þetta afskaplega merkilegt framtak hjá Gunnari og skilar vonandi árangri. Hann segir í niðurlagi greinar sinnar:

Ef það verður niðurstaða Umboðsmanns Alþingis að Hagstofan hafi lögboðnar skyldur til að afla upplýsinga um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda er ljóst að margt óhugnanlegt muni koma fram sem ekki hefur þolað dagsins ljós eða almenna umræðu. 

Undir þetta má hiklaust taka. Sorg og beinlínis þjáning sem fylgir því að vera hafa forræði fyrir börnum sínum er mikil. Ofan á þetta kemur oft fjárhagslegur vandi, vanskil við Innheimstustofnun sveitarfélaga og síðan aðra aðila. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég þekki til þess að svona aðstæður hafa orðið til þess að einstæður faðir hefur aldrei náð fjáhagslegu sjálfstæði þrátt fyrir þokkalegar tekjur, aldrei getað eignast íbúð og alltaf búið í leiguhúsnæði.

Einn vinur minn sem þannig var ástatt um sagði við mig einhvern tímann á þessa leið: Ég er settur í þá stöðu að þurfa að standa mig sem faðir, veita börnum mínum allt það besta til jafns við móður þeirra. Það hefur þýtt að ég hef viljandi þurft að gerast vanskilamaður. Ég sé hins vegar ekkert eftir því, börnin mín set ég í algjöran forgang.

Einhvern tímann er Sighvatur Björgvinsson, krati, var félagsmálaráðherra, hækkaði hann meðlagsskylduna um einhverjar krónur. Hann var spurður að því í útvarpsviðtali hvort hann teldi hækkunina ekki geta skapað vanda hjá feðrum sem greiða meðlag. Hann svaraði því til að þeir hefðu nú átt að hugsa fyrir því áður en þeir komu sér í þessa aðstöðu. Ekki var hægt að túlka orð mannsins á annan hátt en þann að meðlagsgreiðendur hefðu einfaldlega ekki átt að búa til börn í upphafi eða skilja við móður barna sinna.

Síðan hef ég alltaf haft megnustu óbeit á þessum fyrrverandi ráðherra og þingmanni. 

 


Á fagleg stefna að ráða eða skoðun fjármálaráðherra?

Til eru þeir sem haldið hafa því fram að pólitískar ráðningar séu dæmi um spillingu. Það getur verið rétt en hvað er pólitísk ráðning og hvað ekki? Er það til dæmis pólitísk ráðning ef ráðherra ræður samflokksmann sinn í tiltekið embætti eða starf? Er það dæmi um ópólitíska ráðningu ef ráðherra ræður mann úr öðrum stjórmálaflokki?

 

Pólitísk afskipti 

Sagt er að allt eigi að vera uppi á borði, stjórnsýslan á að vera gegnsæ. Gott og vel. Lítum á það sem er raunverulegt. Er ástæða til þess að stjórn stofnunar leiti pólitísks álits ráðherra áður en hún ræður forstjóra hennar?

Fjármálaráðherra krefst þess að ráðning forstjóra Bankasýslu ríkisins verði ógilt. Hann vill að einhver annar verði ráðinn sem hann er pólitískt sáttari við.

Erum við með þessu ekki komin aftur á byrjunarreit? Hvar eru nú þeir sem hæst hrópuðu um pólitískar ráðningar? Er þeim ekkert umhugað um faglegt starf stjórnsýslunnar?

Í hverju er spillingin núna fólgin? Er hún störfum fjármálaráðherra sem krefst þess að ráðning forstjóra Bankasýslunnar verði afturkölluð af pólitískum forsendum eða er hún hjá stjórn stofnunarinnar? Sé það síðarnefnda rétt, hvað var það rangt sem stjórnin gerði?

 

Er fjármálaráðherra ekki „hinir“?

Nei, málið er afskaplega einfalt. Þeir sem hæst hrópuðu um pólitískar ráðningar og spillingu áttu við „hina“.

Þegar fjármálaráðherra ræðst með pólitísku offorsi á faglega ráðningu þegir þetta lið. Enginn stendur upp og krefst þess að ráðherrann haldi sig á mottunni. Formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra líklega ekki „hinir“.

Skoðum Bankasýsluna stuttlega til að fá þokkalega mynd af stöðunni. Stofnunin er ný og heyrir undir fjármálaráðherra. Lög um hana tóku gildi 20. ágúst 2009. Verkefni hennar er að hafa umsjón með eignarhlutum ríkisins í fjármálfyrirtækjum.

Fjármálaráðherra skipar henni þriggja manna stjórn sem meðal annars ræður forstjóra og er fjallað um hæfisskilyrði hans í lögunum og þar segir:

Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust á þessu sviði og þeir hafi trausta þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja.

Einnig er kveðið á um að þeir skuli ekki hafa hlotið dóm vegna atvinnureksturs samkvæmt tilteknum lögum.  

 

Fagleg ráðning og pólitísk afskipti 

Nú hefur það gerst að nýr forstjóri hefur verið ráðinn að Bankasýslu ríksins. Stjórn hennar auglýsti og réði manninn og naut til þess aðstoðar Capacent ráðningarstofu, óhlutdrægt fyrirtæki.

Sá sem var ráðinn fékk ágæta niðurstöðu í fjórum persónuleikaprófum og var metinn hæfastur að öllu samanlögðu. Í bréfi stjórnarfomanns Bankasýslunnar til fjármálaráðherra sem birt er á heimasíðu stofnunarinnar segir meðal annars:

Þá réði það ekki síður úrslitum um ákvörðun stjórnar að bjóða Páli Magnússyni starfið þekking hans fram yfir aðra umsækjendur í stjórnsýslufræðum auk þess sem hæfni hans í mannlegum samskiptum og í tjárningu í ræði og riti var metin talsvert betri en annarra umsækjenda. 

Mér finnst þetta mál með miklum eindæmum. Enn og aftur ræðst fjármálaráðherra gegn þeim prinsípum sem hann áður þóttist vera fylgjandi.

 

 


Hver ber ábyrgð og hverjum má treysta?

Það er vel þekkt fyrirbæri að þegar vatnsþrýstingur vex í jarðskorpunni vegna niðurdælingar, þá minnkar núningur á sprunguflötum og getur það svo hleypt af stað skjálftum. 

Þetta er skoðun Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðings, og kemur fram á pistli í bloggi hans sunnudaginn 16. október(http://vulkan.blog.is). 

Orkuveitan segir í skýrslu sinni samkvæmt frétt Morgunblaðsins:

Þrýstingur hefur hækkað í mæliholum í nágrenninu og fer enn aðeins hækkandi. Hann mun ná jafnvægi með tímanum og smáskjálftavirknin sem tengist niðurdælingunni þá hætta að mestu. Spenna af völdum jarðskorpuhreyfinga mun þó halda áfram að byggjast upp og losna úr læðingi með jarðskjálftum af og til. Þeir jarðskjálftar munu hugsanlega verða fleiri og minni en hefði orðið án niðurdælingar.

Ekki kemur fram hjá Haraldi hvort hann sé sammála því sem fram kemur í skýrslunni að smáskjálftavirknin hætti eftir því sem jafnvægi næst í þrýstingi í mæliholunum.

Greina má þó dálítið ósamræmi í skoðunum en Haraldur segir að niðurdælingin minnki núning á sprunguflötum sem hleypir að stað skjálftum. Orkuveitan telur að jafnvægi náist og smáskjálftavirknin hætti eftir því sem meira er pumpað ofan í borholurnar.

Ekki veit ég hvort þetta sér réttur skilningur en hitt má auðveldlega finna að skýrslan er rituð til að róa almenning. Ekkert hættulegt er á ferðinni.

Haraldur er ekki sammála og nefnir annað atriði sem getur verið enn hættulegra en skjálftavirknin:

Það er efnasamsetning jarðhitavökvans og affallsvatnsins. Í því eru nokkur óæskileg efni, og þar á meðal arsen, kadmín og blý, sem geta eyðilagt grunnvatn sem nýtt hefur verið til neyslu í höfuðborginni og fyrir sunnan fjall. En lagt hefur verið til að Hellisheiðarvirkjun verði stækkuð. Við mat á umhverfisáhrifum stækkunar Hellisheiðarvirkjunar var áætlað að rennsli og niðurdæling affallsvatns tvöfaldist og yrði þá um 1100 l/s, þar af væri skiljuvatn um 800 l/s, þegar uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar yrði 303 MWe. Þá er hætt við að skjálftavirkni verði mun meiri og einnig að hættan vaxi með mengun grunnvatns. Nú er affallsvatni dælt niður í holur á um 400 metra dýpi, og er talið að það fari því neðar eða undir grunnvatn sem er tekið til neyslu. En grunnvatn höfurborgarsvæðisins og reyndar fyrir allan Reykjanesskagann er svo mikilvægt að hér verður auðvitað að sýna fyllstu varúð. En hver ber ábyrgð og hverjum má treysta? Er það Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem fylgist með?

Já, hverjum er að treysta? Ég hef áður haldið því fram að Orkuveitan hafi farið fram með offorsi á Hellisheiði og Kolviðarhóli, eyðilagt land stórt land sem eitt sinn var vinsælt til útiveru. Dreg þó ekki í efa að fyrirtækið vilji vinni heiðarlega að almannahagsmunum. Hins vegar treysti ég því ekki alveg.

Að lokum má alveg nefna það hér að hendur Orkuveitunnar eru bundnar. Fyrirtækinu er skylt að pumpa affallsvatni aftur ofan í jörðina. Sé það vanrækt er virkjunarleyfið í hættu ... 


mbl.is Eykur ekki líkur á stærri skjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunaárgil, áin og nýja hraunið

DSC_0152-2 110827 - Version 2Hraunið sem féll ofan í Hrunárgil þegar gaus á Fimmvörðuhálsi breytti gilinu nokkuð. Hringrás náttúrunnar heldur þó áfram, snjór og jöklar á Hálsinum bráðna og vatnið fellur niður í gilið eins og það hefur gert í árhundruð eða jafnvel þúsund.

Smám saman mun vatn mylja niður hraunið og bera það fram á aura Hrunár, Tungnakvíslar og Krossár.

DSC_0122 110827 Hruni, hraun í Hrunárgili - Version 2

Á efstu myndinni sést þar sem hraunið féll ofan í gilið. Líklega milljónir rúmmetra af hrauni, gríðarlegt magn. Þarna sem áður var þverhnípt bjarg en er núna brekka, raunar frekar brött.

Næsta mynd er tekin nokkru neðar í gilinu. Þarna milli Hruna og Morinsheiðar hlykkjast Hrunárgilið og svart hraunið hefur myndað nýjan botn.

Ég mundaði aðdráttarlinsuna og reyndi að komast sem næst hrauninu. Þarna sést ein á og einn lækur sem þó fellur ofan í ánna. Fyrir alla muni smellið á myndirnar til að fá þær stærri.

DSC_0117 110827 Hruni, hraun í Hrunárgili

Þarna er alveg stórkostlegt landslag. Gallinn er bara sá að grjót getur fellur úr bröttum veggjum gilsins og það getur auðvitað verið hættulegt fyrir göngumenn. Ekki að ástæðaulausu að svæði heitir Hrunar.

Mér finnst landslagið þarna alveg stórkostlega spennandi en hef þó allt of lítið gengið um Tungur og Hruna. Við félagar höfum lengi haft þá hugmynd að einhvers staðar sé fær gönguleið á Fimmvörðuháls austan við þá sem nú er farin. Höfum þó fátt fyrir okkur í því nema að forðum daga ku hafa verið oft farið yfir Hálsinn með sauðfé enda beitarland gott í Goðalandi, Tungum og Teigum. Engar heimildir eru þó um aðrar leiðir en þá sem nú er farin.


Verður eldgos í Tungnakvíslajökli en ekki Kötlu?

111015 Skjalftar

Nokkru áður en Eyjafjallajökull tók að gjósa þann 14. apríl 2010 veltu menn því fyrir sér hvar gosið myndi koma upp. Mörgum þótti nefnilega ekki einsýnt að það yrði í toppgígnum, sem þó varð.

Ég hafði einblínt í nokkurn tíma á staðsetningakort jarðskjálfta á vedur.is og sá að mjög margir skjálftar áttu uppök sín í rótum Steinsholtsjökuls. Sá er skriðjökull sem rennur norðan úr Eyjafjallajökli líkt og Gígjökull en nokkru austar. Þarna fannst mér tilvalið að gos kæmi upp en ekki varð ég sannspár frekar enn fyrri daginn enda hef ég ekki hundsvit á jarðfræði.

Nú segja allir að gos sé í vændum í Mýrdalsjökli og ég trúi því eins og nýju neti. Skoða oft á dag staðsetningakort jarðskjálft hjá Veðurstofunni, pæli í hlutunum og spái.

Mér þykir nokkuð ljóst að annað hvort verði gos í suðausturhorni Kötlu-öskjunnar eða utan hennar og þá í rótum Tungnakvíslajökuls. Sá rennur vestur úr Mýrdalsjökli og ofan í það svæði sem margir kalla Þórsmörk en heitir í raun Tungur og Hrunar.

DSC_0092 110827 Goðalandi í Tungur, yfirlit, flott

Eins og má sá af jarðskjálftakortinu hafa orðið nokkrir skjálftar vestan við öskjuna en allir litlir. Raunar er það einkenni á skjálftunum á þessum slóðum að þeir eru litlir. Á tíma hélt ég að þeir væru bara vegna þess að ís væri að hrynja úr jökulstálinu. Ég hef komst þó að þeirri vísindalegu niðurstöðu að það gæti ekki verið - það væri ekki eins spennandi ...!

DSC_0108

Og núna kemur rúsínan í pulsuendanum. Draumspakur maður heldur því fram að gos hefjist í Mýrdalsjökli 18. nóvember, kl. 17:34 - og það verði verulega stórt og óþægilegt fyrir landslýð. Ég trúi þessum draumi þó mátulega því sá sem dreymdi hefur litla reynslu á draumasviðinu. 

Efri myndin er tekin á Foldum, leiðinni upp á Fimmvörðuháls. Þar sést yfir Hruna, Tungur og Tungnavíslajökull er lengst til vinstri.

Neðri myndin er af góðum vinum og Tungnakvíslajökull er í baksýn.


Lennon fékk að spila með Ringo

Nú skal ég ekki mótmæla því að John Lennon var merkur tónlistarmaður, enda hefði hann annars ekki fengið að spila með Ringo öll þessi ár, en á því hljóta þó að vera einhver takmörk hversu lengi ágæti hans getur haldið ekkju hans og tiltækjum hennar fréttnæmum.
 
Þetta er skemmtilegasta tilvitnun dagsins enda er frábærlega að orði komist af mörgum ástæðum sem ég ætla þó ekki að tíunda. Hún er úr grein eftir „Ljósfælinn Reykvíking“ í Velvakanda Morgunblaðsins á bls. 35 í dag.
 
Og sá ljósfælni heldur áfram og er álíka háðskur og áður:
 
Ljósgeisli úr Viðey, til að fá menn til að hugleiða heimsfrið? Innst inni hljóta nú einhverjir að hafa fengið bakþanka um þessa hugmynd. Í alvöru talað, þá verður einhvern tíma að byrja að ræða hversu lengi þessu á að halda áfram. Dagur og Jón Gnarr eru einmitt réttu mennirnir til að standa fyrir þeirri umræðu. Alvörumenn á réttum stað. Gætum ekki haft borgina í betri höndum. 

IKEA misnotar jólin

Hvar stendur skrifað að jólin séu í eigu IKEA? Hvaðan hefur þessi verslun leyfi sitt til að auglýsa jól um miðjan október?

Fávís og sjálfumglöð markaðsstjóri IKEA heldur því fram í Mogganum í morgun að viðskiptavinir séu farnir að kaupa jólaskrautið.

Ég trúi því ekki. Tilgangur IKEA er einfaldlega að selja, og nú mokar fyrirtækið jólunum ofan í viðskiptavini sína löngu fyrir tímann hvort sem þeir vilja eða ekki. Ítroðsla. Þetta fyrirtæki og mörg önnur eru búin að skrumskæla jólahátíðina og gera um leið lítið úr boðskap jólanna.

Ég hef ekki nokkra trú á því að almenningur hér á landi eða erlendis vilji þjófstarta jólunum. Enn síður er ég á þeirri skoðun að jólin séu nú orðin hátíð kaupmanna. Þeir hafa bara stolið þeim og flagga nú jólunum án boðskapsins, umbúðum án innihalds. Var einhver að tala um gullkálfinn ...?

Þetta er ástæðan fyrir því hversu leiður maður verður eftir því sem jólin nálgast. Hvert sem litið er kemur smettið á IKEA og öðrum leiðindafyritækjum sem gera lítið úr þeim sem ekki eru byrjaðir svokölluð „jólainnkaup“

Hvað eru jól án gjafa? Jú, ég fullyrði að þau eru innihald jólanna, ástæðan fyrir því að við höldum jól. Gjafir eru seinni tíma viðbót sem verslanir hafa gripið fegins hendi. 

Að mínu mati á ekki að birtast ein einasta auglýsing frá verslunum um jól og jólagjafir fyrr en aðventan gengur í garð. En það er líklega til of mikils mælst, andi jólanna er löngu horfinn. Misnotkun jólanna tók við.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband