Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Arion banki braggast en heimilin tapa

Í fljótu bragði virðist það vera sterkur leikur bankamannsins að gagnrýna stjórnmálamenn fyrir einhvers konar vinsældarleiki, það hittir venjulega í mark. Þegar nánar er að gáð má í stórum dráttum segja að skoðun margra stjórnmálamanna endurspegli almenningsálitið að minnsta kosti þegar talað er um skuldastöðu heimilanna.

Hrunið og eftirköst þess hafa farið afskaplega illa með þúsundir heimila. Nánast hver einasti Íslendingur hefur annað hvort lent í vandamálum með heimili sitt og íbúð eða á nána vini eða samstarfsfélaga sem svo er ástatt um.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag á bls. 22 er vitnað til orða stjórnarformanns Arion banka , Monicu Aneman, sem ritar grein í ársskýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja. Í frétt Morgunblaðsins segir:

Hún bendir á að ríkið leiki stórt hlutverk á fjármálamarkaðnum sem eigandi tveggja af stærstu lánveitendunum á íbúðalánamarkaði, Íbúðalánasjóðs og Landsbankans, en þessar tvær stofnanir hafi tekið með ólíkum hætti á skuldavandanum. Í þessu ljósi kann gagnrýni stjórnmálamanna á bankana í sumum tilfellum að vera varhugaverð og hætta á því að skynsemi ráði ekki för í mótum starfsumhverfis fjármálafyrirtækja.

Að hluta er þetta rétt hjá stjórnarformanninum. Ríkisvaldið hefur tungur tvær og talar sitt með hvorri. Maður skyldi nú halda að eitthvert samræmi væri í aðgerðum Íbúðarlánasjóðs og Landsbankans hvað varðar íbúarlán. Ég hef þó meiri áhyggjur af umhverfi heimilanna í landinu og minnkandi eiginfjárstöðu almennings. Svo virðist sem fjármálastofnanirnar haldi alveg sínum hlut.

Gagnrýna má Arion banka sem og hina bankana fyrir að hafa dregið lappirnar vegna skuldavanda heimilanna. Jafnvel framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja hefur orðið ber að ósannindum.

Þjóðin bíður nú eftir aðgerðum fjármálastofnana vegna skuldavanda heimilanna. Í ljósi þess að bankarnir fengu upp undir helmings afslátt af þeim íbúarlánum sem yfirfærð voru frá gömglu bönkunum mætti búast við að almenningur fengi að njóta einhvers hluta af afslættinum. Nei, enn hefur varla neitt gerst nema það sem hæstaréttardómurinn um gengistryggðu lánin hefur haft í för með sér. 

Sæmd Monicu Caneman væri nú meiri ef hún myndi breyta stefnu Arion banka og veita sambærilegan afslátt af íbúðarlánum og bankinn fékk eftir hrunið. Það væri raunverulega sterkur leikur. Þarf að minna fólk á hver rekstrarhagnaður Arion banka var á síðasta ári?


mbl.is Greið leið til vinsælda að gagnrýna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglið og bullið í Jóni Bjarnasyni

Hinn geðugi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mikið ólíkindartól. Stundum virðist hann staðfastur, oft er hann vingull og þá kemur fyrir að hann hreinlega bullar. Ég bið lesendur mína afsökunar á persónulegum ávirðingum á annars ágætan mann. Ég get bara ekki setið á mér eftir að hafa lesið ræðuna sem hann flutti á aðalfundi Landssambandi smábátaeigenda.

Jón Bjarnason segir til dæmis´

Íslenskur sjávarútvegur er ekki bara grundvöllur hagsældar okkar í landinu, hann er einnig prófsteinn á samspil manns og náttúru og samspil þjóðar og landsins sem hún, þessi okkar þjóð, hefur að láni. 

Og þrátt fyrir þessi orð hefur hann lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um fiskveiðar sem vegur að verðmætasköpun sjávarútvegsins og allir, hver einasti maður og samtök í bransanum, leggjast á móti. Og í þokkabót fer hann með rangt mál, lýgur blákalt er hann segir:

Frjálshyggjan, markaðshyggjan, 20. aldar trúin á mammon og mammon einan hafa öll hamrað á sömu stefnu í málefnum atvinnuveganna, stefna sem er í reynd “laissez faire” stefna þegar kemur að hinum óhefta framgangi fjármagnsins. Að þjóðin sjálf, byggðir hennar og stjórnkerfi skuli halda sig fjarri og ekki leggja á atvinnuvegina neinar þær hömlur og stýringu sem skerða frelsi þeirra til að skapa sem mest verðmæti, mesta peninga.

Þarna misstígur Jón sig illilega, hefur líklega átt við kommúnismann. Það hefur aldrei falist í frjálshyggjunni að þjóðin skuli vera í öðru sæti og það veit Jón mætavel. Hins vegar má sjá af umsögnun um hið makalausa fiskveiðifrumvarp hans að hömlur og stýringar sem í því felast verða að allra mati til þess að blómlegur rekstur mun skerðast og, byggðir og aðrir atvinnuvegir muna bera skarðan hlut frá borði, verði það að lögum.

Og Jón heldur áfram ábyrgðarlausu mali sínu:

Hér gildir hið fornkveðna að ekkert er nýtt undir sólinni. Við höfum fyrr heyrt þann boðskap að þjóðinni sé hollast og best að ráða sem minnstu og láta hinn alvitra markað um að ávaxta sitt pund.  

Hvaðan Jón hefur þessa vitleysu er óskiljanlegt. Hins vegar eru Vinstri grænir þekktir fyrir allt annað en málefnalega umfjöllun og kunna manna best að reyna að hnika til staðreyndum með hálfsannleika

Stefnuleysi og rugl sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans er þjóðinni til vansa. Við þurfum síst af öllu einhvern ráðherra sem hefur það eitt að markmiði að breyta breytinganna vegna. Glýjan í augum mannsins stafar líklega af því að sjávarútvegurinn kann nú orðið að ávaxta sitt pund. Það vill hann koma í veg fyrir og er þannig trúr sínu sósíalístíska uppeldi.


mbl.is Markaðslögmál fá ekki alfarið að stýra sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldsumbrot á Reykjanesi og tómarúm Ómars Ragnarssonar

Ómar Ragnarsson segir frá því í pistli á bloggsíðu sinni að hann hafi á síðustu öld gert frétt um hugsanleg eldsumbrot á Reykjanesskaga. Stjórnvöld höfðu þá beðið Axel Einarsson, jarðfræðing, að segja fyrir hvernig þetta gæti gerst.

Axel setti upp módel sem sýndi upphaf syðst á skaganum og teygðist síðan allt upp á Hellisheiði.

Þegar þetta verk var komið vel á veg virtist mönnum ekkert lítast á blikuna varðandi þau áhrif sem umbrot á nyrðri hluta svæðisins gæti haft og var Axel beðinn um að sleppa því en klára syðri hlutann. 

Ómar tekur það fram að „aldrei var síðan gert neitt meira með nyrðri hlutann, líklega vegna þess að þar gætu afleiðingarnar orðið mun verri.“ Og Ómar heldur áfram um afleiðingarnar:

Þær gætu meðal annars falist í því að vegna misgengis rofnuðu bæði hitavatnsleiðslur, vatnsleiðslur, háspennulínur og vegir sem liggja til höfuðborgarsvæðisins og hraun rynnu úr Bláfjöllum niður yfir bæði vatnsöflunarsvæðin, Gvendarbrunna og Kaldárbotna auk hraunstrauma, sem færi niður Elliðaárdal út í sjó í Elliðavogi og niður í sjó í Hafnarfirði og á Álftanesi, en þar með myndu landsamgöngur frá Reykjavík rofna í báðar áttir og einungis Reykjavíkurflugvöllur og hafnirnar í Reykjavík og Kópavogi verða nothæf samgöngumannvirki.

Það var sem sagt haldin æfing vegna hins vægari hluta afleiðinga af eldvirknitímabili en það þaggað niður sem gerst gæti á höfuðborgarsvæðinu og skipti í raun og veru aðalmáli! 

Málið er afskaplega áhugavert að mínu mati. ég skil þó ekki hvers vegna Ómar segir ekki nánar frá þessu mati jarðfræðingsins. Þess í stað stoppar hann í miðjum klíðum og skilur lesandann eftir í algjöru tómarúmi. Hann ræði ekki frekar um jarðfræðinginn, getur þess ekki hvort sá sé enn starfandi eða hættur.

Svo er það þetta með „þöggunina“. Hér stoppar Ómar líka í miðjum klíðum og skilur lesandann eftir í sama fúla tómarúminu. Hann ætti þó að vita meira, til dæmis hverjir stóðu að þögguninni. Voru það sömu aðilar og pöntuðu ráðgjöf jarðfræðingsins?

Eða var þetta bara eitt af þessum málum féllu bara milli stafs og hurðar, vegna þess að enginn bar ábyrgð á því.

Draumspakur maður hefur tjáð mér í þessu sambandi að hann hafi undanfarna áratugi  dreymt sama drauminn af og til. Í honum er eldgos í sunnan eða austan við höfuðborgarsvæðið, í nánd við skíðasvæði, snertir það þó ekki. Draumurinn hefur ekki verið borinn undir jarðfræðinga Jarðvísindastofnunar HÍ sem þó eru afskaplega liprir og tjá sig auðveldlega um öll brigð af jarðfræðilegum tilvikum sem hugsast getur. Ekki heldur hefur draumurinn verið borinn undir borgaryfirvöld né ríkisstjórn. Að öllum líkindum yrði hann alls staðar þaggaður niður og hvergi þakkaður.


10.759 atvinnulausir + brottfluttir + hinir

Hvers vegna er atvinnulausir 10.759 hér á landi en ekki 20.000 eða fleiri? Jú, einfaldlega vegna þess að um 6.000 manns hafa hröklast úr landi, tekið þá ákvörðun að flytjast á brott til að eiga möguleika á að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.

Þannig sparar íslenska ríkið atvinnuleysisbætur.

Og hvað með þá sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum? Veit einhver hversu margir þeir eru? Litlir en sjálfstæðir atvinnurekendur, verktakar af ýmsu tagi, fólk sem ekki hefur verið launþegar. Margir hafa unnið heima við en vegna samdráttar í tekjum maka leita út á vinnumarkaðinn en fá ekki starf og þaðan af síður atvinnuleysisbætur.

Þanig sparar íslenska ríkið atvinnuleysisbætur. 

Svo eru útlendingarnir farnir frá Íslandi því hér er ekkert við að vera.

Þannig sparar íslenska ríkið atvinnuleysisbætur. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að dulið atvinnuleysi er miklu meira en opinberar tölur gefa til kynna. Tökum því þeim með mikilli varúð. 


mbl.is Enn dregst atvinnuleysi saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpstæð pólitísk andstaða gegn einkarekstri

Stjórnvöld draga upp glæsimynd af árangri sínum, það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA. Áróður ríkisstjórnarinnar er svo yfirgengilegur að fólk er farið að gleyma 12.000 manns sem ganga um atvinnulausir, 6.000 manns sem flutt hafa á landi brott frá því ríkisstjórnin tók við, verðbólgunni, skuldastöðu heimilanna og svo framvegis.

Ríkisstjórnin hampar þeim einföldu atriðum sem allar ríkisstjórnir hefðu gert í þessu ástandi, sinna bókhaldi, draga úr kostnaði, auka tekjur, sópa gólf og þvo upp. Merkilegra er það nú ekki sem hún hefur gert. Haldið í horfinu.

Hin hugmyndafræðilegu vandamál sem flækjast fyrir stjórnvöldum snúa að stærstu útflutningsgreinum Íslands, sjávarútvegi og áliðnaði. Herferð ríkisstjórnarinnar gegn helstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hefur leitt til stöðnunar í fjárfestingum í atvinnugreininni. Hugmyndafræðileg andstaða gegn uppbyggingu í áliðnaði á sér djúpar rætur í báðum stjórnarflokkunum. Minnast má atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði árið 2007 um stækkun álversins í Straumsvík, ákvörðunar þáverandi umhverfisráðherra á sínum tíma um sameiginlegt umhverfismat á álveri á Bakka og framhaldsaðgerðum núverandi iðnaðarráðherra gegn þeirri framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur aldrei viljað taka af skarið og leiða áfram framkvæmdir við álverið í Helguvík. Eina álfjárfestingin sem hefur fengið eðlilegan framgang er framleiðsluaukning í Straumsvík og bygging Búðarhálsvirkjunar.

Auðvitað er þetta rétt hjá Vilhjálmi. Hin hugmyndafræðilega andstaða ekki aðeins gegn áliðnaði heldur líka sjávarútvegi er djúpstæð í stjórnarflokkunum, raunar gegn einkarekstri almenn. Og Vilhjálmur segir: 

Auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, eru frumskilyrði þess að hægt sé að auka árlegan hagvöxt í 4% - 5% en það er er nauðsynlegt til þess að koma Íslandi uppúr kreppunni. Áframhaldandi hjakk, sem er staðfest með spá Seðlabankans um 1,6% hagvöxt á næsta ári, er ávísun á að Ísland verði fast í kreppunni út áratuginn. Því fylgir mikið atvinnuleysi og að illa mun ganga að rétta við hag ríkissjóðs. 


mbl.is Stóru atriðin sem gleymast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin ætti að gagnrýna ríkisstjórnina

Ástæðan fyrir því að leggja á niður réttrgeðdeildina að Sogni er vegna þess að ríkisstjórnin krefst enn meiri samdráttar í rekstri Landspítalans. Þetta á Björgvini G. Sigurðssyni, alþingismanni, að vera ljóst. Hann ber sér á brjóst og kvartar undan stjórnendum Landsspítalans en hlífir ríkisstjórninni og samherjum sínum við gagnrýni.

Kominn er tími til að þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans viðurkenni að niðurskurður velferðarkerfisins er bein afleiðing af stefnuleysi þeirra.

Í stað þess að kvarta og kveina ætti Björgvin og aðrir þingmenn að beina augum sínum að rót vandans sem er atvinnuleysi og skortur á innlendum og erlendum fjárfestingum. Þessi tvö mál eru grundvöllur þess að komast út úr afleiðingum hrunsins. Takist að leysa þau hverfa önnur vandamál eins og dögg fyrir sólu.


mbl.is Þruma úr heiðskíru lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er sálfræðilegt og pólitískt vandamál

Ef til vill er þetta aðeins rétt hjá Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna og fjármálaráðherra að fjórðungur vandamála Íslands sé efnahagslegur. Líklegast er að hlutfallið sé í beinum tengslum við fylgi ríkisstjórnarinnar. 

Vandi Íslands er stjórnleysi, skortur á stefnumótun. Steingrímur og aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hreykja sér af árangri í ríkisfjármálum. Þar er hann og fylgismennirnir á villigötum. Allar ríkisstjórnir hefðu talið það meginmarkmið sitt að draga úr útgjöldum og auka tekjur og koma málum því sem næst þannig að helst væri ekki tap á rekstri ríkissjóðs. Um það er enginn ágreiningur og skiptir engu hvaða flokkar hefðu valist í ríkisstjórn. 

Sálfræðilega vandamálið að er sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn skattleggur þjóð og atvinnulíf til að halda ríkissjóði á gangandi. Svo má rýja sauðina að úr blæði en það er aldrei farsælt fyrir búskapinn.

Pólitískt stefnuleysi ríkisstjórnarinnar veldur þjóðinni umtalsverðum vanda. Atvinnulífið kemst ekki af stað vegna skorts á fjármagni, ríkisstjórnin ætlar að skerða svo umhverfi sjávarútvegs að stórtap verður á, stóriðja er ekki velkomin, hugsanlegar erlendar fjárfestingar flækjast í löngum leiðslum innanríkisráðuneytisins.

Svo virðist sem fjármálaráðherra gleymi í fögnuði sínum 12000 Íslendingum sem hafa aðeins atvinnuleysisbætur sér til framfærslu, hann gleymir þeim þúsundum Íslendinga sem hafa flúið land og eru nú komin í starf í útlöndum og greiða þar skatta og skyldur. Hann gleymir þeim Íslendingum sem hafa ekki rétt á  atvinnuleysisbótum. Hann lítur framhjá skuldastöðu heimilanna og skilur ekkert í því að ástandið skuli hafa einhver sálfræðileg áhrif á þá sem tapað hafa eignum sínum til fjármálastofnana undanfarin ár. Ugglaust má fjármálaráðherran gleðjast yfir velgengni banka og álíka stofnana sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum forðum daga.

Fjármálaráðherra talar um sálfræðilegan og pólitískan vanda. Að mínu mati og þúsunda annarra er vandinn sjálf ríkisstjórnin sem virðist ekkert geta gert fyrir þjóðina annað en að sópa gólf og vaska upp. Það geta svo sem allir gert.


mbl.is Vandi Íslands sálfræðilegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir týndast og aðrir finnast

Ekki rata allir leiðangrar björgunarsveita í fjölmiðla - sem betur fer. Ekki heldur er opinberlega sagt frá því er almenningur á ferð eða fólk á vegum ferðafélaga aðstoða og hreinlega bjarga útlendum ferðamönnum úr háska.

Um daginn dvaldi ég nokkra daga í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi. Þar er talstöð og ég fylgdist allan tíman með samskiptum milli skálavarða Ferðafélags Íslands á Laugaveginum svokallaða. Oftar en ekki voru fyrirspurnir á milli þeirra um tiltekna ferðamenn, hvort þeir hefðu skilað sér að hvort einhver vissi af hinum eða þessum göngumanni.

Staðreyndin er einfaldlega sú að tölur frá björgunarsveitum segja ekki alla söguna.

Fyrir nokkrum dögum var ég á Fimmvörðuhálsi og hitti síðla dags tvo illa búna finnska ferðamenn efst á Hálsinum. Hann var í íþróttabuxum úr bómull, strigaskóm sem komið var gat á og jakka sem varla var nokkurt skjól af. Hún var álíka klædd, bæði matarlítil og vatnslaus. Þetta var í 1100 m hæð og hitinn í sólinni var um það bil fjórar gráður. Ég var á ferð með tveimur göngumönnum og gat leyft Finnunum að sitja bílnum í frá Fúkka og niður að Skógum þar sem þeir voru með bíl. Þangað vorum við komin í rökkri og hitastigið hafði lækkað nærri því niður í frostmark. 

Í loka ágúst lentu skálaverðir í Básum og sá sem var á Fimmvörðuhálsi í því að leita að ferðamanni sem ekki hafði skilað sér. Sá fannst eftir langa leit um miðja nótt. Það sem meiru skipti var að annar ferðamaður fannst og enginn hafði saknað hans. Sá var í slæmu standi og talsvert fyrir utan gönguleið. Hann hafði einfaldlega gefist upp, var kaldur og blautur, hættur göngu, lá í hnipri á víðavangi og bara beið eftir endalokunum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að ferðamenn þekkja ekki allir aðstæður. Þetta á jafnt við Íslendinga og útlendinga. Eftir því sem ferðamönnum fjölgar mun slysum og óhöppum einnig fjölga. Þetta er óhjákvæmilegt.

Hvað er þá til ráða? Tvennt skiptir mestu. Við þurfum í fyrsta laga að stuðla að því að björgunarsveitir landsins geti haldið áfram að eflast. Þau verði að eiga kost á því að kaupa tæki og tól sem geri vinnu þeirra auðveldari og hnitmiðaðri. Hitt skiptir ekki minna máli að stórauka áróður og kynningu á náttúru og öllum aðstæðum á fjöllum. 


mbl.is Tugir útkalla vegna ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir bjúrókratar verjast fjárfestum

Stjórnvöld geta það sem fáir aðrir eiga kost á en það er að tefja mál. Til viðbótar er hægt að drepa mál með leiðindum einum saman.

Komið hefur fram að fjöldi útlendinga eiga jarðir hér á landi. Fáir amast við því nema hugsanlega nokkrir Vinstri grænnir.

Fyrirhuguð fjárfesting kínversks fjáfestis upp á 12 milljarða króna kemur ekki að láni frá íslenskum lífeyrissjóðum, hún kemur í beinhörðum gjaldeyri. Með hvaða rökum er hægt að fullyrða að fjárfestingar eigi að mismuna eftir þjóðerni fjárfesta?

Nú höfum við því miður fólk í ráðherrastöðum sem telja sér allt heimilt. Þannig hafa hlutir æxlast að póitískt séð eru Vinstri grænnir í þeirri stöðu að hindra allt sem til uppbyggingar getur verið hér á landi. Samstarfsflokkurinn er engu skárri. Saman vilja þeir vera á móti öllu því sem kínverskt er. Ríkisstjórnin neitar að taka á móti heimsóknum kínverskra ráðamanna og fjárfestingar þeirra koma ekki til greina.

Ríkisstjórnin minnir mig á manninn sem talaði sér til hita og loks sagði hann: Það er tvennt sem ég er algjörlega á móti. Í fyrsta lagi sætti ég mig aldrei við kynþáttafordóma og í öðru lagi er ég á mót svertingjum ... 


mbl.is Vilja upplýsingar um eiganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin list að skrifa góða grein

Alltof margir eiga erfitt með að skrifa góða grein til birtingar í dagblöðum, vefsíðum eða bloggi. Jafnvel stjórnmálamenn sem ættu að vera sjóaðir í bransanum skrifa lélegar greinar. Svo má stundum lesa skínandi góðar greinar frá fólki sem fyrirfram mætti halda að væri óvant og kynni ekki mikið til þessarar listar.

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er engin list að koma hugsunum sínum á blað. Fyrsta boðorðið er einfaldlega að hafa einhverja skoðun ... engin skoðun er auðvitað ávísun á efnisrýra grein svo ekki sé meira sagt. Svo þarf að hafa það í huga að skrifa skipulega. Millifyrirsagnir hjálpa bæði þeim sem ritar og ekki síður lesendum. Þessu gleyma margir.

Í Morgunblaðinu eru í dag tvær greinar hlið við hlið á blaðsíðu 20. Önnur er eftir Sigurbjörn Þorkelsson fyrrverandi forseta Gídeonfélagsins. Hann skrifar um ákvörðun borgarstjórnar að leyfa ekki félaginu að gefa nemendum 5. bekkjar í skólum borgarinnar að þiggja Nýja testamentið að gjöf. Hin greinin er eftir Guðmund F. Jónsson sem titlar sig formann Hægri grænna, flokks fólksins. Hann skrifar umstöðu íslensku bankanna og hefur áhyggjur af því að nýtt bankaslys sé í uppsiglingu.

Báðar þessar greinar gætu verið góðar en eru aðeins þokkalegar. Sigurbjörn notar millifyrirsagnir en Guðmundur ekki. Fyrir vikið er sú fyrrnefnda læsilegri. Hætt er við að margir missi af boðskapnum í þeirri síðarnefndu vegna þess að þeir nenna ekki að lesa massívan texta. 

Vandi beggja þessara manna er hinn sami, þeir skrifa of langar greinar og hvorugur virðist vera gagnrýninn á eigin skrif. Sigurbjörn endurtekur sig alltof mikið, málgreinar eru oft of langar og svo örlar á mærð sem dregur greinina niður. Guðmundur er allur annar. Hann er eins og hríðskotabyssa, dritar út upplýsingum og ályktunum. Hann lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig þetta allt fer með lesandann sem illa getur áttað sig á hvað sé frá höfundi komið og hvað séu almennar upplýsingar. Þetta er í mörgum tilfellum mein stjórnmálamanna og þeirra sem vilja vera slíkir, margir blanda saman staðreyndum og skoðunum.

Við þurfum að hafa í huga, að grein á opinberum vettvangi á í bullandi samkeppni við allan anna texta. Hvers vegna les einhver eina grein en sleppir annarri? Fáir lesa allan texta í dagblöðum eða vefsíðum. Flestir velja sé lestrarefni, en hvernig? Ég fullyrði að þrennt skipti máli, fyrirsögn, upphaf greinar og millifyrirsagnir.

Ég hef áður bent á reglur Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, um stíl, þær er að finna á www.jonas.is. Reglur hans eru átta, afar einfaldar og skynsamlegar

Ástæða er til að bæta við nokkrum almennum reglum:

 

  • Markmiðið með greininni, hafa það á hreinu
  • Skipuleggja greinina; upphaf, miðja og endir
  • Nota alltaf millifyrirsagnir
  • Fyrirsögnin skiptir mjög miklu, hafa hana stutta og lýsandi
  • Byrja á áhugaverðu atriði sem lagt er út frá í aðalhluta greinarinnar
  • Enda greinina í stíl við upphaf eða meginmál
  • Vanda val á mynd af greinarhöfundi

 

Ég man þá tíð er Gunnar Thoroddsen var áberandi í stjórnmálalífi landsins. Hann var afskaplega fróður maður og vel máli farinn. Oft byrjaði hann ræður sínar á sögulegum nótum. Vinir, samherjar og andstæðingar tóku þetta oft upp í góðlátleg gríni og sögðu: „Góðir Íslendingar. „Fyrir ellefu hundruð árum námu norrænir menn hér land ...“ Og svo leið og beið og loks, kannski tveimur klukkustundum síðar, kom „Gunnar“ að kjarna málsins. „... og hefur ríkisstjórnin því ákveðið að fella gengið ...“ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband