Fjöldi einstæðra meðlagsgreiðenda og aðstæður þeirra?

Einstæður faðir, sá sem ekki hefur forræði fyrir barni sínu en þó umgengnisrétt á í gríðarlegum vanda. Allir vilja barni sínu vel og að sjálfsögðu fylgja því útgjöld, stundum jafnmikil eða meiri en móður. Til viðbótar þarf faðirinn að greiða svokallað meðlag. Fjárhagsleg staða margra er því oft erfið og vanskil algeng.

Það er e.t.v. tímanna tákn að Hagstofan telur hvert hænsni og svín í úttektum sínum, og veit hversu stórt hlutfall þjóðarinnar heitir Jón eða Gunna, en telur sér hins vegar ofviða að telja einstæða meðlagsgreiðendur og halda tölfræðilegum upplýsingum um málaflokkinn til haga. Sjálfsagt er þetta ástand til marks um viðhorf hins opinbera til meðlagsgreiðenda og e.t.v. sá mannskilningur sem hefur lagt grunninn fyrir jafnréttisbaráttuna á Íslandi. Hænsni, svín og annað búfé er sýnilegra hinu opinbera en einstæðir meðlagsgreiðendur. 

Þetta segir Gunnar Kristinn Þórðarson í grein í Morgunblaðinu í morgun en hún nefnist „Hænsni, svín og einstæðir meðlagsgreiðendur“. Hann heldur því fram að enginn viti hversu margir einstæðir meðlagsgreiðendur eru:

Ég leitaði upplýsinga hjá Creditinfo, Skattstjóra, Hagstofunni, Velferðarráðuneyti, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Tryggingastofnun og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Svör þeirra voru öll á einn veg. Engin þessara stofnana hafði nokkrar upplýsingar um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda; þær töldu ómögulegt í framkvæmd að komast yfir þær tölur og litu ekki á það sem skyldu sína að halda þeim til haga eða afla þeirra. 

Þetta finnst án efa fleirum en Gunnari athyglisvert. Hann hefur nú fengið því framgengt að Umboðsmaður Alþingis hefur samþykkt að taka fyrir erindi hans „um meint lögbrot Hagstofunnar, Tryggingarstofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga við að hafna formlegri beiðni minni um að taka saman fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda.“

Að mínu mati er þetta afskaplega merkilegt framtak hjá Gunnari og skilar vonandi árangri. Hann segir í niðurlagi greinar sinnar:

Ef það verður niðurstaða Umboðsmanns Alþingis að Hagstofan hafi lögboðnar skyldur til að afla upplýsinga um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda er ljóst að margt óhugnanlegt muni koma fram sem ekki hefur þolað dagsins ljós eða almenna umræðu. 

Undir þetta má hiklaust taka. Sorg og beinlínis þjáning sem fylgir því að vera hafa forræði fyrir börnum sínum er mikil. Ofan á þetta kemur oft fjárhagslegur vandi, vanskil við Innheimstustofnun sveitarfélaga og síðan aðra aðila. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég þekki til þess að svona aðstæður hafa orðið til þess að einstæður faðir hefur aldrei náð fjáhagslegu sjálfstæði þrátt fyrir þokkalegar tekjur, aldrei getað eignast íbúð og alltaf búið í leiguhúsnæði.

Einn vinur minn sem þannig var ástatt um sagði við mig einhvern tímann á þessa leið: Ég er settur í þá stöðu að þurfa að standa mig sem faðir, veita börnum mínum allt það besta til jafns við móður þeirra. Það hefur þýtt að ég hef viljandi þurft að gerast vanskilamaður. Ég sé hins vegar ekkert eftir því, börnin mín set ég í algjöran forgang.

Einhvern tímann er Sighvatur Björgvinsson, krati, var félagsmálaráðherra, hækkaði hann meðlagsskylduna um einhverjar krónur. Hann var spurður að því í útvarpsviðtali hvort hann teldi hækkunina ekki geta skapað vanda hjá feðrum sem greiða meðlag. Hann svaraði því til að þeir hefðu nú átt að hugsa fyrir því áður en þeir komu sér í þessa aðstöðu. Ekki var hægt að túlka orð mannsins á annan hátt en þann að meðlagsgreiðendur hefðu einfaldlega ekki átt að búa til börn í upphafi eða skilja við móður barna sinna.

Síðan hef ég alltaf haft megnustu óbeit á þessum fyrrverandi ráðherra og þingmanni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður og takk fyrir þessi orð.  Þessi orð Sighvats segir allt sem segja þarf um viðhorf samfélagsins til þessa þjóðfélagshóps.  Nýlega fékk forstjóri Innheimtustofnunar sveitafélaga drottningaviðtal á Bítinu á Bylgjunni þar sem hann dróg upp mynd af meðlagsgreiðendum sem vandræðafólki sem ætti erfitt með að standa sína plikt.  Mannfyrirlitningin og mannréttindabrotin eru æðisgengin.

Gunnar Kristinn Þórðarson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 12:29

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Heyrði ekki þetta viðtal en undrast ekki lýsinguna. Ítreka bara það sem ég sagði í pistlinum. Þetta er grafalvarlegt mál og undirrót að mikilli sorg og þjáningu fjölda fólks sem hefur eiginlega ekkert af sér gert en að setja börnin sín í forgang. Hver gerir það ekki?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.10.2011 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband