Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Nýr ráðherra með bein í nefinu ...

gu_bjartur_hannesson.jpg

Nýji ráðherra heilbrigðis-, félags- og tryggingarmála, Guðbjartur Hannesson virðist hinn vænsti maður og er það ábyggilega. Um helgina las ég viðtal við manninn í Fréttablaðinu og varð margs áskynja um stefnu hans í þessu fjármagnsfreka málaflokki. Hér eru nokkrir punktar:

  • Hann er spurður að því hvort hann verði lengur í embættinu en forverar hans og hann svarar: „Nú ræð ég því ekki ...
  • Þá er hann spurður að því hvort ekki sé fyrirséð að starfsfólki í ráðuneytum muni fækka við sameiningu þeirra og ekki stendur á svarinu: „Það verður að koma í ljós ...
  • Blaðamanni leikur forvitni á við vita hvort hægt sé að skera meira niður hjá Landspítalanum og hverju má eiginlega fórna. Ráðherran svarar yfirvegað: „Ég ætla ekki að segja mikið um það akkúrat á þessu stigi ...
  • Ráðherrann er spurður um einkarekna heilbrigðisþjónustu og viðhefur nauðsynlega fyrirvara áður en hann lýkur máli sínu með þessum orðum: „En við skulum sjá hvað er í boði áður en ég fer að taka afstöðu ...
  • Nýji ráðherrann er spurður um gagnrýni á ferlið í kringum ráðningu umboðsmanns skuldara og forstjóra Íbúðarlánasjóðs. Ekki stendur á svörunum: „Ég ætla ekkert að dæma um það ...“
  • Blaðamaðurinn vill ekki sleppa ráðherranum og spyr hvort forveri hans hafi komið of nálægt áðurnefndum ráðningum og yfirvegað svarar nýji ráðherrann: „Ég get ekki dæmt um það ...
  • Loks er nýi ráðherrann spurður hvort hann ætli sér að vera formaður Samfylkingarinnar, að vísu er spurningin loðnari en hér er haldið fram, en ekki er hægt að segja að ráðherrann sé loðinn eða óviss í svari sínu: „Nei, nei, við erum með besta formanninn af öllum stjórnmálaflokum á Íslandi þannig að ég held að aðrir flokkar ættu frekar að huga að formannsskiptum en við.

Eftir lestur viðtalsins fer ekki hjá því að von kvikni í brjósti lesandans um nýja og bjarta framtíð þjóðarinnar undir forystu manns sem tekst nú á hendur að stjórna fjárfrekustu málaflokkum stjórnkerfisins.

 


Er samdráttur í landsframleiðslu efnahagsleg framþróun?

Menn gleypa við öllu sem kemur frá ríkisstjórninni og fréttamenn virðast ekkert róta sér þó samdráttur verði í landsframleiðslu. Þeir taka til dæmis á móti Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í morgunútvarpi og hann fær óátalið að halda því fram að allt horfi til góðs vegar í íslenskum efnahagsmálum, þökk sé ríkisstjórninni. Nei, samdráttur í landsframleiðslu er hliðstæður náttúrhamfarir en hann má rekja til hagstjórnarmistaka ríkisstjórnarinnar.

Hversu samdauna geta sumir verið ástandinu. Er allt í lagi að á annan tug þúsunda landsmanna séu á atvinnu? Er það einhver lækning á atvinnuleysinu þó um þrjú þúsund manns fái vinnu yfir sumarið? Er ástandið innan skekkjumarka þegar landsframleiðsla dregst saman um 4%? Er það ásættanlegt að þúsundir landsmanna flytjist til útlanda vegna þess að ekki er neitt starf að finna á landinu?

Tryggvi Þór Herbertsson á lof skilið fyrir að vera gagnrýninn á ríkisstjórnina og krefjast skýringa. Það eina sem vantar í málflutning hans og félaga hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er skýr og ákveðin krafa um afsögn þessar handónýtu ríkisstjórnar og nýja þingkosningar. 

 


mbl.is Óskar eftir fundi vegna nýrra hagtalna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegt minnihlutaálit menntmálanefndar

Illu heilli náðu fjölmiðlalögin frá því 2004 ekki fram að ganga. Þau voru góð og með tímanum hefði verið hægt að laga þau til og fá um þau miklu betri sátt en var. Þess í stað er nú verið að vinna að nýjum fjölmiðlalögum, sex árum og seint. Reynslan frá því 2004 bendir ótvírætt til að nú þurfi fjölmiðlalög að taka yfir miklu víðara svið en áður. Markaðsmisnotkun er í dag beitt til að koma óþægilegum fjölmiðli á kné. Slíkt inngrip í starfsemi fjölmiðils er algjörlega óþolandi.

Samkeppiseftirlitið bendir á að ekki er með „neinum hætti tekið á samkeppnishömlunum á fjölmiðlamarkaði sem eru afleiðing af stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði“. Minnihluti menntamálanefndar, Óli Björn Kárason og Ragnheiður Ríkarðsdóttir benda á óhæfilegan afslátt á auglýsingum frá listaverði og vitnað er til Samkeppniseftirlistins sem segir:

Þar til annað kemur í ljós verður að ganga að því sem gefnu í þessu máli að opinberlega birt kjör RÚV á auglýsingum endurspegli kostnað RÚV og eðlilega álagningu. Þegar litið er til þessa og haft er í huga að engin aðskilnaður er fyrir hendi hjá RÚV, sem kemur í veg að opinbert fé sé notað til þess að niðurgreiða auglýsingastarfsemi, verður að telja að þessir miklu afslættir RÚV veiti ríkar vísbendingar um skaðleg undirboð sem séu til þess fallin að raska samkeppni frá keppinautum sem engra ríkisstyrkja njóta.

 Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra gerir ráð fyrir nýju opinberu fyrirtæki sem nefnist Fjölmiðlastofa. Um hana segja óli Björn og Ragheiður:

Valdsvið Fjölmiðlastofu verður víðtækt og getur haft mikil áhrif á starfsemi fjölmiðla. Ákvarðanir Fjölmiðlastofu verða fullnaðarúrlausnir innan stjórnsýslunnar og sæta ekki stjórnsýslukæru. Vilji forráðamenn fjölmiðils ekki una úrskurðinum þá er þeim nauðugur sá kostur að höfða mál fyrir dómstólum með viðeigandi kostnaði.

Hugmyndin að stofnun Fjölmiðlastofu er ekki síst varhugaverð vegna þess hve einstök ákvæði í frumvarpinu eru óljós og opin fyrir túlkun hinnar opinberu eftirlitsstofnunar og starfsmanna hennar. Þá er ráðherra mennta- og menningarmála færð mikil völd yfir fjölmiðlun með heimild til setningar reglugerða. Einnig er ljóst að ákvæði frumvarpsins er varðar eftirlitshlutverk Fjölmiðlastofu skarast á við ákvæði laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. 

Það er fyllilega rétt sem segir í minnihlutaálitinu að reglur um eignarhald fjölmiðla verða ekki settar án þess að tryggt verði að eðlileg og sanngjörn samkeppni ríki á fjölmiðlamarkaði. Það markmið virðist vera hedur langt undan.


mbl.is Vilja leggja fjölmiðlafrumvarp til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bein afleiðing aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar

Þjóðin liggur marflöt undir ráðríkri ríkisstjórn sem hótar og veifar refsivendi sínum út um allar grundir.

Skattahækkanir hafa þegar komið til framkvæmda, innflutningur takmarkast af harðlæstu gengi, kaupmáttur minnkar vegna atvinnuleysis og skattahækkana og því er ekki furða þó landsframleiðsla dragist saman. 

Sú staðreynd að fimmtán þúsund manns séu án atvinnu hlýtur að hafa áhrif á landsframleiðsluna.

Ríkisstjórn sem ekki vinnur hörðum höndum að því að draga úr atvinnuleysi á ekki skilið að fá að starfa. Þessi ríkisstjórn hefur ekki megnað að draga úr atvinnuleysinu, getur ekki sýnt nein merki um að efnahagsstefna hennar hafi haft þau áhrif að atvinnutækifærum hafi fjölgað. Breytingar kunna að vera á atvinnuleysinu vegna árstíðabundinna aðstæðna og það gerist þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjornarinnar en ekki vegna þeirra.

 


mbl.is 3,1% samdráttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin margoft synjað þessari stefnu allaballa

Undarleg staða er komin upp. Gamaldags sósíalistar og allaballar á borð við þá sem töpuðu í hverjum kosningunum á fætur öðrum allt frá því landið varð lýðveldi eru nú komnir til valda á Íslandi.

Aldrei náðu þessi menn fylgi við stefnu sína. „Ísland úr Nató og herinn burt“ var slagorðið um langan tíma. Aldrei náðu þeir að reka herinn úr landi jafnvel þó það hafi verið dýpsta heitstrenging þeirra fyrir hverjar kosningar á fætur öðrum. Og svo fór herinn og þessir gamaldags sósíalistar höfðu ekkert um það að segja né heldur apparatið þeirrra Samtök herstöðvarandstæðinga eða sami félagsskapurinn með nýja nafninu.

Og nú vill sá þingmaður sem er einn af þeim aftuhaldssinnuðustu og þjóðernissinnaðri en þjóðarflokkarnir í Noregi, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi til samans, reyna á þolrif Samfylkingarinnar, systurflokksins og freista þess að koma landinu úr Nató. Ekki rekur hann þann eina her sem er í landinu ennþá, Hjálpræðisherinn í burtu.

Hva, eruð þið á móti þjóðaratkvæðagreiðslu, mun Ögmundur örugglega segja, við andmælendur. Um leið man hann ekkert eftir Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni né heldur þjóðaratkvæðagreiðslunni um að sækja um aðild að ESB ... Ó, afsakið, ríkisstjórn hinna norrænu velferðar láðist að halda slíka atkvæðagreiðslu um málið. Þar fór í verra. Hva, var Ögmundur á móti þjóðaratkvæðagreiðslu ...? Nei, nei, hann er með inngöngu í ESB og ætlar sko ekkert að rugga bátnum vegna hennar því þá myndi hann missa nýfengið embætti.

Hið hrikalega atvinnuleysi, skjaldborgin sem engin er, Icesave, samningurinn við atvinnulífið, skattaáþjónin, gengistryggingin og allt þetta sem ekki hefur verið leyst má nú bíða meðan fylgjendur hinnar úreltu stefnu, reyna að rétta það sem þjóðin hefur margfalt hafnað í þingkosningum.

Verði þeim að góðu. 

 


mbl.is Íhugi þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á einhver von á breytingum?

Hvers vegna er verið að breyta um ráðherra í ríkisstjórninni? Er það vegna þess að árangur hennar hefur verið svo arfaslakur að nauðsyn sé á nýju blóði? Eða er árangurinn svo óskaplega góður, eins og stjórnarsinnar segja, að nauðsynlegt sé að breyta um ráðherra?

Í íþróttum breytir þjálfarinn því liði sem líklegt er til árangurs? Hann tekur ekki út markaskorarann, sprettharðasta manninn eða trausta varnarmanninn nema eitthvað sé að. Senterinn skorar ekki, sá sprettharði verður að gera eitthvað meira en að hlaupa blint og varnarmaðurinn má ekki klikka í stöðu sinni.

Er þetta eitthvað öðruvísi í pólitíkinni.

Nei ... og þó. Vandamálið í stjórnmálunum er pólitíkin eða þannig. Stðareyndin er sú að ríkisstjórnin sem heild er ekki að skila neinu. Hún er gjörsamlega gagnslaus og til að fela það er reynt að poppa upp innan hennar, breyta um ráðherra. Það er svo sem allt í lagi en mun það skila einhverju.

  • Á einhver von á því að skjaldborgin um heimilin fari að virka?
  • Er við því að búast að samningurinn við vinnumarkaðinn hrökkvi í gang?
  • Gæti verið að ætlunin sé að fækka þeim 15.000 sem eru án atvinnu? 
  • Dettur einhverjum í hug að fyrirtækin í landinu fái eðlilega fyrirgreiðslu í bönkum?
  • Varla er verið að hugsa um að draga úr skattheimtunni á heimilin í landinu?

Jú auðvitað er verið að pæla í öllu þessu en staðreyndin er sú að ekkert sem máli skiptir hefur náð fram að ganga og þess vegna er allur vandræðagangurinn. En gangi þessu liði betur framvegis en hingað til. 


mbl.is Ósátt við ráðherravalið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt sem hefði átt að breyta stendur óhaggað

Breytingar á ríkisstjórninni hafa ekkert að segja. Allir þeir ráðherrar sem mestu máli skipta sitja áfram, flestir þeir ráðherrar sem flestar ávirðingar hafa hlotið fyrir störf sín sitja áfram, þeir tveir ráðherrar sem bera ábyrgð á að hafa ekki brugðist rétt við vandamálum eftir hrunið sitja áfram. Þeir ráðherrar sem í ríkisstjórnina koma munu ekki hafa nokkur einustu áhrif á atvinnuleysi á landinu, engar breytingar gera á stöðu einkarekinna fyrirtækja gagnvart þjóðnýttum og vel fjármögnuðum fyrirtækjum og áfram mun þessi ríkisstjórn standas fast við skjaldborgina umhverfis banka og fjármagnsstofnanir svo aumur almúginn haldi áfram að borga himinháar gengistryggðar skuldir „sínar“.

Þar af leiðandi er þessi sýning aðeins skemmtiatriði, verið er að mála ofan í ryðskemmdir á ríkisstjórn og allir vita hversu vel slíkt mun duga. Menningarnótt er líðin, menningarhátíðir og bæjarhátíðir eru flestar að baki en alltaf er einhver eftir skrýtnar skemmtanir. Þeir þekkjast á talfærinu, baráttumenn alþýðunnar. Nú fáum við ráðherra velferðarmála. Það þarf dálítið fjörugt hugarflug til að geta búið til svona starfsheiti. Líklega er höfundurinn sá inn sami og fattaði upp á frasanum skjaldborgin um heimilin í landinu.

Sá tími er liðinn að hægt var að setja upp þjóðstjórn í landinu. Nú er sá tími kominn að þjóðin þarf að losna við þessa norrænu velferðarstjórn áður en hún endanlega gengur frá þjóðinni með gamaldags og úreltum aðferðum.


mbl.is Fjórir á leið úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband