Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Árni Páll gleymir að þjóðin rasskellti Samfylkinguna

Mikið er nú skrýtið hvað Samfylkingin hefur breyst síðan hún missti tiltrú þjóðarinnar.

  1. Núna vill Samfylkingin þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB en mátti ekki heyra á það minnst þegar hún var í ríkisstjórn. 
  2. Ekkert gekk í „samningaviðræðum“ við ESB meðan Samfylkingin var í ríkistjórn, var hún þó afskaplega hlynnt aðild. Ekkert gengur nú í samningaviðræðum við ESB enda er ríkisstjórnin ekki hlynnt aðild að sambandinu. Þetta segir formaður Samfylkingarinnar merki um öfgar.
  3. Núna vill Samfylkingin láta semja um laun fyrir kennara. Þegar hún var í ríkisstjórn vildi hún ekki koma nálægt samskonar samningi við heilbrigðisstéttir. Eina stéttin sem hún samdi við, og það hressilega, var forstjóri Landspítalans, en Guðbjartur Hannesson samþykkti að hækka mánaðarlaun hans um hálfa milljón króna svo hann gæti auk stjórnunarstarfa starfað á skurðstofu hálfan daginn.

Árni Páll Árnason, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, er lítt málefnalegur eða hvaða grundvöllur er fyrir því að halda þessu fram um tillögum um að hætta viðræðum við ESB og draga aðildarumsóknina til baka. Skoðum orð Árna í ræðu hans á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar:

Tillagan er hneyksli og sýnir hversu vegavillt ríkisstjórnin er orðin. 

Tillagan er engu að síður spegilmynd þingsályktunar um umsókn að ESB og ekkert meira hneyksli en umsóknin sjálf. 

Hún brýtur loforð.

Ríkisstjórnin lofaði að hætta viðræðum við ESB og hún gerir betur en það, leggur til að draga til baka aðildarumsóknina. Lofaði annars síðasta ríkisstjórn að hætta viðræðum við ESB?

Hún virðir þjóðina að vettugi.

Spurði ríkisstjórn Samfylkingar og VG þjóðina um aðildarumsókn? Nei, hún hafnaði því, meirihlutinn hlóg að tillögunni og sögðu nóg að loknum „samningaviðræðum“ að bera „samning“ undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá laug ríkisstjórn Samfylkingar og VG að þjóðinni vegna þess að aðildarumsókn fylgja ekki samningaviðræður og enginn hefðbundinn samningur er lengur gerður milli umsóknarríkis og ESB.

Hún reynir að gera komandi kynslóðum erfiðara fyrir að velja aðild að Evrópusambandinu, kjósi þær svo.

Þetta er tvískinnungur. Auðvitað var tillaga um aðild að ESB að sama skapi til að gera komandi kynslóðum erfiðara fyrir að hafna aðild að sambandinu. Hvernig er hægt að bera svona ótrúlegan og ómálefnalegt bull fyrir almenning. 

Tillagan stenst hvorki lög um þjóðaratkvæðagreiðslur né stjórnarskrá.

Þetta er afar vanhugsuð fullyrðing og stenst enga skoðun.

Greinargerð tillögunnar var full af pólitískri heift og einsýni og í henni eru engin rök færð fram fyrir niðurstöðu hennar um afturköllun aðildarumsóknar.

Menn geta æst sig endalaust út af pólitískum andstæðingum en er ekki skynsamlegra að rökræða málin. Sumum hentar ekki slík nálgun. 

Ekkert hagsmunamat. Ekkert um kosti við aðild í samanburði við meinta ókosti.

Var gert einhvers konar „hagsmunamat“ þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG lögðu fram tillögu um aðild að ESB?

Stefna formanns Samfylkingarinnar og fjölda forystumanna hennar virðist vera sú að láta skeika að sköpuðu. Helst halda fram einhverjum útbelgdum fullyrðingum og vonast til að eftir nokkur skipti trúi almenningur bullinu.

Sinnaskipti Samfylkingarinnar eftir hrakfarir í síðustu kosningum eru miklar. Almenningur man þó eftir samþykkt aðildarumsóknar að ESB, við munum eftir því hvernig Árni Páll tók á skuldastöðu heimilanna, við munum eftir því hvernig fór fyrir skjaldborginni, við munum eftir launahækkunum forstjóra Landspítalans, við munum eftir launamálum Seðlabankastjóra og hvernig fyrrum forsætisráðherra sveik hann og skrökvaði því að hún hefði aldrei lofað neinu.

Er ástæða til að halda áfram upptalningunni? Nóg er eftir. 


mbl.is Vilja að samið verði við kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundrað milljarða tap á skyndisölu þriggja Glitniseigna?

Sænski seðlabankinn og hinn enski opnuðu lánalínur til íslenskra fjármálafyrirtækja eftir hrun, svo að þau neyddust ekki til að selja eignir í skyndi. Norski seðlabankinn neitaði hins vegar að opna slíka lánalínu til Glitnir Bank ASA í Noregi, heldur vísaði honum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda þar í landi. Sjóðurinn veitti Glitnir Bank ASA lánalínu í nokkra daga, en lagði áherslu á, að bankinn yrði seldur á því tímabili.

Stjórn sjóðsins kom saman 19. október og samþykkti að mæla með því, að samtök sparisjóða undir forystu Finns Haugans keyptu bankann fyrir 300 milljónir norskra króna eða 5,6 milljarða íslenskra króna (miðað við gengi 2014). Haugan boðaði forföll vegna vanhæfis, en hann var einmitt formaður stjórnar sjóðsins.

Nokkrum mánuðum síðar var bankinn metinn á tvo milljarða norskra króna í bókum kaupenda. Þeir höfðu grætt 1,7 milljarða

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, ritar sláandi grein í Morgunblað dagsins undir fyrirsögninni „Töpuðu Íslendingar hundrað milljörðum á skyndisölu þriggja Glitniseigna?“. Ljóst má vera af lestri greinarinnar að tapið var afar mikið. 

Um er að ræða Glitnir Bank ASA í Noregi, Glitnir Securities í Noregi og Pankki Oy í Finnlandi. Í öllum tilvikum var sala þessara fjármálafyrirtækja knúnin fram með örlitlum fyrirvara og starfsmenn stukku til og keyptu og högnuðust gríðarlega eins og fram kemur í greininni.

Glitnir Securities í Noregi var líka selt strax eftir hrun. Hópur starfsmanna keypti fyrirtækið 12. október 2008 fyrir 50 milljónir norskra króna.Viku síðar seldu þeir helmingshlut í því til RS Platou fyrir sömu upphæð, 50 milljónir norskra króna, 941 milljón íslenskra króna.

Þeir höfðu með öðrum orðum eignast 50 milljón króna hlut á einni viku fyrir ekki neitt. Hæg voru heimatök, því að RS Platou var með skrifstofu á hæðinni fyrir ofan Glitnir Securities í Haakon VII’s gate í Osló. Þekktust starfsmenn fyrirtækjanna tveggja vel. 

Maður verður hreinlega orðlaus yfir þessum fréttum. Vissulega hafa þær birst áður en ekki svona ítarlegar.

Finnski bankinn Glitnir Pankki Oy var selt á 3.000 Evrur og ári síðar var hann seldur fyrir 200.000.000 Evra, eða 31,2 milljarða íslenskra króna. Þetta þætti nú víðast ansi góður díll fyrir starfsmennina sem keyptu bankann upphaflega.

Hannesi reiknast til að heildartjónið af skyndiútsölu þessara þriggja fyrirtækja hafi verið 40 milljarðar íslenskra króna. Hann bætir þó eftirfarandi við:

En þetta mætti líka meta miðað við verðþróunina síðan og miða þá við, að Glitnir Pankki Oy var seldur 2013 fyrir fjórfalt það verð, sem hann var metinn á í ársbyrjun 2009.

Setjum svo, að norsku fyrirtækin tvö hefðu hækkað svipað hlutfallslega í verði. Þá hefði hugsanlega verið hægt að fá fyrir þau um 130 milljarða íslenskra króna meira en gert var. Samtals hefði þá verið hægt að selja þessar þrjár eignir á 160 milljarða króna.

Lægsta mat er 40 milljarðar króna, sem þessar eignir voru sannanlega virði í ársbyrjun 2009. Hæsta mat kann að vera um 160 milljarðar, en meðaltalið af þessu tvennu er hundrað milljarðar.

Niðurstaða Hannesar í grein sinni og líklega í fyrirlestrinum sem hann mun halda um þessi efni í Háskólanum er eftirfarandi:

Norskir og finnskir aðilar nýttu sér tímabundna neyð íslensku bankanna til að hirða af þeim eignir á smánarverði.

Og sú spurning sem við, leikmenn og lesendur greinarinnar, sitjum uppi með er sú hvort norsk og finnsk stjórnvöld séu beint eða óbeint ábyrg fyrir þessum gjörningum? Eitt má þó vera ljóst, að það er enginn annars bróðir í leik, hvað þá í samskiptum milli þjóða. Svokallaðar frændþjóðir hugsa eðlilega fyrst og fremst um hagsmuni sína og það eigum við Íslendingar að gera líka, hvort sem það á við um aðild að ESB eða makríl svo dæmi séu tekin.  

Með náttúrupassa vex báknið og frelsið er takmarkað

Einstaklingum sem náð hafa 18 ára aldri er skylt að afla sér náttúrupassa gegn gjaldi, sbr. 3. mgr. heimsæki þeir ferðamannastaði á Íslandi sbr. 2. mgr. Einstaklingar sem eru með lögheimili eða sækja fasta vinnu á svæðum þar sem náttúrupassinn gildir sbr. 2. mgr. þurfa þó ekki að afla sér náttúrupassa vegna veru sinnar á þeim svæðum.

Náttúrupassinn gildir á þeim ferðamannastöðum á Íslandi sem eru aðilar að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu og viðhald innviða á ferðamannastöðum sbr. 6. gr. 

    Gjald fyrir náttúrupassa skal vera eftirfarandi:  

  • a. 2.000 kr. fyrir fjóra daga.
  • a. 2.000 kr. fyrir fjóra daga.
  • b. 3.000 kr. frá fimm dögum til fjögurra vikna.
  • c. 5.000 kr. fyrir lengri tíma en fjórar vikur. Gildistíminn er fimm ár. 

    Gjaldið skal renna óskipt til Náttúrupassasjóðs.

Svona lítur þetta út, 7. greinin í frumvarpi til laga um náttúrupassa. Munum að passinn er aðeins leyfi til ferðalaga engin þjónusta fylgir, ekkert leyfi til að tjalda er innifalið.
 
Íslendingar skulu sem sagt greiða pening fyrir fá allra náðarsamlegast að ferðast um landið sem við og forfeður okkar hafa frá landnámi fengið óhindrað að fara um. Nú á að skattleggja okkur vegna þess að stjórnvöld hafa ekki verið svo forsjál að taka til hliðar hluta af gríðarlegum tekjum af ferðaþjónustunni sem safnast hafa í ríkissjóð undanfarinn áratug. 

Í þokkabót skal setja upp stofnun sem nefnist Náttúrupassasjóður með starfsfólki og stjórn. Stofnunin á að passa upp á fjármuni sem innheimtast og útdeila þeim. Að málum eiga að koma allir hagsmunaaðilar nema almenningur í landinu, hann er undanskilinn frá öllu nema skattheimtunni.

Munum að þetta er skattheimta á þjóð sem þegar fyrir er þunglega skattlögð. Ástæðan er eins og að framan greinir, stjórnvöld geta ekki séð af vaxandi tekjum af ferðaþjónustunni í náttúruvernd og uppbyggingu ferðamannastaða.

Ég hef fyrir framan mig frumvarp til laga um náttúrupassann. Ljóst má vera að mikill ágreiningur verður um hann og hart barist gegn samþykktinni. Ég hef líka þá trú að Sjálfstæðisflokkurinn munu skiptast í tvo hópa um málið vegna þess að það gengur þvert gegn grundvallargildum flokksins um frelsið.

Ágætt er að lýsa því hér yfir að ég mun aldrei greiða þennan skatt og mun þó ekki sitja heima með hendur í skauti heldur ferðast um land mitt eins og ég hef gert hingað til - og berjast gegn óréttlætinu. 


Engar samningaviðræður, enginn pakki - aðeins aðildin ein

...hvað er forsvaranlegt að eyða miklum fjármunum í að mennta þjóð sem, þrátt fyrir einhverja lengstu skólagöngu í heimi, nennir ekki að lesa sáraeinfaldan texta? Skilur ekki að það eru engar samningaviðræður í gangi. Skilur ekki að það er enginn pakki til að kíkja í. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) er einstaklega skýr í þessum efnum. Viðræðurnar snúast um tímasetningar upptöku 100.000 blaðsíðna af regluverki sambandsins. Ekkert annað.

Á einfaldan hátt rökstyður Ragnhildur Kolka, námsmaður í HÍ, þá ótrúlegu staðreynd að meirihluti landsmanna virðist ekki vita út á hvað viðræðurnar við Evrópusambandið ganga. Þetta gerir hún í grein í Morgunblaði dagsins og nefnist hún „Ef greind er normið þá fyrst verður heimskan áhugaverð“. 

Ragnheiður er ritar góða grein og færir góð rök fyrir máli sínu. Hún segir:

Skýrsla HHÍ gerir ágæta grein fyrir landbúnaðarkaflanum. Margumræddar undanþágur Finna og Svía vegna heimskautalandbúnaðar eru aðeins tímabundnar og getur sambandið, hvenær sem er, ákveðið að þessar tvær þjóðir hætti að styrkja þessa útkjálkabændur. Sjávarútvegurinn er enn ólíklegri til að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandsins. Auðvitað geta menn bundið vonir við að fá tímabundinn ráðstöfunarrétt á ca. 100 dósum af síld eins og Malta, en þó er líklegra að Evrópusambandið haldi sínu striki eins og Norðmenn fengu að reyna þegar þeir sóttu um síðast. „Ausgeschlossen“, fiskimiðin skulu vera undir stjórn ESB og ekkert múður.

Þeir sem ekki eru fullkomlega sannfærðir um réttmæti orða Ragnhildar ættu einfaldlega að lesa reglur ESB um aðildarumsókn, lesa að auki skýrsluna sem hún nefnir og íhuga orð stækkunarstjórans þegar hann sagði að Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra, viðstöddum, að engar varanlegar undanþágur væri gefnar frá umræðuefni umsóknarþjóðarinnar í 35 köflum. 


Einstaklega falleg frásögn

Frásögnin af feðgunum Geir Gunnlaugssyni, lækni, og syni hans Gunnlaugi er falleg. Hún hefur engu að síður stærri skírskotun en ætla mætti í fljótu bragði.

Ekki aðeins er hún um fórn sem annar aðilinn telur sjálfsagða og hinn kann að þiggja - það síðarnefnda er ekki svo einfalt sem margir hyggja.

Sagan segir okkur líka frá því hversu fjölskyldan skiptir miklu máli í þjóðfélaginu, þrátt fyrir allar breytingar á menningu, búsetu og aðstæðum. Hún segir okkur líka þá einföldu staðreynd að fólk leitar til þess sem gefur því frið og markmiðið hvers og eins er að geta notið tilverunnar með sínu fólki, stundað störf sem gerir kleift að eignast húsnæði, mat og annað sem hugur hvers og eins stefnir að.

Á ferðum mínum hér á landi og erlendis hef ég fundið þann eina sannleika sem ég held að öllum sé æðri og hann er sá að fólk vill fá að vera í friði með þeim sem það kann vel að umgangast. Þetta segir fólk beint og óbeint hér á landi, í Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku. Ábyggilega 90% fólks er gott fólk. Svo eru það hin tíu prósentin sem, þeir sem ávallt tekst að eyðileggja fyrir öðrum með yfirgangi, spillingu og þaðan af verra. Dæmin eru allt í kring, í öllum heimsálfum.

„Það kom aldrei neitt annað til greina,“ sagði Geir Gunnlaugsson. Því miður er það svo að víða um lönd virðist allt annað vera ráðandi en þessi einfalda speki.

 


mbl.is Geir landlæknir gaf syni sínum nýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vífilsfell er stórkostlegt fjall en getur verið hættulegt

IMG_0047 Vífilsfell, undirhlíð, Bubbi - Version 2

Eftir myndinni að dæma hefur snjóflóðið orðið í bröttu hlíðinni sem flestir fara á fjallið. Snjórinn hefur brostið í hlíðinni rétt fyrir neðan hraunlagið sem er efst í þeim hluta fjallsins sem kenndur er við hásléttu eða stapann. Þetta er afar vinsæl leið en viðsjálverð að vetrarlagi eins og víða er á fjöllum. 

Þarna háttar þannig til að gönguleiðinni liggur yfir litla lægð eða grunnt gil. Þar safnast alltaf mikill snjór fyrir jafnvel þó autt sér sitt hvorum megin. Stundum er harðfenni þarna og erfitt að fóta sig. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að vera með ísexi og brodda á fjallinu að vetrarlagi. Og það sem skiptir öllu máli, að kunna að beita hvoru tveggja.

Á meðfylgjandi mynd til hægri er göngustígurinn ofarlega á leiðinni upp á sléttu og hægra megin efst má sjá mosabreiðu. Á henni og allt út að staðnum þar sem maðurinn er fyllist allt af snjó. Þarna efst uppi varð snjóflóðið eftir því sem ég fæ best séð.

DSC_0183 - Version 2

Myndin vinstra megin er tekin að vori til og sýnir norðurhlið Vífilsfells. Gönguleiðin sem áður er nefnd er merkt inn á myndina með rauðri línu. Leiðin liggur framhjá skaflinu sem þarna safnast í litla gilið og þar var snjóflóðið.

Þessi atburður minnir á annan og öllu alvarlegri sem líka gerðist í Vífilsfelli.

Dauðaslys í Vífilsfelli

Þann 1. janúar 1983 voru þrír menn á gangi í Vífilsfelli. Hálka var og erfitt að fóta sig ofarlega í fjallinu. Þá gerist sá hörmulegi atburður að tveir ungir menn hrapa í klettunum, að öllum líkindum í móbergshryggnum sunnan við tindinn.

Þriðji maðurinn kemst niður að félögum sínum helsærðum, hlúir að þeim og fer af fjallinu. Hann stoppar bíl og er ekið að lögreglustöðinni í Árbæ. Á þessum árum voru ekki til gsm símar og talstöðvar frekar fágætar. Hjálpin kom því miður of seint og dóu tvímenningarnir áður en hægt væri að koma þeim á sjúkrahús.

Mér þykir Vífilsfell afar fallegt og tilkomumikið fjall. Það hefur þó sínar dimmu hliðar og því afar mikilvægt að vera vel búinn áður en farið er í vetrarferðir á það. Og stundum dugar það ekki einu sinni til eins og fram kemur í fréttinni um snjóflóðið. 


mbl.is Sluppu úr snjóflóði á Vífilsfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins vill skerða frelsi landsmanna

Að undanförnu hefur verið nokkuð mikið rætt um svokallaðan náttúrpassa sem ferðamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, vill að verði tekinn upp til að fjármagna skemmdir vegna átroðnings ferðamanna og uppbyggingu á ferðamannastöðum.

Náttúrpassinn hefur nú verið kynntur fjölmörgum hagsmunaaðilum. Hann á að gilda á tilteknum landsvæðum sem lokað verði öðrum en þeim sem hafa passan.

Þeir umsjónarmenn landsvæða eða landeigendur sem leggjast gegn passanum verða sjálfkrafa undanskildir fjármagni úr þeim sjóði sem ætlunin er að mynda. Þetta er svona mafíuaðferð til að knýja fólk til undirgefni.

Ljóst er að útfærslan á náttúrupassanum er með því versta var hægt að hugsa sér. Ætlunin er að almenningur geti keypt sé tímabundna passa og fái með því leyfi til að ferðast.

Lögreglunni er ætlað að kanna hvort fólk sé með þá og væntanlega sekta eða kæra þá sem eru án þeirra. 

Þetta er versta mögulega leiðin sem hægt er að fara. Vilji menn endilega afla fjár með þessu móti hefði verið miklu skynsamlegra að rukka útlenda ferðamenn við komuna í landið eða brottför. Þetta er hægt að gera í gegnum farmiðasölu.

Íslendingar munu aldrei sætta sig við að þurfa að afsala sér fornum réttindum um frjálsa ferðir um landið. Ekki einu sinni á erfiðustu tímum íslenskrar þjóðar hafa verið settar slíkar takmarkanir á ferðir Íslendinga sem núna er ætlunin að gera.  

Í raun og veru er óskiljanlegt að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ætla að fara fram með þessum hætti.

Við, þúsundir Íslendinga, höfum staðið við bakið á Sjálfstæðiflokknum, starfað innan hans og styrkt hann eins og framast hefur verið unnt. Jafnvel þegar hann hefur átt í sinni mestu kreppu höfum við staðið vörðum um hann.

Að mínu áliti og fjölda annarra kemur ekki til greina að flokkurinn taki upp aðferðir sem kenndar eru við Stóra bróður í skáldsögu Orwells. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til stutt frelsi og lagst gegn helsi. Nóg var nú að gert þegar flokkurinn stóð að setningu nefskatts til fjármögnunar á Ríkisútvarpinu.

Frelsi almennings verður aldrei skert á þennan hátt. Tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum eru gríðarlegar og stjórnvöldum er engin sæmd í því að setja á skatt á okkur til að afla enn meiri tekna.

Ég spái því að þúsundir manna spígspori um landið eftir gildistöku náttúrupassans og ögri einfaldlega lögreglu og stjórnvöldum og mótmæli þannig þessari aðferð til skattheimtu. Samtök útivistarfélaga hafa þegar lýst yfir óánægju sinni og næst koma einstaklingar sem taka afstöðu með fótunum.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki kosinn í síðustu þingkosningum til að skerða frelsi fólks né heldur til skattlagningar. Ég vara ráðherrann eindregið við þessum náttúrupassa. Nóg eru vandræði flokksins um þessar mundir svo ekki bætist verri vandamál við. 


Nei, aðildaviðræður að ESB eru ekki samningaviðræður

Sá sem óskar eftir íslenskum ríkisborgararétti á þess ekki kost að semja við íslensk stjórnvöld um undanþágur frá lögum og reglum ríkisins.

Annað hvort sættir hann sig við að undirgangast þau eða hann gerist ekki ríkisborgari. Hið sama á við er ríki óskar eftir að ganga inn í ESB. Þetta kemur skýrt fram í reglum sambandsins.

Meirihlutinn í skoðanakönnun Gallup trúir því að „aðildarviðræður“ við ESB leiði til samning milli sambandsins og Íslands. Það er rangt. Skelfilegur misskilningur

Aðildarviðræðurnar eru aðlögunarviðræður. Á ensku nefnast þær Accession negotiations. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB.  Þetta eru ekki samningaviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun.

Grundvallaratriðin ESB eru sett fram í 35 köflum og Ísland þarf að sýna og sanna í umræðum um hvern þeirra að það hefur tekið upp lög og reglur ESB. Þetta þarf samninganefnd ESB að samþykkja og löggjafarþing allra 27 ríkja sambandsins.

Gæti það virkilega gerst að Ísland fái undanþágur í sjávarútvegsmálum sem til dæmis Spánn, Frakkland eða Bretland njóta ekki? Nei, varla. Ekki heldur í landbúnaði, orkumálum, iðnaðarmálum, umhverfismálum svo dæmi séu tekin.

Þeir sem eru á móti aðild að ESB en fylgjandi áframhaldandi aðildarviðræðum skilja ekki eðli viðræðnanna. Þetta fólk heldur að í boði sé eitthvað annað en það sem stendur svart á hvítu í Lissabonsáttmála ESB. Svo er ekki. 

Þær undanþágur sem einstök ríki hafa frá lögum og reglum ESB eru afar léttvægar og skipta sáralitlu máli í samanburðinum við stóru málin eins og sjávarútvegsmál okkar. 

Ríkisstjórnin sem sat hér á landi frá 2009 til 2013 sagði rangt til um eðli aðildarumsóknarinnar. Núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á að hafa ekki leiðrétt rangfærslunnar og leitt þessi máli til tóma vitleysu. 


mbl.is 72% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróa á Leiti og þjófsnautur

Egill Helgason sem þekktur er sem umræðustjóri í Ríkisútvarpinu, fyrrum blaðamaður og afkastamikill bloggari er flokksbundinn í Samfylkingunni og er harður andstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Hann reynir yfirleitt að koma Sjálfstæðisflokknum í vanda og hefur meðal annars birt sögur sem hann getur engan veginn vitað hvort eru sannar og hann fer oft með rangt mál.

Í Staksteinum Morgunblaðs dagsins segir á þessa leið:

Egill gætir sín ekki á að frétt verður aldrei betri en heimildin.

Staksteinar hafa það eftir heimild sem þeir telja áreiðanlega að Davíð Oddsson hafi aldrei dvalið næturlangt á Þingvöllum síðan hann skilaði lyklum að húsum þar fyrir tæpum 10 árum. Ekki hjá Halldóri, ekki hjá Geir, ekki (sem kom staksteinum mest á óvart) hjá Jóhönnu og ekki hjá Sigmundi Davíð.

Þau Ástríður eiga sjálf sumarbústað austan við Þjórsá og fleiri ár og þar hefur Halldór ekki dvalið næturlangt, ekki Geir, ekki (sem kom staksteinum mest á óvart)Jóhanna og ekki Sigmundur Davíð. Síðast mun sá gamli hafa dvalið sem gestur næturlangt á Þingvöllum hjá Þorsteini Páls árið 1987.

Gengu þeirra samsærisviðræður þá út á það að kíkja í pakkann?

Ósannindi verða aldrei réttlætt, né heldur söguburður Gróu á Leiti, frekar en að þjófurinn eða þjófsnauturinn geti nokkru sinni borið blak af gjörðum sínum. Þau öll eru jafn óheiðarleg. 

Þeir sömu og skrökvuðu um Icesave segja nú ósatt um ESB

Úr háskólunum kom lofsöngurinn um snillingana, fræðimennirnir klöppuðu hrifnir með, allskyns forsvarsmenn út atvinnulífinu drógu ekki af sér og heill stjórnmálaflokkur lagðist flatur. Þjóðþekktir rithöfundar og listamenn dásömuðu útrásarhöfðingjana. Allir sameinuðust svo um að níða þá fáu sem voru grunaðir um að vera ekki á bandi útrásarvíkinganna.

Mikið óskaplega er gaman að lesa einlæga og vel skrifaða grein og ekki spillir fyrir að vera eitthundrað prósent sammála höfundinum að lestrinum loknum. Í Morgunblað dagsins ritar Ósk Bergþórsdóttir, sem kallar sig húsmóður, aldeilis frábæra grein. Hún rekur í hóflegu háði (get ekki fundið aðra lýsingu) æfingar hinna „bráðungu“ eigenda milljarða hlutafjár í stórum almannahlutafélögum.

Margt venjulegt fólk átti bágt með að skilja þetta. En skilninginn vantaði ekki annars staðar og þar hikuðu menn ekki við að sannfæra venjulega Íslendinga um að í viðskiptalífinu væri allt gull sem glóði. 

Og Ósk rekur Icesave og kröfur gáfumennanna um að við tækjum á okkur skuldir annarra og svo segir hún:

Og enn eru þeir komnir. Nú er það hvorki útrásin né Icesave, heldur er það umsókn Íslands í Evrópusambandið sem alls ekki má afturkalla, þótt hvorki þing né þjóð vilji fara þangað inn. Elítuna langar inn. Þess vegna krefst hún þess að inngöngubeiðnin hennar standi óhögguð, hvað sem lýðræðislega kjörnu Alþingi finnst. Þeir óforskömmuðustu leyfa sér meira að segja að kalla það „sáttatillögu“, að inngöngubeiðnin fái að standa í mörg ár enn, í óþökk Alþingis.

Menn sem aldrei sáu neitt að því hvernig Jóhanna og Steingrímur reyndu ítrekað að koma Icesave á herðar komandi kynslóða, eða hvernig þau réðust gegn stjórnarskránni eða hundeltu pólitíska andstæðinga, standa núna þrútnir af réttlætiskennd yfir því að lýðræðislega kjörnir alþingismenn ætli að voga sér að draga umsókn Íslands í ESB til baka.

Oft á dag segja þeir þjóðinni, sem ekki vill að Ísland gangi í ESB, að Ísland eigi samt að vera umsóknarríki í ESB. Staðreyndin er hins vegar auðvitað sú að þegar umsóknin er ekki afturkölluð líta allir svo á að Ísland hafi ákveðið að ganga í ESB.

Það er dæmigert að þeir, sem telja þetta sjálfsagt mál, séu einmitt þeir sömu og aldrei sáu neitt að því að íslenska þjóðin, venjulegt fólk, tæki að ósekju á sig Icesave-skuldirnar.

Allt er þetta svo hárrétt hjá Ósk að vart er neinu við að bæta. Sama liðið lemur nú skildi og hristir spjót á Austurvelli og við það hefur bæst hræðslukór fjölmargra atvinnurekenda. Allir heimta að aðlögunarviðræðurnar verði teknar upp aftur en enginn þeirra hefur fyrir því að skýra út fyrir almenninga hvað aðlögunarviðræðurnar þýða.

Þær þýða ekki að gerður verði samningur um ævarandi yfirráð Íslendinga yfir eigin fiskimiðum, þær þýða ekki að íslenskur landbúnaður fái að þróast og dafna og styrkja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þær þýða ekki að Ísland fái að halda fullveldi sínu. Og hver er ástæðan? Jú, samkvæmt reglum ESB verður umsóknarþjóð að taka upp öll lög og reglur ESB og samþykkja Lissabonsáttmálann. Þetta er markmiðið með aðlögunarviðræðunum

Og rétt eins og skrökvað var að okkur almenningi þegar við áttum að taka á okkur skuldir óreiðumanna er enn verið að skrökva að okkur um eðli viðræðna við ESB. Finnst engum undarlegt að þarna eru sömu aðilarnir komnir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband