Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Stórhættuleg íþrótt?

Nelson-vs-Monson
Margir virðast varla halda vatni af hrifningu yfir afrekum og manngæðum Gunnars Nelson. Eflaust fínn náungi en það sem hann er að gera orkar tvímælis.
 
Ég leyfði mér að leita upplýsinga um MMA og það sem hefur gerst nýlega í þessari svokölluðu "íþrótt". Ég horfði meðal annars á myndband af viðureign Gunnars og af annarri viðureign rúmri viku áður í Suður Afríku.  
 
Gunnar Nelson notaði meðal annars aðferð á sinn rússneska andstæðing sem er leyfileg í þeirri "deild" sem hann keppir í, að slá í höfuð liggjandi manns með olnbogunum.
 
Það orsakaði greinilega blæðandi sár og skömmu síðar gafst andstæðingur Gunnars upp.
 
Í annarri MMA-viðureign 27. febrúar sl. þá notaði keppandi í Suður Afríku sömu aðferð á sinn andstæðing. Sá sem fékk "olnbogaskotin" lést vegna afleiðinga heilablæðingar skömmu seinna. Um það má lesa víða á netinu en einhvern vegin var frekar hljótt um það í fréttum á Íslandi.

Nú spyr ég ykkur öll sem hafið lýst hrifningu með "afrek" Gunnars Nelson. Hefði afstaða ykkar verið önnur ef hinn rússneski andstæðingur Gunnars hefði látist eftir slaginn?

Ef einhver trúir mér ekki varðandi líkindin millli þessara viðureigna þá er ekki erfitt að finna hreyfmyndir af þeim báðum. Mér dettur ekki í hug að setja hér inn hlekki á óviðurkvæmilegt efni.
 
Úr pistli Björns Geirs Leifssonar, læknis (greinskil og feitletrun eru mínar). Ég þekki ekki þessa íþrótt sem Gunnar Nelson stundar en ég þekki Björn Geir Leifsson, lækni, og veit að hann fer með rétt mál.

Sendiherrar við skrifborð með síma og Skype

Stundum finnst mér eins og við Íslendingar gleymum því að við erum afar fámenn, örþjóð sem í hita leiksins heldur að við séum þrjátíu milljónir og getum haldið úti ríkiskerfi eins og fjármagnið skipti engu máli.

Sendiherrar með síma  

Ég viðurkenni að þetta er ekki mjög ítarlega úthugsuð hugmynd, og þó. Hvers vegna í ósköpunum höldum við úti dýrri utanríkisþjónustu? Af hverju setjum við ekki upp nokkur skrifborð á efstu ráðuneytisins við Rauðarárstíg í Reykjavík og setjum þar „sendiherra“ með síma, tölvu, stóran skjá og aðgang að Skype og öðrum samskiptakerfum. Þannig verði samskipti okkar við önnur ríki, hreinlega í gegnum síma og tölvu. Enginn verði staðsettur í útlöndum nema ef til vill einstaka starfsmenn sem við getum leigt herbergi undir hjá sendiráðum annarra ríkja, svo sem þeirra skandinavísku.

Notum sparnaðinn í mikilvægari mál 

Með því að fækka starfsmönnum í utanríkisráðuneytinu getum við gert það að nokkurs konar hliðarráðuneyti eins og samgönguráðuneytið eða dómsmálaráðuneytið voru hér á árum áður. Spörum um leið nokkra milljarða sem við getum sett í það sem meira máli skiptir eins og menntakerfið eða heilbrigðismálin.

Hvimleiður kækur  

Þetta flaug svona í gegnum hugað þegar ég las afbragðsgóða grein eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem hann ritar á Evrópuvaktina. Í greininni segir hann meðal annars:

Það er gott að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafi farið til Úkraínu með fylgdarliði til þess að sýna stuðning við málstað Úkraínumanna. En það er hvimleiður kækur ráðamanna hér að halda því fram, að Ísland geti á einhvern hátt hjálpað til í deilumálum af þessu tagi eins og ætla má af orðum utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag.

Svo er ekki og ætti að vera öllum ljóst.

Síðast þegar slíku var haldið fram að því er virtist í fullri alvöru var eftir ferð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Palestínu í utanríkisráðherratíð hennar. Eftir þá ferð var utanríkisráðuneytið um hríð upptekið af svo barnalegum hugmyndum. 

Frekar að senda mann með myndavél 

Þegar öllu er á botninn hvolft hefði utanríkisráðherra átt að halda sig heima. Nægilegt hefði verið að senda einn mann til að skoða þinghúsið í Kænugarði og hitta utanríkisráðherra þarlendra. Sendimaðurinn hefði hæglega getað verið með iPhone og tekið bæði ljósmyndir og hreyfimyndir. Svo hefði verið hægt að halda myndasýningu fyrir ráðherrann, starfsfólk í ráðuneytinu og aðra sem áhuga hafa. Þannig hefði verið hægt að spara nokkrar milljónir króna.

Örríki eiga lítið erindi í alþjóðadeilur

Hitt er algjör villa og skortur á rökréttri hugsun að Ísland getið haft einhver áhrif í alþjóðlegum deilumálum. Við höfum hvorki mannafla, nægilega hæfileikamikið fólk né fjármagn til að standa í þannig æfingum. Við erum aðeins örríki.

Íslenskt sveitarfélag og örríkið

Um daginn var frétt í ríkissjónvarpinu þar sem hæðst var að því að víða um land eru svo fámenn sveitarfélög að íbúar þeirra gætu komist fyrir í einni blokk eða götu á höfuðborgarsvæðinu. Svona samanburður er gagnslaus og bendir einungis á að við Íslendingar erum svo fáir að við erum aðeins örlítið brot af íbúafjölda í borgum helstu nágrannalanda okkar. Þetta finnst fáum landsmönnum broslegt en er engu að síður staðreynd ...

Réttlætingin 

Styrmir segir í lok greinar sinnar:

Það er ekkert nema gott um það að segja að heimsækja Úkraínu en ráðamenn eiga ekki að réttlæta þær ferðir með því að þeir geti haft þar einhverju hlutverki að gegna. 


Guðmundur Hallvarðsson, fararstjóri

Búðir undir Skálakambi í HlöðuvíkÍ gegnum lífið kynnist maður eins og gengur fjölda fólks. Einstaka er eftirminnilegt af ýmsum ástæðum, merkilegum eða af einföldum atvikum. Ég sé í Morgunblaði dagsins að Guðmundur Jóhann Hallvarðsson er látinn. Hann var tónlistarkennari og tók að sér fararstjórn fyrir Ferðafélag Íslands, sérstaklega á Hornströndum.

Á ferðum mínum með hópa um Hornstrandir hitti ég Guðmund nokkrum sinnum. Hann var nokkuð stór maður, feitlaginn og dálítið luralegur en gaf af sér góðan þokka og var viðræðugóður þó svo að hann væri ekki beinlínis að trana sér fram. Ekki fór hjá því að maður heyrði sögur af honum sem fararstjóra og voru þær allar á einn veg, hann væri stórskemmtilegur maður og eiginlega átrúnaðargoð þeirra sem farið hafa í ferð með honum.

Svo gerðist það einhvern tímann að ég hitti Guðmund eina kvöldstund um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, held að það hafi verið í Landmannalaugum frekar en á Hornströndum, er þó ekki viss. Þá dró hann upp gítarinn og stillti hann og lék Recuerdos De La Alhambra af slíkri list að hver konsert gítarleikari hefði verið fullsæmdur af. Það var þá að ég fékk að vita að Guðmundur væri tónlistarkennari en ekki einhver gutlari. Þetta gjörbreytti áliti mínu á manninum og ég fór að leggja eyrun eftir því sem fólk sagði um hann og þær sögur voru allar á eina leið. Hann var ekki bara afbragðs fararstjóri heldur hreinlega uppistandari af guðs náð.

Ég kynntist Guðmundi aldrei neitt meira en að taka hann tali er við hittumst á förnum vegi á Hornströndum eða annars staðar. Fannst hann ekki gefa mikið af sér við slíka viðkynningu en það gat helgast af því að ég var í nokkur ár fararstjóri fyrir Útivist og hann fyrir Ferðafélagið. Stundum þurfti ekki meira til.

Hér fer ekki illa á að enda þessi orð á broti úr minningargrein í Morgunblaðinu eftir gamlan kunningja minn, Eirík Þormóðsson og fleiri. Í því segir svo skemmtilega af Guðmundi:

Ýmislegt gerir ferðir með Guðmundi minnisstæðar. Hann hafði ekki ofurtrú á hjálpartækjum nútímans til að finna kórréttu leiðina, áttavitinn var honum stundum til annars brúklegur en að rata veginn, krókurinn þótti honum ekki endilega betri en keldan. Og svörin við spurningum samferðamannanna gátu verið mjög óvænt. En þar kom fram sá eiginleiki Guðmundar sem hvergi naut sín betur en á Hornströndum, skopskyn sem aldrei var djúpt á. Og ekki dró það úr ferðagleðinni þegar í hús var komið að kvöldi dags, og lúi og þægileg þreyta í kroppi ferðalanga, að Guðmundur dró fram gítarinn og söng vísur, sumar allmergjaðar. Síðan lék hann svo hugljúf klassísk verk, sem gott var að hafa í veganesti inn í svefninn.

Skemmtilegur þáttur í fari Guðmundar var sannfæringarmáttur hans sem gat verið með ólíkindum. Sem dæmi um það má nefna að þegar hópar komu til Hlöðuvíkur benti hann á að enginn friður yrði þar fyrr en búið væri að hella koníakstári í drauginn Indriða, trédrumb við aðalinngang hússins. Litlu munaði oft að menn tryði þessu!

Myndin er af Búðum í Hlöðuvík og Skálakambur fyrir ofan. Guðmundur átti þangað ættir að rekja. 


Ekki stendur til að sækja um aðild að ESB, sagði Steingrímur J.

Held að allir þurfi að lesa þessa grein og skoða myndbandið sem fylgir henni. 


Dálítill munur er á klukku og bjöllu...

Sú var tíð, segir í bókum að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni . Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi lengur aldur hennar með sannindum. Svo var klukkan forn að enginn vissi lengur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var löngu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari. Samt undu gamlir menn enn þessari klukku. Að viðstöddum landfógeta, lögmanni og böðli og manni sem hátti að höggva og konu sem átti að drekkja, mátti oft á kyrrum degi um jónsmessubil, in andvara af Súlum og kjarrlykt úr Bláskógum, heyr óm klukkunnar blandinn niði Öxarár.

Þetta eru upphafsorð Íslandsklukkunnar eftir Halldór Laxnes. Meitluð orð og fögur frásögn svo lesandinn finnur sig næstum á Þingvöllum á þessum árum.

Íslandsklukkan er æði sérstök bók en eitthvað finnst mér risið á henni minnka ef hún hefði verið nefnd Íslandsbjallan ...

Víkur nú sögunni að annarri klukku (ekki bjöllu), þeirri sem Ernst Hemmingway nefnir í bók sinni For Whom the Bell Tolls. Sú er mögnuð, stórkostleg frásögn. Hún kom út í þýðingu Stefán Bjarmans. Í frásögn Jóns Karls Helgasonar á Hugrás, vef félagsvísindastofnunar Háskólans er birtur þessi kafli úr bréfi Stefáns:

Eg skal ekki neita því, að svo undarlega hittist á, að þetta er einmitt ein þeirra örfáubóka, sem hafa freistað mín til þýðingar. Eg er búinn að stara á hana girndaraugum árum saman. Hún er einhver sú fullkomnasta og undrafegursta bók, sem eg nokkurn tíma hef lesið, í þessari grein bókmennta, að segja. En hún er rétt á takmörkum þess að vera þýðanleg, enda veit eg ekki til að hún hafi verið þýdd á nokkurt mál, og þó eru fimm ár síðan hún kom út. (Það skyldi þá helzt vera á spænsku, enda er hún á löngum köflum samin með hliðsjón af því mál). Síðan eg kom heim hef eg endurlesið hana vandlega og tekið smá „Stikprufur“ hér og hvar, en árangurinn er bara sá, að örðugleikarnir standa ennþá gleggri fyrir mér. Þetta er einhver upplagðasta bók, sem til er, til að gjöreyðileggja í þýðingu, og eg er hræddur um að hún verði aldrei þýdd án æði mikilla skemmda, hver svo sem í það ræðst. Helvíti er að Halldór Laxness skuli ekki fást í hana, en það er víst vonlaust? Hann hefur bæði dirfsku og craftsmanship í ríkum mæli, og þess þarf hvorutveggja við, ef vel á að fara.

Og þarna er nú komin tengingin við Halldór Laxnes, en þeir báðir rita um örlagaríka klukku. Lítið myndi nú fas Hemmingways vera ef bókin hefði fengið þýðinguna Hverjum bjallan glymur. Þá hefði hún verið svo faslítil og ómerkileg, eiginlega dyrabjölluat. Það er nú hins vegar langt í frá og þýðingin á titlinum er mögnuð þó blaðamaður Morgunblaðsins skripli á honum og muni hann ekki orðrétt.

Jón Karl Helgason segir í áðurnefndri grein sinni:

Í bókinni um Ragnar var lögð höfuðáhersla á þetta handritshvarf og ósamkomulag forleggjarans og Stefáns um væntanlegan titil þýðingarinnar. Stefán vildi að hún nefndist Hverjum klukkan glymur en Ragnar ákvað að prenta hana undir titlinum Klukkan kallar. 


mbl.is Semja um hús Hemingways
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að breyttu breytanda og öllu samanlögðu

Ég sem andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið gæti við venjulegar, hlutlausar óbundnar aðstæður að sjálfsögðu hugsað mér að greiða atkvæði með því að hætta viðræðum um það að fara í burtu frá því. Það væri efnislega sú niðurstaða sem félli að mínum skoðunum um að það sé að breyttu breytanda og að öllu samanlögðu væntanlega ekki hagstætt fyrir Ísland að gerast aðili að því. Það er algjörlega óbreytt skoðun mín, hefur lengi verið og þarf sennilega heilmikið til að hún breytist. ...

Hér er brýnt að spyrja um tvennt. Sá sem veit rétta svarið fær verðlaun, hugsanlega eitthvað eina árbók Ferðafélags Íslands eftir Hjörleif Guttormsson. Hann var í Vinstri grænum en enginn, ekki nokkur maður, efast um afstöðu hans til ESB:

  • Hver sagði ofangreint? Veljið einn af neðangreindum kostum:
  1. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður
  2. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra
  3. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG
  4. Steingrímur J. Sigfússon, framsóknarmaður 
  • Sé einungis litið á ofangreinda tilvitnun, hver er skoðun mannsins? Veljið að minnsta kosti fjóra af neðangreindum kostum:
  1. Hann er sammála aðild að ESB við venjulegar, hlutlausar óbundnar aðstæður!
  2. Hann er fylgjandi aðild að ESB en samt ekki nema að öllu samanlögðu verði það hagstætt fyrir Ísland að gerast aðili sem hann er þó sammála um!
  3. Hann er sammála aðlögunarviðræðum við ESB jafnvel þó það sé óbreytt skoðun hans og hefur verið lengi og þarf sennilega heilmikið til að hún breytist!
  4. Hann vill á að sjá hvað hægt er að semja við ESB áður en hann segist vera fylgjandi aðild jafnvel þó samningur fylgi ekki aðlögunarviðræðunum!
Rétt svar skal birt í athugasemdum hér fyrir neðan og því þarf að fylgja orðrétt hvað sá sem sagði ofangreint í kosningaþætti Ríkissjónvarpsins fyrir þingkosningarnar 2009.

 


Frakkar, Spánverjar og Portúgalar vilja í íslenska landhelgi

Í byrjun febrúar 2012 efndi Össur Skarphéðinsson til herráðsfundar með Evrópuvíkingum sínum í utanríkisráðuneytinu. Þeir gerðu „slagplan“ reist á eigin tilfinningu um að makríldeilan ylli tregðu ESB til að afhenda rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Í planinu fólst að ýta makrílmálinu til hliðar auk þess sem Össur tók að sér að vinna Frakka til stuðnings við málstað Íslands.

Hvorki ráðherrann né Evrópuvíkingar hans höfðu rétta tilfinningu fyrir stöðu málsins á þessu stigi frekar en þegar af stað var farið. Frakkar, Spánverjar og Portúgalir vildu ekki ræða við Íslendinga nema þeir féllu frá skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum. Þar stóð hnífurinn í kúnni. Farið var með þennan grundvallarágreining sem mannsmorð og haft í hótunum við stjórnarandstöðuna um að hún bryti trúnað ef hún segði frá þessu.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra, á vefnum Evrópuvaktin. Björn er glöggur og þarna bendir á að Frakkar, Spánverjar og Portúgalar greindi á við Íslendinga um sjávarútvegsmál í aðlögunarviðræðunum.

Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, veit að þessar þrjár þjóðir vilja komast í íslenska landhelgi með skip sín. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir þær og skiptir engu þó Íslendingar vilji halda landhelginni lokaðri. Það er ekki til umræðu.

ESB er ekki skipað neinum viðvaningum í alþjóðasamningum og þess vegna er rýniskýrsla sambandsins lokað plagg. Ef ekki þá væri aðlögunarviðræðunum sjálfhætt að hálfu Íslands. Þess í stað horfa kommissarar ESB á bardaga milli já-sinna og nei-sinna á Íslandi með velþóknun.

Á meðan er það ekki ESB að kenna að hvorki gengur né rekur með umsóknina.


Ríkisstjórn sem er svo gegnsæ að hún er orðin glær

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.

Svo segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Nú berast hins vegar fréttir af ráðningu seðlabankastjóra frá því í mars 2009. Þá var að vísu við störf allt önnur ríkisstjórn en að henni stóð Samfylkingin og Vinstri grænir. Hins vegar spyrst allt út um síðir en þáverandi ríkisstjórn er vorkunn.

Sú hafði ekki ofangreint ákvæði í stjórnarsáttmála sínum og líkleg þess vegna auglýsti ríkisstjórnin til málamynda eftir seðlabankastjóra. Hún hafði ákveðinn mann í huga fyrir starfið og skipti þarf af leiðandi engu máli hverjir aðrir sóttu um. Þetta mátti hún aþþþíbara ...

Enn verður að ítreka að sú minnihlutastjórn sem um ræðir, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar var þá ekki farin að beita sér fyrir opinni stjórnsýslu og auknu gagnsæi. Í því skjóli ræddi trúnaðarmaður Samfylkingarinnar, Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður við þann umsækjanda sem hafði verið lofað að fá að verða seðlabankastjóri og spjölluðu þau kumpánlega um laun og launakjör.

Síðan er stofnuð matsnefnd með valinkunnum mönnum, þar á meðal Láru V. Júlíusdóttur, lögmanni, og eftirlætisumsækjandinn valinn af ríkisstjórninni sem síðar breytti um stefnu og beitti sér staðfastlega í fjögur ár fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Það hafði minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki dottið í hug að gæti verið þjóðráð.

Ég held að mjög fagmannlega hafi verið staðið að ráðningu núverandi seðlabankastjóra. Verra er ef til vill að síður fagmannlega hafi verið staðið að ekki-ráðningu annarra umsækjenda.

Hins vegar var síðasta ríkisstjórn alveg yndislega samtaka í opinni stjórnsýslu og gagnsæi svo ekki sé talað um lýðræðisumbætur. Bara vont fólk og illa innrætt sem talar um skjaldborgina, skuldastöðu heimila, málsóknir gegn ráðherrum, launahækkun fyrir forstjóra Landsspítalans og annað álíka sem engu skipti.

Að lokum er ekki úr vegi að geta þess að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eru smám saman að vera gegnsærri eftir því sem tíminn líður og fleiri innanbúðarmenn tjá sig skýrar. Þær báðar eru svo gegnsæjar að þær eru næstum orðnar glærar ...


Notkun hormóna og lyfja er lítil í íslenskum landbúnaði

Rétt er að ítreka að aðstæður á Íslandi til búvöruframleiðslu eru að mörgu leyti einstakar. Landrými er mikið, gnægð af vatni og fáir sjúkdómar landlægir ef miðað er við þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við. Notkun hormóna er bönnuð og lyfjanotkun afar lítil. Fram kemur í nýrri skýrslu frá Lyfjastofnun Evrópu að sýklalyfjanotkun í dýrum hérlendis er sú næstminnsta í Evrópu. Aðeins Noregur er neðar. Þar sem notkunin er mest er hún 65-föld miðað við Ísland. Að þessu öllu þurfum við að gæta því ef þessari stöðu verður spillt er engin leið til baka.

Við sem höfum áhyggjur af náttúru og umhverfi á Íslandi tölum oft um að ýmis mannanna verk séu óafturkræf, það er að engin leið er að bæta úr mistökum síðar meir.

Raunar má fullyrða að svo sé í landbúnaði líka. Oft er talað um fæðuöryggi sem á sérstaklega við um að þjóðin geti brauðfætt sig þó illa ári í landbúnaði í öðrum löndum.

Ofangreind tilvitnun er úr grein Gunnars Braga sveinssonar, undanríkisráðherra, í Morgunblaðið dagsins. Þar fjallar hann um tollvernd og mikilvægi hennar fyrir íslenskan landbúnaða. Verndin jafnar aðstöðumun erlendra og innlendra framleiðenda.

Hinu má fólk ekki gleyma sem krefst óhindraðs innflutnings erlendra landbúnaðarafurða að það sem framleitt er hér innanlands er almennt trygg vara eins og fram kemur í máli ráðherrans.

Skiptir það annars ekki máli að hér á landi eru gerðar ítarlegri og meiri kröfur gegn notkun lyfja og hormóna í landbúnaðarframleiðslu? 

 


Fær slitastjórn Glitnis fær ekki bætur vegna eigin klúðurs?

Það sem er athyglisvert við þennan dóm Hæstaréttar er að Tryggingamiðstöðin þarf ekki að bæta tjón, sem varð fyrir bankahrun en kom ekki í ljós fyrr en síðar, vegna þess að slitastjórn Glitnis endurnýjaði ekki trygginguna og keypti aðra tryggingu í staðinn. Við þetta féll niður vátryggingavernd Tryggingamiðstöðvarinnar með þeim hugsanlegu afleiðingum að sækja þarf tjónið á fyrrverandi stjórnendur bankans persónulega.

Þetta er nokkuð athyglisverð fullyrðing sem kemur fram í grein Hauks Arnar Birgissona, lögmanns, í grein í Morgunblaði dagsins. Með öðrum orðum, slitastjórn Kaupþings tapaði tryggingamáli vegna þess að hún endurnýjaði ekki stjórnendatryggingu á árinu 2009 og hætti viðskiptum við Tryggingamiðstöðina og skipti eftir það við erlent tryggingafélag.

Grundvallaratriðið í þessu máli, sem snýst um verulegt tap fyrir slitastjórn Glitnis, er þetta, með orðum Hauks Arnars:

Til einföldunar má því segja að allt tjón sem stjórnendur bankans ollu á meðan þeir stýrðu bankanum (fyrir hrun) þurfi að tilkynna fyrir 1. maí 2015. Að öðrum kosti bætir tryggingin ekki tjónið. 

Um þetta er ekki deilt heldur virðist sem að slitastjórnin hafi klúðrað málum með því að kaupa nýja stjórnendatryggingu. Eftir það varð ekki aftur snúið og skaðinn algjörlega vegna mistaka slitastjórnarinnar. 

Auðvitað gera menn mistök í rekstri banka, jafnvel gerst sumir sekir um glæpasamleg verk, en að slitastjórn sé ekki betur að sér í málunum en þetta. Tja ... það er alla vega frétt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband