Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Geimverur á meðal okkar - það skýrir allt

Paul Hellyer, fyrrum varnarmálaráðherra Kanada, segir að hér á jörðinni búi nú geimverur af 80 mismunandi tegundum en neiti að deila tækniþekkingu sinni með okkur þar til við látum af átökum og annarri miður góðri hegðan.

Hvar værum við stödd ef ekki væri fyrir veffjölmiðilinn pressan.is. Í frétt segir hún frá því að hér búi geimverur. ... Augnablik, ekki vera með neina fordóma, kæri lesandi. Við skulum skoða þetta áfram. Samkvæmt þessum veffjöllistamiðli segir:

Sumar þeirra líkjast okkur algjörlega og gætu gengið framhjá okkur á götu úti án þess að við vissum af því. Fljúgandi furðuhlutir hafa lengið heimsótt okkur og auðvitað hefur það orðið algengara eftir að við fundum kjarnorkusprengjuna upp.

Skyndilega er sem ég uppgötvi alla leyndardóma lífsins. Auðvitað er þetta satt hjá honum. Hvernig má annað vera.

Lítum okkur nær. Hverjir eru það sem skrifa í athugasemdakerfi fjölmiðla? Jú, miðað við orðbragðið eru þetta geimverur af lægstu sort. Hver þekkir til dæmis einhvern sem skrifar í athugasemdakerfin? Enginn. Þetta lið kemur og fer með fljúgandi furðuhlutum. Og bloggararnir eru allir geimverur.

Hvernig má skýra vinnubrögð síðustu ríkisstjórnar? Jú, ráðherrarnir voru allir geimverur og höfðu engan skilning á þjóðfélaginu. Þær tóku líklega yfir líkama ráðherranna og fengu síðan að skemmta sér að vild. Ég er sannfærður um að á einhverri fjarlægri stjörnu er starfandi ferðaskrifstofa sem selur aðgang að íslenskum stjórnmálamönnum.

Og hver er þessi Björn Valur Gíslason, sem sagður var hafa verið þingmaður Vinstri grænna? Hefur nokkur maður hitt hann eða talað við hann, komið heim til hans, séð hann á veitingastað? Nei, auðvitað ekki. Björn þessi er geimvera og hann er núna farinn áleiðis heim til sín og mun halda þar slædsmyndasýningu og segja frá sprelli sínu á litla Íslandi á reikistjörnunni Jörðin. Og allir munu skellihlæja og skemmta sér.

Það eina sem ég er að velt fyrir mér er hvort að borgarstjórinn sé farinn í ljósáraflug sitt til reikistjörnunnar Gnarr í stjörnuþokunni M33. 

Jæja, má ekki vera að þessu. Þetta er síðasti pistillinn hjá mér, fljúgandi diskur er lentur úti í garði og brottför tilkynnt eftir tvær mínútur. Þakka fyrir skemmtilega dvöl á meðal jarðarbúa ...

Og ... Qapla, eins og við segjum á klingósku.


Varnarmúr í kringum verkefnalausan borgarstjóra

Stór hluti sjálfstæðismanna skilur ekki enn af hverju borgarbúar kusu Jón Gnarr. Í augum þessa hóps mun Jón Gnarr ætíð verða trúður sem átti ekkert erindi inn í íslensk stjórnmál. Þessum hópi finnst að borgarstjórinn í Reykjavík eigi að vera settlegur embættismaður sem þylur tölur fyrir framan sjónvarpsvélar. Jón Gnarr var aldrei þannig borgarstjóri. Hann var mannlegur og hlýr, skapandi og frumlegur. Þess vegna tengdu borgarbúar við hann. 
 
Þetta skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Pistli í Morgunblaðinu í morgun. Hún er oft ansi glögg í pistlum sínum og ég hæli henni oft fyrir það á þessum vettvangi. Í þetta sinn er ég síst af öllu sammála henni.
 
Viðkunnanlegur 

Vandinn við þann mann sem nú situr í stóli borgarstjóra er að hann gegnir ekki skyldum embættisins. Hvort tveggja er að hann veit ekki hvað í þeim felst og svo hitt, hann hefur líkast til ekki þekkingu né getu til að sinna starfinu. Þetta er afskaplega slæmt, sérstaklega fyrir borgarbúa, sem sitja uppi með manninn og geta ekkert að því gert. Flestum finnst hann þó oft dálítið viðkunnanlegur og talar vel um vinsæl mál sem flestir eru samála. 
 
Fáar starfsskyldur 
 
Á þeim tæpu fjórum árum sem Jón Gnarr hefur verið borgarstjóri hefur það gerst að starfsskyldur hans hafa verið færðar frá honum meðal annars til skrifstofustjóra borgarstjóra, verkefni eins og fjármál og annað óþægilegt.
 
Aukinn kostnaður vegna borgarstjórans
 
Borgarstjóraefni Bjartrar framtíðar, Björn Blöndal, hefur verið gæslumaður Jóns Gnarrs frá upphafi. Hann hefur líka byggt upp fjölmennan varnarmúr í kringum Jón og afleiðingin er sú að kostnaðurinn hefur stóraukist á skrifstofu borgarstjóra.
 
Vandinn sem blasti við öllum í Besta flokknum var að Jón gat ekki verið málsvari borgarinnar, hvað þá að „þylja tölur fyrir framan sjónvarpsvélar“ eins og Kolbrún orðar það. Forsendurnar voru og eru ekki fyrir hendi. Þess í stað þróaðist málið þannig að Jón var gerður að einhvers konar táknmynd borgarinnar, mállausri mynd nema í örfáum atriðum. Þess utan lærir Jón hlutverk sitt og aðstoðarmaðurinn skrifar handritið. Gangrýni á borgarstjóra var tekið sem einelti eða dónaskapur. Jón Gnarr getur ekki tekið málefnalegri gagnrýni.
 
Fjölmiðlarnir eru bara sáttir
 
Fjölmiðlafólk hefur ekki beinan aðgang að borgarstjóra. Varnarmúrinn heldur þeim fjarri. Gerð er sú krafa að menn panti viðtal og ekki nóg með það heldur þurfa fjölmiðlamenn að senda erindið með spurningum sem ætlunin er að fá hann til að svara. Þetta er gert til að koma í veg fyrir óþægilegar uppákomur sem voru algengar í upphafi og borgarstjóri sagði einhverja bölvaða vitleysu sem kom honum og flokksnefnunni hans í vanda. Enginn annar stjórnmálamaður hefur komist upp með álíka. Jafnvel Davíð Oddsson sem forsætisráðherra var gagnrýndur fyrir að fara sjaldan í viðtöl en hann var aldrei vændur um að ritskoða spurningar fjölmiðlafólks.
 
Silkihanskarnir
 
Þetta er nú staðan í borginni í dag og jafnvel þó að einhverjir borgarbúar geti  „tengt sig við hann“, eins og Kolbrún orðar það, þá er málið miklu umfangsmeira. Farið er silkihönskum um Jón Gnarr og flokkinn hans. Málefnalegri gagnrýni er aldrei svarað og fjölmiðlamenn taka þátt í leikriti Besta flokksins.
 
Meirihlutinn 
 
Besti flokkurinn og Björt framtíð eru litlir hópar frambjóðenda, vina og vandamanna. Lýðræðislegur bakgrunnur þeirra er enginn. Stefnumál þeirra virðast breytileg frá einum tíma til annars og jafnvel snúast eftir því hvernig vindurinn blæs.
 
Bak við þessa flokka stendur Samfylkingin í Reykjavík eins og illa gerður hlutur og lætur hafa sig út í tóma vitleysu eins og rakið er í forystugrein Morgunblaðsins í dag. Formaður borgarstjórnarflokksins, Dagur B. Eggertsson, virðist oftast út á þekju. Hann er aldrei er hann spurður út í starfsemi Besta flokksins eða borgarstjórans. Þetta síðasta er þó frekar ávirðing á fjölmiðlafólk en Dag sjálfan. Staða Samfylkingarinnar virðist nú ekki merkileg ef marka má skoðanakannanir. Það hefur hins vegar engin áhrif á flokkinn enda er hann farinn að venjast hrakförum.
 
Vandi Reykjavíkur er fyrst og fremst sá að borgin er forustulaus, þar er engin sýn á framtíðina önnur en sú að afla einstaka uppistöndurum og skemmtikröftum þokkaleg laun fyrir létta innivinnu. 
 
 

Andvana fæðing leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík?

Honum hefur af einhverjum ástæðum ekki tekizt að marka sér sérstöðu. Þess vegna spyrja kjósendur í Reykjavík hvers vegna þeir eigi að kjósa flokkinn. Hvað hann hafi fram að færa, sem meirihlutaflokkarnir bjóða ekki.

Þetta er mesti veikleikinn í stöðu Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna í vor.

Eftir því er beðið að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins taki nú af skarið og skapi sér og flokknum þessa sérstöðu svo að ekki fari á milli mála um hvað valið snýst.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson á Evrópuvaktinni um borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Við þetta má því bæta að fyrir tveimur mánuðum var nýr maður valinn til að leiða flokkinn. Hann hvarf þá af yfirborði jarðar. Margir spyrja sig hvort hérna hafi í fyrsta sinn alþjóð verið vitni að andvana fæðingu leiðtoga? Hefur Halldór Halldórsson ekkert fram að færa, þessi maður sem ég hélt að myndi nú vekja athygli og berjast með kjafti og klóm?

Þetta er ekki það sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík þarf. Þeir sem urðu í næstu sætum í prófkjörinu þurfa nú að taka af skarið og gera flokkinn sýnilegan. Það gengur alls ekki að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins haldi áfram að vera ósýnilegir og mállausir. Svo virðist sem aðeins Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir séu þau einu sem eru með lífsmarki. Það dugar hins vegar ekki til. 

Fólk flykkir sér einfaldlega ekki um flokk sem sýnir ekki lífsmark, skiptir engu hvert nafn hans er. 


Brú sem kostar 880 mánaðarlaun og enginn segir neitt ...

Bru

Flestir hafa verðskyn sem varðar kaup á nauðsynjum, s.s. mat, fötum og á hlutum til heimilishalds. Oft byggist þetta „skyn“ framar öðru á því sjálfsaflafé sem er til ráðstöfunar hverju sinni, laununum. Færri gera sér grein fyrir því hvað malbik kostar, umferðaljós eða göngubrú.

Í Morgunblaðinu í morgun er lítil frétt um að göngubrúin yfir Elliðaárósa hafi kostað 264 milljónir króna. Maður hrekkur óneitanlega við og tekur andköf. Í samhengi við meðaljóninn þá eru þetta 880 mánaðarlaun þeirra sem fá 300.000 krónur útborgaðar, þ.e. nettólaun.

Tvöhundruð sextíu og fjórar milljónir króna eru eitthvað svo rosalegt miðað við nokkur hundruð þúsund krónur sem ég og sveitarstjórinn á Skagaströnd vorum að velta fyrir okkur að leggja í til að fólk gæti gengið þurrum fótum yfir ósa Hrafnár sunnan við bæinn. Meiri peningar voru ekki til í framkvæmdina hjá örsmáu sveitarfélagi. 

Brúin kostaði fjórtán milljónum krónum meira en áætlað var. Tæplega fjörtíu og sjö mánaðarlaun þetta sem fá útborgað 300.000 krónur.

Ég geri mér litla grein fyrir því hvað ein brú kostar. Hins vegar get ég ekki að því gert að „verðskyni“ mínu er ofboðið í þessu tilviki, bæði hvað varða heildarverðið og einnig umframkostnaðinn. Er það bara svo að borgarfulltrúar yppa öxlum og tauta fyrir munni sér, svona er lífið? Eða fær þetta einhverja frekari skoðun og umræðu?


Er ekki tilboð Norðmanna frekar gott?

Norðmenn hafa lengst af talið að Íslendingar ættu rétt á mun minni kvóta miðað við að fjórðungur heildarstofnsins væri í íslenskri lögsögu í þrjá mánuði á ári. Á síðasta ári munu þeir þó hafa verið tilbúnir að bjóða Íslendingum að hámarki rúmlega 9% hlutdeild í heildaraflanum „til að liðka fyrir samningum“. Sjónarmið Norðmanna er að verði hlutur Íslendinga aukinn frá fyrra tilboði í tæp 12% verði ESB að greiða kostnað sem slíkum samningi fylgi með því að minnka eigin hlut.

Þetta segir í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni: „Norðmenn fastir fyrir og makríldeila í hnút?“, sem ágúst Ingi Jónsson, blaðamaður skrifar (feitleitranir eru mínar.

Nú spyr ég: Er þetta ekki bara vel boðið hjá Norðmönnum miðað við gefnar forsendur? 

Í fréttaskýringu Hjartar Guðmundssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu frá því í mars á síðasta ári segir um makríldeiluna (greinaskil og feitletrun er á mínum vegum):

Íslendingar hafa gert kröfu um að fá úthlutað um 16-17% af árlegum heildarkvóta vegna makrílveiða sem miðaður er við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Einhliða makrílkvóti á Íslandsmiðum í ár er í samræmi við það en hann nemur rúmlega 145 þúsund tonn.

Færeyingar gáfu nýverið að sama skapi einhliða út rúmlega 148 þúsund tonna kvóta og Evrópusambandið og Noreg sömdu sín á dögunum um rúmlega 396 þúsund tonn fyrir sambandið og rúmlega 181 þúsund tonn fyrir Norðmenn

Makrílkvótinn fyrir síðasta ár var rétt tæplega ein milljón tonna sem skiptist á milli Íslands, ESB landa, Noregs, Færeyja og Rússlands.


Hér eru réttu spárnar fyrir árið 2014

Um þessar mundir tíðkast hjá fjölmiðlum og fleirum að leiða til þá sem sjá inn í framtíðina og fá þá til að tjá sig um safaríkustu óorðnu atburði ársins 2014. Margir hagvanir á þessu bloggi kannast ef til vill við hinn draumspaka mann sem oft á tíðum hefur samband og tjáir sig um framtíðina. Hann er í fýlu við mig og hefur ekki haft samband lengi. Farið hefur fé betra, segi ég nú bara. Það er ekkert að marka hann. Hins vegar hef ég haldið hressilega við konu hans og hún hefur hjalað ýmislegt um nýbyrjað ár. Þetta er það helsta.

Veður á árinu 

Stundum verður reglulega kalt á landinu, einna helst í vetur. Sumarið verður hlýrra.

Mikið verður kvartað undan nokkrum kuldadögum í sumar sem þó verða hlýrri en nokkrir hlýviðrisdagar í vetur.

Fólk verður afar ánægt með hlýviðrisdaga í mars sem þó verða mun kaldari en nokkrir kuldadagar í júlí sem það mun kvarta hástöfum yfir.

Sumardagurinn fyrsti verður daginn fyrir föstudag í lok apríl, líklega þann tuttugasta og fimmta.

Kólna mun reglulega mikið eftir jafndægur að hausti.

Pólitíkin 

Óvenju mikið verður rætt um sveitastjórnarmál fram eftir vetri og hugsanlegt að efnt verði til kosninga 29. maí.

Þeir flokkar sem ná bestum árangri í sveitastjórnarkosningum fá fleiri menn kjörna en hinir flokkarnir. Sum framboð ná ekki kjöri. Einstaklingsframboð ná miklum og góðum árangri víða um landa sérstaklega þar sem flokkaframboð eru ekki leyfð. Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjóri, mun ekki ná endurkjöri sem borgarfulltrúi.

Engum uppbótarþingsætum verður úthlutað eftir kosningarnar. Fæstir núverandi þingmanna munu ná kjöri í sveitastjórnarkosningum.

Evrópusambandið

Sumir vilja ganga í ESB, aðrir ekki. Gerð verður málmiðlun og Evrópusambandið mun ganga inn í íslenska ríkið og taka upp íslensku stjórnarskránna og Reykjavík verði höfuðstaður Evrópu. Þó verður sú krafa gerð af hálfu Evrópuþjóða að hagstæðir samningar náist um undanþágur frá henni.

Til dæmis leggjast Evrópuþjóðir gegn því að íslenska verði aðaltungumál Stóríslands, 'þ' og 'ð' verða ekki tekin upp í önnur tungumál nema með samþykki í Brussel, Alþingi verði lagt niður og í stað þess sett upp Evrópuþing í Brussel, stjórnarráðið verði endurskipulagt flutt til Brussel, forseti Íslands fái starf í Brussel út kjörtímabil hans, íslensk ráðherraembætti lögð af, Reykjavík verði herlaus borg, fiskveiðum við Íslandsstrendur verði stjórnað frá Brussel, landbúnaður verði bannaður á Íslandi, Brussel verði herskipalaus borg og fleira má nefna.

Vinstri grænir munu vilja taka upp viðræður við Evrópusambandi um málið enda er það þess eðlis að afar brýnt er að það skiljist engu að síður er flokkurinn afar hlynntur umræðustjórnmálum svo framarlega sem aðrir tjái sig lítið eða ekkert.

2x2=4 

Þingkona Framsóknarflokksins mun halda því fram að tvisvar sinnum tveir séu fjórir. Fjölmargir munu mótmæla niðurstöðunum og háskólasamfélagið mun ræða málið á opnum fundi og fordæma konuna.

Jarðskjálftar 

Miklir jarðskjálftar verða í hafinu fyrir norðan land. Engir skaðar verða á mannvirkjum og fólk mun ekki verða í hættu.

Eldgos 

Eldgos verður i í maí eða október, jafnvel í einhverjum öðrum mánuðum. Hraun mun renna. Hugsanlega verður gosið þó öskugos. Hvorki mun gjósa á Fimmvörðuhálsi né í Eyjafjallajökli. Þó kann að gjósa í Mýrdalsjökli, jafnvel Kötlu. Ekki mun gjósa í Snæfellsjökli, Eyjafjallajökli eða í Esjunni. 

Forsetinn 

Forseti Ísland mun halda ræðu á árinu.

Forsætisráðherra 

Forsætisráðherra mun tjá sig í fjölmiðlum og andstæðingar hans verða á móti því sem hann segir.

Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni Benediktsson verður formaður Sjálfstæðisflokksins út árið og mun jafnframt gegna störfum í stjórnarráðinu. 

Ísbirnir 

Ísbirnir sem hugsanlega koma til landsins á árinu munu taka land á Hornströndum eða á Skagaströnd.

Ferðafrelsi

Öllum Íslendingum verður gert kleift að ferðast um landið. Ferðamálaráðherra mun selja svokallaða ferðapassa fyrir þá sem þess óska. Gönguferð á Esjuna mun kosta eitt þúsund krónur. Ferð frá Reykjavík að Esjurótum í eigin bíl mun kosta tvö þúsund krónur. Ragnheiður Elín Árnadóttir fær fálkaorðuna fyrir stjórnvisku sína (þarf að greiða 50.000 krónur fyrir hana). 

Össur

Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra, mun gefa út bók á árinu þar sem missagnir í síðustu bók dagbókarfærslum síðustu bókar hans eru leiðréttar sem og misskilningur í bók Steingríms J. Sigfússonar, fyrrum ráðherra. 

Hornstrandir 

Fólk mun stunda gönguferðir á Hornströndum en líklegt er að tveir eða þrír gefist upp og einn og einn snúi ökkla og fari heim til sín. Eitthvað verður um að ísbirnir éti göngufólk, flestir munu þó sleppa nema þeir sem hlaupa aftast.

Björgunarsveitir

Nokkrum sinnum verða björgunarsveitir kallaðar út til að aðstoða einhverja einhversstaða vegna einhvers. 

Ammmmæli

Flestir landsmenn munu eiga afmæli á árinu. Nema þeir sem búa í útlöndum. Og þeir sem eru dánir.

Kom- og farfuglar 

Mikill fjöldi fugla mun koma til landsins í vor og fara aftur til síns heima í haust. Þeir sem ekki ná að komast á brott verða ýmist skotnir og étnir af heimamönnum eða andast af náttúrulegum orsökum.

Kom- og farþegar 

Mikill fjöldi útlendinga mun koma til landsins í skipum eða flugvélum og flestir fara aftur til síns heima í samskonar farartækjum. Þeir sem ekki komast heim til sín munu gista og snæða á vegum ríkisins í sérhönnuðum húsum við Stokkseyrarárborgarbakka.

Steingrímur

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum ráðherra og formaður VG, mun gefa út bók á árinu þar sem missagnir í síðustu bók eru leiðréttar sem og misskilningur í bók Össurar Skarphéðinssonar, fyrrum ráðherra.

Árslok

Árinu mun ljúka með hvelli síðla kvölds þann 31. desember. 

Ég

Ég mun skrifa nokkur blogg á árinu en byrja á því að halda framhjá eiginkonu hins draumspaka manns ... (þetta sagði hún frekar svona reiðilega, klæddi sig, gekk út og skellti á eftir sér). Og hún sagði ekki einu sinni bless.

 

 


Drottinn minn taktu nú tappann úr presti

Í Vísnahorni dagsins fjallar Halldór Blöndal um hinn lífsglaða dómkirkjuprest og hagyrðing, Hjálmar Jónsson. Hann fékk blóðtappa í fót um daginn og var það ástæða fyrir margvíslega ljóðasmíði. Í Vísnahorninu segir: 
 
Hjálmar [Jónsson] rifjaði upp vísur Jóns Ingvars Jónssonar þegar hann fór í kransæðaaðgerð fyrir 9 árum:
 
Hjálmar má þola hremmingu stranga
og heilsufarsbresti.
Drottinn minn láttu nú dæluna ganga
hjá dómkirkjupresti.
 
Og nú um daginn orti hann í sama dúr:
 
Hjálmar er traustur og heiðurskall mesti
og hefur það sannað.
Drottinn minn taktu nú tappann úr presti
og trodd’onum annað.

Mikið óskaplega eiga þeir gott sem eru svo miklir hagyrðingar að geta ort á þessa leið. En það er ekki nóg að geta klambrað saman skemmtilega vísu ef húmorinn er ekki til staðar. Hjálmar orti um blóðtappann sem hrjáði hann:

Erfiðan komst yfir hjallann,
aftur kveðum nú við raust.
Blóðið rennur um mig allan
alveg fyrirstöðulaust.


Árborg lækkar fasteignaskatt

Fasteignaskatturinn leggst á íbúðareign fólks óháð skuldsetningu eignanna og óháð tekjum. Fjölskyldur með neikvætt eigið fé greiða jafn mikið og fjölskyldur sem hafa hreina eign. Ekki er heimilt að draga neinn kostnað frá skattstofninum þó heimilt sé að gefa takmarkaðan afslátt til eldri borgara. Skatturinn leggst þannig á barnafjölskyldur og eldri borgara án tillits til skuldakostnaðar.

Þetta segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Í henni gerir hann grein fyrir óréttlæti fasteignaskattsins fyrir almenning og stefnu sveitarfélagsins Árborgar vegna hans. 

Sveitarfélagið hefur gert áætlun þar sem fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði er lækkaður um fimmtung á þremur árum, úr 0,35% í 0,275%. Sé miðað við tuttugu milljón króna íbúð nemur lækkunin um fimmtán þúsund krónum. Þetta kann að virðast lítill peningur en skiptir þó máli fyrir buddu almennings.

Óréttlætið felst í því að fólk keypt íbúðir sínar með sjálfsaflafé sínu að meira eða minna leyti og greitt skatt af því sem og íbúðarláninu. 

Eyþór hefur skilning á þessi en rökin eru fleiri og hann nefnir þau í niðurlagi greinar sinnar:

Við verðum að gæta þess að eyðileggja ekki heilbrigða hvata í samfélaginu með því að refsa þeim sem hafa náð að spara eigið fé í eigin húsnæði. Þvert á móti á að létta byrðarnar á þeim sem hafa sýnt ráðdeild og dugnað. Með þessu litla lóði okkar á vogarskálar heimilanna viljum við stuðla að heilbrigðara samfélagi. Vonandi getum við haldið áfram að lækka álögur á íbúana og gert gott samfélag enn betra. 


Nú má bæta jarðskjálftavef Veðurstofunnar

skjalftar3

Nú, nú, greinilegt er að eldgos verður þarna nálægt Kleifarvatni, segir leikmaðurinn sem skoðar kort jarðskjálftavaktar Veðurstofunnar í dag. Hann sér að á því eru ótal „jarðskjálftapunktar“ í einni kös, hver ofan á öðrum. En það er nú eitthvað annað en að eldgos sé á döfinni. Skoðum þetta nánar. 

Vefur jarðskjálftavaktar Veðurstofu íslands er afar gagnlegur. Í langan tíma hef ég farið þar inn og haft mikið gagn af þeim upplýsingum sem þar birtast, ekki síst finnst mér forvitnilegt að fylgjast með jarðskjálftum síðustu sólarhringa. Þeir eru þar merktir á gróft landakort eftir staðsetningum og aldri.

Oft má þó laga og bæta. Ég held að vefur jarðskjálfavaktar Veðurstofunnar hafi verið óbreyttur í meira en fimm ár. Nú er hins vegar tími til að uppfæra hann og gera enn betri. á meðan hefur veðurspárhluti vefsins verið endurbættur að miklum mun og á ég þar við veðurþáttspár.

Sjálfvirkt eftirlit 

Jarðskjálftavefurinn er tæknilega fullkomin. Allir skjálftar koma inn á kort með sjálfvirkum hætti. Síðan eru þeir endurskoðaðir og villuhreinsaðir og verða þá oft nokkrar breytingar.

skjalftar

Vandinn er hins vegar sá að nákvæm staðsetning er ekki sýnd og þá getur lesandinn misskilið kortið.

Engu að síður er nákvæmlega vitað hvar hver skjálfti verður enn þó aðeins látið nægja að birta GPS punkt skjálfta í töflu sem fylgir.

Google Maps 

Aðrir kunna að nýta sér þessa punkta betur en jarðskjálftavaktin. Erlendir aðilar nýta sér þá og setja á sjálfvirkan máta inn á loftmynd frá Google Maps. Þar má sjá nákvæma staðsetningu. Ég er þó ekki alveg viss um að staðsetningin á Google Maps sé í öllum tilvikum mjög nákvæm, oft virðast vera talsverð frávik frá því sem ég les af kortum jarðskjálftavaktarinnar. Það er nú samt aukaatriði í þessu sambandi.

Bætum kortin 

Aðalatriðið er að fá jarðskjálftavaktina til að betrumbæta kortin sín og gera þau enn læsilegri. Sé sé það fyrir mér að hægt sé að velja á milli korta eða loftmynda og hægt sé að smella á og fá að sjá mjög nákvæma staðsetningu, rétt eins og hjá Google Maps en öruggari.

Samanburður

Efsta myndin er af vef Veðurstofunnar og sýnir jarðskjálfta á Reykjanesskaga. Rauðu deplarnir eru nýir skjálftar, bláir eru eldri. Leiki mér forvitni á að sjá enn nákvæmari staðsetningu og þá fer ég einfaldlega inn í kort hjá Goole Maps og þá stendur mér ítarlegt kort eða mynd af landinu til boða.

skjalftar2

Á Íslandskorti eða mynd, t.d. þeirri sem er hér fyrir ofan, vinstra megin, sést að skjálftarnir eru suðvestan Kleifarvatns, vestan og sunnan Móhálsadals.

Ekkert eldgos í dag 

Í stað þess að einblína á kös af punktum eins og á korti jarðskjálftavaktar Veðurstofunnar þysjar maður inn í kortið eins langt og þörf er á. Þá sést að skjálftarnir dreifast um nokkuð stórt svæði. Kösin er horfin, gleggri mynd er sjáanleg og lítil merki um eldgos.

... og enn nær 

Ég get svo sem farið lengra inn í kortið og litið á stöðu þriggja skjálfta sem staðsettir eru sitt hvorum megin við suðurstrandaveg eins og sést á myndinni hér til hægri. Þarna heitir Skollahraun vestan megin og Katlahraun hægra megin og víkin held ég að heiti Mölvík.

Efsti skjálftinn er fyrir neðan hamrana í Slögu, ekki langt frá Ísólfsskála. Sá næsti í austur er undir Skála-Mælifelli og sá þriðji einhvers staðar á mótum Skollahrauns og Katlahrauns.

Örnefni eru mikilvæg 

Þetta þykir mér áhugaverð framsetning og vildi gjarnan að jarðskjálftavakt Veðurstofunnar setti á einhvern sambærilegan hátt inn á vef sinn. Örnefni er ekki að finna á Google Maps nema að afar litlu leyti en þau gera hins vegar söguna fyllri og þéttari. 

Á þennan hátt má fara um allt landið og kanna hvar jarðskjálftar eiga upptök sín. Fyrir leikmenn er þetta einstaklega forvitnilegt. Síðan er það jarðfræðingana að setja þessar upplýsingar í texta og fræða okkur enn meir.

Bæta þarf vefinn víðar

Svo má má gera það sama með óróamælingarnar, stækka SIL kortið og gera það eins og í Google Maps.

Yfirlitin eru afar mikilvægt og oft er svo afar forvitnilegt að skoða kort yfir jarðskjálfta síðustu viku, mánaða eða ár. Væri mögulegt að skoða þau á loftmynd og hægt vað þysja inn væri mikið fengið.

Skemmtilegast af öllu væri nú ef fólkið á jarðskjálftavaktinni á Veðurstofunni myndi nú lesa þennan pistil og taka til við að breyta vefnum sínum. Þá væri nú gaman að lifa.


Nei, ég botna ekkert í Ragnheiði Elínu ...

Hún er óskiljanleg, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að ferðamálum. Hún er einbeitt í þeim áformum sínum að gera útaf við ferðafrelsi landsmanna, þess sem þeir hafa notið frá landnámi. Jafnvel forfeður okkar gættu þess að í lögum væru ákvæði um frjálsa för almennings um lönd sem voru í einkaeigu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála í ríkisstjórn Íslands segir eftirfarandi í grein í Morgunblaðinu í morgun:

Ört vaxandi fjölda ferðamanna fylgja miklar tekjur í þjóðarbúið en einnig ýmsar áskoranir. Mikilvægt er að vernda þá „vöru“ sem ferðamennirnir sækja hingað til að njóta sem er íslenska náttúran, við þurfum að byggja upp fleiri staði til þess að dreifa álaginu og síðast en ekki síst þurfum við að tryggja öryggi ferðamannanna. 

Hún fullyrðir að af ferðamönnum, væntanlega innlendum sem erlendum, komi miklar tekjur í „þjóðarbúið“, líklega líka ríkissjóð. Engu að síður er ekki hægt að ráðstafa nema örlitlum hluta af því fjármagni til uppbyggingar. Því sem uppá vantar ætlar hún að redda með svokölluðum „náttúrupassa eða ferðakorts sem ætlunin er að lögleiða á árinu 2014“.

Já, góðan daginn. Var Ragnheiður Elín í síðustu ríkisstjórn eða á að taka upp verklag þeirrar ríkisstjórnar sem einkenndist af flaustri, óðagoti og leyndarmálum?

Vissulega þarf að byggja upp fleiri ferðamannastaði, en hverjir eru þeir. Ragnheiður Elín svara engu um það. Hvaða máli kemur öryggi ferðamanna svokölluðum náttúrupassa við? Ragnheiður Elín svara engu til um það.

Ég hef gengið og ekið þvers og kruss um landið frá því ég var barn. Dytti mér á næsta ári í hug að ganga frá Eyjafirði suður á land á skíðum, vélsleðum eða jeppum að vetrarlagi þá þar ég líklega að borga eitthvers konar gjald. Ætli ég að ganga yfir Fimmvörðuháls verð ég ábyggilega rukkaður tvisvar eða þrisvar, einu sinni af sveitarfélaginu við Skógafoss, í annað skipti af Ragnheiði Elínu og líklega í þriðja skiptið af Útivist. Og myndi ég halda áfram göngunni í áttina til Landmannalauga og plastið í kreditkortinu væri ekki bráðnað þyrfti ég að greiða skatt til Ferðafélagsins og án ef borga upprekstrargjald í Almenningum til sveitarfélagsins. Líklega myndi Ragnheiður Elín líklega vilja skoða í bakpokann minn til að gæta að öryggi mínu, ég hefði nægan mat og annað til útilegunnar.

Nei, ég botna ekkert í henni Ragnheiði Elínu. Það væri ótrúlegt ef svona skattheimta og frelsisskerðing næði í gegn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband