Ráðherra getur ekki afturkallað lög

Auðvitað er það fagnaðarefni ef nýsett lög um náttúruvernd verði afnumin og gömlu lögin haldi gildi sínu. Svandís Svavarsdóttir, fyrrum umhverfisráðherra, fór með rangt mál í Ríkisútvarpinu í morgun þegar hún hélt því fram að fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda þegar frumvarp til þessara laga voru til meðferðar í þinginu.

Samtök Útivistarfélaga sögðu þá:

Mörg aðildarfélög Samút [Samtök útivistarfélaga] skiluðu inn athugasemdum við drögum að frumvarpi til náttúruverndarlaga Skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert tillit var tekið til innsendra athugasemda. Flest félaganna gagnrýndu jafnframt að lítið og ómarkvisst samráð var haft við undirbúning Hvítbókar sem er grunnurinn að drögunum um frumvarp til náttúruverndarlaganna.  

Fyrir okkur sem teljumst útivistarfólk og ferðumst um landið eru lögin hrákasmíði. Ég hef áður fullyrt að í því sé aragrúi af hugsanavillum og meinlokum.  Í 22. grein kemur fram að tjalda má „hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur ...“. Ekki veit ég hvað hefðbundið viðlegutjald er. 

Lengi átti ég North Face kúlutjald, sérlega gott tjald, notaði það í tuttugu ár. Það ekki beinlínis hefðbundið en kosturinn var sá að það var ekki þyngra en svo að ég gat gengið með það til dæmis um allar Hornstrandir. Sem sagt þetta var óhefðbundið göngutjald utan alfararleiðar. Oft tjaldaði ég því ekki langt frá bílnum mínum. Þá hefur það líklega kallast óhefðbundið viðlegutjald við alfaraleið.

Nú hefur ráðherra ákveðið að leggja fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að lögin verði felld úr gildi. Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins segir í fyrirsögn: „Lög um náttúruvernd afturkölluð“. Þetta er alveg dæmalaus talsmáti og lýsir slæmum innræti ráðherrans gagnvart þinginu, svo ekki sé meira sagt. Staðreyndi er einfaldlega sú að ráðherra, hvað þá ráðuneyti, getur ekki afturkallað lög. Þannig er það einfaldlega ekki. Raunar getur þingið ekki afturkallað lög, aðeins fellt lög að hluta eða öllu leyti úr gildi.

Ráðherrann, sem jafnframt er þingmaður, getur lagt fram frumvarp í eigin nafni eða ríkisstjórnarinnar, þar sem hann leggur til að nýju náttúruverndarlögin verði felld úr gildi. Það er allt annað mál en að afturkalla lög. Með þessu er það Alþingi sem tekur afstöðu til tillögu ráðherrans en ekki að hann afturkalli eitt eða neitt.

Ýmsir kunna að álíta að þetta sé nú smáræði og skipti engu. Nei, þetta er stórmál. Fjölmargir utan þings og innan, sýna Alþingi hinn megnustu óvirðingu þegar þeir halda að þeir geti ráðskast með þingið og vilja þess og ráðist gegn hefðum sem mótast hafa í langan tíma. Óvirðingin sem þinginu er sýnd á vefsíðu ráðuneytisins er ótrúleg.

Minnir á utanríkisráðherra sem telur hægt með einföldum úrskurði sínum að fella niður ályktun þingsins um aðildarumsókn að ESB. Ráðherra hefur ekki slík völd og auðvitað þarf Alþingi að samþykkja sambærilega ályktun um að það vilji ekki ganga inn í ESB. Þannig eru bara leikreglurnar og ráðherrann getur ekki buslað í kringum þær og látið sem að þingmeirihluti sé sama og samþykki við öllum sem honum dettur í hug.

Þriðja dæmið er hinn ótrúlega skammsýni þingmaður Pírata sem telur sig þess umkominn að geta dæmt samþingmenn sína með því að nota ekki hefðbundin ávörp.

Virðing Alþingis fer þverrandi og það er ekki síst út af málum sem hér hafa verið nefnd. Nóg er um upplausn í þjóðfélaginu og jafnvel stjórnsýslunni og því mikilvægt að Alþingi haldi haus og sýni staðfestu. Það gerist hins vegar ekki ef þingmenn og ráðherrar eru staðráðnir í því að vera í einhverjum egósentrískum leik. Líklega ekki furða að það gerist þegar helstu ráðgjafar ráðherra og þingmanna eru í mörgum tilvikum litlir bógar með fátæklega reynslu og þekkingu á innviðum þingsins og stjórnarráðsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vísa í bloggpistil minn um það nýja stjórnarfar sem gæti verið túlkað með orðunum: "Svona á að stjórna landinu."

Vegamálastjóri hefur þegar tekið að sér dómsvaldið og umhverfisráðherra löggjafarvaldið. Þeir höfðu framkvæmdavaldið fyrir og er því núna með alla valdþættina í sínum höndum. Svona að stjórna landinu.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2013 kl. 10:01

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Framkvæmdavaldið afturkallar ekki lög. Það er bara svo einfalt. Engu að síður var þetta fyrirsögnin á vef ráðuneytisins og bergmálaði í fjölmiðlum. Skiptir litlu þó að í „smáa letrinu“ væri þetta útskýrt nánar. Framsóknarráðherrarnir rata ekki um formlegu hliðar löggjafarvalds og framkvæmdavald. Það er ámælisvert.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.9.2013 kl. 15:45

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Örugglega ekki, ég var hins vegar að giska dálítið á kommentið þitt, vissi ekki alveg hvað þú áttir við í niðurlaginu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.9.2013 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband