Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Góð frétt fyrir útlendinga um eldgosið

onytt_neslist.jpg

Ekki er sama hvernig útskýrt er fyrir útlendingum að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi lítil áhrif á daglegt líf meginþorra Íslendinga. Þann 7. maí gagnrýndi ég hvernig þetta er gert á heimasíðunni www.icelandnaturally.is. Þar voru handarbaksvinnubrögðin hrikaleg.

Nú hef ég legið dálítið yfir textagerð og get fullyrt að þessi sem birtist á heimasíðu Ness listamiðstöðvar (www.neslist.is) á Skagaströnd er miklu betri, þó svo að ég hafi samið hann að mestu leyti.

Everything as usual in Iceland

We wish to remind our visitors and potential visitors to Nes Artist Residency in Skagaströnd that day-to-day life in Iceland carries on as usual.

There is however a volcanic eruption on the south coast. Because of that we want to stress that it has not made any impact on our lives, not here in Skagaströnd or most other parts of the country. Icelanders’ daily life is proceeding quite normally. The only exception is in a very specific area on the South coast.

skagastrond_and_volcano.jpg

Even though the eruption in the glacier is relatively small, airborne volcanic ash has dispersed over a wide area and disrupted air travel in Europe. As strange as it sounds airports in Iceland, Keflavik and Reykjavik, have not been struck by the ash like those in Europe.

So our lives here in Iceland have not changed in any way due to the volcanic eruption. Nevertheless we wish to warn you of exaggerated news reports on the eruption.

If you are not convinced or you have any doubt in your mind about your visit to Skagastrond, please send us an e-mail and we’ll answer a.s.a.p.

This map shows you where we are in relation to the volcano. 

Byrjað er á að segja frá því að daglegt líf sé í lagi á Íslandi, ekki minnst á eldgosið fyrr en í næsta paragraffi. Um leið og eldgosið er nefnt er sagt frá því að áhrif þess séu engin enda eldfjallið langt í burtu.

Og askan hefur haft meiri áhrif á flug í Evrópu en á Íslandi, þetta skiptir auðvitað miklu máli. Einnig er þess getið að fréttir í fjölmiðlum geta verið ýkjukenndar og þá er einfaldlega best að senda tölvupóst og kanna málið.

Þetta er einföld en góð frétt og fullnægir þeim kröfum sem gera þarf til hennar. Svo er það annað mál að í framhaldinu má gefa lengri skýringar á stöðu mála vegna eldgossins. Þess vegna eru í lok fréttarinnar gefnar upp slóðir að áhugaverðum heimasíðum.

Grundvallaratriðið er að segja passlega mikið, valda ekki óróa. Ef forvitni vaknar má gera gefa ítarlegri skýringar.

Fyrstu áhrif skipta mestu máli. Skilji hinn útlendi lesandi fréttina á jákvæðan hátt er eftirleikurinn auðveldur. Misskilji hann hins vegar fréttina er mikil vinna framundan.


Migan úr Gígjökli tærari en Krossá

10511_voda_throngt.jpg

Þær breytingar hafa nú orðið á Gígjökulsmigunni að hún virðist vera tærari en Krossá. Þetta má næstum því glögglega sjá á vefmyndavél Vodafone, en hér til hliðar er mynd frá því í morgun. Sé myndin stækkuð sést að í migunni eru flúðir og þar bryddir á hvítt.

Af þessu má draga þá einföldu skýringu að ekki er mikil leysing á jöklinum enda kalt í veðri. Þó svo væri er jökullinn þakinn gjósku og sólbráð því afar lítil.

Einhver bræðsla er enn af völdum hraunsins eða eldogssins. Þess vegna er vatnshiti Markarfljóts við Þórólfsfell kominn í 18 gráður. Við Markarfljótsbrú er hann þó aðeins rúmar 6 gráður.

Nokkrar sveiflur hafa verið undanfarna daga í vatnshæð en nú virðist hún vera í jafnvægi.

100511_jar_skjalftar.jpg

 Enn virðist vera mikill órói undir og við Eyjafjallajökul. Ég ætla hins vegar ekki að ræða dýpt jarðskjálftanna. Geyma mér það þangað til síðar. Nokkrir lesenda þessarar bloggsíðu vita hvers vegna.

Jarðskjálftarnir eru flestir í kringum toppgíginn en samt eru þeir afskaplega margir sunnan við hann.  

Óróamælingarnar virðast frekar flatar en þó má greina sveiflur um það bil er jarðskjálftarnir hófust í gærmorgun. Frá því á mánudagsmorgun hafa orðið 87 skjálftar undir Eyjafjallajökli sem eru stærri en 1 á Richter á svæðinu.

Neðst er mynd úr vefmyndavélinni í Surtsey. Gosmökkurinn um kl. 22 í gærkvöldi rís hátt og kvöldsólin varpar geislum sínum á hann. 

 

 

100510_surtsey.jpg

 


Gígjökull, áðurfyrr, fyrir og eftir ...

mynd025.jpgVíða hafa birst samanburðarmyndir á Gígjökli fyrir og eftir gos eða fyrir og eftir þann tíma sem hann hefur þynnst mest.

Ég vil ekki láta mitt eftir liggja og hér eru nokkar myndir.

Sú efsta er tekin 12. september 2000 og þarna glittir í klettinn sem á næstu árum kom betur og betur í ljós.

Annað athyglisvert er að neðst er jökullinn tiltölulega flatur. Það átti nú eftir að breytast.

Auðvitað á ég betri myndir af Gígjökli meðan hann var og hét en vandinn er að komast í almennilegan skanner. Fram til ársins 1999 og lítið eitt lengur tók ég langflestar myndir á pósitívar filmur, slides.

dsc_0425.jpg

 Næsta mynd var tekin þann 5. júlí 2009. Þarna er kletturinn og gjáin komin fram og jökullinn heldur áfram að þynnast.

Þriðju myndina tók ég sama dag. Þarna eru bílar á leið á eftir mér yfir vaðið, sem svo var kallað. Þá var átt við neðri leiðina. Þegar efri leiðin var farin var ekið upp að Lóni og þar yfir jökulfallið.

Vaðið var stundum dálítið stór en yfirleitt var lítið vatn í því, botninn traustur og ef farið var að settum reglum kom ekkert fyrir.

dsc_0431.jpg

Sá sem ekur bílnum sem þarna er úti í miðju vaði fer þó ekki alveg rétt að. Hann hefði átt að aka niður með vaðinu, í sveig og koma upp þar sem litli lækurinn fellur út í það. Allt fór þó vel.

Síðasta myndin er frá ágætum vin, Olgeir Engilbertssyni, frá Nefsholti. Hana tók hann árið 1985 og þar sést jökullinn í öllu sínu veldi. Og stundum mátti sjá ísjaka fljóta um lónið, stranda svo við útfallið. Jafnvel mátti stundum grípa með sér smærri klaka og hafa út í drykkinn um kvöldið. 

Er það ekki þannig sem við munum jökulinn? Glæsilegan ísvegg og lónið fyrir neðan. Eitthvað annað en núna, svo rýr og öskugrár.

jokulloni_1985_olgeir.jpg

 

 

 

 


Hitabylgjur í Markarfljóti, allt að 22 gráðu heitt vatn

Líklega kemur fæstum á óvart að mikill kraftur sé í gosinu. Að minnsta kosti er óvarlegt að spá goslokum þó eitthvað dragi úr því af og til.

Áhugavert er að sjá hversu lítið vatn kemur undan Gígjökli þessa dagana. Hins vegar virðast koma skvettur undan honum, aðeins meira vatn er venjulega. Þeim fylgja svo heitar bylgjur, allt upp í 22,2 gráður í Markarfljóti við Þórólfsfell á laugadaginn, svipað í gær.

Hitabylgjurnar í ná niður að Markarfljótsbrú og þar mældist hitinn nokkrum sinnum yfir helgina yfir 10 gráður.

 

 


mbl.is Öskufall við Skóga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld skýring á nafninu Dímon

stora-dimon.jpg
Flestir kannast við fellið Stóru-Dímon sem stendur svo ósköp einmanna úti á miðjum Markarfljótsaurum.  Í Njálssögu er það nefnt Rauðuskriður.
 
Einhvern tímann frá því að Njáll var uppi og fram á vora daga breyttist nafnið í Stóru-Dímon. Hvers vegna veit ég ekki.
 
Sem sagt, þarna stendur sú stóra úti á miðjum aurunum og eftir þvís em sagt er kallast hún á við litla hæð sem stendur við gömlu Markarfljótsbrúna og nefnd er Litla-Dímon.

 
Í þann tíma sem ég annaðist fararstjórn fyrir Útivist fór ég oft með hópa inn í Þórsmörk. Þá vissi ég ekki betur en Stóra-Dímon væri í karlkyni, en snemma var ég fullvissaður um að nafnið ætti að vera í kvenkyni. Síðan hef ég reynt að fara að hætti heimamanna, þ.e. nafnvenju fólks í Fljótshlíð og undir Vestur-Eyjafjöllum.
 
Nafnið hefur þó alltaf vafist fyrir mér fyrst og fremst vegna þess hversu margar skýringar hef ég heyrt á því. Það breytti því ekki að ég sagði farþegum mínum frá öllum nafnakenningunum rétt eins og um heilagan sannleik væri að ræða. 
 
Og hvað sagði ég? Jú, að Dímon væri eiginlega bara latneska yfir demon, þ.e. djöful. Þetta fannst mér mjög sennileg skýring eða þangað til einhver fullvissaði mig um að betra væri að skýra nafnið með hliðsjón af frönsku. Di Moin þýðir beinlínis tvö fjöll ... og alls staðar þar sem annað finnst þarf lítið að leita, hitt finnst innan skamms, bætti ég við af yfirlætisfullu þekkingarleysi.
 
Jú, mikil ósköp ég þekki Dímonarklakka í Breiðafirði, þeir eru tveir. Dímon er í Þjórsárdal, að vísu bara einn, hinn er týndur var mér sagt. Svo fann ég lítil fell skammt frá Laugardalsvöllum, Stóra- og Litla Dímon. Og þegar ég bjó á Höfn í Hornafirði frétti ég af Dímu sem er klöpp úti á miðjum aurum Jöklusár í Lóni.
 
Svo var það að ég rakst á grein í Morgunblaðinu, líklega um 1997. Hún fannst mér með öllu öðru yfirbragði en annað sem ég hafði fundið. Greinin var eftir Ásgeir Ó. Einarsson sem var dýralæknir, en hann dó 4. apríl 1998.
 
Grein Ásgeirs nefnist Dimon diemen og er stutt og laggóð, kemur beint að kjarna málsins. Hann upplýsir að nafnið Dímon er tengist hvorki djöflinum né franskri tungu heldur allt öðru og miklu hversdagslegri hlut. Greinina birti ég hér á eftir og dæmi svo hver fyrir sig. 
 
 
 
Dímon  diemen

MARGIR þekkja Dímon sem er klettadrangur á stórri sandsléttu neðarlega í Fljótshlíð en færri kannast við Dímon í Færeyjum sem er bratt fjall. Einnig þekkja margir söguna um bóndann sem fór til prestsins og spurði hann hvað Dímon þýddi eiginlega. Prestur fletti upp í sinni latínuþekkingu og svaraði að það líktist helst di mons sem þýddi tvö fjöll. Bóndi tók þessari vitlausu þýðingu sem heilögum sannleik og bændur leituðu mikið að öðru fjalli en fundu hvergi því að það er ekki einu sinni til myndarleg þúfa í nánd við Dímon. Samt fannst þeim vera eitthvert fjall í fjarska og töluðu síðan um stóra og litla Dímon sem er eintómt rugl því að dímon og di mons er bara sitt hvað.

Ég á þýska alþýðuorðabók (Leipzig 1933) sem er með gífurlegum fjölda teikninga af hlutum sem nefndir eru í henni. Er ég var að fletta í bókinni rakst ég á mynd af háum kornstakki sem ber hér um bil sama nafnið; diemen en við að flakka frá Rómverjum hingað norður í lönd (Noregur, Færeyjar, Ísland) hefur framburður nafnsins tekið breytingum, þ.e. endingin orðið -on fyrir áhrif af öðrum latneskum orðum t.d. mammon, demon.

Kornstakkurinn (diemen) var mikið þarfaþing fyrir kornræktarbændur, sérstaklega við stutt sumur og erfiða ræktun og einkum fyrir það að þegar kornið var ekki fullsprottið var mjög erfitt að ná því úr öxunum. Þá höfðu menn ekki vélar sem ná korninu úr jafnóðum og það er slegið. Í þá daga urðu menn að berja kornið úr axinu. Þá tóku menn visk í hendur, slógu því við jörðina þar til kornið losnaði. Kornstakkur var þannig gerður að tekið var beint, grannt tré, það rekið ofan í jörðina á þurrum stað, nýslegið kornið lagt með kornið upp að trénu, allt um kring og upp í rúma 2 metra. Síðan var langur, gamall hálmur settur yfir opið, bundið að honum fyrir ofan og einnig ofar miðju. Stakkurinn var látinn standa í 1-2 mánuði og þá hafði kornið þornað og þroskast svo mikið að miklu auðveldara var að slá það laust.

Eftir að menn hafa nú lesið hvað er sannleikurinn í þessu Dímon- máli ættu Íslendingar að hætta að tala um stóra og litla Dímon og þeir sem hafa sett þetta rugl í íslenskar orðabækur ættu að losa þær við lygina sem fyrst.

Ásgeir Ó. Einarsson, dýralæknir.

Hvað er að óttast við Gígjökul?

Hvers vegna er Þórsmerkurvegur lokaður? Er það til þess að fólk fari sér ekki að voða. Hins vegar fer fólksér almennt ekki að voða. óhöpp og slys eru algjör undantekningartilvik. 

Mjög margt er að sjá og skoða á Þórsmerkurleið. Alveg frá þeim stað þar sem vegurinn fór í sundur og að Gígjökli. Þar er hefur fjölmargt gerst sem flestir hafa áhuga á. Og hvers vegna að meina fólki aðgang að gamla lónsstæðinu?

Á sama hátt og fólk fór klakklaust upp á Fimmvörðuháls til að skoða gosið þar þá ætti almenninga að vera treystandi við Gígjökul. Hins vgar má svo sem minnast þess að yfirvöld voru að fara á taugum vegna ferðamannastraumsins upp á Háls og ætluðu að setja þar upp girðingu.

Svo má spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort einhver munur sé á svæðinu norðan Eyjafjallajökuls og sunnan megin. Þar er fólki heilmiluð för, þar býr og starfar á annað þúsund manns í alls kyns gjóskufalli.

Hvað er hættulegra við Gígjökul en á öskufallssvæðinu sunnan megin? eitraðar gastengundir ...? Nei, hraunrennsli er hætt, nú er sprengigos. Engin hætta á 

Ég fullyrði að staðreyndin sé einfaldlega sú að sýslumaðurinn á Hvolsvelli, sá sem ræður lokunum, hann þori einfaldlega ekki að taka ákvörðun um að opna Þórsmegurveg. Kannski hann ætli að girða jökulinn af.

Svo er það annað mál að yfirvöldum ber að segja frá því sem hvers vegna þau vilji loka vegum. Veit sýslumaður á Hvolsvelli meira um ástandið en við hin?


mbl.is Ökumenn virða ekki lokanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af lóninu í dag og fyrir þrem vikum

100508_voda_throngt_kl_1930.jpgGígjökulsmigan stendur undir nafni. Svo til ekkert vatn er í henni, raunar virðist það vera minna en þegar lónið var og hét og Jökulsáin rann niður á Markarfljótsaura. Varla virðist vera neitt vandamál að aka yfir miguna. 

Á meðfylgjandi mynd frá vefmyndavél Vodafone má sjá hvílíkt magn efnis hefur fyllt upp í gamla lónið. 

Hér er svo til samanburðar þriggja vikna gömul mynd úr vefmyndavélinni. Þá var eitthvað minni virkni í gosinu, þó það hafi bara verið um tveggja daga gamalt.

Þarna höfðu komið niður tvö gífurleg flóð, langmestur hluti þess efnis sem fyllti upp í lónið.

Og hvað segja þessar myndir okkur? Jú, fyrst þetta hefur gerst núna má gera ráð fyrir að lónið hafi fyllst áður og eigi eftir að gera það í framtíðinni. 

100416_loni_fullt_b_988791.jpg

Nú er bara að bíða og vona að eldgosið hætti fyrir fullt og allt og við getum aftur notið þess að fara inn í Þórsmörk og Goðaland, gengið yfir Fimmvörðuháls og ekki síst frá Landmannalaugum og í Þórmörk. Fjöldi fólks hefur ekki hugmynd um hvernig eigi að byrja sumarið nema að fá að koma inn á þetta svæði. 

 


mbl.is Fjórðungur íbúa farinn úr Vík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðnasteinn og Goðasteinn á Eyjafjallajökli

Miklu skiptir að fara rétt með örnefni. Oft er gripið til frásagnar fulla kallsins sem gisti í Básum og sagðist hafa gengið á Útigangshöfðann og komið á Heygarðshornið. Hann átti auðvitað við Útigönguhöfða og Heiðarhorn.
 
Kannski er óþarfi að hneykslast á blaða- og fréttamönnum sem í hita leiksins eiga það til að fara bæði rangt með örnefni og lýsingu á staðháttum. Meðan á gosinu á Fimmvörðuhálsi stóð og ekki síður núna þegar gýs í Eyjafjallajökli er að finna margt gullkornið. 
 
Flestum ætti að vera kunnugt um að Þórsmörk er norðan Krossár og sunnan hennar er Goðaland og fleiri svæði. Verra er þegar gosið er í Eyjajökli og flóð tekur að renna úr Gígjujökli og út á Markaðseyrar.
 
Mér hefur verið bent á að ég kynni að hafa misfarið með örnefni á þessum slóðum. Kallað Fremri-Skúta Ytri-Skúta, sett Stóru-Dímon í karlkyn og svo ekki síst kallað Goðastein Guðnastein. Þetta síðasta er nú tilefni pistilsins. Vont er að fara rangt með örnefni en verra er að hafa átt að vita betur.
 
Mér var vel kunnugt um grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 25. janúar árið 1997. Hún nefnist „Steinarnir á Eyjafjallajökli“ og er eftir Árna Alfreðsson. Held að hann sé leiðsögumaður og ættaður frá Stóru-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum.
 
Mér þótti þetta góð grein og geymdi hana. Og samkvæmt henni fór ég rangt með nafnið á Goðasteini. það þykir mér miður. Til yfirbótar birti ég hér þessa grein Árna. Leyfi hef ég ekki en í ljósi hins göfuga tilgangs vona ég að hann fyrirgefi mér.
 
Myndir hef ég fengið af vef Jarðvísindastofnunar. Fyrsta myndin hefur þó þá meinlegu villu að örnefnið Steinsholtsjökull er rangt stafsett, óþægilega algeng villa. 
 

Steinarnir á Eyjafjallajökli
eftir Árna Alfreðsson

100506_rnefnamynd.jpg
Guðnasteini og Goðasteini á Eyjafjalajökli er oft ruglað saman og mætti þá halda að steinninn sé aðeins einn. En svo er ekki. Þessi kennileiti eru með nokkru milibili og nöfnin eru úr vel þekktum þjóðsögum.

Eyjafjallajökull er kenndur við sveitina sem hann gnæfir yfir. Efsti hluti jökulsins er gígur eða askja, 2-3 km í þvermál, en jökullinn er virk eldstöð sem gaus síðast 1821-22. Á börmum öskjunnar sér í grjót að sumarlagi. Tvö þeirra standa hæst og eru mest áberandi. Þetta eru helstu kennileitin á há-jöklinum.
 
100506_rnefnamynd_2.jpg
Annar steinninn (1.580 m.y.s) stendur efst á norðvestanverðri brún gígsins. Hann er þverhníptur að vestan, brattur að austan en ávalur norðan megin.
 
Hinn steinninn (1.651 m.y.s) stendur út úr gígbrúninni að sunnanverðu. Snjór hylur hann að norðanverðu og efsta hluta hans, en þverhnípt bergstál veit í suður.
 
Í nálægð við jökulinn sjást klettarnir aldrei báðir í einu þannig að þegar litið er til efstu hæða sést aðeins einn toppur með einum steini, hvaðan sem horft er. Vestari steinninn sést eingöngu úr vestri, best frá vestanverðum Eyjafjöllum og miðri Fljótshlíð. Syðri kletturinn sést aftur á móti aðeins frá suður- og austurhluta Eyjafjalla.

Nafnabrengl

Mikill ruglingur hefur verið með nöfn þessara steina, sérstaklega hin síðari ár, sem versnað hefur eftir því sem landakortum af svæðinu hefur fjölgað. Nú er svo komið að finna má fjórar útgáfur af nafni hvors steins. Ekki þarf að fjölyrða að hér er í óefni komið. Heimamenn hafa ekki síður en aðrir ruglast í ríminu með tilkomu kortanna.

Til að gera langa sögu stutta þá nefnist vestari kletturinn Goðasteinn en sá syðri Guðnasteinn.
 
Þessi kenning eða fullyrðing er ekki úr lausu lofti gripin heldur byggð á heimildum sem til eru um kennileitin. Hvort fullyrðingin er rétt eða röng er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Þessir steinar verða að hafa sitt ákveðna eigið nafn.

Í fyrsta lagi hefur þessi ruglingur gert það að verkum að þessi kennileiti hafa að hluta misst gildi sitt. Það er flestum sem betur fer kappsmál að fara rétt með örnefni. Óvissa og málalengingar með örnefni fer í taugarnar á fólki og slík kennileiti eru síður nefnd á nafn, sérstaklega ef athugasemdir eða deilur fylgja í kjölfarið. Það kemur því ekki á óvart að að meira sé farið að nota önnur kennileiti á jöklinum, óþörf nýnefni í stað "gömlu grjótanna".

Í öðru lagi er hér um öryggismál að ræða. Umferð um jökulinn hefur aukist mikið og ef slys verður þarna uppi getur það skipt sköpum að ekki sé ruglingur með kennileiti. Ruglingur með nöfn kennileitanna gerir einnig erfiðara að segja til vegar án þess að um misskilning verði að ræða. Slíkt getur stuðlað að röngu leiðarvali og þannig aukið líkur á slysi.

En hvaðan koma nöfn steinanna? Þau koma úr tveimur þjóðsögum sem vel eru þekktar "undir Fjöllunum" og víðar.

Goðasteinn

dsc00055_988214.jpg
Kringum 1000 bjó í Dal (Stóradal) undir vestanverðum Eyjafjöllum Runólfur goði Úlfsson. Hans er getið í mörgum heimildum enda stórhöfðingi. Hann var rammheiðinn og barðist ötullega gegn kristni. Sagan segir að eftir að kristni var hér lögtekin hafi Runólfur forðað goðamyndunum burt úr hofi sínu og komið þeim fyrir undir kletti, efst á Eyjafjalljökli. Heiti hann því Goðasteinn.

Slóðir þær sem þjóðsagan gerist á eru undir "vestur Fjöllunum" þaðan sem einungis sér í vestari steininn. Flest bendir því til að um vestari klettinn sé að ræða.

Þess má geta að sú leið sem beinast liggur við að fara upp frá heimaslóðum Runólfs liggur um Hamragarðaheiði, upp jökulinn vestanverðan, að Goðasteini. Þetta er einmitt greiðfærasta leiðin á jökulinn og sú sama og flestir sem fara á bílum og vélsleðum upp að "Steini" nú í dag.
 
[Myndin hér fyrir ofan er tekin frá Goðasteini og horft í suðaustur yfir toppgíginn að Hámundi sem er vinstra megin og Guðnasteini sem er hægra megin. Lengst til hægri er nafnlaus tindur.]

Guðnasteinn

kort2.jpg
Við bæinn Hrútafell undir austanverðum Eyjafjöllum er hellir er nefnist Rútshellir. Hellirinn er kenndur við Rút nokkurn. Ein þjóðsagan af Rúti er á þessa leið.

Rútur var ómenni og óvinsæll héraðshöfðingi og átti í útistöðum við héraðsmenn. Hann hafði því til öryggis sest að í hellinum. Þræla hafði hann nokkra og var þeim harður húsbóndi. Til að losna við Rút fengu hérðsmenn þrælana til að drepa húsbónda sinn. Segir að þrælarnir hafi ráðgert að gera gat á hellinn og leggja að Rúti með spjótum þar í gegn.
 
Eitt skiptið meðan hann var ekki heima við byrjuðu þeir að búa til gatið. Vildi þá svo illa til að Rútur kom að þeim meðan á verkinu stóð. Flúðu þeir burtu en Rútur elti þá alla uppi og drap. Eru staðirnir sem Rútur drap þá við þá kenndir. Bjarni var drepinn við Bjarnafell, Högni við Högnaklett, Sebbi hjá Sebbasteini, Ingimundur við Ingimund (á Steinafjalli) og Guðni við Guðnastein í framanverðum Eyjafjallajökli.
 
Frá þeim slóðum sem þjóðsagan gerist sést syðri kletturinn einna best úr sveitinni. Sagan á því að öllum líkindum við um Guðnastein í sunnanverðum jöklinum.
 
[Á kortinu hér fyrir ofan eru flest þau örnefni sem getið er um í greininni.] 

Þjóðsaga á villigötum

Þegar farið er yfir gamlar heimildir um nöfn grjótanna kemur hvergi annað fram en að syðri kletturinn hafi verið nefndur Guðnasteinn. Öðru máli gegnir með vestari klettinn, Goðastein. Margir hafa kallað hann Goðasteinn en aðrir Guðnastein.

Sá ruglingur að kalla Goðastein ranglega Guðnastein gæti hafa átt upptök sín í því að aðeins annar steinanna sést í einu, eins og fram hefur komið, og því sumir talið aðeins um einn stein væri ræða á hæsta hluta jökulsins.
 
Vel er hugsanlegt að þjóðsagan af Rúti og þrælum hans hafi verið betur þekkt og því hafi þeir sem ekki voru vel staðháttum kunnugir útfært söguna á þann eina stein sem þeir sáu. Vel þekkt þjóðsaga hefur þannig lent á röngu kennileiti. Svo virðist sem Fljótshlíðingar hafi frekar notað Guðnasteinsnafnið og ofangreind tilgáta sé þar hugsanleg skýring.

Enn ein hliðin á málinu er sú, að þegar farin hefur verið hefðbundin leið meðfram Eyjafjöllum hverfa báðir steinar sjónum á löngum kafla, milli Stóradals að vestan og bæjarins Hvamms að austan. Ef farið er t.d. austur með Fjöllum þá standa sumir í þeirri trú að það sé sami steinn sem þeir sjá að vestanverðu og þegar þeir koma austar undir Fjöllin. Vel má vera að þetta hafi hent óglögga Eyfellinga hér áður fyrr,og þeir því aðeins álitið að um ein stein væri að ræða á há-jöklinum.

Gleggri menn sem voru á ferðinni, bæði fyrir vestan Jökulinn og sunnan, hafa frekar tekið eftir því að um tvo steina var að ræða, enda grjótin nokkuð ólík í útliti. Ólíklegt verður að telja að þeir sem vitað hafi um tilvist tveggja steina hafi kallað þá báða sama nafni.

Þáttur Sveins Pálssonar

Sveinn Pálsson gekk fyrstur á "hátind" Eyjafjalljökuls sumarið 1792. Þessu er lýst í ferðabók hans. Sveinn hafði aðsetur að Árkvörn í Fljótshlíð það sumarið.
 
Sveinn gekk á vestari steininn, frá Stórumörk undir Vestur-Eyjafjöllum. Sveinn lýsir staðháttum á gígbrúninni mjög vel og tekur jafnframt fram að þetta sé eini steininn sem standi upp úr og sé auður, þótt hann sjái 3-4 snjóbungur á gígbrúninni. Hann virðist því halda að um aðeins einn stein á hájöklinum sé að ræða. Sveinn kallar steininn Guðnastein (sem gætu verið áhrif frá veru hans í Fljótshlíð) og tekur jafnframt fram að ýmsar sagnir gangi um hann.
 
Um nafnið Guðnastein séu menn hins vegar ekki sammála. Orðrétt segir svo í ferðabókinni;
 
„Aðrar sagnir herma, að þræll einn, Guðni að nafni, hafi flúið þangað og verið drepinn þar, af því að hann ætlaði að myrða húsbónda sinn. Þriðja sögnin er sú, að að goðamyndir úr nálægum héruðum hafi verið fluttar upp á tind þennan og grafnar þar, þegar kristni var lögtekin í landinu, og heiti hann þvi að réttu Guða- eða Goðasteinn.“
 
Af þessu er ljóst að þjóðsögurnar, sem nefndar voru framar, eru á þessum tíma á allra vitorði. Sveinn sem er utansveitarmaður og ekki vel staðkunnugur telur aðeins um einn stein að ræða á "tindi Eyjafjallajökuls" og áttar sig ekki á að sagan af Guðna á við klett sem sunnar er í jöklinum. Sá steinn sést ekki frá Goðasteini þar sem hann er hulin snjó að norðanverðu.

Sóknarlýsingar Rangárvallasýslu 1839-73

Í ritinu Sóknarlýsingar Rangárvallsýslu 1839-73 eru lýsingar presta á sóknum sínum, m.a. staðháttum og kennileitum. Þó er þarna merkileg undantekning en þar er eyfellskur bóndi, Einar Sighvatsson hreppstjóri á Ysta-Skála, fengin til að rita lýsingu á Þórsmörk og afréttum Eyfellinga.
 
Hann lýsir Eyjafjöllum einnig í stuttu máli. Augljóst er að hér er á ferðinni maður mjög vel að sér varðandi alla staðhætti og kennileiti. Hann segir m.a. annars:
 
„Fyrir norðvestan Hrútfellsheiði gengur lágur jökulhryggur frá norðurjöklinum (Mýrdalsjökli) til útsuðus eður vesturs er samtengir Há-Eyjafjallajökul (hvörs hæsti hnúkur kallast Guðnasteinn, undir hverjum norðanverðum gosið kom upp 1821-22)“.
 
Það er vel þekkt að gosið kom upp innan gígskálarinnar svo aðeins kemur til greina að hér sé átt við syðri klettinn. Tína mætti til fleiri heimildir en hér verður látið staðar numið.

Í byrjun greinar var sett fram ákveðin kenning. Hvernig sem málinu er snúið þá benda heimildir til að syðri steininn hafi eingöngu borið nafnið Guðnasteinn en sá vestari verið nefndur Goðasteinn af mörgum. Þjóðsögurnar passa, landfræðilega, aðeins við þessa útfærslu nafnanna.
 
Það liggur því beint við að draga þá ályktun að eðlilegast sé að hafa þennan háttinn á. Með því að festa þessar útgáfu kennileitanna í sessi er báðum nöfnunum gert jafnhátt undir höfði, hvorugt þeirra gleymist, og kennileitin fá sitt eigið nafn. Það er bæði steinum og fólki fyrir bestu.





Ísland stórhættulegt, segir Iceland Naturally

100507_iceland_naturally.jpg

Við viljum sannfæra útlendinga um að allt sé í lagi á Íslandi, eldgosið valdi ekki vandræðum og daglegt líf sé í föstum skorðum. Þess er ástæða til að vanda orðlag í yfirlýsingum. Þannig er það alltaf, bæði í markaðsmálum og ekki síður þegar tekist er á við almannatengsl. 

Fyrsta reglan er að segja satt og rétt frá, ekki hnika frá sannleikanum, hversu freistandi sem það kunni að vera. Af hverju? Vegna þess að lygin kemst alltaf upp eða sú hætta vofir alltaf yfir.

Orðalagið skiptir meginmáli. Yfirlýsing eða fréttatilkynning verður að vera jákvæð og sá tónn þarf að halda sér út í gegn.

Til dæmis er algjörlega óásættanlegt að segja: Þrátt fyrir hrikalegt eldgos og margar hættur sem það veldur landsmönnum, hefur flestum tekist með dugnaði og ósérhlífni að sinna störfum sínum.

Auðvelt er að lesa á milli línanna í svona yfirlýsingu, sem sagt allt í tómum vandræðum. Slíkt má alls ekki gerast.

Þetta leiðir að yfirlýsingu sem lesa má á ensku á vefnum icelandnaturally.com sem er samstarfverkefni ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja.

Yfirlýsing er afskaplega illa samin og lítt til þess fallin að róa ferðamenn eða hvetja þá til að koma til landsins. Svo letjandi eru hún í eðli sinu. Í þokkabót hefur hún verið óbreytt á vefnum frá því 18. apríl en flestum ætti að vera ljóst að mikið hefur gerst síðasta hálfa mánuðinn.

Hérna er yfirlýsingin og ég hef litað með rauðu þau atriði sem mér finnst vera ábótavant eða ekki eigi heima þarna:

Travel to Iceland Safe
The Icelandic Tourist Board is keen to remind all visitors and potential visitors to Iceland that day-to-day life in Iceland carries on as usual, even though the volcanic eruption in Eyjafjallajökull glacier on the south coast of Iceland has made a profound impact and generated dangers in a very specific area. In other parts of the country, Icelanders' daily life is proceeding quite normally.

Even though the eruption in Eyjafjallajökull is relatively small, airborne volcanic ash has dispersed over a wide area and disrupted air travel in Europe. It is the joint task of the aviation and tourism authorities in Europe to find ways to transport travellers to their destinations with absolute safety.

It is the task of Iceland's Civil Protection Department to ensure that the utmost safety measures are followed in Iceland, and to provide a constant flow of information to all parties that need it. Euro Control and the Volcanic Ash Center take decisions on air travel authorisations in Europe.

Even if the eruption is prolonged – and its duration is impossible to predict – it is considered likely that volcanic ash formation will taper off once the preconditions for the mixture of water and embers no longer exist.

The Icelandic Tourist Board wishes to forewarn the public of exaggerated news reports on the eruption but encourages travelers to keep abreast of developments.

Travelers currently in Iceland are safe and well-treated, and the appropriate parties are making every effort to make their stay as pleasant and comfortable as possible. 

 

Raunar stendur ekkert eftir af þessari yfirlýsingu vegna þess að í henni segir einfaldlega svo að það er ekki hættulaust að ferðast um Ísland.

Ekkert kort er birt með yfirlýsingunni og engin leið fyrir feðamanninn að átta sig á því hvað er öruggt og hvað ekki. Þar af leiðandi dregur hann þá ályktun að Ísland sé stórhættulegt. 

 


Sótsvart og sjóðandi helv ...

100507_vodafone_vitt.jpg

Þegar allt nýjabrumið er farið af eldgosinu í Eyjafjallajökli fer ekki hjá því að landsmenn eru orðnir nokkuð leiðir á því.

Gosið truflar daglegt líf frá Eyjafjöllum og allt til Víkur og austur í Meðalland á þeim dögum sem vorið á að vera komið. Þarna er allt grátt og menn hugsa með hrylling til sumardaga þegar askan þyrlast í loftinu daginn út og daginn inn. Má þá biðja um góða rigningartíð á Suðurlandi.

Vissulega er gosmökkurinn tignarlegur þar sem hann rís upp úr jöklinum sem einu sinni var hvítur og tignarlegur en er nú eins og sótsvart helvíti. 

Sjóðandi heitt vatn leggur nú út undan Gígjökli þó svo að ekki sé í migunni sé nú frekar lítið.

100507_vatnshiti_vi_or.jpg

Vatnshitinn við Þórólfsfell var nú fyrir stuttu rúmlega 18 gráður en hitans gætir þó ekki við Markarfljótsbrú. 


mbl.is Fólk haldi sig innandyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband