Guðnasteinn og Goðasteinn á Eyjafjallajökli

Miklu skiptir að fara rétt með örnefni. Oft er gripið til frásagnar fulla kallsins sem gisti í Básum og sagðist hafa gengið á Útigangshöfðann og komið á Heygarðshornið. Hann átti auðvitað við Útigönguhöfða og Heiðarhorn.
 
Kannski er óþarfi að hneykslast á blaða- og fréttamönnum sem í hita leiksins eiga það til að fara bæði rangt með örnefni og lýsingu á staðháttum. Meðan á gosinu á Fimmvörðuhálsi stóð og ekki síður núna þegar gýs í Eyjafjallajökli er að finna margt gullkornið. 
 
Flestum ætti að vera kunnugt um að Þórsmörk er norðan Krossár og sunnan hennar er Goðaland og fleiri svæði. Verra er þegar gosið er í Eyjajökli og flóð tekur að renna úr Gígjujökli og út á Markaðseyrar.
 
Mér hefur verið bent á að ég kynni að hafa misfarið með örnefni á þessum slóðum. Kallað Fremri-Skúta Ytri-Skúta, sett Stóru-Dímon í karlkyn og svo ekki síst kallað Goðastein Guðnastein. Þetta síðasta er nú tilefni pistilsins. Vont er að fara rangt með örnefni en verra er að hafa átt að vita betur.
 
Mér var vel kunnugt um grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 25. janúar árið 1997. Hún nefnist „Steinarnir á Eyjafjallajökli“ og er eftir Árna Alfreðsson. Held að hann sé leiðsögumaður og ættaður frá Stóru-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum.
 
Mér þótti þetta góð grein og geymdi hana. Og samkvæmt henni fór ég rangt með nafnið á Goðasteini. það þykir mér miður. Til yfirbótar birti ég hér þessa grein Árna. Leyfi hef ég ekki en í ljósi hins göfuga tilgangs vona ég að hann fyrirgefi mér.
 
Myndir hef ég fengið af vef Jarðvísindastofnunar. Fyrsta myndin hefur þó þá meinlegu villu að örnefnið Steinsholtsjökull er rangt stafsett, óþægilega algeng villa. 
 

Steinarnir á Eyjafjallajökli
eftir Árna Alfreðsson

100506_rnefnamynd.jpg
Guðnasteini og Goðasteini á Eyjafjalajökli er oft ruglað saman og mætti þá halda að steinninn sé aðeins einn. En svo er ekki. Þessi kennileiti eru með nokkru milibili og nöfnin eru úr vel þekktum þjóðsögum.

Eyjafjallajökull er kenndur við sveitina sem hann gnæfir yfir. Efsti hluti jökulsins er gígur eða askja, 2-3 km í þvermál, en jökullinn er virk eldstöð sem gaus síðast 1821-22. Á börmum öskjunnar sér í grjót að sumarlagi. Tvö þeirra standa hæst og eru mest áberandi. Þetta eru helstu kennileitin á há-jöklinum.
 
100506_rnefnamynd_2.jpg
Annar steinninn (1.580 m.y.s) stendur efst á norðvestanverðri brún gígsins. Hann er þverhníptur að vestan, brattur að austan en ávalur norðan megin.
 
Hinn steinninn (1.651 m.y.s) stendur út úr gígbrúninni að sunnanverðu. Snjór hylur hann að norðanverðu og efsta hluta hans, en þverhnípt bergstál veit í suður.
 
Í nálægð við jökulinn sjást klettarnir aldrei báðir í einu þannig að þegar litið er til efstu hæða sést aðeins einn toppur með einum steini, hvaðan sem horft er. Vestari steinninn sést eingöngu úr vestri, best frá vestanverðum Eyjafjöllum og miðri Fljótshlíð. Syðri kletturinn sést aftur á móti aðeins frá suður- og austurhluta Eyjafjalla.

Nafnabrengl

Mikill ruglingur hefur verið með nöfn þessara steina, sérstaklega hin síðari ár, sem versnað hefur eftir því sem landakortum af svæðinu hefur fjölgað. Nú er svo komið að finna má fjórar útgáfur af nafni hvors steins. Ekki þarf að fjölyrða að hér er í óefni komið. Heimamenn hafa ekki síður en aðrir ruglast í ríminu með tilkomu kortanna.

Til að gera langa sögu stutta þá nefnist vestari kletturinn Goðasteinn en sá syðri Guðnasteinn.
 
Þessi kenning eða fullyrðing er ekki úr lausu lofti gripin heldur byggð á heimildum sem til eru um kennileitin. Hvort fullyrðingin er rétt eða röng er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Þessir steinar verða að hafa sitt ákveðna eigið nafn.

Í fyrsta lagi hefur þessi ruglingur gert það að verkum að þessi kennileiti hafa að hluta misst gildi sitt. Það er flestum sem betur fer kappsmál að fara rétt með örnefni. Óvissa og málalengingar með örnefni fer í taugarnar á fólki og slík kennileiti eru síður nefnd á nafn, sérstaklega ef athugasemdir eða deilur fylgja í kjölfarið. Það kemur því ekki á óvart að að meira sé farið að nota önnur kennileiti á jöklinum, óþörf nýnefni í stað "gömlu grjótanna".

Í öðru lagi er hér um öryggismál að ræða. Umferð um jökulinn hefur aukist mikið og ef slys verður þarna uppi getur það skipt sköpum að ekki sé ruglingur með kennileiti. Ruglingur með nöfn kennileitanna gerir einnig erfiðara að segja til vegar án þess að um misskilning verði að ræða. Slíkt getur stuðlað að röngu leiðarvali og þannig aukið líkur á slysi.

En hvaðan koma nöfn steinanna? Þau koma úr tveimur þjóðsögum sem vel eru þekktar "undir Fjöllunum" og víðar.

Goðasteinn

dsc00055_988214.jpg
Kringum 1000 bjó í Dal (Stóradal) undir vestanverðum Eyjafjöllum Runólfur goði Úlfsson. Hans er getið í mörgum heimildum enda stórhöfðingi. Hann var rammheiðinn og barðist ötullega gegn kristni. Sagan segir að eftir að kristni var hér lögtekin hafi Runólfur forðað goðamyndunum burt úr hofi sínu og komið þeim fyrir undir kletti, efst á Eyjafjalljökli. Heiti hann því Goðasteinn.

Slóðir þær sem þjóðsagan gerist á eru undir "vestur Fjöllunum" þaðan sem einungis sér í vestari steininn. Flest bendir því til að um vestari klettinn sé að ræða.

Þess má geta að sú leið sem beinast liggur við að fara upp frá heimaslóðum Runólfs liggur um Hamragarðaheiði, upp jökulinn vestanverðan, að Goðasteini. Þetta er einmitt greiðfærasta leiðin á jökulinn og sú sama og flestir sem fara á bílum og vélsleðum upp að "Steini" nú í dag.
 
[Myndin hér fyrir ofan er tekin frá Goðasteini og horft í suðaustur yfir toppgíginn að Hámundi sem er vinstra megin og Guðnasteini sem er hægra megin. Lengst til hægri er nafnlaus tindur.]

Guðnasteinn

kort2.jpg
Við bæinn Hrútafell undir austanverðum Eyjafjöllum er hellir er nefnist Rútshellir. Hellirinn er kenndur við Rút nokkurn. Ein þjóðsagan af Rúti er á þessa leið.

Rútur var ómenni og óvinsæll héraðshöfðingi og átti í útistöðum við héraðsmenn. Hann hafði því til öryggis sest að í hellinum. Þræla hafði hann nokkra og var þeim harður húsbóndi. Til að losna við Rút fengu hérðsmenn þrælana til að drepa húsbónda sinn. Segir að þrælarnir hafi ráðgert að gera gat á hellinn og leggja að Rúti með spjótum þar í gegn.
 
Eitt skiptið meðan hann var ekki heima við byrjuðu þeir að búa til gatið. Vildi þá svo illa til að Rútur kom að þeim meðan á verkinu stóð. Flúðu þeir burtu en Rútur elti þá alla uppi og drap. Eru staðirnir sem Rútur drap þá við þá kenndir. Bjarni var drepinn við Bjarnafell, Högni við Högnaklett, Sebbi hjá Sebbasteini, Ingimundur við Ingimund (á Steinafjalli) og Guðni við Guðnastein í framanverðum Eyjafjallajökli.
 
Frá þeim slóðum sem þjóðsagan gerist sést syðri kletturinn einna best úr sveitinni. Sagan á því að öllum líkindum við um Guðnastein í sunnanverðum jöklinum.
 
[Á kortinu hér fyrir ofan eru flest þau örnefni sem getið er um í greininni.] 

Þjóðsaga á villigötum

Þegar farið er yfir gamlar heimildir um nöfn grjótanna kemur hvergi annað fram en að syðri kletturinn hafi verið nefndur Guðnasteinn. Öðru máli gegnir með vestari klettinn, Goðastein. Margir hafa kallað hann Goðasteinn en aðrir Guðnastein.

Sá ruglingur að kalla Goðastein ranglega Guðnastein gæti hafa átt upptök sín í því að aðeins annar steinanna sést í einu, eins og fram hefur komið, og því sumir talið aðeins um einn stein væri ræða á hæsta hluta jökulsins.
 
Vel er hugsanlegt að þjóðsagan af Rúti og þrælum hans hafi verið betur þekkt og því hafi þeir sem ekki voru vel staðháttum kunnugir útfært söguna á þann eina stein sem þeir sáu. Vel þekkt þjóðsaga hefur þannig lent á röngu kennileiti. Svo virðist sem Fljótshlíðingar hafi frekar notað Guðnasteinsnafnið og ofangreind tilgáta sé þar hugsanleg skýring.

Enn ein hliðin á málinu er sú, að þegar farin hefur verið hefðbundin leið meðfram Eyjafjöllum hverfa báðir steinar sjónum á löngum kafla, milli Stóradals að vestan og bæjarins Hvamms að austan. Ef farið er t.d. austur með Fjöllum þá standa sumir í þeirri trú að það sé sami steinn sem þeir sjá að vestanverðu og þegar þeir koma austar undir Fjöllin. Vel má vera að þetta hafi hent óglögga Eyfellinga hér áður fyrr,og þeir því aðeins álitið að um ein stein væri að ræða á há-jöklinum.

Gleggri menn sem voru á ferðinni, bæði fyrir vestan Jökulinn og sunnan, hafa frekar tekið eftir því að um tvo steina var að ræða, enda grjótin nokkuð ólík í útliti. Ólíklegt verður að telja að þeir sem vitað hafi um tilvist tveggja steina hafi kallað þá báða sama nafni.

Þáttur Sveins Pálssonar

Sveinn Pálsson gekk fyrstur á "hátind" Eyjafjalljökuls sumarið 1792. Þessu er lýst í ferðabók hans. Sveinn hafði aðsetur að Árkvörn í Fljótshlíð það sumarið.
 
Sveinn gekk á vestari steininn, frá Stórumörk undir Vestur-Eyjafjöllum. Sveinn lýsir staðháttum á gígbrúninni mjög vel og tekur jafnframt fram að þetta sé eini steininn sem standi upp úr og sé auður, þótt hann sjái 3-4 snjóbungur á gígbrúninni. Hann virðist því halda að um aðeins einn stein á hájöklinum sé að ræða. Sveinn kallar steininn Guðnastein (sem gætu verið áhrif frá veru hans í Fljótshlíð) og tekur jafnframt fram að ýmsar sagnir gangi um hann.
 
Um nafnið Guðnastein séu menn hins vegar ekki sammála. Orðrétt segir svo í ferðabókinni;
 
„Aðrar sagnir herma, að þræll einn, Guðni að nafni, hafi flúið þangað og verið drepinn þar, af því að hann ætlaði að myrða húsbónda sinn. Þriðja sögnin er sú, að að goðamyndir úr nálægum héruðum hafi verið fluttar upp á tind þennan og grafnar þar, þegar kristni var lögtekin í landinu, og heiti hann þvi að réttu Guða- eða Goðasteinn.“
 
Af þessu er ljóst að þjóðsögurnar, sem nefndar voru framar, eru á þessum tíma á allra vitorði. Sveinn sem er utansveitarmaður og ekki vel staðkunnugur telur aðeins um einn stein að ræða á "tindi Eyjafjallajökuls" og áttar sig ekki á að sagan af Guðna á við klett sem sunnar er í jöklinum. Sá steinn sést ekki frá Goðasteini þar sem hann er hulin snjó að norðanverðu.

Sóknarlýsingar Rangárvallasýslu 1839-73

Í ritinu Sóknarlýsingar Rangárvallsýslu 1839-73 eru lýsingar presta á sóknum sínum, m.a. staðháttum og kennileitum. Þó er þarna merkileg undantekning en þar er eyfellskur bóndi, Einar Sighvatsson hreppstjóri á Ysta-Skála, fengin til að rita lýsingu á Þórsmörk og afréttum Eyfellinga.
 
Hann lýsir Eyjafjöllum einnig í stuttu máli. Augljóst er að hér er á ferðinni maður mjög vel að sér varðandi alla staðhætti og kennileiti. Hann segir m.a. annars:
 
„Fyrir norðvestan Hrútfellsheiði gengur lágur jökulhryggur frá norðurjöklinum (Mýrdalsjökli) til útsuðus eður vesturs er samtengir Há-Eyjafjallajökul (hvörs hæsti hnúkur kallast Guðnasteinn, undir hverjum norðanverðum gosið kom upp 1821-22)“.
 
Það er vel þekkt að gosið kom upp innan gígskálarinnar svo aðeins kemur til greina að hér sé átt við syðri klettinn. Tína mætti til fleiri heimildir en hér verður látið staðar numið.

Í byrjun greinar var sett fram ákveðin kenning. Hvernig sem málinu er snúið þá benda heimildir til að syðri steininn hafi eingöngu borið nafnið Guðnasteinn en sá vestari verið nefndur Goðasteinn af mörgum. Þjóðsögurnar passa, landfræðilega, aðeins við þessa útfærslu nafnanna.
 
Það liggur því beint við að draga þá ályktun að eðlilegast sé að hafa þennan háttinn á. Með því að festa þessar útgáfu kennileitanna í sessi er báðum nöfnunum gert jafnhátt undir höfði, hvorugt þeirra gleymist, og kennileitin fá sitt eigið nafn. Það er bæði steinum og fólki fyrir bestu.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband