Einföld skýring á nafninu Dímon

stora-dimon.jpg
Flestir kannast við fellið Stóru-Dímon sem stendur svo ósköp einmanna úti á miðjum Markarfljótsaurum.  Í Njálssögu er það nefnt Rauðuskriður.
 
Einhvern tímann frá því að Njáll var uppi og fram á vora daga breyttist nafnið í Stóru-Dímon. Hvers vegna veit ég ekki.
 
Sem sagt, þarna stendur sú stóra úti á miðjum aurunum og eftir þvís em sagt er kallast hún á við litla hæð sem stendur við gömlu Markarfljótsbrúna og nefnd er Litla-Dímon.

 
Í þann tíma sem ég annaðist fararstjórn fyrir Útivist fór ég oft með hópa inn í Þórsmörk. Þá vissi ég ekki betur en Stóra-Dímon væri í karlkyni, en snemma var ég fullvissaður um að nafnið ætti að vera í kvenkyni. Síðan hef ég reynt að fara að hætti heimamanna, þ.e. nafnvenju fólks í Fljótshlíð og undir Vestur-Eyjafjöllum.
 
Nafnið hefur þó alltaf vafist fyrir mér fyrst og fremst vegna þess hversu margar skýringar hef ég heyrt á því. Það breytti því ekki að ég sagði farþegum mínum frá öllum nafnakenningunum rétt eins og um heilagan sannleik væri að ræða. 
 
Og hvað sagði ég? Jú, að Dímon væri eiginlega bara latneska yfir demon, þ.e. djöful. Þetta fannst mér mjög sennileg skýring eða þangað til einhver fullvissaði mig um að betra væri að skýra nafnið með hliðsjón af frönsku. Di Moin þýðir beinlínis tvö fjöll ... og alls staðar þar sem annað finnst þarf lítið að leita, hitt finnst innan skamms, bætti ég við af yfirlætisfullu þekkingarleysi.
 
Jú, mikil ósköp ég þekki Dímonarklakka í Breiðafirði, þeir eru tveir. Dímon er í Þjórsárdal, að vísu bara einn, hinn er týndur var mér sagt. Svo fann ég lítil fell skammt frá Laugardalsvöllum, Stóra- og Litla Dímon. Og þegar ég bjó á Höfn í Hornafirði frétti ég af Dímu sem er klöpp úti á miðjum aurum Jöklusár í Lóni.
 
Svo var það að ég rakst á grein í Morgunblaðinu, líklega um 1997. Hún fannst mér með öllu öðru yfirbragði en annað sem ég hafði fundið. Greinin var eftir Ásgeir Ó. Einarsson sem var dýralæknir, en hann dó 4. apríl 1998.
 
Grein Ásgeirs nefnist Dimon diemen og er stutt og laggóð, kemur beint að kjarna málsins. Hann upplýsir að nafnið Dímon er tengist hvorki djöflinum né franskri tungu heldur allt öðru og miklu hversdagslegri hlut. Greinina birti ég hér á eftir og dæmi svo hver fyrir sig. 
 
 
 
Dímon  diemen

MARGIR þekkja Dímon sem er klettadrangur á stórri sandsléttu neðarlega í Fljótshlíð en færri kannast við Dímon í Færeyjum sem er bratt fjall. Einnig þekkja margir söguna um bóndann sem fór til prestsins og spurði hann hvað Dímon þýddi eiginlega. Prestur fletti upp í sinni latínuþekkingu og svaraði að það líktist helst di mons sem þýddi tvö fjöll. Bóndi tók þessari vitlausu þýðingu sem heilögum sannleik og bændur leituðu mikið að öðru fjalli en fundu hvergi því að það er ekki einu sinni til myndarleg þúfa í nánd við Dímon. Samt fannst þeim vera eitthvert fjall í fjarska og töluðu síðan um stóra og litla Dímon sem er eintómt rugl því að dímon og di mons er bara sitt hvað.

Ég á þýska alþýðuorðabók (Leipzig 1933) sem er með gífurlegum fjölda teikninga af hlutum sem nefndir eru í henni. Er ég var að fletta í bókinni rakst ég á mynd af háum kornstakki sem ber hér um bil sama nafnið; diemen en við að flakka frá Rómverjum hingað norður í lönd (Noregur, Færeyjar, Ísland) hefur framburður nafnsins tekið breytingum, þ.e. endingin orðið -on fyrir áhrif af öðrum latneskum orðum t.d. mammon, demon.

Kornstakkurinn (diemen) var mikið þarfaþing fyrir kornræktarbændur, sérstaklega við stutt sumur og erfiða ræktun og einkum fyrir það að þegar kornið var ekki fullsprottið var mjög erfitt að ná því úr öxunum. Þá höfðu menn ekki vélar sem ná korninu úr jafnóðum og það er slegið. Í þá daga urðu menn að berja kornið úr axinu. Þá tóku menn visk í hendur, slógu því við jörðina þar til kornið losnaði. Kornstakkur var þannig gerður að tekið var beint, grannt tré, það rekið ofan í jörðina á þurrum stað, nýslegið kornið lagt með kornið upp að trénu, allt um kring og upp í rúma 2 metra. Síðan var langur, gamall hálmur settur yfir opið, bundið að honum fyrir ofan og einnig ofar miðju. Stakkurinn var látinn standa í 1-2 mánuði og þá hafði kornið þornað og þroskast svo mikið að miklu auðveldara var að slá það laust.

Eftir að menn hafa nú lesið hvað er sannleikurinn í þessu Dímon- máli ættu Íslendingar að hætta að tala um stóra og litla Dímon og þeir sem hafa sett þetta rugl í íslenskar orðabækur ættu að losa þær við lygina sem fyrst.

Ásgeir Ó. Einarsson, dýralæknir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Dimon
where it is red

   Hitchcock's Bible Names Dictionary (1869) , by Roswell D. Hitchcock

(river bed), The waters of, some streams on the east of the Dead Sea, in the land of Moab, against which Isaiah uttered denunciation. (Isaiah 15:9) Gesenius conjectures that the two names Dimon and Dibon are the same.
  


Smith's Bible Dictionary (1884) , by William Smith.
Þetta mun nú ekki lygi.

 

Júlíus Björnsson, 10.5.2010 kl. 04:08

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir þetta, Júlíus. Gúgglaði og fann Christian Classics Ethernal Library. Líklegast einhver kennsla í biblíufræðum.

Á þeim slóðum talar Jesaja spámaður eins og heimsendir sé kominn og segir í 15-9 í íslensku Biblíunni:

„Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.“

Í kaflanum er fjallað um spádóma um aðrar þjóðir og þeir eru ekki fagrir. Í tilvitnuðum 15. kafla er fjallað um Móab sem var líklega forn borg en óvíst er hvar hafi staðið. Landið Móab er líklegt að hafi verið nálægt Dauðahafinu og þar hafi Móses dáið.

En nú erum við komin langt út fyrir efnið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.5.2010 kl. 10:02

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í Snorra-Eddu II eru Málskrúðslýsingar eða lýsingar á hvernig smíða má orð. Það að Dimon merkir rautt er hliðstætt því hvað Hitler getur merkt eða Kleppur.  Dímon getur því táknað rautt, Dauða og djöfull. Myndhvörf eða Metaphore. Yfirfærðar merkingar.

Júlíus Björnsson, 10.5.2010 kl. 10:37

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú ert fjölfróður, Júlíus og það sem þú segir finnst mér stórmerkilegt, og þó ...

Hið forna nafn á Stóru-Dímon var jú Rauðuskriður. Ekkert djöfulegt við það. Hins vegar er fellið núna græn en ekki rautt. Man ekki eftir því að neinn hafi skoðað hið forna örnefni. Skógurinn kann að hafa verið rauðleitur a.m.k. á haustin.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.5.2010 kl. 11:21

5 Smámynd: Egill Helgason

Las einhverntíma í bók Árna Óla um Landnámið fyrir landnám að Stóri Dímon og fleiri slík hafi verið skírð af Írskum landnámsmönnum.  Síðar til að breiða yfir hið írska landnám hafi markvisst verið reynt að breyta örnefnum, þ.e. ekki bara þessum Dímonarnöfnum. Hinsvegar hafi nafnið Stóri Dímon verið orðið svo rótgróið að nafnið Rauðuskriður festust ekki við hann.  Enda afhverju í ósköpunum hefði síðar átt að koma upp þessi tíska að skíra fjöll Dímon ?

Egill Helgason, 10.5.2010 kl. 13:36

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég tel Íslensku á breskum hljóðfræðilegum grunni aðlöguð að dönsku ritmáli sem var að breiðast út  um 800.  Og er enn töluð í Noregi með sínum 5 grönnu holróma eða kokhljóðum sem hljóma löng eins og u, e, í, o, a. Nútíma danska mun hafa breyst um 1200 sérstaklega á Jótlandi.

Íslenska hefur hinsvegar 6 grönn sérhljóð: u,e,ö,a,o,i. Náttúrulega löng 6 : uú,eí,öí,aú,oú,ií. Sem rita ast ú,ei,au,á,ó,í.

Latína segir a í ann stutt og a í an langt ritar bæði an: svo á að giska.

Íslenska í Snorra Eddu skýrgreinir samljóð í atkvæðum eða samstöfum full eða hálffull. ann er fullt en an er hálffult. Samanber en merkir hálffulla málsgrein.

Þessi samhljóða skilgrein er einstæð fyrir Íslenska Tungu. Furðulegt að engin Íslenskur eða erlendur tungumálfræðingur hafi vakið máls á því. Mun ég vera sá fyrsti í um 800 ár.

Það er engin vandi að sína fram á að hljóðfræðin í munni nútíma íslendings er sú sama og hjá þorra landnámsmanna.

13 hljóðið til hljómfegurðar er aí=æ, og kom í stað á þá ritað æ eða ó þá ritað oe [oj] af orðsifjalegum ástæðum.  

Bján hljómar fallegra en Bánn  [Bádn merki annað] Ljón fallegra Lónn.

Í ensku er j ee og gefur Leon.

Rautt [Röítt] mun merkja sólsetur [Röðul, Söðul]. Getur verið að Dímon sé örnefni sem frá ákveðnu bóli er notað til tímaákvarðanna eða áttvísir?

Júlíus Björnsson, 10.5.2010 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband