Glæpur og refsing Jóns Bjarnasonar

Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin.

Lagt og ítarlegt viðtal er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins við Jón Bjarnason, fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra VG og nú óháðan þingmann. Ofangreind tilvitnun er úr viðtalinu. Ég hef ekki þaullesið stefnuskrá Vinstri grænna en þarna fullyrði hann að forystan sé að svíkja enn eitt stefnumál sitt.

Þegjandinn 

Í raun og veru segir Jón ekkert meira í viðtalinu umfram það sem hann hefur áður látið frá sér fara. Það verkur þó athygli lesandans að innan þingflokks Vinstri grænna virðist þögnin hafa ráðið. Sá sem er ekki lengur í náðinni finnur kuldann leggja frá Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins, og skutulssveinum hans. Og allt í einu stendur valið á milli þess að fá kalt hnífsblaðið á hol eða hrökklast í burtu, helst með vansæmd.

Glæpur 

Jón Bjarnason rakst illa í ríkisstjórn og meirihluta hans. Hvort skyldi það vera lunderni Jón að kenna eða málefnalegri stöðu eða einhverju samblandi af hvort tveggja. Á þetta varpar viðtalið engu ljósi en eftirfarandi kemur þó fram sem bendir til þess að hann hafi átt afar erfitt með að fóta sig innan þingflokksins og ríkisstjórnarinnar:

  1. Gegn ESB umsókninni og gerði út um að það yrði ríkisstjórnarmál
  2. Gegn stjórnarskrármálinu
  3. Náði samstöðu um fiskveiðistjórnarfrumvarp sem Jóhanna og Steingrímur lögðust gegn
  4. Gegn hækkun á veiðileyfagjaldi Steingríms
  5. Gaf út kvóta á makríl sem styggði Jóhönnu

 Refsing 

Jóni var margoft refsað, beint og óbeint. Í flestum tilvikum er komið aftan að honum, aldrei þannig að hann hafi verið varaður við. 

  • Rekinn úr ráðherraembætti
  • Nefnd sett til að rannsaka embættisfærslur hans
  • Rekinn úr utanríkismálanefnd 

Jón var ráðherra en neitaði að makka með í Evrópumálunum og einn góðan veðurdag var honum vísað á dyr í ráðuneyti sínu. Allir vissu hvers vegna en enginn mátti tala um það. Fjölmiðlar gerðu lítið úr þessu en hefðu áreiðanlega tekið við sér hefði formaður Sjálfstæðisflokksins tekið til þeirra óyndisúrræða að vísa ráðherra úr embætti. Nei, sparkið í Jón þótti ekki nógu merkilegt til ítarlegs fréttaflutnings. Steingrími leyfis það sem öðrum væri ómögulegt.

Órædd mál

Viðtal Péturs Blöndal, blaðamanns Morgunblaðsins, er ekki gott en þó vantar mikið. Hann nær ekki tökum á Jóni og fær ekki út úr honum það sem við áhugamenn um stjórnmál þurfum til að fylla upp í myndina. Fátt í viðtalinu er nýtt enda gárar það aðeins yfirborðið.

Hvað vantar? Jú, hvað gerðist á þingflokksfundum. Var þöggunin eins og hér hefur verið lýst eða tókust menn á í rökræðum? Var deilt? Var Jón tekinn á eintal af Steingrími og Jóhönnu og gert skiljanlegt hvert stefndi? Hvar stóðu aðrir innan þingflokksins í málarekstrinum gegn Jóni?

Hvað nú? 

Þegar fylgið rjátlast af Vinstri hreyfingunni sem varla telst lengur græn eða óháð veltir maður því fyrir sér hvað flóttamennirnir ætla að gera.

Líkur benda til að allir geri það sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gerði, hverfa á braut, særðir holundarsári í stjórnmálum og hætta afskiptum af þeim. Þrekið er líklega búið hjá Jóni Bjarnasyni rétt eins og hjá félögum hans. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband