Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Gjáin milli ríkisstjórnar og þjóðar

Klúður, í einu orði sagt. Og ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar. Þar af leiðandi ber henni að segja af sér. Tvennt styður það. Hið fyrra er pólitískt hjal ríkisstjórnarinnar og meirihluta hans á Alþingi um þörf á breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, rétt eins og hrunið hafi orðið vegna hennar. Hið seinna er getuleysi hennar í að nálgast hinn almenna borgara. 

Ljóst er að tengin ríkisstjórnarinnar og þingmanna hennar við þjóðina er engin, á milli er gríðarleg gjá. Meiri ávirðingu er ekki með réttu hægt að líma á eina ríkisstjórn.


mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjörbreytir viðhorfi fólks, segir framsóknarmaðurinn

Davíð Oddsson hefur haldið sér að mestu til hlés og ekki tjáð sig um einstaka atburði sem gerðust í hans tíð í Seðlabankanum. Fyrir vikið hefur alls kyns lýður náð að breiða út sögusagnir um störf hans og viðskilnað við bankann. Því miður hefur hann ekki hirt um að leiðrétta nema lítið brot af slíku. Sannleikurinn kemur þó alltaf betur og betur í ljós.

Í frétt mbl.is hefur blaðamaður þetta eftir Höskuldi Þórhallssyni þingmanni Framsóknarflokksins:

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fá trúnaði aflétt af hluta samtalsins,“ segir hann. Samtalið eigi erindi við almenning, sem verði að fá tækifæri til að meta sjálfur hvað hafi farið á milli Davíðs og Kings.  „Ég tel að þær upplýsingar sem koma fram í samtalinu geti gjörbreytt viðhorfi fólks um það hvort við eigum að borga Icesave eða ekki,“ segir Höskuldur.  

Höskuldur virðist telja ummæli breska seðlabankastjórans afar merkileg og þau eigi erindi í opinbera umræðu á Íslandi. Hafi sá breski ekkert að fela ætti honum að vera í lófa lagið að heimila að minnsta kosti birtingu á ákveðnum hlutum ummæla sinna og halda þeim eftir sem bankaleynd á að hvíla á. En kallinn er hinn þverasti og neitar allri birtingu. Það bendir einfaldlega til þess að samviska hans er slæm.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, skýlir sér á bak við leyndina og lætur í það skína að ekkert breski seðlabankastjórinn hafi ekkert merkilegt sagt á upptöku símtalsins. Þetta er ómerkilegt bragð Björns vegna þess að ómögulegt er að sanna fullyrðingu um annað nema að birta ummælin orðrétt og hann skákar í því skjólinu að það verði ekki gert og málið dautt eins og krakkarnir segja. 

Auðvitað á að birta þessi ummæli. Þau skipta máli í umræðunni um hrunið þó ekki sé nema vegna þess að þau varpa ljósi á stöðu mála fyrstu dagana í október 2008.


mbl.is Segir samtalið eiga erindi við almenning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böl atvinnuleysis hrekur fólk úr landi

Í ljós kemur nú ástæðan fyrir því að atvinnulausum fækkar örlítið. Á síðustu tveimur árum hafa rúmlega 18 þúsund manns flutt burtu af landinu. Á móti kemur að 7 þúsund Íslendingar hafa flutt til landsins. Það vantar því 11 þúsund Íslendinga.

Þetta er sú einkunn sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur fengið. Hún ber í sér atvinnuleysi og landflótta, í raun hreina skelfingu fyrir þúsundir Íslendinga, ekki aðeins þá sem flosna upp og kjósa að reyna fyrir sér í öðrum löndum, heldur líka fyrir hins sem óttast að fyrir þeim liggi sömu örlög, missa atvinnuna.

Eitthvað myndi heyrast ef allir íbúar á Norðurlandi vestra myndu hverfa úr landshlutanum eða allir íbúar á Vestfjörðum og eru íbúar í þessum landshlutum þó færri en sem nemur þeim sem flúð hafa land.

Ríkisstjórnin og raunar fjölda stjórnmálamanna og embættismanna skilur ekki hverskonar böl atvinnuleysið er fyrir einstaklinginn, hversu erfitt það er að geta ekki unnið sér fyrir nauðþurftum og átt þak yfir höfuð sér svo ekki sé talað um þann sársauka sem verður til í hjarta fólks sem á ekki annars úrkosta en að flytjast úr landi, frá ættingjum og vinum.

Ég á tvö börn sem búsett eru í útlöndum. Ég hef sagt við þau bæð að það sé engin ástæða sé að koma hingað til lands í bráð. 


mbl.is Fleiri fluttu út en hingað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóaði í andlit þeirra eða barði þá hríðin?

Þó ég sé því fylgjandi að blaðamenn og aðrir sem skrifa í fjölmiðla eða á vefsíður tileinki sér rétt mál þá er ég svosem ekki barnanna bestur. Þetta er svona afsökun vegna þess sem á eftir fer. Um síðustu helgi gagnrýndi ég þá sem standa að uppbyggingu á nýju gufubaði á Laugarvatni fyrir að druslast nú ekki til að nota íslenskt heiti yfir starfsemina.

Við Íslendingar þurfum að vera vakandi yfir málinu okkar svo það taki ekki óeðlilegum breytingum eða jafnvel lognist útaf.

Að þessu sögðu þurfum við líka að hvetja alla til að lesa, lesa mikið. Með því skapast tilfinning fyrir tungumálinu. Þá er hugsanlegt að eftirfarandi gerist síður:

Það reyndist mjög erfitt því það var aftakaveður og það snjóaði í andlitið á okkur allan tímann.

Svo segir í viðtali Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, við tvo menn sem nýlega luku göngu sinni á skíðum þvert yfir landið. Þetta er svo sem ekki merkileg frétt, þó á baksíðu sé. Ég hef gengið yfir Sprengisand að vetrarlagi og fjöldi annarra. Margir hafa lent í hrakningum en að það skuli hafa „snjóað í andlitið“ á manni er dálítið skrýtið til að hugsa.

Þetta er raunar ekki röng íslenska en ég geri frekar ráð fyrir hér sé átt við hríðina sem hafi verið ströng. Í þannig aðstæðum er betra að hylja andlitið og koma þá lambhúshettur að góðu haldi og stór skíðagleraugum.

Hitt er ótrúlegra að mennirnir hafi legið á bakinu og snjórinn sáldrast í andlit þeirra. Þetta er í raun það fyrsta sem mér datt í hug. Það snjóar vissulega í hríð en þeir sem tala þannig átta sig ekki á því að hríð er hugtak sem á við að það snjói og um leið sé hvasst.


Getur konan ekki talað við flugumanninn?

Það er ekkert við það að athuga þó flugumaður bresku lögreglunnar í umhverfisverndarsamtökunum hafi komið upplýsingum um íslensk málefni til yfirboðara sinna og þeir til íslensku lögreglunnar. Skil raunar ekki hvers vega þingmenn Hreyfingarinnar eru svona uppteknir af þessum vesalings flugumanni. Hreyfingin virðist raunar öll upptekin af einhverjum smáatriðum sem síðan eru pumpuð upp í stórmálalíki.

Og hafi þingkonan fengið sendingar frá þessum fyrrum flugumanni er þá ekki hægur vandi fyrir hana að spyrjast fyrir um það hvort hann hafi kjaftað frá öllum þessum uppákomum í kringum Saving Iceland?

Í stað þess að blaðra þindarlaust um allt og ekkert út í loftið væri best að þingmaðurinn og flugumaðurinn hefðu beint samband og slepptu okkur hinum við þetta allt saman.


mbl.is Vill rannsaka hvort flugumaður hafi aðstoðað lögreglu hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki talandi á íslensku ...

Hversu lágt geta menn lagst? Kunna þeir ekki íslensku, Laugvetningar, eða þeir sem þarna um véla? Nei, sómi þeirra er lítill því þeir kunna ekki að velja neitt íslenskt orð fyrir hina gömlu gufubaðstofu sem þarna stóð og margir þekktu.

Ég fullyrði að Íslendingum mun þykja minnkun af því að fara í gufu á Laugarvatni undir útlensku nafni og einnig munu útlendingar reka upp stór augu og spyrja hvork íslenskan eigi ekki orð við hæfi.

Og Fontönum mun vefjast tunga um höfuð. 


mbl.is Gufan verður Fontana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangurinn að njósna um einn þingmann?

Líklega eru skýringar lögreglunnar réttar svo langt sem þær ná. Hins vegar eru fagmenn ekki á einu máli um tilganginn með aðskotatölvunni á skrifstofum Alþingis. Bent er á að tilgangurinn geti verið nokkuð annar en lögreglan lætur í veðri vaka.

Ítarlegustu opinberu skýringarnar á tölvumálinu hafa komið frá Marinó G. Njálssyni, ráðgjafa. Hann segir á bloggi sínu, marinogn.blog.is:

Ég er sannfærður um að tölvan hafi verið notuð til þess að njósna um samskipti við ákveðna tölvu sem tengd var við sömu tengigrind og umrædd tölva. Þetta var því hlerunarbúnaður en vélin var líklegast ekki sett upp til þess að sækja gögn af neti Alþingis. Góðir fagmenn hafðu farið tiltölulega létt með að brjótast inn á kerfi Alþingis utanfrá hafi það verið tilgangurinn. Vélin hefur verið sett upp líkt og kollegar mínir lýsa með sérstökum hugbúnaði, hugsanlega í vinnsluminni, en gæti líka hafa verið falinn á þeim hluta af diski tölvunnar sem ekki virðist vera í notkun.  Þetta er kunnugleg aðferð hjá þeim sem stunda það að stela kortaupplýsingum. Hlutverk forritsins var líklegast að endurvarpa samskiptum við ákveðna tölvu, sem ég geri mér bara í hugarlund hver er, til þess aðila sem setti upp "njósnatölvuna". Þetta er aftur þekkt aðferð og hefur náð mikilli útbreiðslu meðal hakkara sem eru að stela kortaupplýsingum. Hvort við köllum þetta "man-in-the-middle" árás eða dulgervingu skiptir ekki máli. Niðurstaðan er sú sama. Ástæðan fyrir því að net Alþingis tekur ekki eftir þeirri umferð sem kemur frá tölvunni er að hún er dulgerð sem umferð frá upprunalegu tölvunni og á sér stað meðan sú tölva er tengd við netið.

Ég sé fyrir mér að að tilgangurinn hafi verið að hlera öll samskipti við þessa tilteknu tölvu. Dulkóðuð eða ekki skiptir ekki máli, þar sem ég er sannfærður um að sá sem setti tölvunar upp hafi haft allan þann búnað sem þurfti til afkóða þau samskipti. Auk þess fylgja hverjum samskiptapakka alls konar upplýsingar sem veita upplýsingar um tölvu ætlaðs móttakanda. 

Það er að minnsta kosti mjög rökrétt að álykta eins og Marinó gerir, að hægt sé að hakka sig inn á kerfi Alþingis utanfrá sé fyrir því vilji. Stærri og meiri stofnanir hafa orðið fyrir barðinu á snjöllum tölvuþrjótum heldur en ein lítil löggjafarsamkoma á Íslandi. Og hvað er það hjá Alþingi sem ekki þolir dagsins ljós? Raunar ekkert.

Þá liggur beinast við að spyrja hvort ætlunin að ná sambandi við einhverja eina tölvu og hver var tilgangurinn? Er ekki eftir meiru að slægjast hjá einstaka þingmönnum en stofnuninni sjálfri? Var til dæmis verið að njósna um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þeirri von að finna eitthvað til að halda áfram þeirri ófrægingarherferð sem staðið hefur gegn honum í langan tíma?

Eða eru hugsanleg fórnarlömb önnur og tilgangurinn einfaldlega sá að afla efnis fyrir fjölmiðla? Líklegast er þó að þeir sem standa að svona njósnum ætli sér að fara í einhvers konar ófrægingarherferð gegn einum tilteknum einstaklingi. Að öllum líkindum hefur tölvuþrjóturinn, hvers svo sem hann er, tekist að afla upplýsinga í rúman mánuðu áður en upp komst. Hann hefur þá úr einhverju að moða og kannski hefur hann allan tölvupóst frá tilteknum einstaklingi ...


mbl.is Rannsókn stóð í nokkrar vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er öryggi Alþingis stórlega áfátt?

Ástæðan fyrir því að ekki var stuðst við myndbandsupptökur virðist vera sú að eftirlitsvélar í grennd við skrifstofuna þar sem tölvan fannst voru bilaðar.

Í málarekstri ákæruvaldsins geng níumenningunum sem eiga að hafa ruðst inn á Alþingi með ofbeldi var lagður fram bútur úr eftirlitmyndavél sem sýnir svo ekki sé um villst að átök áttu sér stað við komu fólksins inn í húsið. Hins vegar var ekki hægt að leggja fram ítarlegra og lengra myndband vegna þess að allt hafði einfaldlega verið þurkað út nema sá bútur sem hentaði málstað ákæruvaldsins.

Eru nú ekki líkur á því, miðað við þessi tvö dæmi, að öryggismálum Alþingis sé stórlega áfátt? Eða er hægt að sætta sig við bilaðar eftirlitsmyndavélar og að tekið sé yfir mikilvæg sönnunargögn?


mbl.is Styðjast ekki við upptökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heilbrigðisþjónusta iðnaður?

Er það virkilega svo að það fólk sem annast þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda álíti starf sitt vera iðnað? Greinilegt er að þeir sem hér standa að félagsstofnun hafa ekki mikinn skilning á eðli starfans. Eða má búast við nýjum aðferðum þar sem ekkert tillit er tekið til sjúklinga heldur þeir meðhöndlaðir eins og sláturfénaður. Þá eru „Samtök heilbrigðisiðnaðarins“ orðin að stórhættulegum félagsskap sem brýnt er að stöðva áður en einhver skaðast.

Nei, þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Varla eru fólki svo skyni skroppið að það geti ekki komið með annað orð sem lýsir betur þeirri starfsemi þeirra.

Ef í harðbakkann slær má benda á að það er þjónusta þegar fólk á í hlut. Svo geta Samtök iðnaðarins unnið með jarðefni, tré, járn, steypu og vöruflutninga og leyft sér að kalla það allt saman iðnað. Þjónusta við fólk er aldrei iðnaður jafnvel þó óglöggir tali um ferðamannaiðnað þegar þeir eiga við ferðaþjónustu. 

 


mbl.is Ný samtök stofnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóranu leiðist í vinnunni

Lýðræðiskennd fólk birtist oft í viðhorfi þeirra til minnihlutans. Sumir eru þannig gerðir að þeir geta unnið afar vel með minnihluta í sveitarstjórnum eða á þingi. Aðrir kunna ekki þessa list eða hafa einfaldlega ekki í sér skilning á félagsstarfi og eðli lýðræðisins.

Jón borgarstjóri hefur enga reynslu í stjórnmálum og skilur lítið í rekstri. Enn minna áttar hann sig á eðli sveitarstjórnar og tilgangi. Því miður er maðurinn fyrst og fremst í showbusiness og það kann hann. Þar af leiðandi er honum ami af gagnrýni minnihlutans í borgarstjórn rétt eins og hann hafi öðlast skilning sem ofar er öðrum.

Því miður hafa fjölmiðlar ekki gengið á manninn heldur hefur hann fengið að leika sér með borgarastjóraembætti eins og hann það sé hlutverk í sjónvarpsþætti. Frumkvæði hans og meirihlutans er ekkert. Sama hefur meirihlutinn sagt upp fólki, dregið saman rekstur, hækkað gjöld og útsvar. Þetta er grátlegt.

Borgarstjóra sem leiðist í vinnunni á einfaldlega að finna sér eitthvað annað starf. 


mbl.is Samskiptin við minnihlutann tímaeyðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband