Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Betri fréttatilkynningar frá Ríkisendurskoðun

Ríkisendurskoðun sendir fréttir í tölvupósti til þeirra sem vilja. Hingað til hafa þær verið frekar óásjálegar, einungis texti án neinnar annarrar uppsetningar en þeirrar sem póstforritið býður upp á. Var þar stofnunin t.d. í flokki með forsætisráðuneytinu sem virðist ekki kunna að senda út fréttatilkynningar.

Nú bregður svo við að Ríkisendurskoðun hefur lagfært hjá sér fréttatilkynningarnar og sendir þær út í myndrænum pósti, svokölluðum HTML pósti. Alveg til fyrirmyndar.


mbl.is Starfsmannalög verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlantsolía gerir athugasemdir

Okkur neytendum finnst oft að á okkur sé brotið og vissulega sýna dæmin að svo sé. Það er þó ekki einhlýtt eins og flestir vita.

Í gær, um kl. 13:17, skrifaði ég um bensínverð. Málavextir voru þeir að olíufélögin gáfu afslátt af eldsneyti vegna árangurs landsliðsins í HM í handbolta. Ég gagnrýndi að verðlækkunin eða afslátturinn hafði ekki náð til landsbyggðarinnar og einskorðaðist að mestu við höfuðborgarsvæðið.

Upplýsingar um eldsneytisverð hafði ég fengið nokkrum mínútum áður af vefsíðunni gsmbensín.is. Þá síðu hef ég hingað til talið frekar áreiðanlega.

Atlantsolía gerir nú athugasemdir við umfjöllun mína og fullyrðir að lægra verð hafi verið komið á allar stöðvar fyrirtækisins fyrir hádegi þennan dag. Við þær upplýsingar hef ég ekkert að athuga enda ber ég ekki ábyrgð á því sem kemur fram á gsmbensin.is.

Það er svo annað mál að Atlantsolía, sem einu sinni var eftirlæti flestra vegna verðlagningar sinnar, virðist nú vera með sama eða svipað verð og önnur olíufélög. Ástæðurnar geta verið margvísleg en ljóst er að fyrirtækið þarf að taka sig á í markaðsmálum og almannatengslum og vekja athygli á sér.


Gerum ekki óraunhæfar kröfur til landsliðsins

Varla er tilviljun að vel gangi hjá landsliðinu. Skiptir þar mestu góður og nákvæmur þjálfari sem skipuleggur og rannsakar andstæðingana og svo gríðarlega skynsamir einstaklingar sem mynda frábæra heild.

Hér á árum áður var dómurunum yfirleitt kennt um slakan árangur íslenska landsliðsins í handbolta, sjaldnast ónógri þjálfun eða eigin mistökum. Kannski eru dómararnir á HM svona góðir. Grínlauns, þegar vel gengur þarf vissulega ekki að finna blóraböggla.

Norðmenn eru með betra lið en Austurríkismenn og líklegast svipað að getu og það íslenska. Munurinn mun án efa ráðast af þolinmæði, einbeitni og vinnusemi annars liðsins, vonandi þess íslenska. Fyrri hálfleikurinn á móti Austurríki var svona dæmigerður áætlaður „sigurleikur“ þar sem allt átti að gerast fyrirhafnarlaust.

Gott landslið í handbolta skiptir miklu máli og það getur án efa náð langt. Munum að Íslendingar eru bara rétt rúmlega 300 þúsund. Hvað er hægt að ætlast til að við náum langt á þessu móti. Þrátt fyrir silfur á Ólympíumóti er hver sigur á HM jafnvirði gulls fyrir litla þjóð. Munum það og gerum ekki óraunhæfar kröfur til landsliðsins. 


mbl.is „Það verður stríð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slakir vegir, fullkomnir bílar og ökumennirnir eru ...

Samdráttur er alls staðar hjá ríkinu. Því fylgja víðast mikil vandræði; í heilbrigðismálum, menntamálum, löggæslu og víðar. Traust og góð löggæsla hefur gríðarlegt forvarnargildi. Þar sem lögreglan fylgist vel með umferð þar dregur úr hraðaakstri. Þar sem lögreglan er sjáanleg dregur úr alls kyns lögbrotum og hún er fyrr á vettvang ef eitthvað gerist.

Það sem skiptir þó mestu máli er að borgararnir finni sig örugga, þeir geti treyst því að lögreglan sé nærri bjáti eitthvað á. Lögregla sem einungis er á dagvakt er gangslítil. Ég ek oft á ári milli Reykjavíkur og Norðurlands og nú er maður hættur að sjá lögreglubíla á eftirlitsferð. Þetta tekur fólk eftir og sumir misnota sér ástandi og umferðarhraðinn eykst. Fæstir nenna að hanga aftan við bíl sem ekur á 100 km/klst. Flestir taka framúr og maður sér þá hverfa framúr á að minnsta kosti 120 km/klst.

Ég er hræddur um að þetta eigi eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Vegakerfið er svo óskaplega lélegt en bílarnir fullkomnir og hraðskreiðir og ökumennirnir ... ja, þeir eru óvissuþátturinn hátt á öðru hundraðinu, rásandi í alls kyns ástandi á ótraustum vegum.


mbl.is Veikari löggæsla á Vesturlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínið lækkar ekki á landsbyggðinni

Allir landsmenn gleðjast yfir árangri handboltalandsliðsins á HM í Svíþjóð. Gleði og kátína olíufélaganna birtist í lækkuðu eldsneytisverði en öll sem eitt passa sig á því að lækka ekki verðið á landsbyggðinni. Samkvæmt gsmbensín.is nær hamingjan aðeins upp í Borgarnes, suður í Njarðvík en ekki austur yfir Hellisheiði.

Sem sagt; landsbyggðarlýðurinn skal greiða fullt verð meðan höfuðborgarsvæðið fagnar.

Meðal annarra orða, mikið óskaplega er eldsneytisverðið alltaf líkt milli olíufélaga. Meira að segja Atlantsolía sker sig ekki lengur úr. Öskjuhlíðin er líklega enn nafli alheimsins. 


mbl.is Bensínlítrinn lækkar um 14 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávirðing á slitastjórn Glitnis

Það athyglisverðasta við þessi málaferli í New York er að þau skulu hafa farið fram þar í borg en ekki hér á landi. Dómarinn furðar sig á þessu og sækjendur hafa lítil og léleg rök fyrir máli sínu enda var málinu vísað frá.

Og hvers vegna var ákveðið að sækja Íslendinga til saka á erlendri grund. Var það annað hvort til að valda þeim sem mestum fjárútlátum eða taldi slitastjórn Glitnis að auðveldara yrði að fá fólkið sakfellt í öðru landi.

Það er mikil ávirðing á slitastjórnina að hafa verið gerð afturreka með málið. Ekki síður er það ámælisvert að stunda tilraunastarfsemi til að koma höggi á þá sem hún telur hafa brotið lög. Skiptir hér litlu út á hvað málið gengur. Aðalatriðið er að rétta ber yfir Íslendingu á Íslandi svo fremi sem þeir hafi brotið á sér hér.


mbl.is Íslensku nöfnin erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar fá ekkert að vita, Bandaríkjamenn allt

Þessi frétt sem fengin er af Wikileaks segir frá fundir sem starfsmaður í utanríkisráðuneytinu á með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hið fyrsta sem maður rekur augun í er að ekkert jafnræði er með þessum tveim. Hvers vegna á sendiherrann yfirleitt fund með frekar lágt settum starfsmanni?

Hið næsta sem maður hnýtur um er hvers vegna starfsmaður íslenska utanríkisráðuneytisins er að blaðra um samskipti Íslendinga og Breta. Hvað kemur það í raun bandaríska sendiherranum við? Auðvitað ber honum að afla upplýsinga en það er ótrúlegt að starfsmaðurinn skulu yfirleitt vera að tjá sig um þessi mál. Það hlýtur að hafa verið ráðuneytisstjórans eða utanríkisráðherra að ræða við sendiherrann.

Hið þriðja sem ég er að velta fyrir mér er hvers vegna er fulltrúa Banaríkjanna greint frá samningaviðræðum við Breta en Íslendingar fengu á meðan ekkert að vita? 

Eru Bandaríkjamenn á einhvers konar áskrift að upplýsingum sem rekur á fjörur utanríkisráðuneytisins eða getur maður fundað með starfsmanni þess og fengið þessar upplýsingar í kílóavís? Betra væra að svo sé, það myndi spara tilvist Wikileaks.


mbl.is Buðu 13,5% Icesave-vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameiginlegir sjóðir landsmanna standa undir vegagerð

Það er rétt hjá Neytendasamtökunum að með vegtollum til og frá höfuðborgarsvæðinu er verið að rjúfa þjóðarsátt og mismuna almenningi.

Hins vegar skil ég ekki þá fullyrðingu í ályktuninni að til standi að skattleggja sérstaklega íbúa á suðvesturhorninu vegna framkvæmda á landsbyggðinni.

Staðreyndin er einfaldlega sú að vegagerð í landinu er tekin úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og þannig á það að vera, eldsneyti er skattlagt sem og ökutæki. Hvergi á landsbyggðinni eru framkvæmdir í gangi og þær fjármagnaðar eingöngu af íbúum á höfuðborgarsvæðinu.

Annað hvort eru þetta mistök í ályktun Neytendasamtakanna eða hreinlega rangfærsla.

Það er síðan allt annar handleggur að ríkisstjórnin ætlar að fara að njósna um ferðir landsmanna með því að gera þeim skylt að hafa í bílum sínum búnað sem gefur stjórnvöldum skýrslu um aksturinn. Verði af þessu er freklega brotið á friðhelgi heimila og frelsi fólks. Ég veit að barist verður hatrammlega gegn þessum njósnum. 


mbl.is NS á móti vegatollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smápeningar að láni hjá AGS

Skil ekkert í þessari frétt. Er virkilega einhver tilgangur með því að fá „aðeins“ 19 milljarða króna að láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Næst ekki sami árangur með því að senda Lilju Móses (sem forsætisráðherra nefnir svo, líklega í niðurlægingarskyni) til New York og láta hana betla á fjölförnu horni. Hæfileikarík kona eins og hún gæti eflaust safnað miklu meiru á örskömmum tíma.

Grínlaust, þurfa Íslendingar að niðurlægja sig og frammi fyrir alþjóðasamfélaginu með því að biðja um smápeninga að láni? 


mbl.is Ísland á dagskrá IMF á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kuldabrestir aðeins á Mýrdalsjökli

Ekki dreg ég í efa að kuldabrestir mælast í jarðskjálftamælum á og við Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Tvennt vekur þó athygli mína.

Hið fyrra er að stór hluti jarðskjálfta á þessum slóðum eru dýpri en svo að veðurfars gæti. Þó leikmaður sé, finnst mér ótrúlegt að skjálftar sem mælast dýpri en 500 m séu af völdum kuldans. En auðvitað get ég haft rangt fyrir mér en varla ef dýpið er enn meira, segjum einn kílómetri.

Hitt vekur ekki síður athygli mína að kuldabrestir mælist aðeins á áðurnefndum tveimur jöklum. Ekki mælast þeir í sama fjölda á Vatnajökli eða Langjökli. Kuldinn er um allt land. 


mbl.is Kuldabrestir á skjálftamælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband