Farsælla að vera í námi en á atvinnuleysisbótum

Enginn skyldi efast um annað en að Háskólinn fái fjárveitingu til að geta tekið á móti nýnemum á vormisseri. Hvers vegna? Jú, einfaldlega egna þess að allir skilja vandamálið. Fjárveitingavaldið þar með talið.

Það er ósköp eðlilegt að Háskólanum skulu gert að draga saman, allar stofnanir ríkisins þurfa að gera það. Hins vegar blasir önnur mynd við þegar nýnemum fjölgar um 1.400 manns á milli ára. Ég efast um að neinn hafi gert sér grein fyrir því þegar stofnunum var gert að draga saman seglin.

Hinn flöturinn á málinu varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hann þarf líklega fjárveitingu til að geta lánað þessum mikla fjölda þegar líða tekur á næsta ár.

Niðurstaðan af þessu öllu er einfaldlega sú að það er skynsamlegra og farsælla fyrir þjóðfélagið sem einstaklinga að sem flestir stundi nám heldur en að sama fólkið sé á atvinnuleysisbótum. Nám byggir upp, atvinnuleysi brýtur niður.

Fróðlegt væri nú að fá upplýsingar. Hvernig skyldu þessir nýnemar skiptst eftir aldri og kyni? Hvert er hlutfall atvinnulausra og ekki síst hvernig skiptast þeir eftir deildum? Þessar upplýsingar get skipt máli jafnt fyrir stjórnvöld sem almenning og gætu verið hvati fyrir enn fleiri til að leita sér að menntun. Þá á ekki að einblína á háskólanám heldur alla skóla.


mbl.is Ekki hægt að taka inn nýnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Kostnaði á hvern nemanda þarf að ná niður, með öllum ráðum. Ódýrari kennslulausnir, fjölgum í kennslustofum o.s.frv. eru þau ráð sem ein duga. Aurarnir eru einfaldlega ekki til staðar. Eins og staðan er, má ljóst vera að niðurskurðarhnífurinn er rétt hafinn sitt starf. Ef ríkinu tekst ekki að ná tökum á skuldum þjóðarbúsins á næstu misserum mun ekki takast að byggja á ný það traust erlendis sem nauðsynlegt er til þess að íslenskt atvinnulíf dafni á ný. Ef það tekst ekki fer þjóðin á vergang á meðal þjóðanna enda hvergi að sækja fé í ríkiskassann án atvinnulífs sem getur greitt fólki viðunandi laun. Án þess mun landflótti bresta á í líkingu við það sem þjóðin upplifði á seinnihluta nítjándu aldar.

Góð menntun er vissulega ein af forsendum þess að hér muni takast að byggja upp nýjar atvinnugreinar og ný tækifæri en það er til lítils að leggja inn á þeim vettvangi ef aðrar stoðir drabbast niður. Hér þurfa menn að fara bil margra sjónarmiða, sem felur í sér aukinn sársauka á næstu misserum, áður en uppbygging getur á ný gefið af sér auknar tekjur og skilað þjóðinni lífskjörum og velferð, sem hún hefur vanist á allra síðustu misserum.

Ólafur Als, 20.12.2008 kl. 16:07

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Skynsamlega mælt. Sammála þessu í meginatriðum. Fjármunir eru takmarkaðir og þess vegna þarf að fara bil beggja, velta hverri krónu fyrir sér.

Ég er að komast á þá skoðun að við skattleggjum okkur ekki nóg til að komast út úr kreppunni. Tel að við fólk í vinnu með þokkaleg laun ættum að þola t.d. 3% tekjuskattshækkun næstu tvö árin. Við þurfum að leggja á hátekjuskatt og við þurfum að skattleggja stóru fyrirtækin. Þá kemur þetta fljótt.

Síðan verður að aflétta svona keppusköttum. Vandinn er hins vegar sá að sá skattur sem þegar hefur verið lagður á verður seint af tekinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.12.2008 kl. 16:13

3 Smámynd: Ólafur Als

Sæll á ný,

ég vildi að ég gæti tekið undir þessa bjartsýnisspá þín. Við verðum að minna okkur á (þó sársaukafullt sé) að þjóðarbúið er að skuldsetja sig upp á annað þúsund milljarða til viðbótar því sem fyrir er, til þess að takast á við banka- og gjaldeyrishrunið. Eitt og sér myndu ráðin þín duga til þess að greiða þá skuld upp á nokkrum ÁRATUGUM. Ljóst má vera að tekjustakkshækkunin þarf að vera meira, enda þarf að hækka skattleysismörkin til þess að verja þá launalægstu sem hækkuninni nemur. Ég skýt á ca. 40% tekjuskatt, hækkun fyrirtækjaskatts upp í ca. 25%, lítillega hækkun fjármagnstekjuskatts - þó ekki væri nema til þess að skapa svigrúm til uppbyggingar á ný. Það er seinna tíma vandamál að takast á við lækkun þessara skatta en vissulega er vert að hafa í huga að það er ávallt erfiðara að lækka álögur. Gott ráð væri t.d. að gefa auknum sköttum nafn, ss. kreppuskatt.

Ólafur Als, 20.12.2008 kl. 16:22

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Talsverður hluti af þessari skuldsetningu eiga að koma til baka með sölu á eignum gömlu bankanna og einnig koma hugsanlega tekjur af sölu nýju bankanna. Ljóst er að pólitískur vilji er til að selja þá. Líklega verður samt hluti af andvirði þeirra lagður til kröfuhafa, en engu að síður ...

Mér sýnist að hugmyndir mínar eigi samleið með vel tillögum manna eins og Þórólfs Matthíassonar, hagfræðingi.

Hins vegar skiptir bjartsýni öllu máli. Og við þurfum að vinna hratt út úr vandanum. Þá skiptir miklu að allir leggi sitt af mörkum, ekki aðeins almenningur heldur líka fyrirtækin í landinu svo ekki sé talað um hátekjufólk.

Svo máttu ekki gleyma því að við lentum „aðeins“ í bankakreppu. Þetta voru ekki hamfarir náttúrunnar eða hermdarverk manna. Húsin standa, fyrirtækin eru til staðar, vélar, tæki, samgöngumannvirki og sem betur fer hefur fólki hefur ekki fækkað (enn). Auðlindir lands og sjávar eru til staðar svo maður tali nú ekki um að framundan er hækkandi sól. Gleymdu því ekki Ólafur að vonin um betri tíð heldur í flestum lífinu. Vonlaus maður sér illa til framtíðar. Þess vegna finnst mér afar mikilvægt að hætta þessum barlómi í fjölmiðlum, leggja af bölsýni og leggja af stað í vegferðina með brosi á vör.

Það skiptir í raun ekki máli hvort við náum okkur út úr þessari kreppu á einu ári, tveimur, eða tíu. Meðan við vinnum skipulega og af bjartsýni þá miðar okkur betur en ella.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.12.2008 kl. 16:38

5 Smámynd: Ólafur Als

Bjartsýnin er ágæt en eins og áður byggir maður slíkt á raunsæi. Þú bendir réttilega á að hið fasta fé stendur enn og auðlindir lands og sjávar munu halda áfram að færa björg í bú. Eins er mannauðurinn all nokkur. Hins vegar er allt lausafé uppurið og meira til. Án lausafjár skortir eldsneyti á allt annað. Það hefur einnig áhrif á hugann en vitanlega verða menn að trúa á eigið ágæti.

Kreppan mun vara hér vel fram á næsta áratug en lengd og dýpt hennar mun ekki einungis ráðast af eigin djörfung, heldur einnig hvernig fjármálakreppa heimsins skekur heimsbyggðina. Við erum háðari útflutningsverslun og þjónustu umfram flestar aðrar þjóðir, við seljum dýra vöru og dýra þjónustu, sem fólk í útlöndum þarf að hafa efni á.

En vitanlega mun birta upp um síðir. Ef menn hafa ekki trú á því er allt eins gott að pakka búllunni saman og yfirgefa skerið. Vegferð okkar til nýrra bjargálna verður þyrnum stráð og allt eins víst að það taki nokkurn tíma fyrir marga að sjá einhvers konar ljós í framtíðinni. Kreppan okkar nær nefnilega einnig inn á hið pólitíska svið og það er á þeim vettvangi sem við getum fyrst náð vopnum okkar. Almenningur þarf að öðlast trú á stjórnmálamönnum, viðskiptalífi og stjórnkerfinu í heild sinni á nýjan leik. Ef ekki, mun þetta skipulag og bjartsýni, sem þú nefnir, verða seinfundið.

Ég er nú svo illa gerður að telja mig frjálshyggjumann af gamla skólanum. Sú ábyrgð sem fólk kallar eftir má ekki drepa í dróma athafnavilja og geð. Og þeir sem hafa aðhyllst frelsið þurfa að venja sig við að því fylgir ábyrgð. Ef við náum einhverjum sáttum á þessum hugmyndavettvangi eru okkur margir vegir færir.

Ólafur Als, 20.12.2008 kl. 17:09

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég held við séum nú nokkuð sammála um þessi mál. Tek sérstaklega undir að ekki má draga úr athafnavilja fólks heldur hvetja til athafna. Það gerum við að sjálfsögðu með að vera raunsæ en við verðum að vera bjartsýn þrátt fyrir alla óáran.

Gallin við frjálsræði í fjármálaheiminum undanfarin ár hér á landi er fyrst og fremst ábyrgðina vantaði. Þetta er sú sýn sem maður hefur á atburðina svona eftirá.

Hvað varðar trúna á stjórnmálamenn ... Ég sé ekki annað en nauðsynlegt sé að skipta út meginþorra þingmanna. Þeir hafa flestir siglt sofandi að feigðarósi. Að minnsta kosti mun ég gera kröfu til breytinga í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum næst þegar verður kosið til þings. Ég hef nokkuð skrifað um þetta hér á blogginu og á heimasíðunni. Stend við hvert orð.

Af því að ég hef nokkuð innið í almannatengslum þá vil ég að endingu taka upp meginatriðið í PR en það er að koma hreint fram, veita upplýsingar og draga ekkert undan. Þetta á viðskiptalífið og stjórnkerfið að hafa að leiðarljósi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.12.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband