Getur kirkjan annað en boðið flóttamönnum grið

Sem mikill stuðningsmaður Þjóðkirkjunnar varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar prestar Laugarneskirkju, að því virðist með stuðningi yfirstjórnar þjóðkirkjunnar, skyldu hafa frumkvæði að því að reyna að koma í veg fyrir að lögregla gæti framfylgt lögum í landinu með því að hýsa hælisleitendur sem vísað hafði verið frá landinu.

Þannig skrifar Brynjar Níelsson, alþingismaður, á Facebook síðu sína. Margir hafa skrifað í svipaða veru og lýst yfir vonbrigðum með afstöðu kirkjunnar og sumir hverjir tekið enn dýpra í árinni. Ég held að þetta sé misskilningur hjá þessu fólki öllu saman. 

Rökin eru einfaldlega þau að ekkert var gert til að hindra lögreglu í starfi sínu, engin lög voru brotin. Hins vegar fengu tveir flóttamenn hæli í Laugarneskirkju. Þeir voru ekki faldir, lögreglan vissi hvert skyldi sækja þá.

Áður en lengra er haldið er brýnt að tvennt komi fram. Hið fyrra er að ég er eins og flestir alinn upp í kristinni trú og sótti kirkju með foreldrum mínum og tók virkan þátt í KFUM í æsku minni. Hið seinna er sú bitra staðreynd að barnatrúin hefur mikið dofnað mér til sárinda en við því er fátt að gera.

Engu að síður er boðskapur kristinnar trúar mér ofarlega í huga, það er sú siðfræði sem í henni felst. Engan skaða hef ég borið af henni hvað sem um annað má segja.

Vegna tilvitnunarinnar er mér ofarlega í huga dæmisagan af miskunnsama Samverjanum sem Jesú sagði lærisveinum sínum. Maður hafði veri rændur, barinn og skilinn eftir á veginum slasaður nær dauðvona. Menn sem áttu leið um sinntu honum ekki heldur sveigðu framhjá.

Svo kom þar að þessi maður frá Samaríu sem hikaði ekki heldur aðstoðaði þann slasaða, batt um sár hans, flutti til gistihúss og lagði fram fé fyrir umönnun hans. Og Jesú beinir því til lærisveina sinna að fylgja fordæmi Samverjans.

Ekki eru allir sem átta sig á því þetta með Samverjann. Hann var af þjóðflokki sem gyðingar fyrirlitu innilega af sögulegum ástæðum, höfðu engin samskipti við hann og lögðu frekar lykkju á leið sína en að ganga um land þeirra. Það er því engin tilviljun að Samverjinn er notaður til að sýna fram á firringu samlanda Jesú, skort á samhygð og umburðarlyndi.

Sá fyrirlitni var hins vegar bjargvættur þegar hinir aðhöfðust ekkert, tóku meðvitað á sig krók til að komast hjá því að horfast í augu við hremmingar annars manns.

Sagan endurtekur sig. Um gjörvalla hina kristnu Evrópu reynir fólk að líta framhjá þeirri ógn sem steðjar að mörgum þjóðum í Afríku og Asíu. Þær eru bókstaflega í sporum þess sem ræningjarnir nær drápu í dæmisögunni. Munurinn er aðeins sá að þær flýja ræningja sína. Og hvert annað en í friðinn í Evrópu?

Hin kristna Evrópa tekur hins vegar ekki á móti þessum fjölda með opnum örmum heldur vaknar hræðsla um að aðstoð muni valda tekjumissi og atvinnuleysi. Landamærum er skellt í lás, háværir hópar fordæma aðstoð við flóttamenn, leggjast gegn komu þeirra og jafnvel ráðast með ofbeldi að þeim. Evrópa fer nærri því á hliðina. Kristnin er um leið lögð til hliðar.

Samtök Evrópuríkja geta ekki tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Hræðsluáróðurinn er yfirgengileg hávar sem og þögnin vegna þess fólk sem þegar er komið. Undantekningin er þegar flóttafólk ferst í hundraðatali á Miðjarðarhafi. Jafnvel slíkar fréttir eru orðnar svo algengar að þær teljast vart til tíðinda. Þúsundir barna hafa týnt foreldrum sínum og fjölda þeirra er rænt og þau misnotuð, en engar fréttir eru sagðar af þeim.

Hér á Íslandi gerist þá að prestar í Laugarneskirkju taka tvo auma flóttamenn inn í kirkjuna sína og lítill hópur fólks fylgir til stuðnings. Talað er um kirkjugrið, gamalt hugtak sem notað var til forna þegar ekkert var ríkisvaldið og löggjöfin takmörkuð.

Hvað er eiginlega að þessu? Hvað var annað hægt að gera? Hvernig getur kirkjan litið framhjá hinum kristna boðskap og neitað því að koma fólki í neyð til hjálpar?

Hafði ekki upphafsmaður trúarinnar margbrotið ævafornar reglur samfélags gyðinga með því að umgangast Samverja. Og munum að þessar reglur byggðust á fordómum gagnvart Samverjum.

Sem stuðningsmaður þjóðkirkjunnar hvet ég hana til að setja sig í hlutverk hins miskunnsama Samverja. Hún á raunar ekki annarra kosta völ.

Íslensk þjóð getur hins vegar viðurkennt hinn kristna menningararf, ekki aðeins á sunnudögum eða við venjubundnar kirkjulegar athafnir heldur dags daglega. Tekið á móti flóttamönnum, veita þeim grið og ... greitt eins og „tvo denara“ fyrir uppihaldið og sagt eins og Samverjinn: 

Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er allmikið mál. En eins og þú segir, Sigurður: Fórnarlambið, sá sem Samverjinn bjargaði, hafði verið "rændur, barinn og skilinn eftir á veginum slasaður, nær dauðvona" og synjað um hjálp.

En Írakarnir tveir í Laugarneskirkju voru ekki í neinni neyð og málin alls ekki sambærileg. Jafnvel þótt þeir hefðu verið með öllu peningalausir, var þeim séð fyrir ókeypis fæði hér og húsnæði og eins í Noregi.

Þeir eru ekki flóttamenn, heldur hælisleitendur frá Suður-Írak, þar sem EKKI geisar stríð. Okkur ber engin lagaleg né siðferðisleg skylda til að taka við þeim hér.

Engin ákvæði eru í Lagasafni Íslands né í lögbókum Þjóðkirkjunnar um kirkjugrið. Helzti brautryðjandi lúthersks siðar á Íslandi, Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum lengur en nokkur annar: 1571-1627, barðist ítrekað fyrir því að fá hin kaþólsku Kristniréttar-ákvæði um kirkjugrið afnumin og tókst það 1587 -- fyrir heilum 429 árum, ef sr. T.Toma, Kristín Þórunn, Sólveig Lára og Agnes Sigurðardóttir skyldu ekki hafa frétt af því enn!

Ýmsar ástæður mæla líka með því, að við tökum fremur við flóttamönnum frá öðrum heimshlutum en frá löndum múslima. Það gæti þó átt við um ofsótta jesída og kristna menn í Sýrlandi, einnig kristna menn í Súdan og Suður-Súdan eða fólk sem sætt hefur morðárásum hinna islömsku hryðjuverkasveita Boko Haram í Nígeríu og víðar -- og ennfremur s.k. stéttleysingja á Indlandi, sem beittir eru miklu harðræði.

En af einhverjum undarlegum ástæðum vakti þetta mál Írakannanna tveggja miklu meiri athygli en nýlegt mál Nígeríumanns sem flúði ofsóknir Boko Haram, sbr. hér:

Kristinn maður sem flúði heimaland sitt vegna ofsókna Boko Haram fær ekki landvistarleyfi hér á landi.

Kristin stjórnmálasamtök | 30. janúar 2016

Nígeríumaðurinn Eze Okafor sem búsettur hefur verið hér á landi síðan 2012 er niðurbrotinn eftir að hafa fengið þau slæmu tíðindi frá yfirvöldum að hann verði rekinn úr landi. Verður hann sendur úr landi eldsnemma á mánudagsmorgun. Fær hann aðeins 4 daga ...

Þakka þér svo "áheyrnina".  smile

Jón Valur Jensson, 4.7.2016 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband