Gróður þolir ekki beit á gosbeltum landsins, samt ...

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri aðila sýna að gróður var í talsvert mikilli framför víða á landinu á níunda áratugnum. Síðan hefur dregið úr þeirri framför og nú virðist vera stöðnun á öllum austurhelmingi landsins, þó að láglendið sé víðast hvar í gróðurfarslegri sókn. Á gosbeltum landsins eru flestir afréttir afskaplega illa farnir og auðnir víða ríkjandi. Sauðfé sækir í nýgræðinginn á auðnunum þegar líða tekur á sumarið en beit á auðnum getur aldrei orðið sjálfbær og þar er því ofbeit.

Þannig skrifar Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, í grein í Morgunblað dagsins. Hann ræðir þann mikla vanda sem steðjar að gróðurfari landsins og þá sérstaklega vegna sauðfjárbeitar. Staðreyndin er einföld að mati Sveins. Landið þolir ekki beit, sérstaklega á gosbeltum landsins. Henni þarf að hætta.

Vandinn er þessi, að mati Sveins:

Öll lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu er mjög gömul og hefur ekki fengist endurskoðuð, þrátt fyrir margítrekaðar óskir hlutaðeigandi stofnunar þar að lútandi. Lög um landgræðslu eru frá 1965 og núgildandi lagaákvæði um ítölu í beitilönd eru að stofni til frá 1969. Ákvæði þessara laga eru löngu úrelt og þarf að endurskoða með tilliti til nýrrar þekkingar á ástandi úthaga.

Það sýndi sig best þegar reynt var að koma í veg fyrir beit á auðnum Almenninga, þá var álit færustu sérfræðinga virt að vettugi. Það tefur fyrir umbótum að lög þessi heyra undir sitthvort ráðuneytið, annars vegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Eflaust kann það að vera að mörgum finnist landið fallegt svo gróðurlaust sem það er. Ástæðan fyrir gróðurleysinu er einfaldlega dvöl manna í landinu, sauðfjárbeit og útrýming skóga. Með nokkrum rökum má fullyrða að þjóðin hefði ekki þrifist í landinu nema að hafa gert það sem hún gerði. Látum það vera. Þá er verkefnið einfaldlega að bæta úr, græða landið, stunda öfluga skógrækt. Um leið þarf að takmarka sauðfjárbeit eins og Sveinn réttilega segir. Það gengur ekki að beita á gróðurlausum svæðum.

Fyrirmyndin á að vera sjávarútvegur landsins. Hvað er gert þar? Sveinn svarar því á þessa leið:

Enn einu sinni hefur ráðherra sjávarútvegsmála ákveðið að fara í einu og öllu eftir tillögum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár. Það er mikil viðurkenning á störfum Hafrannsóknastofnunar, árangurinn lætur ekki á sér standa og flestir fiskistofnarnir eru í sókn. Það er ánægjuefni þegar svo vel tekst til með ráðgjöf og í kjölfarið nýtingu náttúruauðlinda með sjálfbærum hætti.

Þjóðin þarf að nýta landið með hliðsjón af ráðgjöf færustu vísindamanna. Ekki dugar að hagsmunaaðilar hafi einir aðkomu að mati á auðlindum landsins. Farið er eftir ráðgjöf vísindamann í veiðum úr nytjastofnum við Ísland. Þannig á það líka að vera er kemur að nýtingu landsins, gróðursins. 

Ofveiði tíðkast ekki lengur. Við búum að bitri reynslu hvað það varðar og með hana að leiðarljósi sækjum við hóflega í fiskistofnana. Sama á að gerast í landbúnaði. Ekki á að vera heimilt að ofbeita land. Ekki á að vera heimilt að reka fé í Almenninga norðan Þórsmerkur nema þeir þoli beit, sem þeir gera ekki. 

Í lok greinar sinnar segir Sveinn Runólfsson og tekið er hér undir honum:

Ráðgjöf vísindamanna sem sjá ekki auðlindir hafsins nema í mælitækjum og reikna út stofnstærðir með ýmis konar mælingum er sem betur fer ávallt tekin góð og gild nú á tímum. Nýting á auðlindum þurrlendisins þarf að verða með sama hætti, en því fer fjarri að svo sé í dag.

Búvörusamningar og lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu þarf að byggjast á því [að] hægt [sé] að byggja upp auðlindir gróðurs og jarðvegs og stuðla að sjálfbærum sauðfjárbúskap í landinu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Því er þá gróðurlaust við Illviðrhnjúka undir Hofsjökli eða innan landæðslugirðinga á Hafinu við millurnar, þar sem aldrei koma grasbítar?

Þetta er eiginlega eins vitlaust og vitlaust getur orðið. Með rökunum sem Svein notar þá ætti að vera túnbreiða á tunglinu, þar koma jú aldrei rollur.  Engin beit er jafn slæm og of mikil beit. Það ættu menn sem komið hafa að þessum málum undanfarina ártugið að sjá.

Guðmundur Jónsson, 2.7.2016 kl. 14:08

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sjálfsagt er heilmikil til í að stjórna þurfi beit á gróðursnauðum eldvirknum svæðum. En mér finnst þó ekki ástæða til að panikera þótt landið sé ekki fullgróið alveg upp á hálendi. Það er ekki hægt að setja verðmiða á landið út frá beitarþoli einu saman. Auðnir eru líka verðmæti og eiga sinn þátt í sérstöku náttúrfari landsins, hvort sem búseta mannsins í gegnum tíðina á sinn þátt þar eða ekki.

Með náttúruvernd að leiðarljósi þurfum við að leyfa gróðrinum að dafna (eða hnigna) á eigin forsendum en passa okkur á óhóflegum landgræðsluáformum, skógrækt með framandi tegundum og umfram allt að passa okkur á lúpínunni. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að stórfelld skógrækt og landgræðsla sé barn síns tíma.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.7.2016 kl. 15:01

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Guðmundur. Bestu þakkir fyrir innlitið.

Sveinn Runólfsson er ekki upphafsmaður að þeirri kenningu að gróður eyðist sé hann bitinn af búfénaði. Raunar er það engin kenning heldur bláköld staðreynd.

Sé þess gætt að reita upp nýgræðlinga vex ekki neitt. Uppi á Esju er bara mosi, þar hefur líklega aldrei verið sauðfé. Þetta afsannar hins vegar ekkert um skaðræði beitar.

Það hlýtur hins vegar að vera skynsamleg aðgerð að beit á landinu sé stjórnað til dæmi með beitarhólfum rétt eins og veiði er bönnuð í sjó á tilteknum svæðum vegna smáfisks eða ungfisks. Auðvitað grær landið ekki upp sé ekkert að gert.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2016 kl. 16:53

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Emil, margir hafa í nær tvö hundruð ár haft miklar áhyggjur af gróðureyðingu. Um leið hafa fátt verið gert til að takmarka til dæmis beit. Held ekki að um sé að ræða neitt „panik“. Skelfingin er hins vegar vegna þess að fátt bætir stöðuna nema ef til vill skárra veðurfar á sumum stöðum á landinu.

Enginn náttúruverndarmaður hefur gagnrýnt flug landgræðslunnar yfir landið og uppgræðslu sanda enda vandséð hvernig rökin yrðu. Engu að síður  hefur verið reiknað út að margfalt ódýrara og hraðvirkara er að nota þá náttúrulegu verksmiðju sem lúpínan er heldur en að fara hefðbundnar leiðir.

Ég er ekki sammála þér að stórfelld skógrækt og landgræðsla sé úrelt. Landið spilltist vegna aðgerða manna og gróður er hægt að endurheimta með skynsamlegum aðgerðum. Mér finnst stórkostlegt að sjá hversu mikið hefur áunnist í skógrækt, nefna má til dæmist í Silfrastaðafjalli í Skagafirði við mynni Norðurárdals. Og einnig víða á Suðurlandi, til dæmis við Flúðir og stóran landgræðsluskóg vestan við Þrándarholt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2016 kl. 17:07

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Sveinn Runólfsson er ekki upphafsmaður að þeirri kenningu að gróður eyðist sé hann bitinn af búfénaði. Raunar er það engin kenning heldur bláköld staðreynd.""

Þetta bull er einfaldlega staðfesting á því að þú ert ekki að sjá stóra samhengið.

https://www.ted.com/talks/allan_savory_how_to_green_the_world_s_deserts_and_reverse_climate_change?language=en#t-265347

Guðmundur Jónsson, 2.7.2016 kl. 18:25

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú verður að fyrirgefa heimsku mína, Guðmundur. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2016 kl. 18:26

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég mundi ekki nenna að rita hér ef ég teldi þig heimskan Sigurður.

En menn eins og Sveinn sem eyða allri ævinni í að "græða upp land" án þess að geta sýnt fram á mælanlegan árangur og læra ak þess ekkert allan tíman eiga það alveg inni að vera kallaðir heimskir. 

Guðmundur Jónsson, 2.7.2016 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband