Svar leikmanns við bréfi til forsetaframbjóðenda

Uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er stærsta umhverfisvandamál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir allar götur frá landnámi. Beit viðgengst enn á íslenskum auðnum og rofsvæðum sem enga beit þola að mati okkar helstu sérfræðinga.

Því langar okkur að bera upp eftirfarandi spurningar:

1. Hvað munt þú gera, sem forseti, til að snúa þessari þróun við?
2. Munt þú, sem forseti, beita þér fyrir vörsluskyldu búfjár?
3. Hvert er álit þitt á lúpínu sem landgræðsluplöntu?

Ofangreint er bréf sem Sigurður Arnarson, kennari og fræðibókahöfundur, skrifaði forsetaframbjóðendum. Raunar er bréfið þess eðlis að það á erindi til allra enda þarna spurt um afar mikilvæg mál.

Mig langar til að reyna mig við spurningarnar, er þó ekki forsetaframbjóðandi, aðeins venjulegur borgari, leikmaður með skoðanir.

Gróðureyðing, viðsnúningur

ÞingvallavatnRétt er að uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er eitt stærsta umhverfisvandamál sem þjóðin stendur frammi fyrir. Vandamálið hefur orðið æ ljósara á síðustu áratugum. Fjöldi fólks áttar sig ekki á því að landið eins og það er núna er um flest frábrugðið því sem var þegar það var numið. Munar hér mestu um gróðurfar.

Fræðimenn telja nú að birkiskógar hafi þakið um 25% landsins við landnám en nú eru þeir á um 2%. Fullyrt hefur verið með rökum að í stað þess að útbreiðsla skóg- og kjarrlendis sé á um 1200 ferkm lands ætti það að vera á um 45 þúsund ferkm. Þetta er sláandi.

Víða um land er að finna krækiberjalyng og bláberjalyng sem öllum þykir vænt um og sækja í. Vandinn er hins vegar sá að þessar tegundir og aðrar eru á svæðum sem fræðimenn nefna rýrt mólendi og er á um 24% landsins. Það hefur einkum myndast vegna langvarandi beitar. Svona land er þúfótt vegna þess að snjór festist lítt á yfirborðinu og getur því ekki hlíft landinu fyrir frostlyftingu. Þetta er sláandi.

Vandamál nútímans er hugarfarið. Hvernig þjóðin geti tekið sameiginlega á málunum án þess að valda klofningi. Fræðimenn eru jafnvel ekki á eitt sáttir, landbúnaðurinn hefur sínar skoðanir og almenningur tekur afstöðu á margvíslegan hátt. Jafnvel viðhorfið til skógræktar sem margir telja hið göfugasta af öllu ræktunarstarfi er margbreytilegt. Sumir óttast að komast ekki leiðar sinnar verði trjárækt aukin, aðrir telja að útsýni skerðist og enn aðrir segja að gróðurleysi landsins sé einfaldlega eftirsóknarvert og fallegt.

Ég er á þeirri skoðun að þjóðin þurfi að greiða skuld sína við landið, græða það upp. Þessum málstað þarf að afla fylgis. Um leið þarf að breyta fjölmörgu í landbúnaði. Leggja þarf til dæmis af beit á gróðursnauðum svæðum. Setja þarf lög um sem takmarka beit. Skipta þarf landinu upp í fjölmörg hólf rétt eins og oft er gert í sjávarútvegi. Hólf séu einfaldlega lokuð fyrir beit þar til þau teljast í svo góðu standi að þau þoli takmarkaða beit. 

Vörsluskylda búfjár

KindMeð vörsluskyldu búfjár er átt við að eigandi haldi því innan sinnar eignar og hann sé eigandi eða umráðamaður þess. Um leið er átt við að um landið sé gripaheld girðing sem kemur í veg fyrir frjálsa för búfjár. Um leið og þetta er sagt má ljós vera að ekki eiga allir landeigendur búfé og hafa ekki hug á því. Þeir eiga raunar undir högg að sækja, á þá eru settar kvaðir vegna búfjárhalds annarra og þeir þurfa að verjast ágangi búfjár á lönd sínum.

Grundvallaratriðið á að vera að eigendur búfjár beri ábyrgð á því, innan landamerkja sinna, og gæti þess að það haldi sig þar. Þannig er þetta í flestum öðrum löndum í Evrópu, Ameríku og Nýja Sjálandi og raunar eru aðstæður hér á landi lakari en þær voru fyrr á öldum.

Aðalatriðið er að búfé, sérstaklega sauðfé, ógnar gróðurfari og uppgræðslu. Lágmarkið er eins og áður sagði að landinu sé skipti í beitarhólf. Raunar á það að vera þannig að eigendur búfjár beiti því á eigin lönd. Um leið þarf að gæta að því að land í einkaeigu sé í standi til að búfé sé beitt á það.

Benda má á fjölmargt sem hafa áhrif á þróun gróðurs á láglendi og hálendi. Eitt stendur þó upp úr og það er beitin, einkum sauðfjárbeit. 

Lúpínan sem landgræðslujurt

BæjarstaðaskógurHér á landi eru ýmsar stofnanir starfandi sem starfa að uppgræðslu landsins. Dreift hefur verið grasfræi og áburði úr flugvélum og á jörðu niðri með ærnum tilkostnaði. Engu að síður miðar lítt áfram. Landið er enn í sárum eftir búskaparhætti undanfarna árhundruða og fátt bendir til þess að umtalsverð breyting verði þar á næstu árin. Þó er ein undantekning frá þessu og það er lúpínan sem sannarlega má nefna verksmiðju svo afkastamikil er hún og snögg að breiðast út.

Lúpínan er þrautseigari en margar aðrar plöntur. Kostir hennar eru margir og sá helsti er að í rótum hennar lifa bakteríur sem nýta nitur úr andrúmsloftinu og skila í jarðveginn. Hún þrífst vel vegna þess að rætur hennar ná dýpra en margra annarra plantna og komast þar í vatn þegar aðrar plöntur veslast upp í þurrki. Þetta gerir það að verkum að lúpínan breiðist hratt út á illa grónu landi eins og rýru mólendi. Segla hennar og rótarbúskapur veldur því að jarðvegurinn verður frjósamari og aðrar tegundir koma í kjölfarið.

Að ósekju er lúpínan mikið gagnrýnd og þá helst fyrir það að vera ekki „íslensk“ planta, hún sé aðskotahlutur í íslensku vistkerfi og eyðileggi það jafnvel. Menn sjá til dæmis eftir krækiberjalyngi sem lúpínan virðist kaffæra en hugsa þó ekki það til enda. Fræðimenn segja að stærsti hluti mólendis hefur orðið til vegna ofbeitar. Væri þetta sama mólendi friðað og þar með krækiberjalyngið myndi fljótlega vaxa birki sem útrýmir berjasprettunni.

Ósannað er að lúpínan útrými öðrum tegundum, raunar hafa rannsóknir sýnt hið gagnstæða og má nefna lúpínuna í Heiðmörk sem dæmi um slíkt. Hins vegar er gróðulendi ekki nein kyrrstaða tengunda eins og samkvæmt friðarsamningum heldur síbreytilegt ástand.

Engin önnur jurt jafnast á við lúpínuna. Þeim sem er í nöp við hana er í lófa lagið að útrýma henni. Aðeins þarf að gróðursetja hávaxnari plöntur þar sem hún vex.

Lúpínan þrífst ekki í skugga og þess vegna er skógrækt ódýrasta og skynsamlegasta leiðin til að losna við hana. Og það sem meira er, tjágróðri líður hvergi betur en þar sem lúpínan er. Þökk sé niturbindingu jarðvegsins.

Myndir: Efsta myndin er tekin norðan Þingvallavatns, skammt frá Syðstusúlu. Gróðurinn liggur í lægðum og giljum annars staðar eru uppblásnir melar, næst er ræfilslegur gróður á holti. Myndin í miðjunni er frekar sauðsleg en hún er samt ekki af höfundi. Neðsta myndin er tekin á aurunum í Morsárdal við Skaftafell, en þar vex nú upp gróskulegur skógur í framhaldi af Bæjarstaðarskógi, þökk sé lúpínunni sem hverfur þarna undir birkið og síðan fyrir fullt og allt.

Heimildir: Facbooksíðurnar Vinir lúpínunnar og Áhugafólk um landgræðslu. Ágúst H. Bjarnason, heimasíða. Að lesa og lækna landið (pdf útgáfa); Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir. Hörfar lúpínan, Skógræktarfélag Íslands, grein eftir Daða Björnsson, landfræðing.

 Fiskilækur4

Hér bæti ég við einni mynd til skýringar vegna athugasemdar Gunnar Heiðarssonar. Myndin er af Melasveitinni og er horft í suður austan við fjallið Blákoll. Frekar lágskýjað var þennan dag. Í fjarska er Akrafjall og Akrens Hægra megin eru lítil vötn og handan þeirra er bærinn Fiskilækur sem Gunnar nefnir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Enn vaða menn í villu varðandi lúpínu. Það var fyrir um nærri sjötíu árum síðan sem fyrsta var farið að sá lúpínufræjum hér á landi, með markvissum hætti. Þetta var gert hjá skógrækt ríkisins að Lundi í Skorradal. Enn eru menn að berjast við lúpínuna þar, á þeim svæðum sem fyrst var sáð í.

Þó lúpínan hafi lítið skriðið inn í sjálfan skóginn þar og hann fengið að dafna, þá ræður skógurinn ekki við að komast yfir lúpínuna.

Eitt gleggsta dæmi um skaðsemi lúpínu er þó örlítið nær, eða í Fiskilækjarskógi, sunnan við Hafnarmela.

Undir lok síðustu aldar var sá skógur orðinn frekar rýr, bæði vegna beitar en kannski þó mest vegna veðurfars. Í melana umhverfis skógartorfurnar, sunnanvert í þessum skógi, var sáð nokkrum lúpínufræjum. Skemmst er frá að segja að melarnir þöktust lúpínu á undraskömmum tíma, allt uppí skógartorfurnar sjálfar. Nú hefur lúpínan sáð sér vestur yfir þjóðveginn og æðir þar um melana.

Norðanvert í þessum skógi er hins vegar lítið af lúpínu, ennþá. Virðist sem hún eigi erfiðara með að vinna sig móti höfuðvindátt á hverju svæði.

Með hlýnandi veðurfari hefur hins vegar sá hluti skógarins tekið stakkaskiptum. Rofabörðin eru flest gróin upp, eða eru að gróa, birkið er farið að æða út af börðunum og skjóta upp vísum vítt um melana umhverfis þau. Þá hefur annar gróður tekið þarna stakkaskiptum og fjölbreytni hans mikill.

Þegar svo farið er á syðri hluta svæðisins, þar sem lúpínan ræður ríkjum og skoðað þar í svörðinn, má sjá að rofið í skógartorfunum er lítt gróið, ekkert birki kemst frá þeim út á melana og einsleitni gróður utan skógartorfanna er alfarið bundið við lúpínu. Engar aðrar gróðurtegundir er hægt að finna þar. Þá má glöggt sjá, þegar lauf fara að fala að hausti, að skógurinn fellir mun fyrr lauf að sunnanverðu en norðan, jafnvel þó meira skjól fyrir rokinu sé einmitt í syðri hluta þessa skógar. Það sem verra er, er að þó lúpínan æði ekki til norðurs, þá skríður hún þangað um einhverja metra á hverju ári. Þar má sjá að hún kæfir þann gróður sem er að myndast, birkivísana og annan fjölbreyttan lággróður. Þetta má glöggt sjá með því að heimsækja svæðið á hverju ári. Allir þeir sem einhverja skoðun hafa á lúpínunni, mæla henni bót eða blóta, ættu að heimsækja þennan stað og fylgjast með þessari plöntu í sjálfri náttúrunni.

Okkur er kennt að landið hafi verið vaxið skógi milli fjalls og fjöru, við landnám. Víst er að hér á landi var mikill skógur, einhverntíman. Þetta þekki ég vel, þar sem ég vann við framræslu meðan það æði stóð sem hæðst, á áttunda áratug síðustu aldar. Allt niður á tveggja metra dýpi í móalendi var að koma upp trjábolir að ummáli sem ekki er þekkt í dag, hér á landi. Þetta er þó fyrst og fremst bundið við þau svæði þar sem mór er þykkur, ekki á landrýrri svæðum, enda þau oftar en ekki það ung að móalög hafa vart myndast á þeim og ólíklegt að þar hafi slík stórtré vaxið.

Okkur er einnig kennt að það sé fyrst og fremst okkur landsmönnum að kenna hvernig komið er. Skógarhögg landnámsmanna hafi verið öfgakennt og beit búpenings sé helsta orsökin.

Vel getur verið að skógarhögg landnámsmanna hafi verið mikið, en miðað við fjölda þeirra og afkomanda þeirra, þá hljóta þeir að hafa þurft að nýta nótt sem nýtan dag til útrýmingar á skógum landsins. Þá hljóta allar landnámssögurnar vera hreint bull, þar sem enginn tími vannst til víkings fyrir þetta fólk.

Fjöldi búpenings í landinu var lítill, allt fram á miðja síðustu öld. Því vart hægt að kenna honum um þessa eyðingu.

Það gleymist alltaf það augljósa, eða því vísvitandi haldið utan umræðunnar, en það er sjálf náttúran.

Við landnám var mun hlýrra hér á landi en nú og talið að enn hlýrra hafi verið einhverjar aldir þar á undan. kólnun veðurfars var þegar hafin fyrir landnámi og náði kannski mestum kulda frá sautjándu öld og fram í byrjun þeirrar tuttugustu. Síðan hefur heldur lagast og nú síðustu ár má segja að fyrst sé aftur lífvænlegt hér á landi, fyrir sjásprottna skóga.

Þá má ekki gleyma blessuðum eldgosunum. Frá landnámi hafa verið mörg og á stundum öflug eldgos. Eyðing gróðurs í kjölfar þeirra er þekkt.

Verið getur að eitthvað hafi enn verið af stórtrjám hér á landi við landnám, jafnvel þó þá hafi verið farið að kólna verulega. Að halda því fram að allt undirlendi hafi verið vaxið slíkum skógi er hæpið, mun freka að þessir skógar hafi verið staðbundnir, utan þeirra svæða sem eldgos hafa mest áhrif á.

Í það minnsta hafa þessir skógar ekki verið stærri en svo að á tveim til þrem öldum tókst að útrýma þeim, með því fáa fólki sem hér bjó. Þar er klárt mál að náttúran hefur hjálpað til.

Það er ljóst, hverjum sem vill opna augu sín, að beit búfjár er ekki sá orsakavaldur sem sumir vilja meina. Vissulega fjölgaði sauðfé mikið um og eftir miðja síðustu öld og fram undir tíunda áratuginn, síðan hefur því fækkað heldur, þó afurðir hafi margfaldast.

Ef tekin eru tvö sauðfjárhéruð hér á landi, þar sem fjöldi sauðfjár á hvern ferkílómeter er nokkuð mismundandi má sjá að á öðru þeirra er gróður ákaflega rýr en hinu einstaklega mikill og góður. Það merkilega er að á hverjum ferkílómeter gróðurrýrra svæðisins er nálægt helmingi færra sauðfé en hverjum ferkílómeter hins gróðurríka. Hins vegar er gróðurrýra svæðið innan þess beltis sem kallast gosbelti landsins en hitt utan þess.

Vel má vera hægt væri að græða eitthvað af þessu gróðurrýra svæði upp, ef sauðfé væri þar útrýmt, þó er klárt að það væri dýr aðgerð og eins víst að sú framkvæmd muni þurrkast út í einni svipan, ef eldar brjótast upp úr jörð.

Gróðurríku svæðin eru sum svo góð að þar mætti hæglega fjölga sauðfé verulega.

Nokkuð má telja víst að þeir skógar sem voru hér á landi við landnám og sú gróður- og jarðvegsþekja sem var þá yfir landinu, hefðu aldrei lifað af þá kuldatíð sem á okkar landi var, hinar síðari aldir og þau mörgu og sum öflugu eldgos sem hér hafa orðið á þessum tíma, þó landið hefði ekki byggst.

Hvort landið væri meira gróið eða minna, er erfitt að segja til um, en víst er að það mikla starf sem bændur, í samstarfi við landgræðsluna, hafa unnið til gróðuraukningar, hefði þá ekki orðið.

Vissulega eigum við alltaf að vera vakin og sofin um að hugsa vel um landið okkar. Landgræðsla er góð, þar sem hægt er og þá hellst með þeim aðferðum sem bændur hafa stundar, að gera rýr svæði gjöfulli með því að mynda jarðvegsþekju. Þetta hefur reynst einstaklega vel og hundruðir hektara komnir undir gróður vegna þessa starfs.

Lúpína getur undir einstaka tilfellum verið réttlætanleg, en hana þarf að meðhöndla varlega og koma fram við hana og virða sem rándýr.

Skógrækt hefur aukist gífurlega hér á landi. Eðli hennar er að afrakstur sést seint. Því miður er þarna stundum farið offari, enda lítil sem engin stýring á þessu. Skógrækt má nýta sem skjólbelti og mætti nýta sem slík til hjálpar við erfið vindasvæði. Skógrækt til nýtingar er auðvitað sjálfsögð og þar hefur orðið gífurleg aukning hin síðari ár.

Óbeisluð skógrækt á víðáttum landsins, ætti hins vegar að fara ákaflega varlega í og hafa um hana skýr mörk. Þetta gæti lagt í rúst eina undirstöðu hagkerfis okkar, ferðamennskuna. Enginn erlendur ferðamaður kemur til Íslands til að skoða tré, af þeim hafa flestir nóg í eigin landi. Erlendir ferðamenn koma hingað til að skoða víðáttuna, njóta þess að sjá landið sjálft.

Þú fyrirgefur svo þessa löngu athugasemd mína Sigurður.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 13.6.2016 kl. 21:25

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Samkvæmt því sem MAST upplýsir hefur sauðfé fækkað un nærri 40% á s.l. 33 árum. Það ásamt hlýnandi tíðarfari hefur haft það í för með sér að víða á landinu hefur gróðurþekja stóraukist. Mér finnst menn gera allt of mikið úr því að landið sé stöðugt að blása upp. Auðvitað þekki ég ekki  vel öll svæði landsins en Mýrdalinn þekki ég eins og handarbakið á mér. Þar hafa í mínu minni gróið upp gríðarleg stór landflæmi. Þar hafa komið við sögu samverkandi þættir, mannshöndin, batnandi tíðarfar og minna beitarálag.  Þó er Mýrdalurinn, eftir því sem ég best veit enn merktur sem uppblásturssvæði á kortum landgræðslunnar. Gæti ekki verið að eins væri farið öðrum landsvæðum.

Þórir Kjartansson, 13.6.2016 kl. 22:28

3 identicon

Það er kannski til að æra óstöðugan að reyna að svara öllu því sem Gunnar skrifar en það má t.d. nefna að landnámsmennirnir og síðari Íslendingar gerðu ekki bara það að höggva skógana, landnámsmennirnir gerðu það sem margar menningarþjóðir hafa gert í gegnum söguna, hreinlega brenndu líka skógana í stórum stíl til að auðvelda sköpun beitilands.
https://en.wikipedia.org/wiki/Slash-and-burn
Sauðkindin kom svo í veg fyrir endurnýjun birkiskóganna með því að éta teinunga af hoggnum trjám sem og ungplöntur. Ástæðan fyrir því að rýrir lyngmóar eru helsta gróðurgerð landsins er einfaldlega að þjóðin þurfti að ganga á frjósemi landsins til að rækta sínar kindur. Að bera fjölda búfjár við það þegar mest var af því er skekktur samanburður, það þýðir ekki að færra fé hafi ekki haft áhrif áður ásamt köldu veðurfari)
Einkennilegt er að halda því fram að eldvirkni hafi haft svo mikil áhrif, hún vissulega leggst á sem eitt eyðingaraflið en eldvirkni var ekki meiri eftir landnám og hefur ekki haft þau áhrif ein að eyða skógum, það sanna skógarnir fyrir landnám þar sem eldvirkni var svipuð. Birki er aukinheldur harðgert tré sem nægir sumarhita upp á 7.9°C til að lifa af, það hefði vel lifað á mörgum stöðum þar sem því var eytt á síðari kuldatímum.(enda lifði það af á stöðum sem voru lítt mann og fjárgengir). Birkið (sem er með mikinn genafjölbreytileika )hefur auk þess úrkynjast gegnum tíðina þar sem helst stærstu og bestu trén hafa verið tekin og þau ekki getað komið sínum genum áfram.
p.s. svo ætti maður að vera ánægður að dásemdarblómið og niturgjafinn lúpínan nenni að græða upp einhverja gróðursnauða mela. Endilega bara planta metra birki í það ef hún skyggir eitthvað út :)

Ari E (IP-tala skráð) 13.6.2016 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband