Kvennaboltinn ómengaður af tuði, nöldri og hópmóðgunum

KR sigraði FH í bikarleik í knattspyrnu í gærkvöldi í rigningu. Horfði á leikinn í sjónvarpi af því að útivistarmaðurinn nennti ekki út í rigninguna, en það er nú önnur saga.

Um leið og ég kættist yfir úrslitunum og ekki síður hvernig KR liðið var skipað, fannst mér leiðinlegt að sjá hvernig leikmenn beggja liða brugðust við ákvörðunum dómarans. Svo hrikalegar voru aðfarirnar að manni fannst sem þær vörðuðu lífsafkomu viðkomandi leikmanna og framtíðarhorfur.

Þeir sem betur eru að sér í fótbolta halda því fram að þetta sé meðvituð ákvörðun leikmanna, þeim sé einfaldlega kennt að „terrorisera“ dómara. Þá séu minni líkur á því að þeir dæmi gegn liði hávaðaseggja. Margt má ugglaust um þetta segja en mér nákomnir segja það tóma vitleysu að mótmælin séu hluti af þjálfun. Ég tek það mátulega trúanlegt.

Svo víkur sögunni að kvennafótboltanum, ekki þeim hér á landi, sem er furðulega keimlíkur karlafótbolta, það er viðbrögðum við ákvörðunum dómara, heldur heimsmeistaramótinu sem lauk í gær í Kanada. Þar var leikinn frábær fótbolti. Í morgun las ég dálk í Morgunblaði dagsins sem nefnist Pistill og þar skrifar Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður. Hún segir eftirfarandi um heimsmeistaramóti og ég er fyllilega sammála henni:

Það var reyndar hálffurðulegt í fyrstu að sjá heilu leikina rúlla þannig áfram hnökralaust. Þannig var sjaldséð að nokkur leikmaður gerði sér mat úr smá tæklingu og færði í stílinn svo ætla mætti að andstæðingurinn hefði stuðað hann með rafbyssu.
Sömuleiðis voru leikirnir nær ómengaðir af því að þurfa að horfa á leikmenn elta dómarann með ýmist smávægilegu tuði og nöldri eða króa hann inni í háværri hópmóðgun yfir dómum eða ekki dómum.

Knattspyrnan sem spiluð hefur verið í Kanada hefur verið bæði falleg og hrein, ómenguð af þeirri ofurfrægð, ofdekri og peningahyggju sem er stundum að drepa karlaknattspyrnuna.
Þó hefur síður en svo vantað upp á spennu í anda heimsins bestu leikbókmennta, þar sem undanúrslitaleikur Japans og Englands verður að teljast til eftirminnilegri knattspyrnuleikja fyrr og síðar. [...]

Það loðir við orðfærið í karlaknattspyrnunni að leikmenn sem þola illa tæklingar eru kallaðir »kerlingar«. Eftir að hafa horft á HM í Kanada eru slík ummæli þvættingur - þar standa leikmenn af sér brot án vafsturs og vesens.

Ég velti stundum fyrir mér orðfæri í fjölmiðlum og gagnrýni það á stundum. Staðreyndin er að blaðamenn rita oft á tíðum undarlegt mál, þó ekki eins skrýtið og ég geri í upphafi. Þar eru fjórar forsetningar í röð, ekki beinlínis vitlaust (held ég) en stórskrýtið. Vandaðri textasmiður en hefði eftir yfirlestur umorðað málsgreinina: „KR sigraði FH í bikarleik í knattspyrnu í gærkvöldi í rigningu.“ Staðreyndin er nefnilega sú að gagnrýninn yfirlestur dugar yfirleitt þeim sem skrifa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þeir sem skrifa, lesa sjaldnast það sem frá þeim fer. Pínulítið íslenskur blaðamannastíll?, finnst þér ekki?.

"KR hraunaði yfir FH í bikarleik og skýfalli gærkvöldsins"...

Þetta er kúl!;-)

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2015 kl. 05:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband