Eru það ökukennararnir sem skapa vandmál í umferðinni?

Draga má í efa að ökukennarar séu starfi sínu vaxnir. Sífellt fleiri ökumenn brjóta grundvallaratriði. Fæstum er um að kenna nema ökumönnum sjálfum ... og þeim sem kenna þeim.

Hér eru dæmi:

  1. Alltof margir kjafta í síma undir akstri og gerir ábyggilega annað hvort illa. Verra er þegar kjaftagangurinn í símanum truflar aksturinn en það er alltaf raunin. Fæstir kunna að aka bíl þegar síminn er við eyrað.
  2. Alltof margir hangsa á vinstri akrein og tefja þannig fyrir öðrum. Sá sem ekur á vinstri akrein og fer jafnhratt eða hægar en bíllinn sem er hægra megin er einfaldlega á röngum vegarhelmingi. Annars er furðulegt að fylgjast með því hversu margir velja vinstri akrein. Ef til vill er það sálfræðilegt, hugsanlega finnst fólki það vera eitthvað öruggara að hafa kannsteininn vinstra megin.
  3. Víða háttar þannig til að tvær akreinar verða að einni. Furðulegt er að fylgjast með því óðgoti sem grípur marga ökumenn sem ætla beint áfram en upgötvar að vinstri akreinin endar í vinstri beygju en sú hægri er beint áfram. Á síðustu stundu vaða þeir hugsunarlaust yfir á hægri akrein og valda stundum stórhættu.
  4. Fólk á það til að gleyma sér á beygjuljósum til vinstri. Þau loga oftast skemur en önnur ljós og því veitir ekki af að ökumenn séu vakandi og drífi sig af stað þegar hið græna kviknar.
  5. Tillitssemi ökumanna er einatt lítil gagnvart bílum sem koma inn á tveggja akreina götur. Þá ætti að vera sjálfsagt að víkja yfir á hina akreinina og auðvelda þannig öðrum aðkomuna. Nei, þess í stað halda margir að þeir eigi fyrsta veðrétt á sinni akrein og gefa hana alls ekki upp.
  6. Stefnuljós virðist lítið notað sem er miður því þau eru frábær uppfinning.
  7. Skrýtnast er að aka á eftir silakepp til dæmis á leiðinni upp á Hellisheiði. Fjári margir aka frá Rauðavatni í hægðum sínum, 70 til 80 km á klst meðalhraða. Þegar komið er að Lögbergsbrekku er boðið upp á tvær akreinar á austurleið og þá skyndilega uppgötvar silakeppurinn að hann getur farið hraðar og er þá óðar kominn yfir eitt hundraðið. Já, stórskrýtið.

Fleira mætti nefna sem mér finnst hafa farið á verri veg hjá ökumönnum undanfarna áratugi. Hef oft velt þessum málum fyrir mér og kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að ökukennarar hljóti að sinna starfi sínu slælegar en þeir gerðu hér áður fyrr. Held þessari skoðun þangað til ég frétti af einhverju gáfulegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gott að vita til þess að tuðið í manni, í umferðinni, út í þessa í sjö liðunum, er ekki einskorðað við Tuðarann einan. Kærar þakkir fyrir upptalninguna. Þetta versnar með ári hverju, en sennilega ekki við kennarana að sakast, heldur bjálfahátt og lélega eftirtekt.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.7.2015 kl. 01:58

2 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

Það eru orðin 10+ ár síðan ég keyrði í umferð á Íslandi og sakna þess lítið!  Ég vildi miklu heldur keyra um í stórborgum hér vestan hafs heldur en í Reykjavík.  Í fyrsta skipti sem ég kom hingað til USA árið 1991 þá keyrði ég hér eitthvað um 3.000km, reyndar ekki í kröppum dansi borgarumferðar, en fór þó nokkrar ferðir til Seattle.  Hvergi lenti ég í vandræðum fyrir utan smá villur hér og þar, enda GPS í síma óþekkt fyrirbæri á þeim tíma.  Man reyndar ekki hvort það var búið að finna up GPS árið 1991, en það skiptir svosem ekki máli.  Áður en ég komst út úr Reykjavík, eftir heimkomuna frá USA, hafði ég næstum því lent í árekstri þrisvar sinnum, sem var þrisvar sinnum oftar en ég lenti í á þessum 3000km í Bandaríkjunum!

Ég bjó í 9 ár í San Antonio, Texas, þar sem íbúafjöldi er yfir ein milljón og keyrði þó nokkrum sinnum í bæði Dallas og Houston.  Reyndar á Seattle metið í bílaumferð í þessum borgum, veit ekki alveg hvers vegna, held það sé vegna þess að Seattle og Tacoma eru samvaxnar og mynda langan borgarkjarna, meðan San Antonio, Houston og Dallas eru tiltölulega kringlóttar, með hringbrautum, sem auðveldar umferð að komast leiðar sinnar.  

Ekki þar fyrir að ökumenn hérna geta verið alveg jafn slæmir og þeir íslensku, en það er langt frá því að vera eins algegnt.  Ég kannast hinsvegar við alla punktana sem þú telur upp úr umferðinni hérna á vestur vígstöðvunum;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 4.7.2015 kl. 23:24

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Flest þessara atriða tengjast því að margir ökumenn eru fyrst og fremst að hugsa um sinn eiginn akstur og eru lítið að velta fyrir sér hvort þeir tefji fyrir öðrum. Held það snúist mikið um persónugerð. Svo eru margir eldri borgarar sem halda sig á gjarnan á vinstri akgrein eins og þeir hafa alltaf gert frá því þeir lærðu á bil á tímum vinstri umferðar.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.7.2015 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband