Tíu ára til altaris hjá síra Arngrími

Líklega vorum við félagarnir tíu ára, ég og Gaui æskufélagi minn, Guðjón Eiríksson. Við bjuggum í Barmahlíðinni og stóðu húsin okkar hlið við hlið. Hann í númer fjörtíu og fjögur og ég númer fjörtíu og sex. Við vorum vinir frá því við hittumst fyrst, ég var fjögurra ára og hann fimm ára. Mér er það enn í björtu barnsminni að hafa aldrei heyrt þetta nafn fyrr og það böðlaðist fyrir mér að muna það og bera fram. Þess í stað kallaði ég hann Þorgeir, fannst það mun léttara í framburði ... Pabbi sagði alltaf Guji, kannski það hafi verið breiðfirskur framburður.

Eina sögu kann ég af síra Arngrími. Ég held að við Gaui höfum verið í kringum tíu ára aldurinn. Þá var Háteigskirkja nýbyggð og tveir prestar höfðu verið vígðir þangað og orðspor þeirra mikið. Þetta voru þeir síra Jón Þorvarðarson og síra Arngrímur Jónsson. Sá fyrrnefndi fermdi mig og ég sé það í Morgunblaðinu að síra Arngrímur er borinn til grafar í dag. 

Við Gaui ákváðum að fara í kirkju einn sunnudaginn. Það var nú ekki venja ungra stráka á þeim árum að fara í kirkju, ekki frekar en í dag. Hins vegar höfðum við klifrað upp á þak Háteigskirkju meðan hún var í byggingu og því ekki nema eðlilegt að skoða hana að innan. Að auki höfðum við farið á hverjum sunnudegi í mörg ár í sunnudagsskóla KFUM á Amtmannsstíg og ekki haft nema gott af.

Jæja, við örkuðum inn í kirkjuna og settumst dálítið framarlega. Líklega hefur þetta verið eitthvað fyrir páska eða um páska, því þegar liðið er nokkuð á messuna og við búnir að geispa mikið, standa skyndilega allir upp en og ganga upp að altarinu og við sitjum einir eftir á bekknum Við lítum á hvorn annan, ræðum málin í flýti, og sjáum okkur ekki annað fært en að gera það sem allir aðrir voru að gera, vildum ekki skera okkur úr. Við hröðuðum okkur upp að altari og komum okkur fyrir í röð sem lá til einhvers sem okkur var ókunnugt um hvað væri.

Og röðin þokast nær einhverju og allt í einu erum við komnir á hnén eins og allir hinir og fyrir framan okkur stendur síra Arngrímur Jónsson, prestur, brúnaþungur mjög, og spyr með djúpri röddu.

„Hvað eru þið gamlir, drengir mínir?“.

Við svörum auðvitað sannleikanum samkvæmt, dálítið skömmustulegir án þess að vita hvers vegna.

Þá segir presturinn: „Jæja, það getur varla skaðað neitt“. Og við þáðum þarna hið heilaga sakramenti í fyrsta sinn á ævinni, vín og brauð, líkama og blóð Krists.

Þegar ég sagði foreldrum mínum frá þessu hlógu þó mikið og sögðu að enginn ætti eiginlega að fara til altaris fyrr en hann væri fermdur. Og hvað sagði presturinn ... og hvernig var svipurinn á honum. Út á þetta gengu samræðurnar við kvöldverðarborðið þennan sunnudag.

Síðan hef ég ekki rætt neitt við síra Arngrím og nú er hann dáinn, rúmlega níræður. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband