Þagna kúabjöllur eða hljóðna ...?

Mikið var ég kátur þegar landsliðið sigraði það norska í Evrópumótinu í handbolta í gær. Ekki það að ég fylgist svo ýkjavel með þessari íþrótt heldur hitt að ég læt fjölmiðlanna hafa áhrif á mig, flýt svo að segja gagnrýnislaust með. Þannig er það áreiðanlega með fleiri.

Svo las ég fyrirsögnina í íþróttablaði Morgunblaðsins í morgun og þá vaknaði gagnrýnin hugsun, eiginlega upp úr þurru. Velti því fyrir mér hvort það sé málfarlega rétt sem þar segir. „Kúabjöllurnar þögnuðu“ stendur undir góðri mynd af hinum glæsilega handboltamanni Guðjóni Val Sigurðssyni. Mér finnst ómögulegt að kúabjöllur hafi mál og held þar af leiðandi að betra hefði verið að segja í fyrirsögn: Kúabjöllurnar hljóðnuðu.

Hins vegar getur þetta verið spurning um smekk en víst er að kýr baula oft mikið en þegja svo langtímum saman. Við þetta má því bæta að þær tala mannamál á nýársnótt ... Eða er það þannig að menn skilja mál kúa á þeirri nóttu?

Svo er að ef til vill þannig að inn ágæti höfundur fréttarinnar í blaðinu, Ívar Benediktsson, sem hingað til hefur ekki verið sakaður um að fara með fleipur, gæti einfaldlega átt við að Norðmenn hafi verið sem kúabjöllur og þeir því þagað „einum rómi“ eftir útreiðina sem þeir fengu frá landsliðinu.

Og að lokum má benda á að það vorum ekki við ... sem unnum Norðmenn heldur landsliðið í handbolta. Allt of oft eignar fólk sér frækin sigur og segir frá honum í fyrstu persónu fleirtölu (þó aldrei eintölu). Þegar landslið tapa er hins vegar miklu, miklu sjaldnar þannig sagt að „við“ höfum tapað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband