Esúbíó á Laugardalsvellinum

Benfika

Dags daglega var hann kallaður Esúbíó, eða þannig báru tólf ára strákar nafn þessa fræga manns fram. Hvort hann var snillingur vissum við auðvitað ekki en orðspor hans var rosalegt og því kom ekkert annað til greina en að fara á völlinn og sjá manninn. 

Í þann tíð var ég auðvitað Valsari og er raunar innst inni enn rauður ... þó svo að síðustu tuttugu og fimm árin hafi maður hvatt KR enda gerði ég eldri soninn ég að KR-ingi er hann var sex ára. Annað kom ekki til greina enda þá búandi fimmtíu metrum frá KR-vellinum. Það er nú hins vegar allt annað mál.

Eiginlega man ég fátt eftir þessum leik milli Vals og Benfíka nema hvað þeir síðarnefndu voru áberandi sólbrúnni. Ég man ekki einu sinni eftir því með hverjum ég fór á völlinn en þó man ég hvar við fengum stæði. Það var í norðvesturhlutanum, sem þá var eiginlega ekki neitt neitt fyrir áhorfendur. Minnir að við stæðum í malarbrekku sem núna er auðvitað löngu horfin. En mikið asskoti var margt fólk þarna. Hef aldrei séð annað eins, hvorki fyrr né síðar.

Svo birtist þessi frétt í Morgunblaðinu í Morgun og jafnvel hún kom mér á óvart. Minnti endilega að Valsarar hafi leikið í rauðu en þeir voru greinilega í hvítu. Siggi Dags í markinu, bara nafnið vekur minningar um æskuhetju.

Það var hins vegar þetta með jafnteflið. Síðan maður komst til vits og ára hefur maður margoft séð slök lið leika á móti þeim betri og eiga ekkert annað í pokahorninu en að pakka í vörn og búa þannig til allt annan leik en fótboltaleik. Það var eiginlega ekkert merkilegt við það að Valur skuli hafa haldið hreinu, eiginlega hefði það verið stórundarlegt hefði boltinn ratað aftur fyrir Sigga Dags.

Minnir mig á leikinn í sumar þegar KR-ingar tóku á móti óskaplega slöku írsku liði sem pakkaði í vörn allan leikinn, leikmenn stunduðu dýfur sem sumar hverjar voru mikið augnayndi en tengdust fótbolta ekki frekar en ég veit ekki hvað. Svo fögnuðu þeir gríðarlega í leikslok enda ætluðu þeir að stóla á heimaleikinn og slá KR-ingana út. Það tókst hins vegar ekki enda, eins og áður sagði, óskaplega slakt fótboltalið.

Valsarar stunduðu þá ekki dýfur frekar en Portúgalarnir. Þá var ekki búið að finna þær upp. Menn spiluðu bara eins og menn ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einu tilþrifin sem Eusebio gat sýnt var þegar boltinn datt dauður niður við tána á honum og hann skaut firnaföstu skoti úr kyrrstöðu á sama sekúndubrotinu sem rétt sleikti stöng.

Ég hef ekki fyrr né síðar séð neinn leika svona eftir.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2014 kl. 18:31

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hann komst þó alla vega í liðið, jafnvel fyrir þessa takta ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.1.2014 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband