PR maðurinn sem breytti Samfylkingunni - og stjórnmálunum

Allt frá því að Samfylkingin var stofnuð og lengi síðar vakti það athygli að Samfylkingin var yfirleitt með landsfundi eða flokksstjórnarfundi ofan í sömu fundum Sjálfstæðisflokksins. Þetta var með vilja gert og til þess að fá helming þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk vegna landsfundar. Sí og æ var Samfylkingin ósjálfrátt borin saman við Sjálfstæðisflokkinn og um hana var rætt í sömu andrá. Það skilaði árangri.

Þegar horft er til baka hófst sérkennilegur tími sem raunar má rekja aftur til ársins 2003, þremur árum eftir stofnun Samfylkingarinnar. Einnig til þess er Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður í maí 2005. Hún styrkti sambandið við almannatengslamann sem verið hafði flokknum til ráðgjafar í nokkur misseri, mann sem hafði sjálfur verið starfandi á vinstri hlið stjórnmálanna. Hann kom úr Fylkingunni, síðar Þjóðviljanum, þekkti þar alla innanbúðar, var sjálfur róttækur en sjálfmenntaður í auglýsingagerð og síðar almannatengslum. Við stofnun Samfylkingarinnar fór hann með fjölda Alþýðubandalagsmanna og yfirgaf „kverúlantana“ sem síðar stofnuðu Vinstri græna.

Smám saman breyttist ásýndi stjórnmálanna, Samfylkingin stýrði þeim í upphafi og þar var almannatengslamaðurinn hugmyndafræðingurinn. Innan flokksins réði forystan sér ekki fyrir fögnuði. Nú var komin leyndarstefna sem frá fyrsta degi virtist hafa jákvæð áhrif.

Samfylkingin átti að verða stærst stjórnmálaflokka. Til að svo mætti verða var forystu flokksins ráðlagt að ráðast miskunnarlaust gegn einum manni og í honum holdgerður óvinurinn eini og sanni. Með þessu átti að losna við Davíð Oddsson, sem var talinn stórhættulegur krötum.

Hin fræga Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur markaði upphafið. Þá var sú einfalda og árangurríka stefna mörkuð innan Samfylkingarinnar að ráðast á vegginn þar sem hann er hæstur, klifa á „sannindum“ eða með orðum Richard Nixons: „Let the bastards deny it“. Það er koma með ásakanir, helst um spillingu og misferli með almannafé, jafnvel rangar ásakanir, og sjá síðan hvernig andstæðingunum tækist að afneita þeim. Með öðrum orðum gera formann Sjálfstæðisflokksins tortryggilegan. Það tekur sinn tíma, sagði almannatengslamaðurinn, en það skilar sér í minna og minna fylgi flokksins og þar með betra gengi Samfylkingarinnar.

Við þurfum bara að starta herferðinni og innan skamms gengur hún eins og eilífðarvél, sagði hann og hafði rétt fyrir sér. Davíð hefur aldrei síðan fengið nokkurn grið. Þó svo að vel hafi verið að verki staðið var svona herferð eins og hið álstralska vopn bumberang. Það fór hringinn og kom loks í bakið á Samfylkingunni, varð til þess að moldhaugabloggarar urðu til af því að allt í einu var sem öll vopn voru leyfð og málefnalegar umræður urðu lítið vinsældar. Þetta varð Samfylkingunni nærri því  að fjörtjóni, þó það gerðist löngu síðar.

Gróa á Leiti hefur jafnan verið dyggasti liðsmaður hins ófyrirleitna stjórnmálamanns en það krafðist þekkingar, útsjónarsemi og karakters að slíta samstarfi Gróu við stjórnmálamanninn og setja hana beinlínis í lið með moldhaugabloggurum og ruddaliðinu í athugasemdadálkum fjölmiðla. Þetta tókst almannatengslamanninum og fyrir vikið urðu þeir ófyrirleitnu stjórnmálamenn Samfylkingarinnar stikkfrí, gátu vitnað í „almenning“.

Sjálfstæðismenn áttu ekki nokkurt svar við þessari árás Samfylkingarinnar undir skipulagi almannatengslamannsins. Skildu ekki hvað var að gerast og jafnvel Davíð Oddsson áttaði sig líklega ekkert á stöðu mála fyrr en löngu síðar. Þá var hrunið yfirstaðið og hann gat litið rólegur til baka. 

Hvað varðar almannatengslamanninn, þá var starf hans á fárra vitorði. Svo leynt fór það að hann starfaði fyrir ýmsa Sjálfstæðismenn í prófkjörum þeirra, þó yfirleitt með arfaslökum árangri, enda fylgdi því starfi engin sannfæring, var aðeins féþúfa í augum hans.

Smám saman hefur hann þó komið upp á yfirborðið, meðal annars sem milligöngumaður um launagreiðslur.

Það sem núna vantar eru upplýsingar úr innsta hring Samfylkingarinnar. Brátt kemur þó að því að þeir stjórnmálamenn sem þekkja til fara að hætta. Í sjálfsánægju sinni munu þeir vita viðtöl og skrifa minningar sínar og þá er við því að búast að sagan um upphafið að skipulögðum árásum á Sjálfstæðismanna komi upp á yfirborðið.

Brot og brot raðast upp hér og þar og ef til vill á bókin „Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun“ eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson eftir að varpa lítilsháttar ljósi á þessi mál.


mbl.is Bloggher gæti komið til varnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband