Ensk nöfn á innlendum fyrirtækjum

Víkverji er ekki sérlega hrifinn af því nýmæli að nefna íslensk fyrirtæki útlendum nöfnum. Um daginn las hann viðtal við framkvæmdastjóra hótela Flugleiða nema hvað talað var um Icelandair Hotels. Víkverji áttar sig ekki á hvaða markaðssjónarmiðum það þjónar að tala um hótelin upp á ensku. Í það minnsta styggist Víkverji við svona tiktúrur og er þó yfirleitt skapgóður, að minnsta kosti að sumarlagi.

Ofangreint er að finna í pistli sem nefnist Víkverji og birtist daglega í Morgunblaðinu. Mér skilst að blaðamenn skiptist á að skrifa hann. Ég tek undir með Víkverja dagsins.

Ég man að á unglingsárum mínum var oft talað um þessa áráttu að nefna fyrirtæki útlenskum nöfnum og fylgdi jafnan að eflaust þætti eigendum þeirra íslensku nöfnin ekki nógu fín. Á ferðum mínum hef ég komist að því að þess gætir hjá flestum þjóðum að einhverjir nefni fyrirtæki útlenskum nöfnum og þá sérstaklega enskum.

Sumir segja að ensk nöfn séu ómetanleg aðstoð fyrir útlendinga. Ég held að þetta sé rangt og tek bara eign reynslu sem dæmi. Mér finnst til að mynda lítið mál að ferðast um Evrópu og þurfa að leita uppi fyrirtæki af ýmsu tagi sem bera heiti á viðkomandi tungumáli.  Því til viðbótar má nefna að allflestar götur bera nöfn sem eru á því tungumáli sem í landinu er talað. 

Ég vona að aldrei komi til þess að íslenskar götur og örnefni beri útlensk nöfn. Þó er dæmi um örnefni. Morinsheiði á Goðalandi er sagt bera nafn William Morris, enskum herramanni sem ferðaðist um Ísland á árunum 1871-74. Hann mun þó aldrei hafa stigið fæti á þetta fallega fjall sem af einhverjum ástæðum er til viðbótar nefnt „heiði“. 

Útlendingur leitar ekki eftir enskum heitum á fyrirtækjum. Finni hann slík nöfn undrast hann. Minnir að sá hafi verið Englendingur sem spurði mig hvort íslenskan væri svo fátækt mál að baðstofa við Laugarvatn væri nefnd Fontana eða að rútubílafyrirtæki heiti Iceland Excursion. Ef til vill liggja einhver markaðssjónarmið að baki svona nafngiftum en ég dreg það stórlega í efa.

Útlend nöfn á íslenskum fyrirtækjum eru annað hvort merki um algjört virðingarleysi fyrir menningu þjóðarinnar eða bara einfaldur þekkingarskortur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eða það að útlendingar geta ekki skrifað stafi eins og þ og ð, það væri því sérlega óhentugt að hafa slíka stafi í nafni aðila sem þarf að vera í samskiptum við og vera opinn fyrir því að erlendir aðilar geti fundið þá á internetinu...

Held það myndi t.d. valda íslendingum vandræðum þegar þeir væru að plana ferðalög til t.d. Asíu eða landa með annað kerfi bókstafa en hér, ef hótel og aðrir í viðkomandi löndum hefðu allt á eigin tungumáli

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 14.8.2013 kl. 10:30

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Við erum nú ansan ári fljót að átta okkur á erlendum heitum. Í Grikklandi og jafnvel í Asíu er oft notað rómanskt letur samhliða. En satt er það, ég væri alla vega frekar slappur að látta mig á merkingu japanskra tákna, kínverskra eða álíka. Annars væri gaman ef hótel héti Öndverðanessþing, svo maður skáldi nú eitthvað upp með ö, ð og þ. Held að það sé engum útlendingi ofraun, miklu frekar að slíkt veki áhuga og forvitni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.8.2013 kl. 10:55

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Hvað sem mönnum finnst um útlensk nöfn á fyrirtækjum, þá er það nú örugglega ekki nýmæli, eins og Vikverji segir. Í byrjun síðustu aldar var fyrirtæki hér í höfuðborginni sem hét "Thomsens Magazin" og það er meira en öld síðan.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 14.8.2013 kl. 11:08

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góð athugasemd. Eftir að verslun Thomsens hætti hefur engin verslun haft magasín í nafni sínu ... held ég.

Nefna má heiti fleiri danskra verslana, t.d. Tang & Ris í Stykkishólmi.

Á Ísafirði var Ásgeirsverslun sem stofnuð var löngu fyrir þar síðustu aldamót, varla datt honum í hug að kalla verslunina Asgeirs Magasin eða álíka enda var Ásgeir eldri handgenginn Jóni forseta og undir áhrifum hans.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.8.2013 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband