Hlunnfer ríkið okkur með krónunni?

Reynsla El Salvador af einhliða upptöku annarrar myntar er því góð, þótt hún hafi ekki leyst öll þjóðfélagsvandamál, en fátt ætti að vera fjær íhaldsmönnum en að gera slíkar kröfur til stofnana samfélagsins.  

Fólk skiptist í tvö horn hvað varðar upptöku á nýjum gjaldmiðli. Raunar eru  þau þrjú. Ég hygg að meirihluti landsmanna vilji halda í krónuna, þó erfið sé. Lítill minnihluti vill taka upp Evru, ýmist með því að ganga í Evrópusambandið eða gera það einhliða. Og svo er það þriðji hópurinn sem horfir til bandaríkjadollars, kanadadollars eða annarra gjaldmiðla.

Í Morgunblaðinu í morgun ritar Heiðar Guðjónsson grein undir fyrirsögninni „El Salvador og einhliða upptaka annarrar myntar“. Í henni, sem er andsvar við grein eftir Gunnlaug Snæ Ólafsson, formanns Félags íhaldsmanna, rekur Heiðar í stuttu máli hvernig staðið var að upptöku bandaríkjadollrs í landinu. Tilvitnunin hér í upphafi er úr þessari grein.

Í raun held ég að ástæðu þess að Heiðar vill að Íslendingar taki upp aðra mynt kristallist í lokaorðum hans. Eiginlega er hægt að samþykkja það sem hann segir og það er síðan hvers og eins að meta hvort þetta séu næg rök til að fallast á upptöku annarrar myntar fyrir Ísland (leturbreytingar eru mínar).

Það getur varla verið markmið íhaldsmanna að ríkið gefi út gjaldmiðil sem það notar til að hlunnfara þegna sína með verðbólgu og gengisfellingum. Það getur varla verið markmið að ríkið neyði þegnana til að nota mynt sem torveldar viðskipti þeirra þar sem hún heldur ekki verðmæti sínu og útilokar þegna ríkisins frá alþjóðaviðskiptum. Almenningur á að stýra sínum eignum sjálfur, en ekki láta miðstýra verði þeirra af opinberum embættismönnum. Eina leiðin til að njóta alþjóðlegra lífskjara er með því að hafa aðgang að alþjóðlegum mörkuðum. Íslenska krónan er valdatæki ríkisins yfir þegnunum og dugar vel sem slík en illa í viðskiptum. Hvað er það sem íhaldsmenn vilja halda í? Arfleifð haftanna á Íslandi eða sögulega arfleifð hagsældar og frjálsra viðskipta? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband