Nútíminn í ógöngum í Sádi-Arabíu

Konur í Sádi-Arabíu búa í steinrunnu kerfi. Andlit konungsfjölskyldunnar sjást um allt, andlit kvenna eru bak við slæðu, hulin með valdi. Hvergi annars staðar í heiminum er nútíminn í öðrum eins ógöngum. Skýjakljúfar rísa úr eyðimörkinni, en konur mega ekki taka sömu lyftu og karlar. Þær mega ekki heldur ganga um götur, aka bíl eða fara úr landi án leyfis karlkyns vörslumanns.
 
Af mörgum góðum aðsendum greinum í Morgunblaðinu í morgun, 23. júní, er sú eftir Mai Yamani sú átakanlegasta. Hún ræðir um stöðu kvenna í Sádi-Arabíu og eins og má lesa hér að ofan eru konurnar eiginlega ekkert annað en húsdýr. Þær hafa eiginlega engin réttindi á borð við karla.
 
Höfundurinn, Mai Yamani er fædd í Egyptalandi, móðir hennar er frá Íran og faðirinn frá Saudi-Arabíu. Hún er vel menntuð, lærði mannfræði á vesturlöndum, hefur kennt í Sádi-Arabíu en er nú eftirsótt sem álitsgjafi um Islam og stjórnmál í arabalöndum.
 
Í greininni segir hún frá borgaralegri óhlýðni kvenna:
 
21. maí rauf hugrökk kona, Ma- nal al Sharif að nafni, þögnina og doðann og dirfðist að brjóta bannið við að konur setjist undir stýrið. Í viku mátti hún dúsa í fangelsi í Sádi-Arabíu. Innan tveggja daga frá því að hún var sett í hald höfðu 500 þúsund manns horft á ferðalag hennar á YouTube. Þúsundir kvenna, óþreyjufullar og niðurlægðar vegna bannsins, studdu „ökudag“ 17. júní og tóku samkvæmt baráttusíðunni á Facebook 42 konur þátt í að brjóta bannið. 
 
Af þessu og fleiru má ráða að konur eru tvímælalaust það afl sem einræðisstjórnir í arabalöndum þurfa mest að óttast. Rísi þær upp, allar sem ein, munu hinar friðsömu byltingar í Egyptalandi og Túnis virðast sem gárur á vatni í samanburðinum. Bylting arabískra kvenna munu gjörbreyta arabaheiminum öllum hvort sem körlum líkar það vel eða illa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband