Brókarsvifting í fárvirði á Fimmvörðuhálsi

mynd013_979881.jpg
Veður eru válynd á Fimmvörðuhálsi. Það vitum við nokkrir félagar afar vel. Höfum lent í mörgum hrakningum þarna uppi.
 
Hér á eftir fer lítil saga um neyðarlega hetjuför sögumanns. Tildrögin voru þau að hleri við útidyr á Fimmvörðuskála vildi ekki lokast. Eina ráðið virtist vera að fara út í brjálaða norðaustanáttina og reyna að þrýsta á hann. Að því loknu átti sögumaður að fara upp í stiga á austurgaflinum og smokra sér inn um glugga sem er þar uppi í rjáfri. En ekki fer allt sem ætlað er.
 
Vindurinn æddi með ógurlegum hvin og krafti upp bratta hlíðina upp á hálsinn þar sem Fimmvörðuskáli stendur. Ég stóð úti og reyndi að hreinsa frá efri dyrahleranum svo hann gæti lokast. Hann lokaðist - loksins. Ég stóð einn úti og hugsaði mitt ráð. Áður en ég fór út hafði ég sagt félögum mínum að ég myndi reyna að loka hleranum og koma síðan inn um efri gluggann á austurgaflinum. Frá því að við höfðum sammælst um þetta hafði heldur betur bætt í veðrið. Nú var varla stætt. 
 
mynd019.jpg
Og þar sem ég í senn barðist við að halda jafnvæginu og reyna að hugsa rann ég skyndilega til á klakabunkanum. Meðan ég reyndi að komast hjá því að detta dansaði ég ósjálfrátt og óviljugur að skálahorninu. Gerðist nú margt í sömu andrá. Vindurinn greip í mig, feykt undan mér fótunum og ég féll á kaldan klaka. Um leið og ég fann að ég var að fjúka greip mig fát og fyrir einhverja glópalukku náði ég taki á ísklumpi á grjóthleðslunni.
 
Þannig lá ég lá á fjórum fótum í stellingu sem oft má sjá múhameðstrúarmenn á bænastundum. Þá tók ekki betra við. Vindurinn náði að blása undir úlpuna mína að aftan og ég fann um leið að rennilásinn gaf eftir og rifnaði upp að framan og við það fauk úlpan upp fyrir höfuð, um leið losnuðu snjógleraugun og fuku út í veður og vind.
 
mynd027.jpg
Ósjálfrátt sleppti ég takinu á ísnum enda var flíkin ekki virðulega á mér, en um leið rofnuðu jarðtengsl mín. Ég fálmaði eftir einhverju til að halda mér í, náði í hurðarkarminn, en við það snerist ég á ísnum og þá náði vindurinn að blása niður í utanyfirbuxurnar og svipti þeim með snöggu átaki niður að hnjám. 
 
Ég sá nú sæng mína útbreidda, ef svo má að orði komast um aðstæðurnar. Ég flaggaði endilangur með buxurnar á hælunum og úlpuna yfir hausnum. Hugsunin var samt ótrúlega skýr og fannst að staðan væri langt í frá að vera virðuleg.
 
dsc00106.jpg
Einhvern vegin náði ég fótspyrnu og löturhægt mjakaði ég mér flatur að útidyrunum, - þetta tók allt heila eilífð. Ég dró til mín ísexina sem dinglaði í ól sem brugðið  var um annan úlnliðinn. Það var annars undarlegt að ég skyldi ekki hafa stórslasað mig á henni meðan á loftköstunum stóð. 
 
Hægt reisti ég mig upp á hnén og með erfiðis munum barði ég exinni í hurðina. Ég var móður og mér fannst verkefnið óvinnandi, en samt flísaðist úr hurðinni undan ísöxinni þegar ég barði aftur og aftur og í hvert skipti dró af mér mátt.  
 
Í huga minn skaut skyndilega upp þeirri hugsun að félagarnir væru farnir úr forstofunni og biðu upp á lofti eftir að ég sæist í gaflglugganum. Ég vissi að þangað myndi ég aldrei komast í veðurhamnum og vart sjást nema eitt augnablik, - það er að segja þegar ég fyki framhjá á leið minni ofan ofan í Þórsmörk.
 
hermann1-18.jpg
Skyndilega opnaðist hlerinn um nokkra sentimetra. Ég beið ekki boðanna heldur tróð mér í gegnum það bil með þeim síðasta krafti sem ég bjó yfir, slengdist yfir neðri hlerann og lenti á gólfinu, höfuðið fyrst en fæturnir festust undir hleranum, og við lá að Reynir, félagi minn, bryti þær til þess eins og losa mig, en inn komst ég allur.
 
Þetta var ekki venjuleg ferð á Fimmvörðuháls. Að vísu má alltaf búast við stormi, en vart svona miklum hamagangi sem ég upplifði þessar fimmtán mínútur, rétt fyrir hádegi þann 6. mars 1992. Brottförin tafðist í nokkra tíma vegna veðurs en svo lægði. Þegar vindurinn var kominn „niður“ í svona  á að giska 40 metra á sekúndu var hægt að leggja af stað niður af Hálsinum.
 
dsc00165.jpg
Annarri ferðinni upp á Fimmvörðuháls á árinu 1992 var lokið. Niðri á þjóðvegi litum við félagarnir upp til fjalla. Yfir hálsinum grúfði dimmur skýjabakki. Við vissum að ekki myndu margar vikur líða þar til við legðum í’ann aftur. Mánuði síðar vorum við aftur á ferð í sögulegri ferð. Þá tók gangan upp í Skála tíu klukkustundir, en upp komumst við eftir barning við vinda, þoku og myrkur.
 
En hvers vegna?  Af hverju geta þessir svona menn ekki haft það náðugt heima hjá sér fyrir framan sjónvarpið? Það er erfitt að skýra fíkn í fjallaferðir. Má vera að Guðmundur frá Miðdal hitti naglann á höfðuðið þegar hann sagði:
 
Það fólk, sem hefur þrek til að bjóða þægindastefnu nútímans byrginn og leita stælingar á sviðum hamfaranna, lætur eigi staðar numið við stuttar skíðaferðir og smá „göngutúra“, heldur gengur það tindana, hamarana, skriðjöklana, - lærir að klífa.
 
Frásögnin er af heimasíðu minni og er hluti af Grobbsögum af Fimmvörðuhálsi og ekkert víst að sagan sé sönn.
 
Myndirnar af Fimmvörðuskála tók sögumaður árið 2001. Tvær neðstu myndirnar tók Hermann Valsson í janúar 2008. Neðsta myndin er af hópnum sem fetar sig niðuraf Fimmvörðuhrygg, norðanmegin, í nær glæra skara, ekkert færi fyrir skíðin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er stórksemmtileg saga, hvort sem hún er sönn eða ýkt.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.4.2010 kl. 11:48

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Í fyrsta lagi er þetta tóm lygi. Í öðru lagi ýki ég aldrei. Í þriðja lagi meiddi ég mig ekkert.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.4.2010 kl. 11:50

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott að þú meiddir þig ekki, lygasögur eru oft mjög skemmtilegar.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.4.2010 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband