Orð bera keim af þeim sem þau mæla

SiluettaÞú getur ekki vaðið tvisvar í sömu ánni. Það er alltaf nýtt vatn sem leikur um fætur þér.

Svo mun vera um vatnið eins og Heraklítus sagði í Grikklandi fyrir um 2500 árum. Og eins er það með vatnið og tímann, hvort tveggja er alltaf nýtt sé rétt talið.

Ári að ljúka og nýtt að byrja. Þetta nefnast oft tímamót og æði margir upphefjast rétt eins og að áramót hafi í för með sér náttúrulegar breytingar. Svo er nú ekki. Hinn 1. janúar er litlu frábrugðinn 31. desember. Eini munurinn er talning tímans. Rétt eins og þegar sekúnda verður að annarri, mínúta mætir þeirri næstu, klukkustundir raðast í tímanna safn og svo gerist með daga, vikur, mánuði og endanlega hvert ár.

Þrátt fyrir óteljandi slík mót gerist ekkert í náttúrunni, að minnsta kosti ekkert sem við leikmenn greinum. Hún heldur ekki upp á neitt. Engin uppstytta verður í tilefni áramóta, himinninn mun ekki skjóta eldingum og þeyta þrumum. Sólin mun ekki gægjast óvænt fram úr skýjunum eða hitastig dagsins breytast. Ekkert tekur tillit til tímans þó svo að hann sé alls staðar allt um vefjandi. Náttúran er einfaldlega blind, miskunnarlaus og ópersónuleg. Allt fram streymir endalaust. Jafnvel dýrin skynja ekki nokkra breytingu nema hugsanlega fyrir tilstilli manna. Kýrnar tala ekki mannamál um áramót. Hvorki hundur né köttur tárast og óska hvorum öðrum gleðilegs árs.

Jafnvel klettarnir opnast ekki og huldufólk syngur ekki messu í Tungustöpum landsins og óskasteinninn er ófundinn. 

Svona er þetta nú gjörsamlega gerilsneytt og leiðinlegt þegar litast er um með gagnaugunum. 

Samfélag manna er hins vegar með allt öðrum brag og þar er lífið miklu bjartara en kuldaleg náttúran gefur tilefni til. Við njótum tímans, teljum hann, söfnum honum og geymum til upprifjunar. Dagsmótin eru raunveruleg. Við leggjumst til svefns að kvöldi dags og vöknum að morgni annars. Fyrr en varir fögnum við vikulokum og þannig eru vikumótin nær áþreifanleg. Svo er um mánaðamót, árstíðir og áramót.

Af tilefninu eru ávörpin eru lík og af tilfinningu veitt. Góðan dag, góða helgi, til hamingju með afmæðið, gleðileg jól, gleðilegt sumar ... og gleðilegt ár.

Allt beinist þetta að því sama, að við og allir aðrir getum glaðst. Þannig er lífið bara  okkuð indælt hvort sem við erum búsett hér á landi eða annars staðar enda eiga flestir þá ósk æðsta að njóta lífsins með sínu fólki. Eða eins og Tómas Guðmundsson, skáld orðaði það í ljóðinu „Ljóð um unga konu frá Súdan“:

Samt dáðist ég enn meir að hinu, 
hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu.

Skrýtilegt er það nú samt hversu fáir virðast gera sér grein fyrir einföldum sannindum.

Í takti við annað fólk er ekki úr vegi að ég snýti mér, þurrki tárin af hvörmum og manna mig upp í að óska lesendum mínum gleðilegs og ekki síst gæfuríks komandi árs. Svo held ég til þess fólks sem ég unni mest. En fyrst þetta:

Lítill drengur spurði föður sinn hvort Neró hefði ekki verið slæmur maður. 

„Gerspilltur,“ svaraði faðir hans ...

Löngu síðar spurði annar drengur föður sinn hins sama.

„Ég veit ekki hvort hægt er að segja það,“ svaraði faðirinn. „Maður má ekki dæma of hart. en því verður ekki neitað að hann fór oft miður heppilega að ráði sínu.“

Hér á landi tíðkast að dæma hart. Virkir í athugasemdum ræða smámál líkt og morð og þar af leiðir að þegar um morð er fjallað er munurinn á því á smáatriðum enginn. Þannig er líka pólitíkin, umræðuhefði. Óþrifatalið ræður öllu enda er það tilgangurinn sem helgar meðalið eins og svo oft áður.

Þessu verður að breyta í stjórnmálum og umfjöllun um þau, jafnt á Alþingi, í fjölmiðlum, í athugasemdakerfum fjölmiðla sem og á kaffistofum og heita pottinum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að orð bera keim af þeim sem þau mæla. Orðum sínum getur enginn afneitað. Betra er því að hugsa sig um áður en illt er mælt.

Ég óska lesendum mínum og nokkrum öðrum landsmönnum gleðilegra áramóta og öllum farsældar á komandi ári.


Tuttugu punktar úr pistlum ársins

Á árinu 2015 ári skrifaði ég samtals eitthundrað áttatíu og fimm pistla á þessum vettvangi.

Maður er að slappast, það verður að viðurkenna.

Þegar litið er yfir það sem ég hef skrifað á árinu 2015 er vekur eftirfarandi að minnsta kosti athygli mína:

  1. Fyrir hönd ríkissjóðs keypti skattrannsóknarstjóri lista yfir skattsvikara og greiddi fyrir án reiknings, sem sagt á svörtu. Skyldi Ríkisskattstjóri gera athugasemdir við viðskiptin?
  2. Samstöðuganga þjóðarleiðtoga vegna morðanna í útgáfufyrirtækinu Charlie Hebdo var sviðsett. Íslenski forsætisráðherrann tók ekki þátt í leikritinu og fékk miklar ákúrur frá stjórnarandstöðunni.
  3. Á landsfundi Samfylkingarinnar fór allt í handaskolum. Rafræn kosning klikkaði, gerð var tilraun til valdaráns, þeir sem máttu kjósa fengu það ekki, þeir sem ekki máttu kjósa fengu leyfi til þess og formaðurinn var endurkjörinn með einu atkvæði. Ríkisútvarpið hafði ekkert við þetta að athuga. En hefði sonalagað gerst hjá Sjálfstæðisflokknum ...
  4. Árangur Pírata í skoðanakönnunum helgast af því að Sjálfstæðismenn eru of latir til að berjast og of feitir til að flýja. Grínlaust virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn kerfisflokkur en Píratar verndarar einstaklingsfrelsisins.
  5. Þetta höfðu Staksteinar í Mogganum um náttúrupassann að segja og ég er sammála: „Passinn hafði það þó umfram gistináttagjaldið að hægt var að nota hann til að abbast upp á, angra og auðmýkja landann þegar hann labbaði inn á forna slóð.“
  6. Hver skyldi hafa fundið upp á þeirri vitleysu að kalla leikmenn í boltaliði „lærisveina“ þjálfarans? Sumir fjölmiðlamenn halda þessu statt og stöðugt fram sem ber ekki vitni um annað en þekkingarleysi og skort á málskilningi.
  7. Vitræn umræða um kjarasamninga og verkföll er útilokuð nema launþegafélög og atvinnurekendur gefi réttar upplýsingar um kjör launþega, heildarlaun og útgreidd laun. Ef ekki heldur leikritið í kjarasamningum áfram en það var skrifað fyrir fimmtíu árum.
  8. Kosningaúrslitin í Skotlandi síðasta vor urðu þau að flokkur sem fékk 50% atkvæða fékk fimmtíu og sex þingmenn. Aðrir þrír flokkar sem fengu tæplega 47% atkvæða fengu þrjá þingmenn kjörna. Háværar kröfur eru um að sama kerfi verði tekið upp hér á landi.
  9. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, varaði við því að flugvélar geti flogið inn í gosmökk Heklu án þess að flugmenn sjái hann. Starfsmaður Samgöngustofu sem er ekki jarðfræðimenntaður taldi viðvaranir Páls ekki á rökum reistar. Við svo situr enn í dag.
  10. Margir halda að fjölgun ferðamanna sé af hinu góða. Svo er ekki. Alvarleg náttúruspjöll fylgja séu engar gagnráðstafanir gerðar.
  11. Lúpínan er þjóðarblóm, engin önnur jurt má kallast landgræðslujurt.
  12. Menningararfurinn í gömlum húsum í Reykjavík týnist óðum.
  13. Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.Svona var skrifað í Morgunblaðinu á árinu.
  14. Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.
  15. Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri.
  16. Sú hugsun að gott sé að breyta klukkunni svo bjartara verði fyrr á daginn er skiljanleg. Hugsunin gengur þó frekar skammt. Í dag er birtutíminn rétt rúmar fimm klukkustundir. Hann lengist ekki við það að breyta klukkunni.
  17. Svokallaður aðgerðarhópurinn Anonymous telst vera pólitískur sértrúarhópur sem hefur umfangsmikla sérþekkingu á tölvutækni og internetinu. Hann er eins og önnur glæpasamtök, mafían, Daesh eða Isis í heimi íslamista. Hópurinn telur hefndina vera sína af því að hann hefur tæknikunnáttu til að beita henni. 
  18. Staðreyndin er sú að opin og lýðræðisleg samfélög í Evrópu eru miskunnarlaust misnotuð af glæpamönnum undir margvíslegu yfirskini, meðal annars trúarlegu. Ekki er hægt að búa við slíkt, það liggur í augum uppi. Ef eftirlit Schengen-svæðisins hefur brugðist að þessu leiti þarf að lagfæra misfellurnar og bregðast við af hörku. Sé niðurstaðan sú að taka upp vegabréfaeftirlit að nýju þá verður svo að vera.
  19. Hvenær er maður kjörin á þing og hvenær ekki? Þetta er ein mikilvægasta spurningin sem hrokkið hefur upp úr þeim stjórnmálamanni sem telur sig hvorki kjörinn né ókjörinn. Líklegast er Mörður Árnason hálfkjörinn.
  20. Sé einhver þannig gerður að hann vilji afsala sér hlutverki sínu sem uppalandi til einhverra óskilgreinds fólks úti í bæ þá verður bara svo að vera. Er hins vegar nokkur vissa fyrir því að þetta fólk boði annað en það sem slæmt er? Þegar öllu er á botninn hvolft er frekar líklegt að börnin læri fátt mikilvægt utan heimilisins ... og auðvitað skólans.

Auðvitað hljóp ég bara á hundavaði yfir það sem ég skrifaði. Eflaust kemur í ljós við nánari rýni að þetta er allt tóm vitleysa.


Er pólitík Ólínu Þorvarðardóttur uppbyggileg og vönduð?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er mynd sem gengur fram af mér. Hún virðist nógu sakleysisleg þó. Tveir æðstu ráðamenn þjóðarinnar blómum skrýddir og skælbrosandi ásamt ritstjóra Fréttablaðsins framan við kyrfilega merktar höfuðstöðvar 365. „Gerðu viðskipti ársins“ segir í myndatexta þar sem vísað er til samnings stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna að mati dómnefndar Markaðarins, Stöðvar 2 og Vísis.

Svo ósmekklega ritar Ólína Þorvarðardóttir, varðaþingmaður Samfylkingarinnar í pressan.is. Við þetta er fjölmargt að athuga og ekki úr vegi að spyrja og svara nokkrum spurningum.

Er Ólína stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar?

Nei, hún er andstæðingur hennar og finnur henni allt til foráttu. Jóhanna2

Var Ólína stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar?

Já, það var hún.

Hafði hún einhverjar athugasemdir við að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, væri valin kona ársins af tímaritinu Nýju lífi?

Nei, síður en svo.

Kallaði hún myndina af Jóhönnu „mellumynd“?

Nei, guð hjálpi þér.

Skrifaði Ólína við það tækifæri eitthvað á þessa leið til ófrægðar Jóhönnu: 

Hér er skólabókardæmi um það hvernig hagsmunatengsl fjölmiðils og valdhafa tvinnast saman á einni mynd. „Mellumynd“ gæti einhver kallað þetta (afsakið orðbragðið). Hér má sjá fjölmiðil koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum, sem aftur njóta góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils.

Nei, en hún skrifaði þetta í í dag í vefritið pressan.is. Hún var ekki að tala um Jóhönnu heldur vondu kallanna.

Gat verið að Nýtt líf hefði kosið Jóhönnu til að „koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils“?

Nei, auðvitað ekki.

Og af hverju er þá Ólína að tuða yfir öðrum sem fá viðlíka sæmd?

Það er einfalt. Ólína er bara á móti núverandi ríkisstjórn og hún studdi síðustu ríkisstjórn og Jóhönnu Sigurðardóttur með ráð og dáð.

Allir aðrir en eru vondir og illa meinandi, þó ekki hún Jóhanna sem þó tók við svipaðri sæmd af fjölmiðli árið 2009.

Svona eru sumir stjórnmálamenn vanir að ausa aðra auri, rétt eins og einhver taki mark á Gróu greyinu á Leiti. 

Sannast sagna eru svona skrif hundleiðinleg rétt eins og sá stjórnmálamaður sem ritar. Hún er með óþrifin upp á baki eftir að hafa rægt vondu kallanna. 

Óskaplega hlýtur svona fólk að vera illa innrætt og í eðli sínu leiðinlegt. Finnst einhverjum svona pólitík skemmtileg og innihaldsrík?

 

 


Bloggfærslur 31. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband