Tuttugu punktar úr pistlum ársins

Á árinu 2015 ári skrifaði ég samtals eitthundrað áttatíu og fimm pistla á þessum vettvangi.

Maður er að slappast, það verður að viðurkenna.

Þegar litið er yfir það sem ég hef skrifað á árinu 2015 er vekur eftirfarandi að minnsta kosti athygli mína:

  1. Fyrir hönd ríkissjóðs keypti skattrannsóknarstjóri lista yfir skattsvikara og greiddi fyrir án reiknings, sem sagt á svörtu. Skyldi Ríkisskattstjóri gera athugasemdir við viðskiptin?
  2. Samstöðuganga þjóðarleiðtoga vegna morðanna í útgáfufyrirtækinu Charlie Hebdo var sviðsett. Íslenski forsætisráðherrann tók ekki þátt í leikritinu og fékk miklar ákúrur frá stjórnarandstöðunni.
  3. Á landsfundi Samfylkingarinnar fór allt í handaskolum. Rafræn kosning klikkaði, gerð var tilraun til valdaráns, þeir sem máttu kjósa fengu það ekki, þeir sem ekki máttu kjósa fengu leyfi til þess og formaðurinn var endurkjörinn með einu atkvæði. Ríkisútvarpið hafði ekkert við þetta að athuga. En hefði sonalagað gerst hjá Sjálfstæðisflokknum ...
  4. Árangur Pírata í skoðanakönnunum helgast af því að Sjálfstæðismenn eru of latir til að berjast og of feitir til að flýja. Grínlaust virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn kerfisflokkur en Píratar verndarar einstaklingsfrelsisins.
  5. Þetta höfðu Staksteinar í Mogganum um náttúrupassann að segja og ég er sammála: „Passinn hafði það þó umfram gistináttagjaldið að hægt var að nota hann til að abbast upp á, angra og auðmýkja landann þegar hann labbaði inn á forna slóð.“
  6. Hver skyldi hafa fundið upp á þeirri vitleysu að kalla leikmenn í boltaliði „lærisveina“ þjálfarans? Sumir fjölmiðlamenn halda þessu statt og stöðugt fram sem ber ekki vitni um annað en þekkingarleysi og skort á málskilningi.
  7. Vitræn umræða um kjarasamninga og verkföll er útilokuð nema launþegafélög og atvinnurekendur gefi réttar upplýsingar um kjör launþega, heildarlaun og útgreidd laun. Ef ekki heldur leikritið í kjarasamningum áfram en það var skrifað fyrir fimmtíu árum.
  8. Kosningaúrslitin í Skotlandi síðasta vor urðu þau að flokkur sem fékk 50% atkvæða fékk fimmtíu og sex þingmenn. Aðrir þrír flokkar sem fengu tæplega 47% atkvæða fengu þrjá þingmenn kjörna. Háværar kröfur eru um að sama kerfi verði tekið upp hér á landi.
  9. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, varaði við því að flugvélar geti flogið inn í gosmökk Heklu án þess að flugmenn sjái hann. Starfsmaður Samgöngustofu sem er ekki jarðfræðimenntaður taldi viðvaranir Páls ekki á rökum reistar. Við svo situr enn í dag.
  10. Margir halda að fjölgun ferðamanna sé af hinu góða. Svo er ekki. Alvarleg náttúruspjöll fylgja séu engar gagnráðstafanir gerðar.
  11. Lúpínan er þjóðarblóm, engin önnur jurt má kallast landgræðslujurt.
  12. Menningararfurinn í gömlum húsum í Reykjavík týnist óðum.
  13. Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.Svona var skrifað í Morgunblaðinu á árinu.
  14. Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.
  15. Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri.
  16. Sú hugsun að gott sé að breyta klukkunni svo bjartara verði fyrr á daginn er skiljanleg. Hugsunin gengur þó frekar skammt. Í dag er birtutíminn rétt rúmar fimm klukkustundir. Hann lengist ekki við það að breyta klukkunni.
  17. Svokallaður aðgerðarhópurinn Anonymous telst vera pólitískur sértrúarhópur sem hefur umfangsmikla sérþekkingu á tölvutækni og internetinu. Hann er eins og önnur glæpasamtök, mafían, Daesh eða Isis í heimi íslamista. Hópurinn telur hefndina vera sína af því að hann hefur tæknikunnáttu til að beita henni. 
  18. Staðreyndin er sú að opin og lýðræðisleg samfélög í Evrópu eru miskunnarlaust misnotuð af glæpamönnum undir margvíslegu yfirskini, meðal annars trúarlegu. Ekki er hægt að búa við slíkt, það liggur í augum uppi. Ef eftirlit Schengen-svæðisins hefur brugðist að þessu leiti þarf að lagfæra misfellurnar og bregðast við af hörku. Sé niðurstaðan sú að taka upp vegabréfaeftirlit að nýju þá verður svo að vera.
  19. Hvenær er maður kjörin á þing og hvenær ekki? Þetta er ein mikilvægasta spurningin sem hrokkið hefur upp úr þeim stjórnmálamanni sem telur sig hvorki kjörinn né ókjörinn. Líklegast er Mörður Árnason hálfkjörinn.
  20. Sé einhver þannig gerður að hann vilji afsala sér hlutverki sínu sem uppalandi til einhverra óskilgreinds fólks úti í bæ þá verður bara svo að vera. Er hins vegar nokkur vissa fyrir því að þetta fólk boði annað en það sem slæmt er? Þegar öllu er á botninn hvolft er frekar líklegt að börnin læri fátt mikilvægt utan heimilisins ... og auðvitað skólans.

Auðvitað hljóp ég bara á hundavaði yfir það sem ég skrifaði. Eflaust kemur í ljós við nánari rýni að þetta er allt tóm vitleysa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband