Stríðsyfirlýsing Gunnars Braga á hendur fjölmiðlum

Og af því að ég þekki þessa heima báða; langar mig að gefa Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra ókeypis ráð þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla: Ekki líta á fjölmiðlana eða fjölmiðlamenn sem andstæðinga heldur samstarfsmenn. Svaraðu spurningum, færðu rök fyrir þínu máli. Líka spurningunum sem þér finnast ósanngjarnar og vitlausar. Mundu að áhorfendur eða lesendur á hinum endanum þyrstir í skýringar, vilja fá svör.

Ekki setja skilyrði fyrir því að koma í viðtöl. Ekki fara í stríð við einstaka fjölmiðla. Sá slagur er fyrirfram tapaður.

Nýttu fjölmiðlana, öll þau óteljandi tækifæri sem felast í fjölmiðlun nútímans. Taktu slaginn, svaraðu samkvæmt bestu samvisku og útskýrðu þín sjónarmið. Ef málstaðurinn er góður hlýtur hann að ná í gegn á endanum.

Það er eina leiðin.
 
Þetta segir Bjrön Ingi Hrafnsson í pistli í pressan.is. Ég tek undir með honum. Þetta er eina ráðið fyrir stjórnmálamann. Ella stefnir hann ferli sínum í voða. Sjáið bara Jón Gnarr ... 

Tíu ára til altaris hjá síra Arngrími

Líklega vorum við félagarnir tíu ára, ég og Gaui æskufélagi minn, Guðjón Eiríksson. Við bjuggum í Barmahlíðinni og stóðu húsin okkar hlið við hlið. Hann í númer fjörtíu og fjögur og ég númer fjörtíu og sex. Við vorum vinir frá því við hittumst fyrst, ég var fjögurra ára og hann fimm ára. Mér er það enn í björtu barnsminni að hafa aldrei heyrt þetta nafn fyrr og það böðlaðist fyrir mér að muna það og bera fram. Þess í stað kallaði ég hann Þorgeir, fannst það mun léttara í framburði ... Pabbi sagði alltaf Guji, kannski það hafi verið breiðfirskur framburður.

Eina sögu kann ég af síra Arngrími. Ég held að við Gaui höfum verið í kringum tíu ára aldurinn. Þá var Háteigskirkja nýbyggð og tveir prestar höfðu verið vígðir þangað og orðspor þeirra mikið. Þetta voru þeir síra Jón Þorvarðarson og síra Arngrímur Jónsson. Sá fyrrnefndi fermdi mig og ég sé það í Morgunblaðinu að síra Arngrímur er borinn til grafar í dag. 

Við Gaui ákváðum að fara í kirkju einn sunnudaginn. Það var nú ekki venja ungra stráka á þeim árum að fara í kirkju, ekki frekar en í dag. Hins vegar höfðum við klifrað upp á þak Háteigskirkju meðan hún var í byggingu og því ekki nema eðlilegt að skoða hana að innan. Að auki höfðum við farið á hverjum sunnudegi í mörg ár í sunnudagsskóla KFUM á Amtmannsstíg og ekki haft nema gott af.

Jæja, við örkuðum inn í kirkjuna og settumst dálítið framarlega. Líklega hefur þetta verið eitthvað fyrir páska eða um páska, því þegar liðið er nokkuð á messuna og við búnir að geispa mikið, standa skyndilega allir upp en og ganga upp að altarinu og við sitjum einir eftir á bekknum Við lítum á hvorn annan, ræðum málin í flýti, og sjáum okkur ekki annað fært en að gera það sem allir aðrir voru að gera, vildum ekki skera okkur úr. Við hröðuðum okkur upp að altari og komum okkur fyrir í röð sem lá til einhvers sem okkur var ókunnugt um hvað væri.

Og röðin þokast nær einhverju og allt í einu erum við komnir á hnén eins og allir hinir og fyrir framan okkur stendur síra Arngrímur Jónsson, prestur, brúnaþungur mjög, og spyr með djúpri röddu.

„Hvað eru þið gamlir, drengir mínir?“.

Við svörum auðvitað sannleikanum samkvæmt, dálítið skömmustulegir án þess að vita hvers vegna.

Þá segir presturinn: „Jæja, það getur varla skaðað neitt“. Og við þáðum þarna hið heilaga sakramenti í fyrsta sinn á ævinni, vín og brauð, líkama og blóð Krists.

Þegar ég sagði foreldrum mínum frá þessu hlógu þó mikið og sögðu að enginn ætti eiginlega að fara til altaris fyrr en hann væri fermdur. Og hvað sagði presturinn ... og hvernig var svipurinn á honum. Út á þetta gengu samræðurnar við kvöldverðarborðið þennan sunnudag.

Síðan hef ég ekki rætt neitt við síra Arngrím og nú er hann dáinn, rúmlega níræður. 

 


Pólitískur ómöguleik Gnarss og sýndarveruleiki Blöndals

Ef ómögulegt reynist að ná í annaðhvort borgarstjórann eða aðstoðarborgarstjórann þá hafa blaðamenn val um að hringja í einhvern þeirra þrettán starfsmanna sem í dag starfa hjá upplýsinga- og vefdeild Reykjavíkurborgar. Til að gæta sanngirni er rétt að taka það fram að einungis fjórir af starfsmönnum deildarinnar, auk deildarstjórans sem titlaður er upplýsingastjóri, gegna hlutverki upplýsingafulltrúa.

Þetta segir Skúli Hansen, framkvæmdastjóri og blaðamaður í Morgunblaði dagsins, og upplýsir um leið eitt stærsta pólitíska leyndarmál Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Þetta hefur eiginlega ekki mátt segja opinberlega af því að Jón Gnarr er svo góður gæi og skemmtilegur.

Hitt vita þeir sem vilja að þekking Jóns Gnarrs á rekstri, borgarmálum og stjórnsýslu borgarinnar er svo til engin. Þess vegna hafa fjölmiðlar haldið hlífiskildi yfir honum að beiðni Besta/Bjartrar.

Í upphafi kjörtímabilsins varð borgarstjór sér iðulega til skammar í viðtölum, hann þekkti ekkert, svaraði út í bláinn, flissaði og mælti tóma steypu. Þó var titlaður borgarstjóri og með afar há laun sem slíkur.

Niðurstaðan varð því sú að skrifstofu stjóri borgarstjórnar var hækkuð í tign og annaðist þau störf borgarstjóra sem Jón Gnarr kunni ekki, sem sagt allt en án titils og launa. Jón Gnarr fékk hins vegar að leika sér með það sem hann kunni, til dæmis að gera heimildarmynd um sjálfan sig, opna sýningar, hitta börn, taka þátt í ýmiss konar útisamkomum og þess háttar. Þetta hefur gert það að verkum að margir telja hinn „sýnilega“ borgarstjóra þann besta sem Reykjavíkurborg hefur átt. Skammt virðist þó á milli þess „sýnileika“ og starfslegs „ómöguleika“ svo gripið sé til orðs sem deilt er mun meira um en hæfileika borgarstjórans í rekstri og stjórnsýslu.

Skúli Hansen er afar undrandi á því að Reykjavíkurborg þurfi „...margfalt stærri upplýsingadeild að halda en stærstu stofnanir og fyrirtæki landsins?“. Um leið beindir hann á að kostnaður við báknið sem Besti/Björt framtíð og Samfylkingin hafa komið upp er 93,5 milljónir króna á þessu ári. Skýringin er einföld og ég efa það ekki að Skúli viti hana, þeir vita sem vilja. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að Jón Gnarr þurfi að standa fyrir máli sínu hjá almenningi og fjölmiðlum - kostnaður við varnarmúrinn.

Hugmyndasmiðurinn og sá sem ber ábyrgð á þessu er svokallaður aðstoðarborgarstjóri sem í raun hefur gegnt embætti borgarstjóra de facto síðan skrifstofustjórinn, sem áður er nefnd, hrökklaðist í burtu með gallið í kokinu eftir rúmt ár með Besta/Bjartri framtíð.

Enginn kaus Sigurð Björn Blöndal sem borgarstjóra en líklega hefur hann gengt starfinu þokkalega miðað við aðstæður - og ábyggilega á góðum launum en án titilsins.

Þetta er hins vegar dýrt fyrirkomulag.  Hann kom reynslulaus í starfið, hann eyddi peningum í varnarmúrinn í kringum Jón Gnarr og gætti ekki að almannatengslum, hélt ekki hverfafundi, passaði upp á að Besti/björt framtíð mætti ekki almenningi á neinum vettvangi.

Hann hefur pólitískt nef enda ætlar hann sér borgarstjóratitilinn, launin og hefðina, kominn í fyrsta stæi hjá Bjartri framtíð. Hann skynjaði að fólk út um alla borg er reitt og óánægt eftir störf Besta/Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Það verður þungur baggi fyrir Blöndal að bera í aðdraganda nýrra kosninga. Nú kemur að því sem hann hingað til forðaðist,  það sem Jón Gnarr þorði ekki, ... að mæta Reykvíkingum á kosningafundum. Það verður án efa skáldsaga eða sýndarveruleiki ómöguleikans.

 


Bloggfærslur 4. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband