Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Fiskveiðikvótinn er aukinn og 8% þjóðarinnar fer á EM

Tvær fréttir í Morgunblaði dagsins vöktu athygli mína. Önnur fjallar um EM í fótbolta og hin um fiskveiðar. Ástæða er til að setja þær í samhengi.

Sagt er frá því að hrygningarstærð þorsks hafi ekki verið stærri í fjörutíu ár og þar af leiðandi er kvótinn aukinn um fimm þúsund tonn. Í fréttinni segir:

Er ráðgjöfin lá fyrir í gær áætlaði SFS að tekjuaukning af auknum veiðiheimildum umfram samdrátt gæti numið tæpum milljarði króna. Mestu munar um aukningu í þorski, sem gæti skilað um tveimur milljörðum, en einnig er aukning í ráðgjöf fyrir karfa og grálúðu.

Þetta er þó sýnd veið en ekki gefin, bókstaflega sagt. Enn er eftir er að veiða fiskinn, gera að honum, vinna hann, pakka, selja og flytja út. Loks þegr greiðslan kemur fara peningarnir í hringrás í þjóðfélaginu. Greidd eru laun, rafmagn, sími, fatnaður, umbúðir, olía og fleira og fleira. Og arður er greiddur.

Á sama tíma leggjast Íslendingar í ferðalög. Á forsíðu Morgunblaðsins kemur fram að um 8% þjóðarinnar sé á leið til Frakklands að fylgjast með landsliðinu í leikjum sínum. Í fréttinni segir:

Talið er að Íslendingar muni á keppnisstað eyða 5-6 milljörðum króna. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, segir að samkvæmt UEFA muni hver stuðningsmaður sem sækir Frakkland heim eyða að meðaltali 93 þúsund krónum.

Við höldum uppi góðu samfélagi hér á landi og þess vegna getum við ferðast út um allan heim og notið flest þess sem lífið býður upp á - svo fremi sem við eigum peninga til eyðslunnar. Þess vegna er ekki úr vegi að íhuga eitt augnablik hvers vegna við eigum yfirleitt kost á þessu.

Ástæðan er einfaldlega sú að þjóðin aflar tekna með því að selja vöru og þjónustu til útlanda. Á móti fáum við gjaldeyri sem nýtist til að greiða laun og annan kostnað við rekstur fyrirtækja. Af honum og launum fólks er greiddur skattur sem nýtist til rekstrar ríkisins; greitt laun, rekið skóla, sjúkrahús og fleira og fleira.

Fólk getur endalaust deilt um íslenskt þjóðfélag, hvort við eigum að ganga í ESB, hverjir eigi að fara á þing, hvaða flokkar eigi að mynda ríkisstjórn eða hver eigi að vera forseti þjóðarinnar. Við getum líka haft margvíslegar skoðanir á krónunni og hvort við eigum að taka upp annan gjaldmiðil.

Þegar upp er staðið lifir þessi þjóð á því að selja meira til útlanda en hún kaupir þaðan. Við getum ekki einu sinni sent fótboltalið í keppni nema við höldum uppi öflugu atvinnulífi. Þar styður hvað við annað og þess vegna getum við haldið uppi góðu og metnaðarfullu samfélagi sem gott er að búa í og njóta.

Höfum þetta hugfast og sættum okkur ekki við það þegar hin neikvæðu öfl reyna með öllum ráðum að tala Ísland niður.

 


mbl.is 8% þjóðarinnar á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einkavæða Landsvirkjun, segir Davíð Oddsson

Ég er þeirrar skoðunar að við einkavæðingu eigi eitt meginatriði að gilda við skoðun á öllum málum: Er viðkomandi fyrirtæki sem er í þjóðareign, ríkiseign eða sveitarfélagseign með einokunaraðstöðu að einhverju tagi, þá fer ekki vel á því að einkavæða það.

Ef fyrirtækið er með raunverulega einokun á einhverju sviði þá er eðlilegra að það sé í opinberri eigu.

Þessa stórmerkilegu yfirlýsingu lét Davíð Oddsson frá sér fara á fundi í Grafarvogi þann 8. júní 2016. Raunar er hún hápólitísk og gengur þvert á það sem fjölmargir hafa haldið fram um skoðanir Davíðs á einkavæðingu.

Raunar var það svo að á fundinum kom fram fyrirspurn sem var um „einkavinavæðingu“ Landsvirkjunar. Davíð lét ekki orðalagið trufla sig og svaraði afar skilmerkilega eins og sjá má. Hann lét þó ekki þar við sitja og bætti við:

Menn hafa verið að tala um alls konar samkeppni eins og í raforkugeiranum en hún hefur ekki átt sér stað. Talað er um að einhver samkeppni sé vegna Evrópu og hækka þurfi raforkutaxta hér hægt og rólega á fólkið í landinu af því að menn eru að undirbúa það að það verði nægilega ódýrt að leggja rafstreng milli landi til að selja Bretum. Ég vil að menn geri það með opnari hætti og plati ekki fólk.

Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku.

Hér gefur að líta allt aðra mynd af pólitískum skoðunum Davíðs Oddssonar en andstæðingar hans vilja vera láta. Líklega reka margir upp stór augu þegar Davíð segist á móti því að selja Landsvirkjun vegna þess að hún sé opinbert fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Er þetta ekki nóg einföld og skýr afstaða?

Látum almenning njóta arðsins af góðu gengi raforkuframleiðslunnar, segir Davíð og hafnar því að ríkið fái arðinn í einhvern sjóð til að „gambla“ með. Er þetta ekki nógu skýr afstaða?

Greinilegt er að Davíð Oddssyni líst illa á sæstreng til Bretlands. Og hann hefur ekki einu sinni rætt um umhverfislegar afleiðingar sæstrengsins, allar virkjanirnar sem reisa þarf hér á landi til að hann sé fjárhagslega réttlætanlegur og ekki heldur meðfylgjandi rask á kostnað náttúru landsins.

Ágæti lesandi, vissir þú um þessar skoðanir Davíðs Oddssonar?

Ef ekki, hvers vegna?

Líklega er ástæðan sú að rödd Davíðs hefur ekki heyrst vegna hávaða. Andstæðingar hans hafa einfaldlega lagt ofuráherslu á læti og upphrópanir og haft mikið fyrir því að rangtúlka hann, endursemja söguna, eins og þeir sjálfir segja.

Einfaldasta og besta leiðin til að mynda sér skoðun á Davíð Oddsyni er að hlusta á manninn. Vissulega er Davíð umdeildur, það er allt annað mál. Hins vegar hafa andstæðingar hans yfirleitt farið rangt með orð hans og stefnu. 

Ég er nærri því fullviss um að þú, lesandi góður, vissir ekkert um ofangreindar skoðanir Davíðs.


Halla Tómasdóttir verður sér til skammar

Sigurður Arnarson, kennari og fræðimaður, heldur ásamt fleirum úti afar málefnalegri og fróðlegri fésbókarsíðu sem nefnist „Vinir lúpínunnar“. Hann sendi forsetaframbjóðendum eftirfarandi bréf með ósk um svör:

Uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er stærsta umhverfisvandamál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir allar götur frá landnámi. Beit viðgengst enn á íslenskum auðnum og rofsvæðum sem enga beit þola að mati okkar helstu sérfræðinga.

Því langar okkur að bera upp eftirfarandi spurningar:

1. Hvað munt þú gera, sem forseti, til að snúa þessari þróun við?
2. Munt þú, sem forseti, beita þér fyrir vörsluskyldu búfjár?
3. Hvert er álit þitt á lúpínu sem landgræðsluplöntu?

Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi, svaraði á eftirfarandi hátt (uppsetning svarsins og feitletrun er á ábyrgð ritstjóra):

Sæll Sigurður og takk fyrir spurninguna.

  1. Við eigum einstaka náttúru á Íslandi og ég tel mikilvægt að við stöndum vörð um náttúruna. Okkur ber skylda til að gæta þess að komandi kynslóðir fái tækifæri til að njóta þeirra auðæva sem náttúran hefur að geyma. Ég mun beita mér fyrir því að svo verði og ég mun tala fyrir því að við stöndum vörð um náttúruna og beitum nauðsynlegum úrræðum til að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir geti notið náttúrunnar.
  2. Í lögum nr. 38/2013 um búfjárhald segir að sveitastjórnir taki ákvörðun um vörsluskyldu búfjárs. Sveitastjórnir eru líklega betur til þess fallnar en forsetinn til að meta þörfina á vörsluskyldu búfjár á einstaka landsvæðum. Ég tel hins vegar að forseti eigi að beita sér fyrir því að komið sé í veg fyrir að teknar séu ákvarðanir sem leiða til þess að náttúran hljóti óafturkræfan skaða af.
  3. Það eru skiptar skoðanir hvað þetta mál varðar og ég er þeirrar skoðunar að stíga þurfi varlega til jarðar varðandi mál sem varða náttúru Íslands. Velta þarf upp kostum og göllum og taka ákvörðun út frá því hvað er best að gera til langs tíma. Engin undantekning er þar á varðandi notkun Lúpínu sem landgræðsluplöntu.

Kv. Halla 

BelgjurtabókinÞetta er furðulegt ritsmíð, greinilega samin á hlaupum, óyfirlesin með málvillum og stafsetningavillum.

rMá vera að konan hafi metið að fyrirspyrjandi sé einhver kverúlant eða kjáni. Því fer fjarri. Maðurinn er auk þess að vera kennari góður fræðimaður á sínu sviði og gefið út ritið Belgjurtabókina.

Svona gerir ekki forsetaframbjóðandi. Hún hefur orðið sér til skammar fyrir svarið og hér hefur þó ekki verið rætt um það efnislega. Á þann veginn er aðeins eitt hægt að segja, það er innantómt og segir ekki nokkurn skapaðan hlut nema hve frambjóðandinn er illa að sér.

 

 


Sumir segja að Icesave málið skipti engu en ...

Svavars-samningarnir hefðu reynst Íslendingum dýrkeyptir. Sjö ára skjólinu, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði svo mikla áherslu á, hefði lokið síðastliðinn sunnudag - 5. júní. Skuld ríkissjóðs - íslenskra skattgreiðenda - hefði numið 208 milljörðum króna eða 8,8% af áætlaðri landsframleiðslu. Þetta jafngildir að hver fjögurra manna fjölskylda hefði skuldað 2,5 milljónir króna vegna samninga, sem áttu sér enga lagastoð.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður í  ágætri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni er farið yfir sögu Svavars-samninganna og ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Upp á síðkastið hefur borið á því að margir fullyrði að Icesave sé liðið og það skipti ekki lengur neinu máli. Þetta er auðvitað blygðunarlaus tilraun til að endurskrifa söguna, nema verið sé að verja einhvern forsetaframbjóðanda fyrir vandræðalegum ummælum um Icesave.

Jú, auðvitað skiptir Icesave máli. Staðreyndin er sú að fjöldi fræðimanna hvötti til þess að þjóðin samþykkti Icesave, að hún tæki á sig skuldir óreiðumanna, annars væri voðinn vís. Sem betur fer tók þjóðin ekki mark á þessu liði og hafnaði samningunum. Margir þeirra eru nú á harðahlaupum frá sínum fyrri skoðunum og reyna að gera sem minnst úr þeim. Að því leyti virðist Icesave vera enn ferskt og langt frá því að gleymast.

Óli Björn segir í grein sinni:

Í janúar 2013 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að engin ríkisábyrgð væri á Icesave-skuldum Landsbankans.

Auðvitað skiptu Icesave samningarnir gríðarlegu máli. Þeir eru hluti af stjórnmálum síðustu ára, rétt eins og sjálft hrunið, og staðreyndin að þjóðin hafi hafnað þeim í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslu mun uppi meðan land byggist. Það varð ekkert „svokallað hrun“ né heldur „svokallað Icesave“ þó margir vilji líta svo á. Icesave samningarnir voru einfaldlega ógn við fjárhagslegt sjálfstæði landsins.

Hrakfarir ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslum vegna þessara vondu samninga höfðu þó engin áhrif á hana, hún sagði ekki af sér. Hins vegar má leiða líkum að því að hún hafi dáið þarna enda bar hún eiginlega aldrei sitt barr síðan þótt hún hafi að forminu séð enst til loka kjörtímabilsins.

í lok greinarinnar segir Óli Björn:

Steingrímur J. Sigfússon hefur aldrei skýrt ástæðu sinnaskipta sinna gagnvart ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans. Ekki frekar en ráðherrar og þingmenn norrænu ríkisstjórnarinnar sem þegja þunnu hljóði um hvað fólst í „baktjaldasamkomulagi“ stjórnarflokkanna um ESB, en liðlega mánuði eftir að Svavars-samningarnir voru undirritaðir var samþykkt að sækja um aðild Íslands að sambandinu.

 


Uppáhalds þingmenn Egils Helgasonar

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Frosti Sigurjónsson, Brynhildur Pétursdóttir, Katrín Júlíusdóttir.

Eru það bara bestu þingmennirnir sem ætla að hætta?

Þetta segir Egill Helgason, fjölmiðlamaður á bloggi sínu. Ég er nú ekki vanur að vitna í manninn en geri það hér af gefnu tilefni. Alræmd vinstri kona sem lengi hefur starfað sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu segir í athugasemdadálki Egils:

Þú gleymir Róberti Marshall og Einari K. Guðfinnssyni.

Og Egill svarar:

Nei ég gleymdi þeim ekki.

Fréttakonan bætir þá við:

Og svo gleymirðu líka Ögmundi Jónassyni.

Egill svarar stuttlega:

Og ekki heldur honum.

Af þessu má ljóst vera hverja fjölmiðlungurinn telur bestu þingmennina. Nokkuð fyndið hjá Agli og beinskeitt.

 


Spilling er það hvað sem þú segir alla þína æfi ...

Hvað sem tautar og raular þá skal það heita spilling. Ef ekki á þennan veg þá á annan eða þriðja. Rægja skal ráðherra fyrir þá spillingu að skipa VG mann sem skólameistara.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði sig frá skipun skólameistara í Borgarholtsskóla í Reykjavík. Ástæðan er einföld, starfsmaður ráðuneytisins sótti um. Innanríkisráðherra fékk þann kaleik að skipa í embættið og gerði það.

Sá sem var ráðinn skólmeistari heitir Ársæll Guðmundsson. Hann er kennari, stjórnaði Farskóla Norðurlands vestra, var á árunum 1994 til 2001 aðstoðarskólameistari Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og skólameistari. Síðar varð Ársæll skólameistari FB, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði og Formaður skólameistarafélags Íslands.

Þar að auki er hann stækur í pólitík, var sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði í átta ár og var sveitarstjóri í Sveitarfélaginu Skagafjarðar á árunum 2002 til 2006 en þá voru Vinstri grænir í meirihluta ásamt Framsóknarflokknum.

Loks hefur þessi náungi verið starfandi í menntamálaráðuneytinu í einhver misseri við að naga blýanta eins og opinberra starfsmanna er víst siður.

Hann sækir enn einu sinni um starf sem skólameistari og fær það. Þá rís Ragnar Þór Pétursson, kennari upp við dogg og segir sig úr skólanefnd Borgarholtsskóla. Rökin eru þau að ráðherra fór ekki eftir mati skólanefndar sem vildi að einhver annar yrði ráðinn. Út af fyrir sig eru rök Ragnars ágæt en þau eru ekki endanlegur dómur, valdið er menntamálaráðherra sem var vanhæfur enda Ársæll starfsmaður ráðuneytisins.

Og nú hefjast samsæriskenningarnar. Ragnar er ekkert að skafa utan af því og segir:

Ég held að Ársæll Guðmundsson hafi verið ráðinn af pólitískum ástæðum. Ég treysti ekki því ferli sem fram fór. Ég held að Ólöf Nordal hafi látið nota sig til að skila þeirri niðurstöðu sem fjöldi fólks var búinn að spá. Ég held að málið allt angi af spillingu.

Sumsé, ráðherra velur vinstri mann í stöðu skólameistara og málið „angar af spillingu“. Engin rök eru færð fyrir því. Málið er „afþvíbara“. Skiptir engu þó sá sem ráðinn er hafi drjúga reynslu af starfinu eins og áður er sagt.

Á eftir koma hælbítarnir, lýðurinn sem er skráður sem „virkir í athugasemdum“ og veit ekkert en fellir engu að síður dóma þess efnis að ráðning sjálfstæðismanns á vinstri manni sé spilling. Ef rökin eru ekki pólitísk þá eru þau af því að sá sem ráðinn var er starfsmaður ráðuneytisins.

Af þessu er sagt frá á vefritinu eyjan.is. Þar voma yfirleitt hrægammarnir í athugasemdadálkunum. Ein alræmd í athugsemdum stekkur, Ásthildur Cesil Thordardottir, og segir eldsnöggt eftir að hafa lesið fyrirsögnina: „Endalaust bætist í spillingarlista menntamálaráðherrans.“ Eins og svo oft áður þekkir hún aðeins aðra hlið málsins en það dugar henni.

Mörður Árnason, varaþingmaður, alræmdur í athugasemdum kveður þá sína hálfkveðnu vísu: „Allt sem Illugi Gunnarsson kemur nálægt ...“ Og lesandanum er ætlað að botna enda auðsætt að Mörður er ekki að hæla ráðherranum fyrir ákvörðun annars ráðherra enda er þetta nógu gott til að vera satt. En Mörður er nú bara eins og hann er ... (þetta er hálfkveðin vísa).

Niðurstaðan er einföld eins og fram kom í upphafi. Spilling skal það heita jafnvel þó sannleikurinn sé allt annar.

Ég er að velta því fyrir mér hvað hefði nú verið sagt ef sá sem var ráðinn hefði verið Sjálfstæðismaður. Þá hefði nú heyrst hljóð úr rykugu horni. Má vera að það hefði engu skipt. Spilling skal það heita hvað sem þú segir og hvernig í fjandanum sem þú reynir að rökstyðja annað.

 


Fet, mílur, mörk, pund, kúbikk og annað greindarlegt

 Hvers vegna í ósköpunum skyldum við hafa hlutina einfalda ef við getum mögulega gert þá flókna?
 
Fleyg orð og örugglega höfð eftir einhverjum virðulegum jafnaðarmanni. Þegar nánar er að gáð virðist svo óskaplega margt flækja málin að aumur meðalmaðurinn getur varla fylgst með. Svo fylgir þessu bölvað misrétti, ég á við að skilningur minn nægir ekki til að ég átti mig á því sem aðrir fatta „omgående“ eins og útlendingar segja.
 
Ég verð að viðurkenna það, svo mikill fjallakall sem ég er, að ég hef alltaf átt í bölvuðum vandræðum með fjöllin. Til dæmis þegar eitthvurt fjallið er sagt 6.952 fet en ekki 2119 m þá hika ég. Það segir sig sjálft að sálfræðilega er auðveldara er að ganga á metravæn fjöll en þau fetlegu og það er skýringin á því að ég klíf ekki amrísk fjöll.
 
Hvað er „marktækt?
„Jú, sonurinn var sextán merkur, hvorki meira né minna,“ og allir fögnuðu nema ég, því ég veit ekki hversu þungur strákurinn var. Venjulegar vigtir sýna þyng í grömmum og kílóum, nema við fæðingu. Þá er þyngdin mæld í „mörkum“, nehei … ekki fótboltamörkum, … ekki í gömlum vestur-þýskum mörkum .. og alls ekki því marki sem er við endann á hlaupabraut. Nei, fæðing einstaklings er svo göfugur og fallegur atburður að barnið skal mæla í göfugri og fallegri einingu sem kallast „mark“ eða „mörk“.
 
Lax eða ýsa?
Á bakka Þingvallavatns stend ég hróðugur og horfi á er mér fremri menn vigta silunginn. „Ja, sko kallinn,“ er sagt. „Þetta er bara átta pundari!“ Ég passa mig á því að hvá ekki, rigsa bara um án þess að hafa hugmynd um hvað fiskurinn var þungur og svo hrekkur upp úr mér;
 
„Já, ansi þungur miðað við stærð“ og aðrir líta undrandi á mig og skilja ekki frekar en ég hvað ég á við.
 
„Pundið“ er ekkert venjuleg mælieining, hún er líklega fundin upp vegna þessa göfugu aðferðar að brúka prik með bandspotta og áföstum öngli til að krækja í lax eða silung. Enginn sem veiðir þorsk með priki dettur í hug að halda því fram að fiskurinn hafi verið fjögur kíló eða tiu kíló tíu eða tuttugu pund. Nei, svoleiðis fiskar eiga að vera tíu eða tuttugu pund.
 
Þeir sem brúka togara til að veiða fiska mæla veiðina í tonnum, en eitt tonn er nákvæmlega eitt þúsund kíló. Enginn með viti myndi segja að togari hafi komið með fjögur hundruð og fimmtíu þúsund pund að landi. Nema auðvitað að andvirðið væri mælt í Sterlingspundum.
 
Að hætti sjómanna!
Landhelgin er í eigu þjóðarinnar rétt eins og það sem er fyrir ofan sjávarmál. Við teygjum hana út í tvö hundruð mílur og fiskurinn sem þar svamlar er líka eign þjóðarinnar. Sumir segja að hann sé bara eign þeirra einstaklinga sem samkvæmt lögum eiga skip til útgerðar, en um það mætti nú rökræða lengi. Hitt hefur þó alltaf brotið heila minn og enn er mér það hulin ráðgáta hvers vegna landhelgin var ekki færð út í 7,8 kílómetra, 92,6 kílómetra eða 370,4 eins og hún mun vera í dag.
 
Sjómennskan er göfug atvinnugrein og sjómenn tala tungu sem leikmönnum kann að reynast örðugt að skilja. Togari nefnist skipið enda þótt botnvörpungur væri fullboðlegt íslenskt orð. Hann dregur troll sem er einfaldlega botnvarpa og jafnvel þó einhverjir halda að bobbingar séu annað orð yfir stór brjóst kvenna er það algjör misskilningur ... en samlíkingin er engu að síður brosleg.
 
Þegar ég sigldi í forláta fleyi frá Aðalvík til Ísafjarðar sagði stýrandinn bátinn ganga fjórtán mílur. Ég kinkaði kolli og reyndi að vera gáfulegur á svipinn, en hann misskildi mig, hélt kannski að mér fyndist gangurinn ekki mikill. „Sko, hann getur gengið sautján mílur, en þá heggur hann meira sem er ekki gott fyrir farþegana,“ sagði hann hróðugur.
 
Hin stórhættulega míla
Ég varpaði öndinni léttar og með sjálfum mér reyndi ég að rifja það upp hvort ökutæki á óravegum hafsins hafi nokkurn tímann verið mæld undir annarri mælieiningu en mílum. Nei, varla. Þessi náungi yrði örugglega rekinn ef hann segði bátinn ná tuttugu og tveggja kílómetra hraða á klukkustund.
 
Auðvitað er meðalhraða á sjó miklu minni en ökutækja á fjórum hjólum á landi og til að breiða yfir þessa vandræðalegu frammistöðu brúka menn mílur og svo þykir það líka flottara núorðið, ekki eins landkrabbalegt eins og að tala um kílómetra á klukkustund.
 
Menn átta sig þó ekki á því hversu hættuleg mælieiningin „mílur“ eru og þess vegna ætti bara að banna hana. Í versta falli gefa einhverjum einum einkaleyfi á henni. Þetta er eins og ef orðið „halló“ merkti ekki bara halló heldur margt annað; „góðan daginn“, „blessuð blíðan“, „gott í sjóinn“, „kaffitími“ og svo framvegis. Bandaríkjamenn brúka mílu, Englendingar líka, Norðmenn, Svíar og miklu fleiri. Vandinn er að til eru sjómílur og líka landmílur. Norska mílan er mælir svo annað en sú sænska, sú enska er allt annað en þessi bandaríska. Og allir standa fast á sinni einu og sönnu mílu.
 
Tugakerfinu tapað
Ég kenndi ungum sonum mínum að telja upp í tíu. Börn eru fljót að átta sig á tugakerfinu og allt í einu kunna þau að telja upp í eitt hundrað, svo eitt þúsund og þau gætu talið upp í milljón ef þau nenntu þessum stöðugu endurtekningum. Allt gott og blessað með það. Svo kom að því að læra að reima skóna, en það hefur ekkert með aðrar tölur að gera en áttuna.
 
„Klukkan átta fara menn að hátta,“ segir í úreltri reglu. Flest börn eiga í stökustu erfiðleikum með að læra á klukkuna og það er engin furða svo órökrétt sem hún er. Jú, hún er tólf og langt gengin í þrettán eða kannski er hún orðin tuttugu og fjögur og langt gengin í eitt eða tólf og langt gengin í eitt. Hvað veit ég?
 
Jólasveinarnir einn og átta þykja ekki stíga í vitið. Kannski voru þeir sjö, átta eða níu. Svo flókið sem það er, virðast tímaeiningarnar ekkert einfaldari.
 
Eitt ár eru tólf mánuðir, einn mánuður er í kringum þrjátíu dagar, hver vika er sjö dagar. Hálfur sólarhringur er tólf klukkustundir. Ein klukkustund er sextíu mínútur, og ein mínúta sextíu sekúndur. Hvers konar flækja er þetta? Af hverju getur einn sólarhringur ekki verið til dæmis tuttugu klukkustundir, ein klukkustund, eitt hundrað mínútur og ein mínúta eitt hundrað sekúndur?
 
„Sko, það er vegna þess að þetta byggir allt á fornri hefð,“ segja þeir sem eru mér fremri að vitu og þekkingu.
 
„Bölvað bull,“ segir þá fúll á móti. Í gamla daga voru dagaheitin allt önnur en þau eru núna en samt var þeim breytt. Er tugakerfið ekki brúklegt við tímamælingu?
 
Tommarinn
„Réttu mér tútommara,“ sagði vinur minn við mig og ég snérist í kringum sjálfan mig, sá ekkert svoleiðis. Hann átti bara við tveggja tommu nagla. Af hverju gat hann ekki beðið mig um fimm cm langan nagla. „Réttu mér fimmarann.“ Nei, annars, ég hefði ekkert betur fattað það.
 
Ég skil samt ekki hvers vegna smiðir geta ekki talað mannamál. Allar teikningar gefa upp lengdir, breiddir og hæðir í sentímetrum eða metrum en samt dregur smiðurinn upp tommustokk. Hann hefur líklega týnt „sentímetrastokkinum“ sínum.
 
Hvernig er hægt að byggja hús svo nákvæmlega að hvergi skeikar millimetra og nota til þess nagla og skrúfur sem mældir eru í tommum og einhverju öðru sem ég man ekki hvað er.
 
Og hún mamma líka
Og ekki batnaði það þegar barnið þarf að fara út í búð og kaupa tvo desílítra af rjóma. „Og þú líka, Brútus, sonur minn,“ sagði hinn svikni Sesar forðum. Meira að segja hún mamma, sem ég á svo mikið að þakka, kenndi mér að telja og læra á klukkuna, hún vildi fá tvo desílítra. Hefði hún beðið mig um að kaupa sex desílítra af kóki. Af hverju er ekki hægt að mæla rjómann í lítrum, heilum eða hálfum, rétt eins og kókið?
 
Aflið
„Rosalegur kraftur í því,“ sagði vinur minn. Við góndum á mótorhjól við gangstéttarbrún og hann sagði að hjólið væri hvorki meira eða minna enn eitthvað ... kúbikk. „Vá!“ sagði ég og lyfti augabrúnum til sannindamerkis um aðdáun mína en með sjálfum mér reyndi ég að finna út hvort þetta kúbikk væri meira eða minna en hestafl sem ég þó hafði náð að skilja.
 
Nei, lífið er ekki einfalt 
Flækjustigið hefur verið langvarandi og erfitt til skilnings. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu.
 
Kannski er finnst einhver hjálpsamur þingmaður í Bjartri framtíð sem væri til í að einfalda málið og leggja fram frumvarp þar sem merkur, pund, mílur, kúbikk, desílítrar, tommur, merkur og álíka orðskrípi væru bannaðar sem mælieiningar. Þetta mætti svo sem gera um leið og hinn hjálpsami og alltumgreiðasami jafnaðarmaður leggur fram frumvarp til laga um að öll laun eigi að vera jöfn og sólin eigi að koma upp þegar við förum í skóla eða vinnu.
 
Mér finnst svo óskaplega mikil ástæða til að allt sem viðkemur lífi okkar sé eins. Allt sé slétt og fellt, enginn fái að skara frammúr, því þá er svo mikil hætta á því að misrétti komist á í þjóðfélaginu. Getur nokkur verið verra en einfalt misrétti nema ef vera skyldi flókið misrétti?
 
Burt með öll þessi misrétti. Niður með fjöllin, upp með dalina!
 

Paul Ryan sættir sig við Donald Trump ...

„Ófreskjan er stigin á land!“ Svo hljóðuðu fyrirsagnir Parísarblaðanna þegar Napóleon keisari steig á land í Suður-Frakklandi, nýsloppinn úr prísund sinni á Elbu. Eftir því sem keisarinn færðist nær höfuðborginni mildaðist tónninn þar til þau birtu að lokum: „Hans hátign, keisarinn, mun halda innreið sína á morgun.“ Allar götur síðan hefur þessi atburðarás verið nefnd sem dæmi um pólitíska hentisemi.

Vel skrifaður og góður leiðari í Morgunblaði dagsins. Hann fjallar þó ekki um Napóleón keisara Frakka heldur Donald Trump. Á leiðaranum á skilja að Morgunblaðinu er ekkert sérstaklega vel við forsetaframbjóðandann. Er það ekki bara ósköp skiljanlegt?

Í leiðaranum er gert að umtalsefni að Paul Ryan, forseti (e. Speaker) fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafi lýst yfir stuðningi við Donald Trump. Ryan er ungur og áhrifamikill republikani, var fyrst kjörinn á þingið 1998 og var varaforsetaefni Mit Romneys og en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði.

Í lok forystugreinarinnar segir og er greinilegt að Ryan þarf að sætta sig við Trump þvert gegn vilja sínum: 

Og raunar hefur Ryan ekki legið á gagnrýni sinni á stefnumál Trumps hingað til. Hann sagði til að mynda að tillaga Trumps um að meina öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna gengi ekki bara gegn gildum íhaldsstefnunnar, heldur einnig gegn öllu því sem Bandaríkin stæðu fyrir.

Líklega gat aldrei gengið til lengdar að æðsti embættismaður repúblíkana á landsvísu myndi ekki styðja forsetaframbjóðanda flokksins. Það að sú stuðningsyfirlýsing komi án þess að Trump hafi í raun beygt af með þau stefnumál sem Ryan gerði svo alvarlegar athugasemdir við kemur hins vegar verulega á óvart. Hans hátign er greinilega komin til Parísar.


Hvaðan er bannsett myndin?

TréFyrir þremur dögum voru birti ég fornar ljósmyndir af reyniviðartré í hlíð og var myndin sögð tekin í Bíldsfelli í Grafningi um 1883, sjá blogg Fornleifs

Í baksýn myndarinnar eru hugsanlega Úlfljótsvatn og Þingvallavatn. 

Efst er myndin eins og hún birtist á vef Fornleifs. Skemmst er frá því að segja að þetta hlýtur að vera spegilmynd. Myndin getur ekki verið rétt vegna þess að sé vötnin eru einfaldlega á röngum stað miðað við að vera tekin úr Bíldsfelli. Fyrir neðan er myndin „rétt“.

Þriðju myndina tók ég á Bíldsfelli þann 4. júní og á henni má greinilega sjá hvernig landið liggur, í bókstaflegri merkingu.

TréAð þessu sögðu vandast málið. Eiginlega er útilokað að myndin sé tekin á Bíldsfelli. Fjallið er frekar lágt, aðeins 217 m. Það skiptist í tvennt, syðri hlutinn er lægri, hæstur um 180 m.

Hvergi á Bíldsfelli er jafn mikill bratti og sést á myndinni. Það er allt frekar slétt og fellt. Á myndinni er klettaborg og fyrir neðan hana er stórgrýtt skriða. Svona klettar finnast ekki í Búrfelli, ekki þar sem sést til Þingvallavatns.

Á þriðju myndinni, litmyndinni, sést frekar lítið í vatnið, raunar miklu minna en á gömlu myndinni. Niðurstaðan er því sú að sú gamla er tekin hærra uppi, hærra en nemur hæsta hluta Bíldsfells. Gæti hún verið tekin í Búrfelli í Grímsnesi?

Bíldsfell útsýni2

Takið eftir lögun Úlfljótsvatns á gömlu myndinni. Það snýr þannig að það er nærri því í vinkil. Taka verður þó tillit til þess að  vatnsyfirborðið var hækkað þegar Ljósafossvirkjun var byggð og þar af leiðandi kann lögun þess að hafa breyst dálítið frá því myndin var tekin. Nær, á litmyndinni, er lítið vatn, Heiðartjörn. Hún sést ekki á svarthvítu myndinni. Eða hvað?

Svo kemur fleira til. Engu líkar er en að allt landslag hafi horfið af svarthvítu myndinni. Á milli Úlfljótsvatns og Þingvallavatns er nokkuð land sem kallast Dráttarhlíð. Hún er frá 150 m á hæð og allt upp í 170 m. Þetta er greinilegt á litmyndinni en ekki á þeirri svarthvítu, þar er landslagið nær horfið.

Tré3_HDR_editbÓþarft er að tala um Búrfell, Botnsúlur og Ármannsfell sem eru þarna í fjarska. Á gömlu myndinni gæti verið þoka sem byrgir fjallasýn.

Svo er það önnur mynd sem birtist líka á vef Fornleifs og er hér til hægri. Hún bæti verið tekið í Bíldsfelli norðanverðu. Hvers vegna?

Jú, ég held það sé hafið yfir allan vafa að fjallið þarna í baksýn er Búrfell í Grímsnesi. Að vísu er myndin hjá Fornleifi spegluð, þó ekki honum að kenna. Hér hef ég snúið henni við. Þar að auki hef ég fiktað dálítið í henni til að geta greint útlínur fjallsins betur.

Mér finnst greinilegt að myndirnar eru af sama fjallinu. Í vettvangsferðinni var ég fyrst og fremst að reyna að finna samsvörun við efstu myndina og gekk því ekki nógu langt norður eftir Bíldsfelli til að sjá niður í Sogið.

Búrfell2Þegar ég var kominn á þar sem ég tók myndina af Búrfelli var ég búinn að missa hæð, hættur að sjá til Þingvallavatns.

Á gömlu myndinni sést landslag sem svipar dálítið til þar sem er útfallið úr Úlfljótsvatni og nú er Ljósafossvirkjun og aðeins neðar Írafoss. Má vera að þar sú upphafleg örnefni á þessum slóðum. Verst er þó að hafa ekki allan samanburðinn á litmyndinni.

Og hver er svo niðurstaðan á þessu brölti?

Tré4 AJú, ég tel mig hafa fundið út hvar neðri svart-hvíta myndin var tekin, en enn er ég óviss með efstu myndina.

Hérna er aftur efsta myndin og inn á hana hef ég sett rauða hringi um kennileiti sem ég átta mig ekki á. Þetta eru báðar myndirnar, sú upprunalega og sú speglaða.

Efst til vinstri á efri myndinni má greina lítið fell sem ég ber ekki kennsl á. Beint fyrir neðan er hringur um breiða sandbrekku. Hún gæti verið uppgróin en hvar er hún?

Tré4 CBeint fyrir ofan eru tveir hringir. Sá vinstra megin gæti verið af bæ nema um sé að ræða galla í myndinni og hægra megin við hann er lítið vatn. Það gæti svo sem verið Heiðarvatn sem áður var nefnt.

Svo er hringur milli minna vatnsins og þess stóra. Mér finnst eins og þau tengist, ekki að þarna sé vatnsfall heldur frekar þrenging. Getur þetta verið Sogið?

Loks er það merkilegasta og það er hringurinn lengst til hægri Þar glampar í vatn sem er enn fjær. Hugsanlega er það Þingvallavatn handan Mjóaness ...

Nú er þetta allt komið hér og ég leita þá til lesenda minna og kalla eftir glöggskyggni þeirra. Mín er ekki næg. Ef til vill þekkir einhver til á þessum slóðum eða þekkir fólk sem er eða var búsett þarna. Allar upplýsingar eru vel þegnar, þó ekki sé til annars en að róa huga minn.

Raunar er það ferlegt að vera svo upptekinn af svona smáræði að eyða laugardegi í göngu og myndatöku. Hins vegar er þetta bara hluti af áhugamálinu. Ágæt skemmtun í sjálfu sér ef maður fengin nú svar um hvar bannsett myndin var tekin. Og hver hefur ekki gaman að göngu og myndatöku?

 

 

 

 


Furðulega vanhæf útgáfa fjölmiðla

Einkenni DV, dv.is, pressan.is og eyjan.is er óskipuleg og metnaðarlaus ritstjórnarstefna. Þetta lýsir sér í illa skrifuðum „fréttum“, þýðingum á ómerkilegu efni úr erlendum fjölmiðlum og endursögnum úr innlendum fjölmiðlum. Verst er þó hve kunnátta blaðamanna í íslensku máli er ábótavant.

Skringilegast er að efni ofangreindra miðla miðast eingöngu við að fylla upp í pláss á milli auglýsinga.

Svona útgáfa getur ekki enst til lengdar. Úrbóta er þörf en þær spretta varla út úr höfðum óreyndra manna sem hafa hvorki menntun né reynslu á þessu sviði, jafnvel þó þeir telji sig „blaðamenn“.


mbl.is Kolbrún og Hörður ritstjórar DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband