Ekki einkavæða Landsvirkjun, segir Davíð Oddsson

Ég er þeirrar skoðunar að við einkavæðingu eigi eitt meginatriði að gilda við skoðun á öllum málum: Er viðkomandi fyrirtæki sem er í þjóðareign, ríkiseign eða sveitarfélagseign með einokunaraðstöðu að einhverju tagi, þá fer ekki vel á því að einkavæða það.

Ef fyrirtækið er með raunverulega einokun á einhverju sviði þá er eðlilegra að það sé í opinberri eigu.

Þessa stórmerkilegu yfirlýsingu lét Davíð Oddsson frá sér fara á fundi í Grafarvogi þann 8. júní 2016. Raunar er hún hápólitísk og gengur þvert á það sem fjölmargir hafa haldið fram um skoðanir Davíðs á einkavæðingu.

Raunar var það svo að á fundinum kom fram fyrirspurn sem var um „einkavinavæðingu“ Landsvirkjunar. Davíð lét ekki orðalagið trufla sig og svaraði afar skilmerkilega eins og sjá má. Hann lét þó ekki þar við sitja og bætti við:

Menn hafa verið að tala um alls konar samkeppni eins og í raforkugeiranum en hún hefur ekki átt sér stað. Talað er um að einhver samkeppni sé vegna Evrópu og hækka þurfi raforkutaxta hér hægt og rólega á fólkið í landinu af því að menn eru að undirbúa það að það verði nægilega ódýrt að leggja rafstreng milli landi til að selja Bretum. Ég vil að menn geri það með opnari hætti og plati ekki fólk.

Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku.

Hér gefur að líta allt aðra mynd af pólitískum skoðunum Davíðs Oddssonar en andstæðingar hans vilja vera láta. Líklega reka margir upp stór augu þegar Davíð segist á móti því að selja Landsvirkjun vegna þess að hún sé opinbert fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Er þetta ekki nóg einföld og skýr afstaða?

Látum almenning njóta arðsins af góðu gengi raforkuframleiðslunnar, segir Davíð og hafnar því að ríkið fái arðinn í einhvern sjóð til að „gambla“ með. Er þetta ekki nógu skýr afstaða?

Greinilegt er að Davíð Oddssyni líst illa á sæstreng til Bretlands. Og hann hefur ekki einu sinni rætt um umhverfislegar afleiðingar sæstrengsins, allar virkjanirnar sem reisa þarf hér á landi til að hann sé fjárhagslega réttlætanlegur og ekki heldur meðfylgjandi rask á kostnað náttúru landsins.

Ágæti lesandi, vissir þú um þessar skoðanir Davíðs Oddssonar?

Ef ekki, hvers vegna?

Líklega er ástæðan sú að rödd Davíðs hefur ekki heyrst vegna hávaða. Andstæðingar hans hafa einfaldlega lagt ofuráherslu á læti og upphrópanir og haft mikið fyrir því að rangtúlka hann, endursemja söguna, eins og þeir sjálfir segja.

Einfaldasta og besta leiðin til að mynda sér skoðun á Davíð Oddsyni er að hlusta á manninn. Vissulega er Davíð umdeildur, það er allt annað mál. Hins vegar hafa andstæðingar hans yfirleitt farið rangt með orð hans og stefnu. 

Ég er nærri því fullviss um að þú, lesandi góður, vissir ekkert um ofangreindar skoðanir Davíðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fólk vissi ekki um þessar skoðanir Davíðs af því að þær eru nýjar. Sem forsætisráðherra stóð hann fyrir stórfelldustu einkavæðingu í sögu landsins og dró ekki af sér í þeim efnum eins og einkavinavæðing bankanna bar glöggt vitni um.

Hugmyndir um sæstreng komu fyrst upp á miðri stjórnartíð hans og hvergi heyrðist hann ýja einu gagnrýnisorði að því.

Þegar ég síðan minnist á það í bloggpistli að Þjóðhagsstofnun hafi verið lögð niður í forsætisráðherratíð hans (hún heyrði beint undir hann) og bankarnir einkavæddir á þann hátt á hans forsætisráðherravakt að hugmyndir hans og Eyjólfs Konráðs Jónssonar um dreifða eignaraðild voru að engu hafðar, eyddi Davíð lunganum af heilu Reykjavíkurbréfi í að kalla mig ómerking og bullukoll varðandi þessi mál.

Hann birti heila blaðaúrklippu frá 1988 um það að Þorsteinn Pálsson hefði sett Ólaf Ísleifsson í það að skoða möguleika þess að leggja Þjóðhagsstofnun niður til að sanna þetta hefði verið hugmynd Þorsteins en ekki hans.

Sem sagt: Af því að niðurstaðan í stjórnartíð Þorsteins Pálssonar 1988 var sú að leggja EKKI Þjóðhagsstofnun niður, væri það rugl í mér að Davíð hefði gert það 14 árum síðar!

Í þessu sama Reykjavíkurbréfi sagði Davíð mig ómerking varðandi einkavæðingu bankanna. Hún hefði farið eins og hún fór vegna "kennitölusöfnunar"! Engin ábyrgð hjá forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar sem þetta gerði og sá til þess að hinn innvígði og innmúraði Kjartan Gunnarsson yrði formann bankaráðs Landsbankans !

En kennitöluflakk og kennitölusöfnun var og er auðvitað heilög kýr hjá ríkjandi stjórn bæði þá og nú.

Karl Garðarsson Alþingismaður var gerður afturreka með tillögur um mjög vægar breytingar á lögum þar að lútandi.

Er furða þótt maður geti orðið svolítið ringlaður þegar skoðanir ög gjörðir Davíðs eru annars vegar.  

Ómar Ragnarsson, 9.6.2016 kl. 14:36

2 identicon

Þó bankarnir séu og voru því sama marki brenndir og flest önnur fyrirtæki hér að samkeppnin er takmörkuð, voru þessir tveir í samkeppni við einkabanka og sparisjóði. Einkavæðing þeirra var því í samræmi við þessa skoðun Davíðs.

Salan á grunnneti Símans (nú Míla) er kannski annað mál, en ég man ekki að hve miklu leyti Davíð kom að því.

ls (IP-tala skráð) 9.6.2016 kl. 14:55

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Séu þessar skoðanir sem fram koma í pistlinum nýjar þá er það gott. Hins vegar eru þær gamlar, þekki þær ágætlega þó ég hafi ekki á takteiknum tilvísun.

Get ómögulega fylgt þér í ferðalögum út fyrir efni pistilsins. Ég skil ekki hvað Þjóðhagsstofnun kemur þessu máli við né heldur kennitölusöfnun.

Leitt til þess að vita að þú hafir verið kallaður ómerkingur og bullukollur, veit að það er ekki rétt jafnvel þó Davíð Oddsson hafi sagt það.

Svo er það segin saga að sumir eru svo óskaplega snöggir að koma með nýjar ávirðingar á Davíð þegar aðrar hafa verið hraktar. Greinilegt er að fjölmargir eru með hann á heilanum.

Þegar gengið var til forsetakosninga 1968 var föðursystir mín spurð að því hvort hún ætlaði að kjósa Gunnar Thoroddsen. Hún hélt nú ekki og bar það upp á hann að hafa einhvern tímann ekki heilsað sér á götu. 

Eflaust er það í lagi að kjósendur séu hörundsárir en þeir sem taka afstöðu í stjórnmálum og tjá sig um þau eins og Ómar gerir verða hins vegar að brynja sig gagnvart ónotum. Hins vegar er það mín staðfasta skoðun að menn eiga að vera málefnalegir í rökræðum, annað er óafsakanlegt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.6.2016 kl. 15:17

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bankarnir á tímum einkavæðingarnar voru þrír og auk þess fjöldi sparisjóða og ýmissa annarra sem véluðu um peninga. Ósköp skiljanlegt að bankarnir tveir hafi verið einkavæddir. Þegar litið er til baka er að sá veldur sem á heldur. Þrír bankar, ekki tveir, fóru sömu leið, lóðbeint á hausinn og nokkur eintök sparisjóða.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.6.2016 kl. 15:21

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sæll Sigurður. Ja batnandi manni er best að lifa er sagt. Eða eigum við kannski að segja ,,öðruvísi mér áður brá".  Það er gott ef Davíð er búinn að læra af reynslunni og er búinn að sjá að einkavæðing á allskonar lífsnauðsynlegri þjónustustarfsemi er glapræði. Sérstaklega í litlu samfélagi eins og á Íslandi þar sem seint verður hægt að koma á virkri samkeppni.

Þórir Kjartansson, 9.6.2016 kl. 20:41

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég minnist forystugreinar í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, sem hét "Hundur að sunnan" eða eitthvað í þá áttina.  Þar var varað eindregið við hugmyndum stjórnenda Landsvirkjunar um sæstreng á milli Íslands og Bretlands.  Ritstjórn Morgunblaðsins tók mönnum vara við þessu verkefni, m.a. af því, að það væri líklegt til að hækka raforkuverðið hérlendis, og mér fannst af efnistökum líklegt, að Davíð Oddsson væri höfundurinn.  Sjálfur tel ég, að auðurinn, sem forkólfar LV boða, að af þessu hljótist, sé glópagull. 

Ég er algerlega sammála DO um, að "hefðbundin einkavæðing" Landsvirkjunar yrði mjög óeðlileg, af því að hún hefur ríkjandi markaðsstöðu.  Mér finnst hins vegar koma til greina að bjóða íslenzku lífeyrissjóðunum lítinn hluta, t.d. 10 %, til kaups, og að hluti arðs fyrirtækisins renni beint í vasa íslenzkra skattborgara. 

Bjarni Jónsson, 9.6.2016 kl. 21:25

7 identicon

"Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku."

Þetta er furðuleg stefna. Við hljótum að vilja hámarka orkuverð úr þeim virkjunum sem þjóðin á í gegnum eignarhald á Landvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða, og borgarar í Reykjavík og Akureyri í gegnum eignarhald á Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK. Erlend stjóriðja notar 4/5 af allri orku landsins, og því renna 5 krónur í sameiginlega sjóði fyrir hverja 1 kr. sem við Íslendingar þurfa að borga í aukið rafokrkuverð.

Haukur (IP-tala skráð) 10.6.2016 kl. 03:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband