Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Eftirlaunaþegi gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega

Til að öðlast trúverðugleika, til að hann verði talinn marktækur, til að nýta einstakt tækifæri til að sópa að sér fylgi í komandi kosningum verður flokksforystan, flokksráð og þingflokkurinn að standa í lappirnar og fara að samþykktum landsfunda undanbragðalaust, svo sem því sem samþykkt var á síðasta landsfundi. Ótal spurningar hrannast upp. Hvað hyggst Sjálfstæðisflokkurinn gera til bjargar heimilunum? 

Þetta eru orð Ólafs Ásgeirs Steinþórssonar í grein í Morgunblaðinu í morgun og fjallar um verðtryggingu og flokkssamþykktir. Ólafur titlar sig eftirlaunaþega og ritar undir fyrirsögninni: „Loksins, loksins - Opin bréf til landsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins“.

Grein Ólafs er góð. Hann tekur þarna á málum sem við óbreyttir sjálfstæðismenn höfum lengi viljað að tekið verði á. Landsfundur flokksins er æðsta valdið, kjörnum fulltrúum flokksins á þingi og í sveitarstjórnarmönnum er hollast að hafa það hugfast.

Síðastliðið haust gafst fólki kostur á að hringja í Valhöll og fá viðtöl við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Mér var úthlutað Kristjáni Þór Júlíussyni. Ég spurði hverju það sætti að ekkert hefði heyrst um samþykktir og tillögugerð þingflokksins varðandi einróma samþykkt síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um tafarlaust afnám þeirrar lögvernduðu eignaupptöku, með öðrum orðum, grófasta stórþjófnaði í allri Íslandssögunni úr vösum almennings, sem nefndur er verðtrygging. Svar hans var þetta: „Ja, sko. Við höfum ekki haft tíma til að reikna það út hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð.“ Hafið þið ekki haft allt kjörtímabilið til að reikna þetta dæmi? spurði ég á móti. „Ja, þetta er nú bara svona, kallinn minn“ var svar hans. Aumara gat svar hans ekki verið.

Já, aumara gat svar hans ekki verið. Þó Kristján Þór sé mætur maður má hann skammast sín fyrir þetta svar. Hann hefði átt að segja sem var: Við höfum ekki tekið nægilega vel á þessu máli og ég bið þig afsökunar á því. Þannig eiga höfðingjar að svara, en ekki láta hrekja sig út í horn.

Ólafur gagnrýnir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins harðlega m.a. fyrir stefnuleysi í málefnum eldri borgara, afnám verðtryggingarinnar og skuldavanda heimilanna. Hann segir í lokin:

Fólk mun ekki kjósa þann flokk framar sem ekki lyftir hendi til varnar heimilum sem eru að fara undir hamarinn, eiga minna en ekki neitt, hafa verið rænd sparifé sem þau áttu í formi húsnæðis á sama tíma og peningar þeirra sem eiga þá á bók eru varðir í bak og fyrir. Mér er kunnugt um fjölda sjálfstæðisfólks sem er sama sinnis. Þetta fólk mun ýmist kjósa Framsóknarflokkinn, sem einn flokka hefur tekið málstað heimilanna í landinu eða skila auðum seðlum. Það er komið að þolmörkum. Fólk á ekki að láta bjóða sér hvað sem er. Fólk er þreytt og fólk er reitt og að lokum mun það grípa til örþrifaráða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Grein Ólafs er ein harðasta gagnrýni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið á sig og hún kemur frá „eftirlaunaþega“. Í ljósi þess að flokkurinn hefur yfir að ráða afburða fólki, sérfræðingum af öllu tagi, hefur hann lítið sér til málsbóta.

Fólk krefst þess að flokkurinn taki afstöðu. Það mun hann aldrei gera með einhverju kjaftæði og úrtölum. á landsfundinum verður hann að setja fram stefnu sína með skýrum og afmörkuðum hætti. Hver ályktun fundarins á á byrja á þremur tölusettum liðum. Í þeim á að koma fram eftirfarandi:

  1. Hvað?
  2. Hvernig?
  3. Hvenær?

Við eigum að setja fram stefnu okkar og leggja hana óhræddir fyrir kjósendur. Afleiðingin verður þá aldrei verri en sú að við Sjálfstæðismenn getum ekki borið höfuðið hátt. En gætum okkar, Ólafur Ásgeir Steinþórsson er ekki einn. Þúsundir manna líta til landsfundarins og taka afstöðu eftir niðurstöðu hans. Þeir fylgjast vandlega með okkur ...


Í gróðavon verður gullgæsinni slátrað

Skatttekjur
Þrátt fyrir skattahækkanir á umliðnum árum voru skatttekjur ríkissjóðs á laun og hagnað á hvern starfandi mann á liðnu ári nánast jafn miklar að raunvirði og á árinu 2004.
 
Þetta hefur Morgunblaðið í morgun eftir Júpíter rekstrarfélagi og meðfylgjandi súlurit fylgir til skýringar fréttinni.
 
Þetta er eiginlega stórmerkilegt og bendir til „að tekjuaukning ríkissjóð hafi nánast verið engin á hvern starfandi mann“, eins og fram kemur í fréttinni.
 
Tvennt getur skýrt þessa aumlegu stöðu ríkissjóðs eftir nær fjögurra ára valdatíma klofinnar ríkisstjórnar norrænnar velferðar og skjaldborgar. Annars vegar hefur atvinnuþátttaka minnkað afar mikið vegna atvinnuleysis og landflótta. Hins vegar gerist það óvænta að almenningur heldur að sér hendinni svo ofurskattlagður sem hann er. Jaðarskatturinn er svo hár að það borgar sig ekki að vinna mikið.
 
Fyrir vikið dregur úr skatttekjum ríkissjóðs. Vinstri stjórnin ætti auðvitað að vera samkvæm sjálfri sér og hækka enn skattana, reyna að kreista meira út úr almenningi. Það mun áreiðanlega takast enda margoft verið bent á að gullgæsinni má slátra, inni í henni eru ótrúleg auðæfi.
 

 

Auðvelda þarf göngu- og hjólreiðafólki för

Betri gönguleiðir eru stóra krafa almennings á sveitarfélög sín, ekki síst á Reykjavíkurborg. Margt hefur verið gert gott en þó er kerfi gönguleiða handahófskennt og víðast göngufólk berskjaldað fyrir umferðinni. Það er einfaldlega ekki nóg að búa til göngu- og hjólaleið með útjaðri borgarinnar eða ströndinni. Mjög brýnt er að búa til gönguleiðir sem teygja sig innan hverfa og út úr þeim.

Undanfarnar vikur hef ég ekki aðeins gengi um borgina heldur líka tekið gamla hjólið fram og ferðast á því um borgina. Reynsla mín er almennt góð en hins vegar má miklu betur gera. Bíllinn má svo sem hafa þann forgang sem hann hefur en það eru ýmsar aðferðir til að auðvelda gangandi og hjólandi fólki ferðir þeirra. Það má gera með brúm yfir helstu umferðaræða og ekki síður göng. Gleymum því ekki að það getur verið betra fyrir alla að setja umferðina í stokk eða göng, t.d. Miklubraut frá Snorrabraut og upp að Kringlumýrarbraut.

Grundvallaratriðið fyrir göngu- og hjólreiðafólk er að komast greiðlega áfram, án mikilla tafa. Lýsing skiptir einnig miklu máli, hún er víða léleg. Um leið verða allar fyrirstöður ógreinilegar og hálkublettir sjást ekki fyrr en eftir á. Þess vegna er afar slæmt ef fólk leiðist út í það að þurfa að ganga eða hjóla á götum, það býður slysunum heim. 


mbl.is Vilja betri gönguleiðir í Hlíðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli Björn leggur fram verkefnalistalista ríkisstjórnar

Utan þingmanna þegja flestir frambjóðendur á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins, líklega eru þeir að bíða eftir línunni frá landsfundinum sem haldin verður í lok næsta mánaðar. Sá eini sem er að er Óli Björn Kárason, varaþingmaður og frambjóðandi í SV kjördæmi. Hann hefur skoðanir, berst fyrir þeim og skrifar góðar greinar í dagblöð og birtist í umræðuþáttum. Fleiri mættu að ósekju taka hann sér til fyrirmyndar.

Óli Björn ritar grein í Morgunblaðið í morgun og leggur persónulega fram drög að verkefnalista fyrir nýja ríkisstjórn. Hann gerir það sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að gera, setja fram skýrt afmarkaðar tillögur:

Verkefnin eru fjölmörg og ekki hægt að gera hér tæmandi grein fyrir þeim. Það má þó gera ákveðin drög að verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar:

  • Rammaáætlun endurskoðuð og breytt til samræmis við tillögur sérfræðinefndar um nýtingu vatnsafls og jarðjarma.
  • Auðlegðarskatturinn afnuminn.
  • Gerðir langtíma nýtingasamningar um fiskveiðiauðlindir.
  • Fjögurra ára áætlun um lækkun tekjuskatts fyrirtækja og einstaklinga. Þrepaskipting tekjuskatts afnumin. Tvísköttun arðgreiðslna afnumin og fjármagnstekjuskattur lækkaður í áföngum.
  • Tryggingagjald lækkað samhliða auknum fjárfestingum. Gjaldið verði ekki hærra en 5,34% í árslok 2014.
  • Afnám gjaldeyrishafta í ákveðnum skrefum á 12-18 mánuðum. Lífeyrissjóðir fái strax heimild til erlendra fjárfestinga fyrir a.m.k. 30% af árlegu ráðstöfunarfé.
  • Áætlun um sölu ríkiseigna samhliða yfirlýsingu um að allar tekjur af sölu þeirra renni til að greiða niður skuldir.
  • Fjármálaregla um útgjöld ríkisins innleidd þannig að útgjöldin verði ekki hærri en sem nemur ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu.  

 

Sagt er að það sé betra að gera vitleysu en gera ekki neitt. Þá má alltaf leiðrétta en aðgerðarleysið eitt og sér stendur með öllum göllum sínum.

Í ljósi þessa verður forvitnilegt að fylgjast með Óla Birni Kárasyni og baráttu hans á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og hvort hann nái að hvetja aðra frambjóðendur flokksins til dáða. Það gengur auðvitað ekki að ná einungis því takmarki að hreykja sér á lista og gera svo ekki neitt. 


Hin týnda þjóðaratkvæðagreiðsla Ögmundar um Nató

Nato

Innanríkisráðherrann er einn af þeim mönnum sem eru iðnir að koma með hugmyndir og byrja á ólíklegustu verkefnum. Hann er hins vegar afar lélegur í að vinna þeim brautargengi, hvað þá að klára þau.

Ögmundur Jónasson hafði á árinu 2010 verið heilbrigðisráðherra og kampakátur sem slíkur, rétt um ár síðan ríkisstjórnin tók við völdum. Þegar þarna var komið sögu vildi hann, þessi gamli allaballi og herstöðvarsinni og friðarandstæðingur (eða var það á hinn veginn, man það aldrei), nota tækifærið og koma Íslandi úr Nató.

Þann 2. september birti mbl.is viðtal við Ögmund sem ætlaði „að kanna hljómgrunn fyrir því innan sinna raða hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ögmundur leggur áherslu á að málið sé á frumstigi en hann kveðst vongóður um stuðning.

Forvitnilegt er að lesa núna viðtalið við Ögmund, sérstaklega í ljósi þess að kjörtímabil ríkisstjórnarinnar er nú nær á enda runnið. Ýmislegt hefur verið gert en annað látið reka á reiðanum.

Ég hef grun um að þetta [þjóðaratkvæðagreiðsla] njóti víðtæks stuðnings innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þó ég byggi það einvörðungu á getgátum en ekki neinni vísindalegri athugun. Ég gef mér að fólk sem fylgi VG að málum vilji gjarnan að Ísland standi utan hernaðarbandalaga. Ég held að það sé almennt og útbreitt viðhorf.

Mér finnst sjálfsagt að vilji til þessa verði kannaður. 

Ekkert hefur hins vegar bólað á niðurstöðu könnunar Ögmundar. Hitt er ljóst að enn eru Íslendingar í Afganistan og VG gerði ekki nokkrar athugasemdir við árásir Nató á Líbíu. Engar breytingar hafa orðið á aðild Íslands að Nató, þar er haldið áfram eins og áður og verkefnunum frekar fjölgað en hitt. 

Svo heldur fréttin áfram:

- Hversu sáttur hefurðu verið við utanríkisstefnu stjórnarinnar á þeim tíma sem þú hefur staðið utan hennar?

„Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi fylgt miklu skaplegri stefnu í utanríkismálum en forverar hennar hafa gert. Ég er ekki í neinum einasta vafa um að svo hafi verið.

Það hefur dregið úr viðleitni til að fara inn í hernaðarleg samvinnuverkefni eins og var hér áður og aðrar áherslur uppi. Þannig að ég tel að við höfum verið á réttri leið hvað þetta snertir. Ég nefni líka afstöðu til Palestínu sem dæmi,“ segir Ögmundur Jónasson. 

Jamm, þannig var nú það ...

Hin „skaplega stefna“ fjögurra ára í utanríkismálum er nú þannig að enn erum við í Nató og enn er áfram haldið með aðlögunina að ESB.

Stefnan kom þó ekki ókeypis enda eru Vinstri grænir eru búnir að missa tvo þriðju hluta fylgis síns ef marka má skoðanakannanir. Mikið má Ögmundur nú vera stoltur.


Söguleg mistök vinstri manna endurtaka sig

Þannig er nú staðan, í sögulegu tilliti, að vinstri menn hafa aldrei átt meirihluta á Alþingi í fullt kjörtímabil. Ugglaust tórir ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms til vors en það breytir því ekki að hún hefur ekki meirihluta á þingi. 

Þetta má hafa til um stjórnvisku og glöggskyggni þeirra skötuhjúa að þau hafa hrakið frá sér stuðningsmenn sína, flokkar þeirra klofnað og margklofnað. Þannig fór sem sé með samvinnu vinstri manna á Alþingi Íslendinga.  

Hitt skulum við hafa í huga hvers vegna svona fór.

  1. Aðildarumsóknin að ESB
  2. Skuldastaða heimilanna
  3. Skattaáþján almennings
  4. Atvinnuleysið
  5. Landsflóttinn
  6. Árásin á atvinnulífið
  7. Bankarnir sem gefnir voru hrægammasjóðunum
  8. Óheiðarleikinn, t.d. störfin í pípunum, launahækkun forstjóra Landspítalans ofl.
Og svona má lengi telja. Von er að Jón Bjarnason gerist þreyttur. Hann hefur þó ekki sagt sig úr Vinstri grænum, aðeins þingflokknum.

 


mbl.is Jón úr þingflokki VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum vöku okkar gegn ESB

„Þeir“ ætla að reyna að breyta umræðugrundvellinum, fela ESB, koma með ný og umdeild mál sem geri það að verkum að almenningur gleymi fullveldinu og öllu því sem örþjóðina skipti. Og til hvers? Jú, svo „þeir“ eigi einhverja möguleika á endurkjöri.

Dæmi um þetta er klámherferð Ögmundar Jónassonar sem svo sem er góðra gjalda verð þó hann segi á heimasíðu sinni í dag: 

Margir verða nú til þess að taka upp hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Flestir gera það undir formerkjum tjáningarfrelsis. 

Þetta er alveg stórmerkileg nálgun hjá manninum, þeir sem áhyggjur hafa af tjáningarfrelsinu séu í hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Svona málflutningur er hreinlega til skammar fyrir Ögmund og fyrir aðra er þetta dæmi um blekkingarleik sem Ögmundur og fleiri eru þekktir fyrir. Hræra í orðum og gera fólki upp skoðanir í stað þess að rökræða. En þrátt fyrir þessa umræðu megum við ekki gleyma ESB umsókninni.

Stjórnarsinnar ætla sér að nota stjórnarskrármálið til að breyta umræðugrundvellinum fyrir kosningar. Leggja á megináherslu á að troða málinu í gegnum þingið. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefnir átján fræðimenn á vef sínum. Allir hafa þeir gert athugasemdir við frumvarpið sem stjórnlagaráð samdi og lagt hefur verið fyrir Alþingi. Einar segir:

Engar líkur eru á að nokkurt tillit verði tekið til athugasemda þessa fólks. Meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis virðist ætla að sniðganga sjónarmið þeirra og fara sínu fram. Það er greinilega ætlunin að skeyta hvorki um skömm né heiður.

 Það er gróflega dapurlegt að forysta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis ætlar að sniðganga viðvörunarorð okkar helstu sérfræðinga um hugmyndir að nýrri stjórnarskrá.

Forystufólk nefndarinnar, þær stöllur Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir, vinna eftir kjörorðinu „Vér einir vitum“. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart.

 Þetta er vel skrifað hjá Einari en þrátt fyrir það megum við ekki gleyma ESB málinu.

Í gær var eftirfarandi birt á vefnum Vinstri vaktin gegn ESB:

Sá sem hér heldur á penna í þetta skiptið hér á Vinstri vaktinni telur að hin gömlu gildi "vinstri" og "hægri" verði einfaldlega að setja til hliðar nú um stund á meðan að þessu ófyrirleitna og lymskulega umsátri stendur um sjálfsstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin þarf með öllum ráðum að verjast þessum úrtölu- og niðurrifs öflum sem engu eira í áróðurs lygaþvælu sinni við að koma þjóðinni með góðu eða illu undir Brussel valdið. Við getum ekki grátið hörmuleg örlög VG endalaust við þurfum að bíta á jaxlinn og safna liði fram til sóknar. 

Nauðsynlegt er að andstæðingar ESB aðildar haldi nú vöku sinni og láti ekki villa um fyrir sér þegar stjórnarflokkarnir tveir reyna að breyta umræðunni og fela ESB aðlögunina fyrir kjósendum og beina athyglinni að miklu veigaminni málum. Því hvað er eiginlega mikilvægara en fullveldi þjóðarinnar?

Munum svo að ríkisstjórnin hefur sótt um aðild landsins að ESB og þess vegna er núna verið að breyta stjórnskipulag, lög og reglur þjóðarinnar svo þetta samrýmist því sem sambandið hefur samþykkt. Við stöndum ekki í samningaviðræðum við ESB, verið er að aðlaga, gera okkur að nýlendu. Og í lokin verður ekki um neina samninga að ræða. Þá er staðan einfaldlega þannig að við getum gengið inn í ESB og hurðin skellur í lás að baki okkar.  

 


Eldgos á Heimaey, þjóðhátíð og fótbolti

Móðir mín vakti mig þennan dag eins og venjulega og sagði að nú væri byrjað að gjósa í Vestmannaeyjum. Stórmerkilegar fréttir fannst mér og ég borðaði morgunverð og fór í skólann.

Ég var sextán ára og var á „fyrsta ári“ í menntaskóla. Raunar var það svo að við vorum eitthvað um sextíu manns sem höfðu ekki fengið inni í menntaskólum höfuðborgarinnar heldur vorum sett í Vörðuskóla, þar hafði verið stofnuð svokölluð menntadeild. Hún var undir stjórn Menntaskólans í Reykjavík og næsta haust fórum við mörg þangað inn og þá í fjórða bekk samkvæmt fornu bekkjaskipulagi skólans.

Hjálpa til  

Nú, þetta var bara útúrdúr. Mér og skólafélaga mínum, Jónasi Inga Ketilssyni, fannst alveg ómögulegt að komast ekki til Eyja þar sem fjörið var og ekki síst að sjá eldgosið og hjálpa til. Við kjöftuðum okkur í ham og það endaði með því að við örkuðum niður á Hverfisgötu og bönkuðum upp hjá Almannavörnum ríkisins. Ekki man ég hvort þetta var 23. janúar eða einum eða tveim dögum síðar. 

Við fengum viðtal við mjög áhugasaman mann sem tjáði okkur að því miður yrðum við að vera átján ára til að komast í hjálparhópa sem sendir væru til Eyja. Engu að síður tók hann niður nöfn okkar og símanúmer og kvaðst myndi hafa samband ef mannskap skorti eða eitthvað annað kallaði á. Af fundinum fórum við afar bjartsýnir og þóttumst miklir menn og meiri líkur en minni að á okkur yrði kallað. En nú fjörtíu árum síðar hafa Almannavarnir ekki enn haft samband við okkur og ég geri ekki ráð fyrir því að við verðum kallaðir héðan af.

Þjóðhátíð á Bökkum 

Um sumarið var áðurnefndur Jónas ráðinn til Vestmannaeyja á vegum einhvers verktakafyrirtækis. Þjóðhátíð var haldin um sumarið enda hafði goslokum verið lýst yfir og allt með kyrrum kjörum. Ég fór til á mína fyrstu og einu þjóðhátíð og komst að því að hátíðin var haldin í fyrsta og eina skiptið úti á svokölluðum Bökkum. Ég fékk inni í gömlu húsi þar sem verktakafyrirtækið hýsti starfsmenn sína og þar var stanslaus gleði alla þjóðhátíðina. Man eftir ballettdansmeyjunni íðilfögru sem við allir féllum í stafi fyrir og bárum á höndum okkar alla þjóðhátíðina en ... ekkert gerðist. Í beinu sambandi við þetta man ég eftir lundanum sem seldur var í stykkjatali og var betri en allt annað. Einhverjum félaga okkar týndum við, héldum að hann hefði orðið heppinn og hitt vingjarnlega stelpu en það var nú öðru nær. Hann sagðist hafa villst og farið „út í sveit“. Það fannst okkur undarlega orðað. Ekki væri hægt að villast á Heimaey og þar væri engin sveit nema að öll eyjan væri „sveit“. Hann sór og sárt við lagði og sagðist hafa hitt kindur og hross. Honum var bent á að halda sig við stelpurnar.

Eftirminnilegust er þó skemmtiförin ofan í gíg Eldfellsins. Gufur lagði upp af hrauninu og fjallinu en þær sköðuðu mig ekkert að ráði ... held ég ... og þó! Hitt er skýrt að við fórum ofan í gíginn og aftur upp úr aftur. 

Í gíginn hef ég ekki komið síðan og tel mig ekki þurfa þess. Hins vegar hef ég margoft komið til Eyja síðan og alltaf notið þess hvort heldur það hafi verið á að hitta Eyverja, þing SUS, á Tommamót eða bara í skemmtiferð. Um tíu árum síðar fór ég út í Surtsey og dvalið þar í rúman sólarhring.

Shellmót í Eyjum 

Skan210

Engar myndir tók ég á þessari frægu þjóðhátíð í Eyjum. Var eiginlega ekki byrjaður á myndatökum. Hins vegar er hér stórmerkileg mynd sem tekin var nákvæmlega tuttugu árum síðar á Shellmóti í Eyjum, 1993. 

Lengst til vinstri er Magnús Gylfason sem þarna var þjálfari tveggja eða þriggja liða tíu og ellefu ára KR-inga.

Maggi átti aldeilis eftir að setja mark sitt á knattspyrnusöguna, hjá KR, Víkingum og auðvitað ÍBV. Og núna er hann þjálfari hjá Val.

Skan204

Næstur honum er Grétar Sigfinnur, sonur minn, sem enn leikur með KR. fyrir framan hann er Jakob Sigurðsson, eitt mesta efni sem ég hef séð í fótbolta. Hann var afar smár en knár og leikinn með boltann. örlögin höguðu þó því að hann lagði fyrir sig körfubolta og gerði garðinn frægan með KR og er nú hjá Sundsvall í Svíþjóð.

Mér eru allir þessir strákar afskaplega eftirminnilegir og ekki síður foreldrarnir sem stóðu þétt saman og fóru víða með strákunum sínum, það er þangað til þeim þótti það ekki lengur gaman að hafa pabba og mömmu á hlíðarlínunni.

Jæja, læt þessu nú lokið enda búinn að hlaupa úr einu í annað, þó ekki án tenginga. 


Virða Vegagerðinni það til betri vegar ...

Þó velvirðing sé ekki beinlínis afsökunarbeiðni má virða það til betri vegar að Vegagerðinni þyki ófarir vegfarenda á þjóðvegum verðskuldi samúð ...

Bein og klár vegfarendavirðing er sjaldgæf hjá stofnuninni og þar er nú yfirleitt vísað á Pílatus ef almenningur á í vanda. Á hitt ber að benda að gallaðir vegir valdið miklu tjóni á ökutækjum og óvíst hver beri endanlega ábyrgð. Kannski er Vegagerðin tilbúin að samþykkja eitthvað fyrir sína parta.

Batnandi fóli (líka fólki) er best að lifa, segir einhvers staðar og ljóst að hvort sem velvirðingin hafi verið fundin upp hjá almannatengslum stofnunarinnar eða komið frá hjartastað hennar, eða þar um kring, getur hún einhent sér í að vinna í að leysa vandamálið en ekki vera stöðugt með hugann við fjölmiðlaumfjöllunina. Það er einmitt þetta sem iðulega gerist hjá stofnunum og jafnvel fyrirtækjum að reynt sé að smeygja sér framhjá ábyrgðinni, sleppa afsökunarbeiðninni (eða velvirðingunni). Þá fyrst verður allt vitlaust og friðurinn út. 


mbl.is Vegagerðin biðst velvirðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn, málefni, vítt umboð og faðmlag

Einn af þeim sem farið hefur mikinn og stundum rosalega í stjórnmálum er Lýður Árnason, læknir og stjórnlagaráðsmaður. Hann ætlaði sér að fara fram fyrir stjórnmálaflokkinn Dögun en eins og gerist svo oft með kappsama menn gat honum ekki lynt við aðra og hefur því sagt sig úr flokknum.

Nú leita þessir hann að öðrum sem hafa sömu tilfinningu fyrir samvinnu því hann ætlar að bjóða sig fram fyrir þjóðina hvort sem hún vill eða ekki.

Mér finnst eins og ég hafi séð þetta leikrit áður eða sambærilegt. Man eftir Borgarahreyfingunni sem sprakk í loft upp vegna baktals og samvinnuskorti á fyrstu dögunum eftir þingsetningu 2009. Þá varð til Hreyfing með þremur mönnum og einn hrökklaðist í VG sem núna hefur tapað miklu fylgi. Þessir þrír hafa svo hlaupið í aðra flokk svo annað er ekki eftir að Hreyfingunni en minningin ein.

Án efa finnur Lýður Árnason sér annan flokk eða stofnar nýjan. Spái honum langlífi í stjórnmálum þurfi hann ekki að takast á við leiðindi eins og samvinnu. Mér finnst fréttin í dv.is um klofning Dögunar svo afar falleg, sérstaklega eftirfarandi sem haft er eftir Lýð, þó ég skilji ekkert í orðum hans:

Þetta var spurningin hvort að það ætti að leggja meiri áherslu á menn eða meiri áherslu á málefnin. Það voru þarna fleiri sem vildu leggja áherslu á málefnin. Ég vildi leggja meiri áherslu á að fá víðara umboð hvað frambjóðendur varðar, ekki þrengja þetta um of. Þetta var allt í góðu. Þetta var bara kaffibolli og tilkynning og svo föðmuðust allir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband