Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Skopast að formönnum ríkisstjórnarflokkanna

helgi sigEin mynd segir meira en þúsund orð. Helgi Sigurðsson lýsir pólitískri stöðu forsprakka ríkissjórnarinnar rétt í skopmynd sinni í Morgunblaðinu í morgun, þau eru búin að mála sig út í horn. Mesta skemmtunin er þó að skoða smáatriðin í teikningunni. Hvers vegna er t.d. Steingrímur með langt nef ...?

Nú má ekki benda á sökudólga

Í máli Alþingis gegn Geir fyrir Landsdómi var honum í einum ákæruliðnum gefið að sök að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri að því að færa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag.

„Það er kaldhæðnislegt að þeir, sem stóðu að þeirri ákæru eða komu í veg fyrir að hún yrði afturkölluð, eru núna að tala um að eigi ekki að benda á sökudólga. Þetta fólk benti á mig sem sökudólg, en Landsdómur hafnaði því eins og öllum þeim atriðum sem sneru beint að bankahruninu. Þannig að ég gef nú ekki mikið fyrir þessi orð,“ segir Geir.

Þetta segir Geir H. Haarde í viðtali við mbl.is í kvöld. Hann hefur rétt fyrir sér og bendir á orð Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar, sem sagði fyrr í dag að ekki skuli leitað sökudólga. Líklega liggur henni svo mikið á að fara í veisluna til Össurar.

Í Kastljósi í kvöld lét Steingrímur J. Sigfússon að því liggja að með Svavarssamningnum hafi fyrst kom fram sú hugmynd að þrotabú Landsbankans stæði undir greiðslum vegna Icesave. Geir segir um þetta:

Þrotabúið er mjög öflugt og getur staðið undir þessum greiðslum og meira til. Þessu gerðu menn sér grein fyrir árið 2008. Þannig að það er algjör óskammfeilni að halda því fram, eins og sumir eru að gera nú; að sú hugmynd að láta þrotabúið borga þetta hafi fyrst komið fram með samningunum vorið 2009.“ 

Er það ekki alltaf þrotabú fyrirtækja sem stendur undir skuldum, forgangsskuldum sem öðrum? Ætti að að vera eitthvað öðru vísi með banka? 


mbl.is Vildi fara með málið fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er sökudólgurinn, ábyrgðin er hennar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, biðst vægðar. „Ekki leita sökudólga,“ segir hún, og allt fas hennar bendir síst af öllu til að hún sé sökudólgur. Hún er sigurvegari og hefur steingleymt Icesave samningunum. Tvívegis var hún gerð afturreka með samninga, tvívegis hafnaði þjóðin forsjá forsætisráðherrans og félaga hennar.

Nú þykist Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, aðalráðherra, geta staðið frammi fyrir þjóð sinni og messaði yfir henni um samstöðu. 

Nei, hvorugt þeirra á nokkur hlut í þeirri niðurstöðu sem nú er fengin fyrir EFTA dómstólnum. Þjóðin sigraði og hún þakkar það forseta lýðveldisins.

Ekki skal heldur gleyma manninum sem allir réðust á fyrir orð hans í Kastljósi ríkisstjónvarpsins. Þar sagði Davíð Oddsson að þjóðin ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Í ljósi þessa reis þjóðin upp undir forystu fjölmargra góðra manna meðal annars í In Defence hópnum.

Þrotabú Landsbankans borgar skuldir sína svo langt sem fé þess dugar. Skattfé þjóðarinnar verðu ekki notað eins og ríkisstjórnin vildi.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á gjörðum sínum. Hún er sökudólgurinn hvað svo sem Jóhanna og Steingrímur segja.


mbl.is Eigum ekki að leita sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÍSLAND GREIÐIR EKKI SKULDIR ÓREIÐUMANNA

Niðurstað EFTA dómstólsins er sigur fyrir þá sem haldið hafa fram málstað Íslands í þessu máli.

Hann er sigur fyrir þann mann sem sagði að Ísland ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna.

Hann er sigur fyrir þá sem unnu óeigingjarnt starf fyrir málstað Íslands gegn stjórnvöldum.

Hann er sigur fyrir forsetann sem hlustaði á raddir almennings og skildi þær. 

Hann er sigur fyrir þjóðina sem hafnaði með yfirgnæfandi meirihluta samningum við Hollendinga og Breta.

Hann er sigur þjóðarinnar gegn einstrengilegum stjórnmálamönnum sem sögðust geta allt en gátu í raun ekkert. 

Niðurstaða dómstólsins er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir þjóðina. Nú er það eitt eftir að koma ríkisstjórninni frá sem ætlaði að láta okkur kokgleypa Icesave. 


mbl.is Ísland vann Icesave-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa þessir fossar breyst eitthvað á 100 árum?

Eitt hundrað ár er hrikalega langur tími enda ná fæstir þeim aldri, fyrr rennur ábyrgðin út, ljósið slokknar og sálin flögrar út í eilífðina. Þó landið okkar teljist frekar ungt og er enn að breytast verðum við lítið vör við breytingarnar, allt gerist svo ósköp hægt og rólega. Værum við hins vegar uppi á árinu 1000, gætum tekið landslagsmyndir, flutt með okkur til nútímans og borið saman við landið okkar eins og það lítur út í dag yrðum við eflaust dálítið hissa á breytingunum. Þetta getum við þó ekki gert, tímaferðir eru ekki mögulegar. Hins vegar getum við farið einn tíunda þessa tíma til baka og skoðað myndir sem teknar voru fyrir eitt hundrað árum. 

Öxararfoss - Version 2Öxarárfoss 800920-8 - Version 2

Ég hef óskaplega gaman af gömlum ljósmyndum, því eldri sem þær eru þeim mun ánægjulegra. Ástæðan er einfaldlega sú að breytingar á landi og landslagi heilla mig mikið.

Á vef Landmæling Íslands eru myndir sem danskir landmælingamenn tóku á fyrsta áratug síðustu aldar. Þarna kannaðist dálítið við landslag og kennileiti. Ég ætla hérna að taka til nokkrar myndir sem eru slíkar að ég á myndir teknar af svipuðum sjónarhornum. Það gæti verið skemmtilegt til samanburðar.

Myndirnar af Öxarárfossi eru teknar af þaðan sem tugþúsundir manna hafa í gegnum árin staðið og myndað. Ég þurfti samt að leita um þrjátíu ár aftur í tímann til að finna samanburðahæfa mynd og tókst það með því að skera hana dálítið til.

Hið fyrsta sem ég tók eftir með samanburðinum er að gróður er talsverður á litmyndinni en hann greinist ekki á þeirri eldri. Að mestu er þetta þó allt með kyrrum kjörum, sáralitlar breytingar hafa orðið nema hvað strýtan efst á gömlu myndinni eru horfinn og grjótið við hylinn og í farveginum hefur hreyfst dálítið til.

DSC_0519 - Version 2Seljalandsfoss 1900 - Version 2

Seljalandsfoss þekkja flestir og hér er aldagömul mynd af honum. Í fljótu bragði sé ég engar breytingar sem máli skipta. Hins vegar sé ég margt á báðum myndum sem hefur haldið sér.

Takið eftir hólnum uppi, vinstra megin við fossinn. Jafnvel hægri hlið hans sem virðist nokkuð skörðótt niðri við ánna er eins. Að óreyndum hefði manni getað dottið í hug að áin myndi ryðja hólnum í burtu, en það gerðist ekki.

Enn kemur miga undan hólnum, vinstra megin við þúfu eða ójöfnum framarlega í honum, vinstra megin.

Hvelfingin bak við fossinn er óbreytt þó ég sé nú ekki viss um að dönsku landmælingamennirnir hafi hugkvæmst að ganga bak við hann.

Tökum líka eftir fossinum sjálfum. Hann er í meginatriðum eins. Á litmyndinni gæti verið minna vatn í honum. Megnbunan kemur eins og alltaf fram hægra megin.

Skoðum síðan þversprungur sem eru víða í hömrunum, til dæmis þá sem er efst uppi hægra megin og finnst líka á litmyndinni. Fyrir neðan hana virðist þó hafa hrunið úr bergveggnum.

Foss Bergárdal 1900 - Version 2Foss Bergárdal - Version 2

Þriðji og síðasti fossinn er sá neðsti í fossaröð sem mér fannst svo ákaflega kunnugleg en kom henni alls ekki fyrir mig. Leitaði og leitaði í myndasafninu mínu, en án árangurs. Svo datt lausnin ofan í kollinn á mér og ég mundi hvar þessi foss er.

Fossinn hafði ég fyrir augunum í nokkur ár er ég bjó á Höfn í Hornafirði. Ekki mundi ég nafnið á honum og þurfti að fletta því upp. Á landkorti segir að hann heiti Bergárfoss. Hann er framan við Bergárdal, einstaklega fallegan dal sem gengur bratt upp norðan við Miðfellstind. Hins vegar er ég enn ekki alveg viss um nafnið en ég fæ áreiðanlega staðfestingu á því áður en langt um líður.

Fremst á gömlu myndinni er kassi sem notaður hefur verið undir farangur og festur á hest.  

Ég fann mynd sem að vísu er tekin aðeins sunnar en sú gamla og sýnir ekki fossana fyrir ofan. Hún dugar engu að síður.

Enn er allt með kyrrum kjörum. Eitt hundrað ár hafa ekki breytt landslaginu að neinu leit, að minnsta kosti ekki án þess að rannsaka myndirnar í þaula. Fossinn er eins, hann fellur enn niður á þrep og flæðir þaðan niður það og síðan um grjótið fyrir neðan og niður á láglendið. Klettarnir fyrir ofan eru eins eftir því sem best verður séð.

Hið eina sem hefur breyst að einhverju ráði er gróðurinn. Mér sýnist að á gömlu myndinni sé mosi fremst á myndinni en á litmyndinni hefur grasið teygt sig út um allt, jafnvel á sylluna bak við fossinn.

Læt þetta nú dug í bili. ég er með nokkrar aðrar myndir sem ég er að vinna í og birti bráðlega. Verð að taka það fram að gömlu myndirnar eru flestar svokallaðar steríómyndir, nokkurs konar þrívíddarmyndir þessa tíma, skoðaðar undir tvískiptu gleri. Ég hef klippt út aðra myndina, lagað hana til, lýst hana upp eða dekkt eftir því sem þörf hefur verið á. Einnig hent út stórum rispum eða blettum svo þá séu skemmtilegri á að sjá. Engu sem máli skiptir hef ég breytt. 


Subbuskrif Sunnu að mati Eiðs Guðnasonar

Pistill Sunnu Óskar Logadóttur, blaðamanns Morgunblaðsins við hlið leiðara blaðsins í dag (26.01.2013) heitir Pirraði og kynsvelti ráðherrann. Þessir pistlar eru einskonar leiðarar blaðamanna, undir nafni, birtir með velþóknun ritstjórnar. Hann fjallar um Ögmund Jónasson ráðherra. Eiginkonu hans er reyndar blandað í málið líka. Orð og gjörðir ráðherra geta verið umdeild. Það réttlætir ekki subbuskrif af þessu tagi. Hverskonar blað er Morgunblaðið orðið? Þetta er ekki einu sinni fyndið. Bara dapurlegur vitnisburður um lágkúru.

Oftast les ég pistil Eiðs Guðnasonar í dv.is sem nefnist „Molar um málfar og miðla“. Það geri ég til að átta mig á íslensku máli, hvað sé rétt og skynsamlegt. Hins vegar finnst mér Eiður ekki alltaf skynsamlegur og stundum eru pistlar hans hundleiðinlegir vegna þess að kallinn er oft pirraður íhaldsseggur af versta tagi og brúkar pistla sína til að ráðast að ósekju á menn og málefni eftir því hvernig liggur á honum. Oftast er hann nú fúll.

Til dæmis ræðst hann í dag heiftarlega á Sunnu Ósk Logadóttur, blaðamann Moggans, eins og fram kemur í ofangreindri tilvitnun.

Berum nú það saman sem Sunna skrifaði í pistli sínum sem Eiði er svo uppsigað við:

Ögmundur Jónasson er svekktur yfir að fá ekki að horfa á klám. Þess vegna vill hann banna það. Hann ætti að fá sér stinningarlyf, setjast niður með frúnni og horfa á hressilegt klám. Það verður nú ekki af honum Ögmundi tekið að hann er fíni bjáninn. Hann er greinilega afbrýðisamur út í klámvædda karlmenn, nær honum ekki upp og er pirraður. Það er allt greinilega í toppstandi í þjóðfélaginu úr því að hægt er að eyða peningum og tíma í svona mál.

Í hnotskurn, og nokkurn veginn orðrétt, brugðust netvæddir varðhundar klámsins með þessum hætti við þeirri frétt að innanríkisráðherrann Ögmundur Jónasson ynni að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu. Ráðherrann hefur m.a. falið nefnd að kanna hvort varsla á klámi verði bönnuð, en einnig hvort hægt verði að gera lögreglu kleift að loka á dreifingu efnis.

Þetta er leiftrandi og skemmtileg framsetning hjá Sunnu. Hún endursegir í samanteknu máli það sem hún hefur lesið á netinu vegna ummæla Ögmundar. 

Eiður kann ekki blaðamennsku, hann var fréttamaður, og þar gilda aðrar reglur. Í rituðu máli skiptir miklu að koma kjarna málsins að í fyrstu línum fréttar eða greinar til að grípa lesandann. Það kann Sunna og gerir vel í þessum pistli.

Eiginlega hafði ég ætlaði mér að leiða Eið hjá mér, ekki skrifa um hann eða skrifast á við hann. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að benda á samanburðinn á tuði Eiðs og skemmtilegri frásögn Sunnu.

Lesendur geta svo notið þess að bera saman þessa tvo texta og dæma út frá þeim. 


Glæpur og refsing Jóns Bjarnasonar

Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin.

Lagt og ítarlegt viðtal er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins við Jón Bjarnason, fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra VG og nú óháðan þingmann. Ofangreind tilvitnun er úr viðtalinu. Ég hef ekki þaullesið stefnuskrá Vinstri grænna en þarna fullyrði hann að forystan sé að svíkja enn eitt stefnumál sitt.

Þegjandinn 

Í raun og veru segir Jón ekkert meira í viðtalinu umfram það sem hann hefur áður látið frá sér fara. Það verkur þó athygli lesandans að innan þingflokks Vinstri grænna virðist þögnin hafa ráðið. Sá sem er ekki lengur í náðinni finnur kuldann leggja frá Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins, og skutulssveinum hans. Og allt í einu stendur valið á milli þess að fá kalt hnífsblaðið á hol eða hrökklast í burtu, helst með vansæmd.

Glæpur 

Jón Bjarnason rakst illa í ríkisstjórn og meirihluta hans. Hvort skyldi það vera lunderni Jón að kenna eða málefnalegri stöðu eða einhverju samblandi af hvort tveggja. Á þetta varpar viðtalið engu ljósi en eftirfarandi kemur þó fram sem bendir til þess að hann hafi átt afar erfitt með að fóta sig innan þingflokksins og ríkisstjórnarinnar:

  1. Gegn ESB umsókninni og gerði út um að það yrði ríkisstjórnarmál
  2. Gegn stjórnarskrármálinu
  3. Náði samstöðu um fiskveiðistjórnarfrumvarp sem Jóhanna og Steingrímur lögðust gegn
  4. Gegn hækkun á veiðileyfagjaldi Steingríms
  5. Gaf út kvóta á makríl sem styggði Jóhönnu

 Refsing 

Jóni var margoft refsað, beint og óbeint. Í flestum tilvikum er komið aftan að honum, aldrei þannig að hann hafi verið varaður við. 

  • Rekinn úr ráðherraembætti
  • Nefnd sett til að rannsaka embættisfærslur hans
  • Rekinn úr utanríkismálanefnd 

Jón var ráðherra en neitaði að makka með í Evrópumálunum og einn góðan veðurdag var honum vísað á dyr í ráðuneyti sínu. Allir vissu hvers vegna en enginn mátti tala um það. Fjölmiðlar gerðu lítið úr þessu en hefðu áreiðanlega tekið við sér hefði formaður Sjálfstæðisflokksins tekið til þeirra óyndisúrræða að vísa ráðherra úr embætti. Nei, sparkið í Jón þótti ekki nógu merkilegt til ítarlegs fréttaflutnings. Steingrími leyfis það sem öðrum væri ómögulegt.

Órædd mál

Viðtal Péturs Blöndal, blaðamanns Morgunblaðsins, er ekki gott en þó vantar mikið. Hann nær ekki tökum á Jóni og fær ekki út úr honum það sem við áhugamenn um stjórnmál þurfum til að fylla upp í myndina. Fátt í viðtalinu er nýtt enda gárar það aðeins yfirborðið.

Hvað vantar? Jú, hvað gerðist á þingflokksfundum. Var þöggunin eins og hér hefur verið lýst eða tókust menn á í rökræðum? Var deilt? Var Jón tekinn á eintal af Steingrími og Jóhönnu og gert skiljanlegt hvert stefndi? Hvar stóðu aðrir innan þingflokksins í málarekstrinum gegn Jóni?

Hvað nú? 

Þegar fylgið rjátlast af Vinstri hreyfingunni sem varla telst lengur græn eða óháð veltir maður því fyrir sér hvað flóttamennirnir ætla að gera.

Líkur benda til að allir geri það sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gerði, hverfa á braut, særðir holundarsári í stjórnmálum og hætta afskiptum af þeim. Þrekið er líklega búið hjá Jóni Bjarnasyni rétt eins og hjá félögum hans. 


Vinstri hreyfingin, framboð án eftirspurnar

Nú má búast við að skútu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reki upp í landsteinanna og hún brotni þar í spón fyrst að hún missti ankerið.

Hjörleifur Guttormsson fyrrum þingmaður og ráðherra hefur lengi verið nokkurs konar samviska þeirra vinstri manna í VG sem teljast upprunalegir og heiðarlegastir. Hann lét ekki fallerast í ráðherraembætti og hefur alla tíð verið beinskeyttur í stjórnmálum. 

Þær breytingar sem urðu á forystumönnum Vinstri grænna sem komust í ráðherraembætti voru hrikaleg. Þeir og flestir alþingismenn VG, misstu tengingu við grasrótina, hvítt varð svart, það sem var skýrt varð allt í einu úr fókus og meira að segja fas þeirra og talsmáti breyttist. Þeir voru ekki lengur hugsjónarmenn heldur stofnanamatur, blýantsnagarar, varðhundar kerfisins. Allt sem þeir komu að breyttist, ekki þó í gull, heldur í stórslys, tap fyrir ríkissjóð, skaða fyrir allan almenning.

Nú er hann farinn eins og svo margir aðrir nafnkunnir vinstrimenn og enn fleiri fótgönguliðar flokksins hafa hætt störfum. Það munar um minna. Hjörleifur var þó alla tíð trúr sinni sannfæringu um náttúruvernd og ESB. Steingrímur og það fátæklega lið hans sem eftir stendur er engum trútt, hvorki flokki né þjóð.

Hér með hefur nafn flokksins breyst, græni liturinn er horfinn. Hann er aðeins Vinstri hreyfingin, framboð án eftirspurnar. 


mbl.is Segir sig úr Vinstri grænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar þorir að segja sannleikann

Vinstri menn á Íslandi fá beinlínis keytu fyrir hjartað þegar vinstri maðurinn Ólafur Ragnar Grímsson tjáir sig um utanríkismál. Fyrst flengdi hann Gordon Brown, fyrrum forsætisráðherra Breta, sem barði á Íslendingum á þann hátt sem hvorki samrýmdist efni né aðstæðum. 

Nei, sögðu bæði Jóhanna og Steingrímur. Þetta má ekki segja, hann Össur á að segja svona, vilji hann það yfirleitt.

Keisarinn er nakinn, segir forseti Íslands, og bendir á að fiskveiðistefna Evrópusambandsins sé misheppnuð. Þá rísa upp sjálfskipaðir eftirlitsmenn sem finnst það pólitískt óþægilegt þegar einhver segir sannleikann. Þetta má ekki segja, hann Össur á að segja svona, nema því aðeins að honum finnist þetta beinlínis rangt.

Loksins hefur þjóðin forystumann sem hefur getu til að tjá sig á erlendri grundu svo eftir sé tekið og leyfir sér að gagnrýna það sem þarf.

Stöndum fast að baki forsetans og hendum vanhæfri ríkisstjórn Íslands út í hafshauga. 


mbl.is Ólafur Ragnar: Evrópa er vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegn slöppu frumvarpi um náttúruvernd

900718-51

Á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp um náttúruvernd, þingskjal 537. Ég hef talsverða Útivistarfélög

mótmæla frumvarpinu „á þeim forsendum að lögin hefti för almennings um íslenska náttúru og skerði aðgengi til útivistar á Íslandi. Við skorum því á þingmenn að samþykkja ekki frumvarpið óbreytt“. Þessu er ég sammála og tek undir fjölmargar athugasemdir.reynslu í ferðalögum um landið og nýt þeirra. Frá upphafi hefur landsmönnum verið heimil för um landið og það er grundvallarréttur enda er í náttúruverndarlögum tryggður réttur gangandi fólks um landið, þó með ákveðnum skilyrðum. Hignað til hef ég verið sáttur en ég leggst algjörlega gegn þessu frumvarpi. Það er með ólíkindum vitlaust.

Samtök Útivistarfélaga segja:

Mörg aðildarfélög Samút [Samtök útivistarfélaga] skiluðu inn athugasemdum við drögum að frumvarpi til náttúruverndarlaga Skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert tillit var tekið til innsendra athugasemda. Flest félaganna gagnrýndu jafnframt að lítið og ómarkvisst samráð var haft við undirbúning Hvítbókar sem er grunnurinn að drögunum um frumvarp til náttúruverndarlaganna. 

Í raun er frumvarpið ein hrákasmíði. Það er illa samið, aragrúi af hugsanavillum og stundum er sem svo að höfundar frumvarpsins hafi aldrei komið út fyrir malbikið. Í 20. greininni segir meðal annars:

Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.

DSC_0071Þetta er nú meira bullið. Hvað kemur það málinu við þótt hestamenn hafi ekki nægilegt fóður fyrir hross sín. Annað hvort er beit leyfileg eða bönnuð, ekki bara ýmist eða. Og hvað eru lítt gróin svæði? Sums staðar eru eyðisandar en víða á þeim gróður. Gildir þá eitthvað meðaltal eða eiga hestamenn bara að grísa á hvort beit sé bönnuð eða ekki. Svona rugl er víða að finna í frumvarpinu.

 

Hvar má skilja eftir sorp eða úrgang?

Í 18. grein frumvarpsins segir: 

Skylt er að gæta fyllsta hreinlætis og skilja ekki eftir sorp eða úrgang á áningarstað eða tjaldstað.

Þetta er undarlegt. Má ef til vill skilja sorp eða úrgang eftir annars staðar en á þessum tilteknum stöðum? Er kannski nóg að fara einn kílómetra í burtu og henda ruslinu? Hér hefði verið betra að orða þetta þannig að ferðamaðurinn skuli flytja rusl með sér og aðeins leyfilegt sé að henda því þar sem móttaka er fyrir hendi.

Svo er það spurningin um úrgang. Er kannski ekki lengur leyfilegt að skíta á fjöllum? Þarf göngumaðurinn að flytja kúkinn með sér til byggða? Afsakið orðbragðið, en hér þarf að skýra orðið „úrgangur“ ... Merki það sem ég held, er ég viss um að lögin verða að þessu leyti gagnslaus, nema að sérstakir eftirlitsmenn verði ráðnir til að leita uppi lögbrjóta. Kann ekki við að geta upp á því hvað svona eftirlitsmenn gætu verið kallaðir ... en með sönnu má reikna með því að skilyrði fyrir ráðningu þeirra sé „skítlegt eðli“.

Banna má umferð gangandi um óræktað land

DSC_0148

Nú bregður hins vegar svo við að í 19. grein áðurnefnds frumvarps getur landeigandi bannað för um land „ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar“. Með þessu þarf ekki að vera raunveruleg þörf á lokun vegna nýtingar eða verndunar. Honum er þetta í sjálfsvald sett, kannski til að rukka inn. 

Er sápa bönnuð eða ekki?

Í 21. grein segir meðal annars:

Einnig er öllum heimilt að nota vötn til sunds og baða þar sem landeiganda er meinlaust en forðast skal að setja sápuefni í vatnið. 

Hvers vegna á að forðast að setja sápu í vatnið? Er hún hættuleg fyrir umhverfið? Sé svo þá þarf einfaldlega að banna sápunotkun. En sápur eru ekki allar eins. Til eru umhverfisvænar sápur. Á að forðast að setja þær út í vatn?

Tjald eða tjald

Öllum á óvörum er komin óskilgreind tegund af tveimur tjöldum, annars vegar viðlegutjaldi og hins vegar göngutjaldi. Í 22. grein kemur fram að tjalda má „hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur ...“. Ekki veit ég hvað hefðbundið viðlegutjald er.

DSC_0216_110827_T_n___64244

Lengi átti ég North Face kúlutjald, sérlega gott tjald, notaði það í tuttugu ár. Það ekki beinlínis hefðbundið en kosturinn var sá að það var ekki þyngra en svo að ég gat gengið með það til dæmis um allar Hornstrandir. Sem sagt þetta var óhefðbundið göngutjald utan alfararleiðar. Oft tjaldaði ég því ekki langt frá bílnum mínum. Þá hefur það líklega kallast óhefðbundið viðlegutjald við alfaraleið.

Ef ég myndi fara í verslun og biðja um hefðbundið viðlegutjald yrði líklega hlegið að mér. Að minnsta kosti þyrfti ég að útlista nánar hvað ég á við. 

Og svo segir í þessari alræmdu 22. grein:

Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður göngutjöld nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði. 

DSC_0029

Hingað til hef ég tjaldað í öllum landshlutum, utan og við alfaraleið. Aldrei nokkurn tímann hef ég haft nokkra þörf fyrir lögfræðilega þekkingu í þessum ferðalögum, ekki einu sinni það sem ég lærði í gamla daga þegar ég dvaldi í tvö ári í lagadeild HÍ. Mér hefur dugað sú vitneskja að fólki sé frjálst að ferðast um landið. Nú þarf maður líklega að vera með pungapróf í lögfræði til að geta rölt um landið.

Mótmæli

Ég get gert ótal athugasemdir við frumvarpi en ég nenni hreinlega ekki þessum skriftum. Pistillinn er orðinn allt of langur Svo margt vitlaust er í því, ekki síst skilgreiningarnar sem oft vantar algjörlega. Það er eitt að þessi ríkisstjórn skuli vilja takmarka virkjanir og stóriðju en að hún skuli leggjast svona blygðunarlaust gegn umferð fólks um landið er ótrúlegt.

Hér eru í hnotskurn athugasemdir Samtaka útivistarfélaga um frumvarpið. Ég tek fyllilega undir þau:

  • Útivistarhópum er ítrekað mismunað eftir ferðamáta.
  • Ekkert er tekið tillit til hópa eins og fatlaðra, aldraðra né fólks með ung börn sem ekki geta heilsu sinnar vegna farið um hálendið fótgangandi. Bent skal á að veðurfar á hálendinu er óútreiknanlegt.
  • Einnig er ráðherra falið óhóflegt vald til banna og boða eftir eigin geðþótta. Benda má á að í drögunum er honum meðal annars heimilað að banna umferð ákveðinna hópa m.a. vegna þess að þeir geti valdið öðrum óþægindum án þess að það sé skilgreint frekar hvað teljist óþægindi.
  • Eins vantar skilgreiningar á fjölmörgum hugtökum og skilgreining annarra er óljós.
  • Almennt er frumvarpið hroðvirknislega unnin og margir þættir frumvarpsins eru óframkvæmanlegir. Því er strax ljóst að ekki er möguleiki á að framfylgja lögunum verði þau staðfest óbreytt.
  • Markmið laganna er göfugt, einkum a., b. og c. liður 1. greinar. Mætti ætla að þessi grein tryggði öllum almenningi jafnan rétt til umferðar um landið óháð ferðamáta eða líkamlegum burðum. Þó er ljóst að öðrum greinum dragana að þessi markmið eru ekki höfð að leiðarljósi og greinin því marklaus
  • Um einstakar greinar frumvarpsins vísum við í innsendar athugasemdir félagana sem fylgja með. 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband