Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Vörum okkur á æsingamönnum eins og Atla

Svona talsmáli er dæmigerð hræsni. Bara innantómt tal sem engu skiptir nema í augnabliks ánægju yfir því að geta kennt einhverjum um, barið á einhverjum. Rétt eins og þegar illa gefinn unglingur lemur annan vegna þess að hann „fékk ekki sæti í sófanum“ svo gripið sé til kunnuglegrar líkingar.

Hvað tóku þessir útrásarvíkingar, hverju hafa þeir skilað til þjóðarinnar? Hvernig á að komast að því og hverjir fengu eitthvað og hverjir fengu ekki? Ég fékk ekkert, svo dæmi sé tekið. En hvað átti ég svo sem að fá?

Talsmáti Atla Gíslasonar er hræsni vegna þess að hafi þessir svokölluðu útrásarvíkingar gert eitthvað glæpsamlegt þá á að sækja mál gegn þeim að lögum.

Þetta veit Atli. Engu að síður froðar hann svona. Ég trúi ekki öðru en fólk sjái í gegnum svona málflutning.

Svo er það annað sem er miklu verra og alvarlegra við þessar skoðanir. Atli er hluti af stuðningsmönnum minnihlutaríkisstjórnarinnar og hefur mikil áhrif sem lögmaður og þingmaður og hann er síður en svo einn með þessa skoðun. Nú verður það dagskipunin til bankanna að ekki séu allir jafnir heldur sumir ójafnari en aðrir. Bönkunum verður beitt opinberlega í gegn einhverjum einstaklingum sem Vinstri grænir telja að þjóðin eigi óuppgerðar sakir við. Lög og regla skiptir þar engu máli.

Sér fólk ekki hvert stefnir ef svona málflutningu fær hljómgrunn? Hvað svo?

Næst má búast við því að hreinsað verði til í hópi svokallaðra frjálshyggjumanna því þeir bera ábyrgð á bankahruni heimsins. Þá verður sagt að ábyrgð tiltekinna manna sé svo mikil að þeir þurfi að fara á annan válista ríkisstjórnarinnar. Smám saman verðurbúinn til einhvers konar Guantanamó listi yfir „óæskilega“ ... Eignir þeirra verða teknar af þeim meðan málin eru „skoðuð“, kannski verða þeir geymdir einhvers staðar upp á vatn og brauð ... Þetta á allt svo kunnugulegar samlíkingar í mannkynssögu síðustu eitthundrað ára.

Atli Gíslason er þrátt fyrir lögfræðimenntun sína einn af æsingarmönnunum, „öskrurum“ sem vilja ganga milli bols og höfuðs á öllum óvinum þjóðarinnar. Hann vill verða saksóknari, ákærandi, dómari og böðull.

Vörum okkur á svona fólki. Það á eftir að kljúfa þjóðfélagið í herðar niður, eyðilegga samfélagið í þeirri mynd sem við þekkjum það. Best er að veita því ekki brautargengi í alþingiskosningum.


mbl.is Útrásarvíkingana á válista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri fyrirtæki munu hætta viðskiptum við Ísland

Þó ekki hafi farið mikið fyrir andstöðu við hvalveiðum í Evrópu og Ameríku þýðir það alls ekki að viðhorf fólks hafi breyst. Af fjölmörgum ástæðum, réttum og röngum, þykir flestum rangt að veiða hval.

Lítið ríki sem ætlar í hvalveiðar verður ofurselt alls kyns áróðri, miklu meiri og hatrammari en stórt ríki. Þannig munu milljónir manna fordæma hvalveiðar Íslendinga, hvetja til opinberra refsiaðgerða, taka sig saman um að sniðganga íslenskar vörur og jafnvel þau fyrirtæki sem skipta við Ísland. Við munum ekki geta rönd við reist frekar en að við gátum sinnt neinu gáfulegu PR vegna bankahrunsins. Áfram munum við mæta heift, reiði og jafnvel refsiaðgerðum af ýmsu tagi.

Ekki er furða þó breska fyrirtækið Waitrose ætli að hætta viðskiptum við Frostfisk vegna hvalveiðanna. Breska fyrirtækið þorir ekki öðru, veit að þegar áróðurinn byrjar gegn hvalveiðunum verður fyrirtækið ásamt fjölda annarra skotspónn mótmælenda. Stjórnendum hefur einfaldlega verið bent á að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið og þess vegna er staðan sú sem frá segir í fréttinni.

Fleiri fyrirtækið eiga eftir að fylgja í kjölfarið. Afleiðingin verður auðvitað ferlega slæm fyrir þjóðarbúið. Stjórnvöld munu því nauðbeygð lýsa yfir hvalveiðibann næsta haust. Skiptir engu hvaða stjórnmálaflokkar mynda ríkisstjórnina á þessum tíma. Þetta verður niðurstaðan hvort sem okkur líkar betur eða verr.


mbl.is Segir fjölda starfa tapast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikur sem launþegi, frískur sem verktaki

Mér finnst framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala skuldi skýringar á þessu fyrirkomulagi. Hvernig í ósköpunum getur það verið að menn komist upp með að raka saman fé fyrir læknisstörf en á meðan hafa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk smánarlaun fyrir sinn hlut.

Eru afköstin bara læknanna? Komu aðrir þar hvergi nærri?

Er það líka rétt að við þennan sama spítala hafi starfað læknir sem verktaki, hann hafi veikst og á meðan veikindum stóð hafi læknirinn verið munstraður sem launþegi svo hann gæti hirt laun í veikindum sínum, en eftir að hann náði fullri heilsu hafi hann komið aftur til starfa sem verktaki.

Þetta þykir mér kostuleg saga. Hún afsannar það sem oft er sagt að ekki verði bæði haldið og sleppt.


mbl.is Eignarhaldsfélög í veikindaleyfi.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Valgerður yfirleitt hæf í stjórn bankans?

Sá sem ekkert hefur fram að færa, hvorki hugsjón, eldmóð né góð ráð á einfaldlega ekki að sitja í nokkurri stjórn.

Það er bara hræsni að halda því fram að bankastjórn Seðlabankans sitji í óþökk einhverra. Fólkið í landinu hefur ekki tjáð sig á neinn mælanlegan hátt um bankastjórina.

Seðlabankinn hefur mikilvægum störfum að gegna í þjóðfélaginu. Valgerður Bjarnadóttir kýs að hverfa frá þeim störfum og vísar til einhvers sem ekki er hönd á festandi. Tómt rugl í manneskjunni.

Látum það nú allt vera. Hvað með þau störf sem stjórn Seðlabankans er ætlað að sinna? Getur Valgerður Bjarnadóttir bara gengið brott, skilið eftir auðan stól og látið eins og ekkert sé? Hver er ábyrgð hennar, hvernig er samviska hennar? Eða finnst henni Davíð Oddsson bara svo leiðinlegur á fundum?

Nei, eitthvað annað býr þarna að baki. Kannski Valgerði langi á þing og hún sé einfaldlega að vekja athygli á sjálfri sér fyrir prófkjör Samfylkingarinnar. Að öðru leyti er ekki hægt að skýra á sennilegan hátt flótta Valgerðar úr Seðlabankanum. Nema þá að hún hafi aldrei átt erindi þangað inn, sé bara ekki hæf - skilji ekki verkefnin.


mbl.is Valgerður hættir í bankaráði Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkominn aftur, Jón

Á þessum tímum skiptir máli að frjálslyndir menn standi saman gegn vinstri slagsíðu sem virðist komin á þjóðarskútuna.

Jón Magnússon starfaði hér á árum áður mikið fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var formaður Heimdallar, fomaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sat í miðstjórn flokksins og gengdi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum.

Jón yfirgaf Sjálfstæðisflokkin þegar honum fannst hann ekki ná nógum góðum árangri innan hans. Ég var mjög ósáttur við Jón á þeim tíma, taldi hann hafa hlaupist á brott vegna eigin hagsmuna, hann hafi ekki sætt sig við lélegt fylgi innan flokksins. Ég var og er á þeirri skoðun að Jón gæti bara kennt sjálfum sér um. Slakt gengi þarf ekki endilega að vera þess eðlis að flokkurinn hafi hafnað honum eða flokkurinn hafi færst frá honum svo gripið sé til útslitinna frasa.

En nú er Jón kominn aftur og veri hann velkominn. Staða hans er án efa betri innan Alþingis og væntanlega mun hann framvegis taka þátt í störfum flokksins. Það er engin ástæða að dvelja við það sem á undan hefur gengið heldur horfa fram til næsta landsfundar og svo kosninganna í lok apríl.

Afar gott fólk starfaði með Jóni innan Frjálslynda flokksins og Nýs afls. Vonandi fylgir þetta fólk honum aftur inn í Sjálfstæðisflokksins. Þar á það heima.


mbl.is Jón Magnússon í Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fela InDefence að sjá algerlega um samingana?

Afar áhugavert tilboð frá InDefence hópnum. Vonandi tekur minnihlutaríkisstjórnin hana til skoðunar. Af fjölmörgum ástæðum er þetta einfaldleg of góð hugmynd til að láta framhjá sér fara.

Venjulegir borgarar fara með embættismönnum ríkisins til samningaviðræðna. Fólk sem getur sagt meiningu sína, er ekki múlbundið á klafa diplómasíu eða regluverks. Fólk sem túlkar viðhorf almennra borgara, þjóðar sem situr uppi með gerðir óreglufólks.

Betri hugmynd er ekki í boði - nema þá sú að við biðjum InDefence hópinn að sjá algerlega um samningaviðræðurnar um vexti og afborganir. Launin eru ekkert annað en ævarandi þakklæti heillar þjóðar.


mbl.is Bjóða fram aðstoð vegna Icesave deilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað brást í uppeldinu?

ER að velta þessu máli dálítið fyrir mér. Finnst einsýnt að ef barnið mitt gerist sekt um eitthvert óhæfuverk þá megi frekar skella skuldinni á mig, foreldrið, heldur en skólann.

Er nær að spyrja hvað misfórst í uppeldinu þegar barnið, unglingurinn, tekur þátt í að beita aðra ofbeldi?

Getum við endalaust kennt einhverjum öðrum um?


mbl.is Hópur unglinga réðist á einn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör er fráleitt gallalaust

Eflaust má sjá kosti í því að „leyfa kjósendum að ráða“ eins og það er orðað. Hins vegar er þörf á því að fjalla gaumgæfilega um svona mál áður en hlaupið er til breytinga á kosningalöggjöfinni. Bráðnauðsynlegt er að gaumgæfa allar hliðar málsins. Það hefur hins vegar ekki verið gert.

Persónukjör er flott orð, þrungið merkingu og tilfinningum. Margir ráða sér ekki. Tala um lýðræði, lýðræðishalla og svo framvegis, hreinlega elska þessi orð og frasa en botna ekkert í vandamálunum við framkvæmdina.

Vandamálið við persónukjör eins og rætt er um í fréttinni er að lagðar eru auknar skyldur á kjósendur. Fjölmargir vilja ekki raða á lista, aðrir geta ekki raðað, jafvel þó þeir vilji. Ótaldir eru þeir sem taka ákvörðun í kjörklefanum. Á að gera þeim erfitt fyrir? Þarf fólk að hafa nöfn á takteiknum, jafnvel lista.

Munum að vandinn við svona persónukjör býður hreinlega upp á nokkuð sem má kalla „lýðræðisónæði“, einfaldlega þá staðreynd að kjósandinn þarf að vera nokkuð vel að sér til að geta kosið, jafnvel þvert gegn vilja sínum. gætum að því að til er fólk sem hefur ekki áhuga á stjórnmálum eða samfélagsmálum en gæti þó hugsað sér að kjósa.

Væri ég í framboði þá er tilgangurinn sá að ná árangri, komast á þing eða í sveitarstjórn. Aðrir vilja hvorugt, en gætu alveg hugsað sér að vera baksveitinni, til taks ef á þarf að halda. Á kjósandinn þessu tilviki að þurf að leggja á minnið persónulegar óskir fjölda fólks?

Minnkar eða eykur svona persónukjör hættuna á auðum og ógildum? dregur svona persónukjör úr áhuga fólks að kjósa?

Málið er bara ekki eins flott og borðliggjandi eins og ætla mætti.


mbl.is Persónukjör í kosningunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn er ljós en hvað dvelur Gylfa?

Væri Gylfi Magnússon enn starfandi í Háskólanum hefði hann mætt á borgarafundinn í Háskólabíói og kvartað yfir því að stjórnvöld væru ekkert að gera.

Út af fyrir sig er auðvelt að fullyrða slíkt. Gylfir er ekkert að gera. Hins vegar er ekki hægt að einfalda málin á þennan hátt, hvorki er varðar þessa ríkisstjórn eða þá fyrri.

Gylfi er án efa hinn vænsti maður en hann lætur samt bíða eftir sér, hafði raunar ásakað síðustu ríkisstjórn um einlæti ef ekki ákvarðanafælni. Vandinn með Jöklabrefin eru ljós. Lausnirnar eru löngu komnar fram. Hvað dvelur þá orminn langa?


mbl.is Vill semja um krónubréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend mynttrygging lána að drepa markaðinn

Hvers vegna er alkul í bílasölu? Ástæðan er einföld. Höfuðstóll bílalána með mynttryggingu af einhverju tagi kominn upp fyrir öll þök og skynsemi, höfuðstóll lánanna hefur jafnvel tvöfaldast.

Auðvitað ekkert vit í þessu, hvorki fyrir lánveitendur né lántaka svo ekki sé talað um tryggingafélög. Það er auðvitað ekkert vit heldur í því t.d. að greiða vexti af láni sem er orðið fjórar milljónir króna sem einu sinni, fyrir nokkrum mánuðum voru tvær milljónir. Eigið fé í bíl er í þokkabót farið til fjandans í mörgum tilfellum .

Í upphafi var þessi „leikur" sem svo má nefna, byggður upp á því að lántakendur gætu sparað einhverjar krónur á því að taka áhættu með gengistryggðum lánum. Flestir gerðu sér auðvitað grein fyrir því að það gæti farið á verri veg. Engan grunaði að þessi „verri vegur“ væri lóðbeint niður.

Hins vegar er þetta fyrir löngu hætt að vera „leikur" og orðin eiginleg gildra eða ánauð. Hvers vegna? Jú, komi eitthvað fyrir ökutækið þá er eigandinn og ábyrgðarmaðurin komin í óskapleg vandræði vandræði.

Vandi kröfueiganda mun án efa vaxa þar sem tölfræðin segir að ákveðið hlutfall lántakenda munu lenda í tjóni með bíla sína og fjöldi þeirra þeirra mun eiga mjög erfitt með að greiða upp "eftirstöðvar" eftir að trygginafyrirtækið hefur greitt bílinn.

Sá sem lendir í altjóni með bíl sem er með myntláni og það er komið hátt yfir markaðsvirði bílsins situr uppi bíllaus með skuld. Svo einfalt er það.

Eftirstöðvar hafa með þessu fengið nýja merkinu því það sem „eftir er" vex í öfugu hlutfalli við raunafskriftir bílsins.

Af öllu þessu leiðir að viðskipti með bíla hafa dregist saman. Útilokað er að selja yfirveðsettan bíl, altjón veldur því að fólk kaupir sér notaðan, ódýran bíl, bílafloti landsmanna eldist.

Allir tapa. Aðstæðurnar eru afar slæmar, ekki bara fyrir skuldara heldur einnig fyrir bílaumboðin, bílasölur og síðast en ekki síst fyrir fyrirtækin sem sérhæfa sig í bílalánum.

Aðvitað á þessi lýsing einnig við fasteignir sem á hvíla myntlán, vandinn þar er miklu meiri. Samanlagt ætti að vera ljóst að þeir sem hafa atvinnu sína af kaup og sölu á ökutækjum og fasteignum sem og viðhaldi þeirra sjá sæng sína útbreidda.


mbl.is Alkul í bílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband