Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Lítil, frek þjóð á sannarlega fá vini

Einhverra hluta vegna kemur það nú í ljós að litla, freka þjóðin á sér fáa vini. Engin þjóð kemst upp með að standa ekki við skuldbindingar sínar. Og hverjir skyldu nú hafa brugðist fyrir utan eigendur bankanna og stjórnvöld? Jú, það eru hinir grautlinu fjölmiðlar sem hafa mært þessa svokölluðu útrás og ekki sagt rétt frá stöðu landins erlendis og byggt upp og haldi við gengdarlausri þjóðrembu.

Hér heima hafa útlendingar einatt verið spurðir leiðandi spurninga um land og þjóð. Gestir eru yfirleitt kurteisir, þeim finnst landið „sérstakt“ en af hæversku sinni segja þeir ekki hug sinn um hina freku, þunglyndu og sjálfselsku þjóð.

Svo stöndum við í þeirri meiningu að við séu einstaklega flott þjóð og allar okkar syndir séu bankaeigendum að kenna. Það er bara rangar. Hvað með okkur skuldarana? Berum við enga ábyrgð? Við hikuðum ekki við að taka lán, breyttum jafnvel húsnæðislánunum og tókum enn hærri lán út á þau til að geta sólundað í neyslu.

Af reynslu minni þori ég að fullyrða að Norðmenn myndu ekki hafa hagað sér svona, ekki Þjóðverjar, ekki Svíar, ekki Danir, ekki Hollendingar, ekki Englendingar ...

Enginn þarf að vera hissa á að útlendingar sem eiga kröfu á íslensku bankanna skuli vera órólegir. Enginn þarf að vera hissa á því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hiki.

Fjölmiðlarnir eru ekki gagnrýnir, þeir fljóta með, segja frá og við fyllumst stolti. Helvítis Danirnir að setja eitthvað út á Kaupþing, þeir eru bara öfundssjúkir. Öll varnarðarorð fóru framhjá hinu svokallaða „fjórða valdi“en það uppnefni er tómt rugl, ekkert annað en áróður, rétt eins og þjóð sem kallar sig „guðs útvalda“.

Öllu valdi fylgir hins vegar ábyrgð en af hálfu fjölmiðla hafði það gleymst, en vissulega hafa þeir vald. Svona fámenna þjóð er auðvelt að heilaþvo, viljandi eða óviljandi.

Við flutum með og nýttum okkur aðstæður og berum því mikla ábyrgð, þú lesandi góður og ég sem skrifa þetta berum hana mesta.

Og svo eru menn hissa á því að ekki fáist lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Gjaldþrota maður fær ekki lán í bönkum hér á landi og engum finnst það undarlegt.


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hann svona fyrir eða lærir hann hratt?

Var Bjarni svona fyrir eða lærir hann hratt á nýja vinnustaðnum? Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist maðurinns vo viðkunnalegur í lopapeysuhúmornum sínum. En ekki er allt sem sýnist. Menn berja á hverjum öðrum, stinga í bakið og höggva hvurn annan. Tilgangurinn helgar meðalið.

Svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast en líklega færi þá öll skemmtun úr pólitíkinni. Þetta finnst okkur almúganum skemmtilegast, að sjá höfðingjana berja á hverjum öðrum meðan hriktir í undirstöðum landsins vegna manngerðra hamfara. Mikið skelfing væri nú allt leiðinlegt ef alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn legðu af ósiði sína og færu að vinna vinnuna sína.


mbl.is Áframsendi gagnrýni á Valgerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hann svona fyrir eða lærir hann hratt?

Var Bjarni svona fyrir eða lærir hann hratt á nýja vinnustaðnum? Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist maðurinns vo viðkunnalegur í lopapeysuhúmornum sínum. En ekki er allt sem sýnist. Menn berja á hverjum öðrum, stinga í bakið og höggva hvurn annan. Tilgangurinn helgar meðalið.

Svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast en líklega færi þá öll skemmtun úr pólitíkinni. Þetta finnst okkur almúganum skemmtilegast, að sjá höfðingjana berja á hverjum öðrum meðan hriktir í undirstöðum landsins vegna manngerðra hamfara. Mikið skelfing væri nú allt leiðinlegt ef alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn legðu af ósiði sína og færu að vinna vinnuna sína.


mbl.is Bréf til Valgerðar fór á alla fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið þessu, svona skák skilar engu

Það gengur ekki að stjórnvöld séu að senda hverju öðru skilaboð í fjölmiðlum. Þau eiga að svara einum rómi og þegja þess á milli. Skeytasendingar eins og þessar grafa einfaldlega undan trausti fólks á stjórnvöldum og við megum nú varla við því núna á síðustu og verstu tímum. Fyrir utan það að svona skák skilar engu og hefur hvorki vitrænt upphaf né endi.

Mál er að linni.


mbl.is FME: Upplýsti ekki ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndin og apaviskan

Hefndin er merkilegt hugtak, oft afar svalt en um leið ofboðslega heimskt. Fyrir hugskotsjónum bregður fyrir hetju úr amrískum biómyndum. Vegur hefndarinnar fyrir dána eiginkonum og barn er varðaður líkum vondukallanna, sprengjum er dúndrað sitt á hvað og skothylkin rjúka á malbikinu. Og hetjan gengur inn í sólarlagið. Á sér svo áreiðanlega góða æfi með nýja fegurðardís upp á arminn og getur henni lítil hetjubörn í úthverfinu.

Í alvörunni er framkvæmd hefndarinnar fjarri þessi. Hún er án efa tilfallandi, óskipulögð og oftar en ekki verða saklausir fyrir barðinu á „hetjunni“. Af þessum ástæðum og áreiðanlega fjölda annarrar hefur ríkisvaldið í nútímaþjóðfélagi einkarétt á hefnd. Þar heitir hún ekki hefnd heldur lög og réttur og er meðal annars byggð á dómi, sektarfé og kannski líka fangelsisvist. Um leið er reynt að vanda svo til hefndarinnar að saklausir verði ekki fyrir skaða. Allt þarf að vera afturkræft og þegar mistök verða er skaðinn bættur.

Já, hefnd frummannsins er sæt en hún er því miður stundarfyrirbrigði. Og hvað svo? Gengur lífiðsinn vana gang á eftir? Hvernig líður þeim sem harmanna hefndi vikunna á eftir?

„Ég gaf honum á kjaftinn en hef síðan séð eftir því,“ sagði maðurinn. Ástæðan er einfaldlega sú að hefnd er oftar en ekki úr öllu samræmi við tilefnið.

„Veistu hvað hann bróðir þinn gerði alltaf þegar einhverjir ætluðu að slást?“ spurði faðir minn oftar en ekki í æsku minni. „Hann hljóp í burtu,“ sagði pabbi, og horfði á mig. Ég vissi ekki hvaða speki þetta var nú. Var bróðir minn sú gunga að hann hljóp í burtu frá óvinum sínum?

„Nei, sagði pabbi. „Hann vissi það bara að það borgar sig ekki að hefna. Það gengur allt miklu betur ef maður gerir óvini sína að vinum sínum,“ sagði hann.

Auðvitað var það rétt sem pabbi sagði og raunar bróðir minn líka. Það er betra að forðast ólætin, gera óvinina að vinum. En hverjir eru óvinir manns. Þeim fækkaði snarlega eftir því sem maður varð eldri. Í dag á maður fyrst og fremst vini. Fæstir bera kala til eins eða neins.

Þetta allt saman datt mér í hug er ég las grein Þórunnar Valdimarsdóttur í hinu fjölskrúðuga veftímariti sem nefnist „Nei, dagblað í ríki sjoppunnar“ (http://this.is/nei/). Þetta er víst nýtt vinstri sinnað rit, en ekki verra fyrir því þó svo að ég aðhyllist ekki hugmyndafræðina. 

Þórunn er á þeirri skoðun að menn eigi að fyrirgefa þeim sem ábyrgð bera á efnahagsvandanum. Hún segir:

Aftökurnar hér heima felast í vítum, níði, bölbænum og hefndarhug. Eins og til forna á að drepa konunginn þegar uppskeran bregst. Söguleg framþróun er því lítil í raun, í mesta lagi í dularklæðum. Gerum frekar eins og Suður-Afríka, reisum fyrirgefningar dómstól í stað þess að senda hatur á menn sem kerfið þáði af hagvöxt þegar allt gekk vel.

 Og hún segir ennfremur:

Hefðum við verið komin í EB væri gjaldmiðillinn tryggur, baklandið stærra og skelfingin minni. Svona apaviska hjálpar ekki þegar skaðinn er skeður, við erum eftir sem áður með allt niðrum okkur. Eina leiðin er því að reyna að fíla nektina og húðleysið. Leysa skömmina upp með skilningi og hamast við að skilja á milli einstaklingsins í sér og þess að tilheyra þjóð eða mengi landsmanna.      

 Í blálok greinarinnar stendur þetta:

Böl sitt má bæta með öðru verra og um allan þriðja heim er af nógu að taka. Njótum þess með öðrum þriðja heims löndum að vera íbúar lands sem er lasið vegna sögu sinnar. Betra er að vera vanmetinn en ofmetinn. Við einangruðumst menningarsnauð og vorum tekin í nefið og rassinn um aldir ... allt sjúkt á sér skýringar. Skortur á menningu um aldir skapar heimsku til lengri tíma. Sjúkt sprettur af sjúku, líknin liggur í lofti sögunnar og víddum lista og lífheims.     

 Hér er skrifað af skemmtilegum innblæstri en ekki eru allir sammála Þórunni. Á vefritinu Eyjunni segir frá séra Torfa Stefánssyni sem segir á póstlista fræðimanna, Gammabrekku:

Hýðum þá sem eiga smánina skilið, hýðum þá púka sem hafa fitnað á okurvöxtum til handa almenningi, meðan þeir fengu hverja þá fyrirgreiðslu sem þeir þurftu án þess að þurfa nokkru sinni að borga fyrir hana. Boðskapur minn er: Gapastokka á hvert torg borgarinnar!

Þarna mælir Torfi án efa fyrir munn svo fjölmargra sem þyrstir í blóð, kannski er hann að grínast, kannski talar hann í líkingum. Hann mælir þó áreiðanlega fyrir hönd lýðisins sem heimtar sökudólga og lýðurinn hefur ekki tíma til að bíða því þá rennur af honum móðurinn. Allt skal gert samstundis, skítt með sektina og sakleysið, til andskotans með réttarmorðið, gefðu okkur bara einhvern, sama hvað hann heitir. Ef þú tímir ekki að gefa okkur Björgúlf, gefðu okkur son hans, Jón Ásgeir, Hannes eða bara einhvern ... Plís, tíminn er að renna út, það er komið að kvöldmat og allir eru að fara heim. Ekki nenni ég einna að troða bankafíflinu í gapastokkinn á Lækjartorgi. .

Og hvað svo. Hvað með daginn eftir Lækjartorg ...? Ekkert, ekkert ... Bara grár hversdagsleikinn, engin sigurtilfinning. Vakna, vinna, fara í hádegismat, vinna, kaupa inn í Bónusinu, Hagkaupinu, Nettóinu eða Nótatúninu og svo heim, skammast í krökkunum, éta, horfa á imbann og fara að sofa. Enginn sigurtilfinning. 

Úbbs, var þetta ekki réttur Hannes/Sigurður/HeiðarMár/Sigurjón sem ég tróð í gapastokkinn? Ansans. Einhver hlýtur að sleppa honum. Gengur betur næst.

 


Vika er skammur tími í borginni eilífu

dsc00024.jpgRóm er stórkostleg borg, fáum öðrum verður jafnað við hana nema kannski Aþenu. Ein snerting og tíminn flýgur til baka, ein snerting og ímyndunaraflið virkjast, „tengsl" opnast við liðna sögu, áratugir, árhundruð og árþúsund opinberast.

Nöfn og atburðir líða hjá, andans stórmenni birtast í huganum, tilfinningar liðinna kynslóða má lesa af gengnum götuhellum, máðum súlunum og húsveggjum.

Ein snerting, og þarna er Ágústus keisari, Sesar, Kalíkúla, Neró, Pétur postuli, ein snerting og atburðirnir verða aftur til, þeir sem breyttu heiminum eða bjuggu til framtíð sem nú er fortíðin.

Þannig er Róm, hún varpar ljósi á fortíðina, býr yfir minjum og minningum sem rekja má jafnvel allt að þrjú þúsund ár aftur í tímann þegar dsc00023.jpgkonungurinn Rómúlus ákvað landamerki yfirráðasvæðis síns.

Og enn er hún eins lifandi og forðum, nær því af holdi og blóði. Hún ber vitni um andans reisn og og snilli, miskunarleysi og fláræði mannsins og allt þar á milli. Hún eilíf og stórkostleg.
Öfgarnar fara hins vegar ekki framhjá neinum sem hefur augun opin. Ekki er allt merkileg list sem sjá má í Róm. Snillin, auðurinn og sjálfstraustið er ekki alltaf nóg til sköpunar og þess vegna verða til ofhlaðin listaverk og í stað þess að þau hafi tilætluð áhrif ganga þau einfaldlega fram af manni í rembingi sínum

Ég dvaldi með með vinafólki um síðustu páska í eina viku í Róm sem vissulega er ekki langur tími í eilífðinni en fyrir þann sem þekkir ekki Róm nema af lestri sögubóka er hún mikilsháttar upplifun. Orð megna ekki að lýsa tilfinningunni sem grípur þann sem leggur leið sína um sjálfa Via Appía, hinni fornu leið inn og út úr borginni og hjartslátturinn eykst þegar Kólosseum birtist og síðan óteljandi súlur, sigurbogar, fornir veggir og þúsundir myndastytta og annarra listaverka. Borgin er afgangurinn af mannkynssögunni.

dsc00183.jpgPantheon ... nafnið eitt vekur virðingu í hugum þeirra sem til þekkja, mögnuð sjón. Húsið var byggt á tímum Ágústusar keisara. Upphaflega var það hof en páfi breytt því í kirkju árið 608 sem líklega hefur bjargað byggingunni frá eyðileggingu.

Þríhyrnd forhliðin er borin upp af voldugum súlum og þar fyrir innan er hringlaga salur undir hvolfþaki. Hæst á því miðju er kringlótt op og sér upp í himininn. Mikið altar horfir til dyra og beggja vegna önnur smærri og standa víða dýrlingar eða málverk af guðlegum atburðum.

Og í dyrunum er hin forna tvískipta hurð sem er víst upprunaleg ... sú hin sama og var sett í þegar hofið var vígt fyrir nærri tvö þúsund og fimmtíu árum. Ein snerting og sannarlega fáum við tilfinningu fyrir árþúsundunum, lífi og dauða þekktra sem óþekktra einstakling, þetta er brúin milli kynslóða, tengingin milli árhundraða, árþúsunda. 

Jæja ... Maður getur nú varla verið meira upphafinn og tilfinningaríkari en eftir vikudvöl í Róm, genginn upp að hnjám, hafandi óboðinn sótt tvær messur hjá Benedikti páfa, án þess þó að hafa fengið áheyrn. Ég bjóst nú eiginlega ekkert við því enda kallinn svo ofboðslega upptekinn í dymbilvikunni, páskunum.

dsc00143.jpgLíklega fylgir því mikill erill að vera páfi og eiga þó ekki konu til að fullkomna líf sitt eða hella upp á kaffi! Hins vegar var það sem hundaheppni að fá að sjá hann í fullum herklæðum á hlaðinu fyrir utan Péturskirkjuna, en bæði torgið og kirkjan er kennd við Pétur postula. Hvað má þá segja um þá einstæðu tilviljun að álpast inn í Péturskirkjuna á sjálfan föstudaginn langa og horfa því sem næst í augun á gamla manninum sem tónaði, messaði og amenaði til allra átta. Erindi okkar voru ólík. Hann að taldi sig ganga á guðs vegum og ég góndi.

Ég var þó fljótari með mitt verkefni en messan tók Benna þrjá tíma í flutningi og er hann þó aðeins hálfrættingur á við annan „trúboða“ sem messaði hikstalaust í sex klukkustundir þegar broddurinn var hæstur í lífi hans og á ég þar við hann Castró gamla kommakall. Einu sinni átti ég ferð um Kúbu og get ómögulega sagt að tilbeiðslan á Kastró hafi hugnast mér frekar en sú á páfanum.

dsc00146.jpgEkki hefði ég haft þolinmæli að sitja undir maraþoni Castrós. Undir augnaráði Benna gat ég ekki frekar setið, eigandi ekkert annað undir mér en mína lútersku barnatrú sem víst er mér löngu orðin innantóm. Hvarf ég þá á braut en eftir sátu velmegandi kaþólskir kallar af öllum stærðum og gerðum og tóku kvenlega undir er páfi söng á vatikönsku. Ekki dreg ég í efa að allt þetta kaþólska húllumhæ er vel meinandi og ber að virða það. Hins vegar varð mér svo innanbrjóst að meir fannst mér til um ofhleðsluna og rembinginn í þessari kirkju og minna um tilganginn enda féll hann milli stafs og hurðar. Í samanburðinum finnst mér gamlar íslenskar sveitakirkju bæði fegurri og meiri fyrir tilgang sinn í einfaldleikanum þrátt fyrir skort á gulli, prjáli og listaverkunum.  

Þetta er nú kannski langur pistill sem fjallar lítið um það sem hann átti að gera en það er hátæknikvikmyndahús sem brátt verður opnað í Róm og mun sýna lífið í borginni til forna. Það sem ég vildi sagt hafa með öllum þessum formála er að í borginni eilífu fæst fjöldi bóka sem sýna myndir af rústum og svo má fella ofan í þær teikningar sem sýna aðstæður fyrir tvö þúsund árum. Það er skemmtileg aðferðafræði og tvær efstu myndirnar í pistlinum eru úr einni slíkri bók. Og fer nú vel á því að setja hér amen eftir efninu.


mbl.is Róm til forna í þrívídd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi er ekki lýðræðislegt

Mótmæli sem leysast upp í ofbeldi á eignum annarra eru jafn slæm og bankahrun og efnhagsástand sem valdið hefur fjárhagslegum skaða.

Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef einhver meintra sökuldólga í bankamálunum mynd sýna sig á Austurvelli. Myndi lýðurinn ganga í skrokk á þeim? Gæti forsætisráðherra og viðskiptaráðherra verið óhultir meðal mótmælenda? Ef ekki þá er þessi fundur einskis virði.

Ofbeldi og skemmdarverk heyra ekki til lýðræðislegra aðgerða og munu aldrei gera það.


mbl.is Geir Jón: Lítið má út af bregða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúðurslegt orðalag

Mönnum er misjafnlega mikið niðri fyrir og margir svo kappsamir að þeir vilja helst skora tvö mörg í hverju skoti á mark. Eftirfarandi las ég í DV:

Hjörleifur er einn fárra Íslendinga sem geta þýtt texta úr kínversku OG hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðingur stundum reynt að gera þýðingarstörf hans hjá Stöð 2 tortryggileg.

Ég auðkenndi samtenginguna sem veldur mér nokkrum heilabrotum. Ferlega klúðurslegt orðalag og samsetningin enn verri.


Fleiri spurningum er ósvarað

Þegar talað er um að ekki sé ástæða til að persónugera þau mál sem leiddu til hrun bankanna þá trúi ég að ástæðan sé  sú að fyrst þurfum við að svara eftirfarandi spurningum. Svörin leiða svo í ljós hvort einhver ber ábyrgð og hverjir þeir eru:

  1. Hvaða ytri aðstæður leiddu til þess að bankarnir komust í þrot?
  2. Hvað gerðist innan bankanna sem stuðlaði að þroti þeirra?
  3. Hvernig stóðu íslensk stjórnvöld að málum fyrir og eftir þrot banka

Það er tilgangslaust að hrópa ókvæðisorð að einum eða neinum fyrr en við skiljum alla atburðarásina. Hins vegar vitum við að lýðurinn heimtar blóð og dómstóll götunnar er fylgjandi dauðarefsingu og mannorðsmorðum.

Hinkrum við og vinnum heimavinnuna áður en við dæmum. Hvað Sigurð Einarsson varðar finnst mér í lagi að hann njóti vafans þangað til mál eru upplýst. Hann vegur hins vegar að ýmsum aðilum í viðtalinu og það er honum ekki til sóma enda einhliða upplýsingar sem hann veitir í því skyni að verja sjálfan sig. Það er ósköp eðlilegt og mannlegt.


mbl.is Stærstu mistökin að flytja ekki Kaupþing úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungavigtarfólk í bankaráðin

Vel hefur tekist til með val á formönnum bankaráða bankanna. Allir eru þetta þrautreyndir menn, heiðarlegir og traustir og með mikla þekkingu á viðskiptalífinu. Í bankaráðin hafa einnig verið valdir hæfir menn eftir því sem ég þekki best.

Bankaráð Kaupþings: Formaður er Magnús Gunnarsson, viðskiptafræðingur. Aðrir bankaráðsmenn eru Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmastjóri A verðbréfa hf., Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og Drífa Sigfúsdóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Bankaráð Landsbankans: Formaður er Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur. Aðrir bankaráðsmenn eru Erlendur Magnússon, hagfræðingur, Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur og Haukur Halldórsson, bóndi og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna.

Bankaráð Glitnis: Formaður er Valur Valsson, fyrrv. bankastjóri. Aðrir bankaráðsmenn eru Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur, lektor í viðskiptadeild HR, Guðjón Ægir Sigurjónsson, hæstaréttarlögmaður, og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur, lektor í viðskiptadeild HR.

Með því að tilnefna þetta þungaviktarfólk í bankaráðin er ríkisstjórnin að undirstrika að bankarnir eigi að komast í fullan rekstur sem allra fyrst. Þetta eru góð skilaboð til landsmanna og ekki síður til útlanda. Ævintýramennska í bankamálum á Íslandi er liðin tíð. Í bankaráðunum er ekki heldur neinn stjórnmálamaður þrátt fyrir að þau sé pólitíkst skipuð.


mbl.is Ný bankaráð skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband