Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kannski á Davíð ekki sök á Skaftárhlaupinu

Undanfarna daga og vikur þá hefur sá söngur verið afar hávær að lækka þurfi stýrivexti niður í 6%. Seðlabankinn virðist ekkert bifast þrátt fyrir öll lætin og lækkar „aðeins“ um 3,5%.

Þeir hagfræðingar eru til sem telja þetta nóg að gert í bili og við sem ekkert kunnum í fræðunum rekum upp stór augu því einhvern veginn hélt hélt maður að eini hagfræðilegi álitsgjafinn sem mark væri takandi á væri Þorvaldur Gylfason eða Ágúst Ágúst Einarsson á Bifröst. Þeir halda því nefnilega fram að allt sé ónýtt, allt illa gert, allt vitlaust gert, framundan sé tómt svartnætti.

Svo kemur Gylfi Magnússon og varar við frekari lækkun stýrivaxta og vill fá að sjá hvernig gengið hagar sér á næstunni, segist ekki hafa búist meiri lækkun. Er ekki í lagi með manninn? Kann hann ekkert í sænsku hagfræðinni?

Kannski er þá einhver von með Seðlabankann, þvert á það sem fjölmiðlar hafa verið að tönglast á að undanförnu. Og hugsanlega á Davíð Oddson hvorki sök á heimskreppunni né hlaupinu í Skaftá ...

Mér þykir þetta stórmerkileg frétt.


mbl.is Seðlabankinn stígi varlega til jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerfið sem brást

Ef einhver sök er þá þarf að svara fyrir hana. Hins vegar er ágætt að fara varlega í öll svona mál, láta ekki „almannaróm“ villa sér sýn. Markmiðið verður að vera ljóst, sem sagt að finna það sem betur hefði mátt fara og gera ráðstafanir til að slíkt endurtaki sig ekki.

Hitt er verra ef ætlunin er að finna blóraböggla, berja á ríka liðinu og gera það að víti til varnaðar. Málið liggur mjög ljóst fyrir. Kerfið brást. Hafi Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við stofnun reikninga í útibúum erlendis hvað lá í orðum þess. Áttu bankarnir að hætta starfsemi sinni, loka fyrir nýja viðskiptavini? Eða voru þetta tilmæli ábendinga þess efnis að velta á reikningunum var orðin of há miðað við tryggingar íslenska ríkisins? Svona orðhengilsháttur leiðir ekki til neins. Annað hvort var farið eftir lögum eða ekki. Líkur benda til þess að bankarnir hafi farið eftir lögum en eftirlitsaðilarnir hafi brugðist.

Það er svo allrar athygli vert að skoða þá hörku sem „eftirlitsaðilar“ meðhöndla einstaklinga meðan athygli þeirra er víðs fjarri þegar um stór fyrirtæki er að ræða. Ástæðan er líklega sú að það er auðveldar að tukta okkur litla fólkið til en þekkingu, vald og vilja skortir gagnvart þeim sem eiga meira undir sér. Og hverjir eru „eftirlitsaðilar“ fyrir utan Fjármáleftirlitið. Þeir eru fjölmargir, Ríkisskattstjóri, skattstjórar, tollstjórar, sýslumenn og fleiri og fleiri og fleiri.


mbl.is Landsbankamenn svari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn mikli vandi Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja. Verulegrar óánægju gætir meðal stuðningsmanna hans og margir hafa horfið frá stuðningi sínum við flokkinn. Margt veldur. Atburðir síðustu tveggja vikna vega þungt en meira kemur til. Stærsti vandinn er sá að flokkurinn hefur látið undir höfuð leggjast að sinna kynningarmálum eins og vera skyldi.

Eftir afar gott gengi í tvennum kosningum voru andstæðingarnir ráðalausir, vissu lítt hvernig hægt væri að losa um þrásetu flokksins í ríkisstjórn. Á vegum Samfylkingarinnar var þá tekin sú ákvörðun að reyna nýja nálgun sem fólst í því að ráðst einfaldlega á garðinn þar sem hann er hæstur og berja þar linnulaust á. Með Borgarnesræðu formann Samfylkingarinnar hófust árásirnar á þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson sem staðið hafa linnulítið síðan. Um var að ræða skipulega ófrægingarherferð. Kunnir PR menn í flokknum hönnuðu atburðarás, nokkurs konar „herbalife-söluherferð“, þ.e. sjálfbær aðferð sem smitar út frá sér og smá saman hefur áróðurinn náð að síast til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og er á góðri leið með að kljúfa hóp samherja.

Þetta dugði. Davíð Oddsson er orðinn einn af vondu gæjunum. Nú er svo komið að vonlítið er að breyta stöðunni, hann fær ekki að njóta sannmælis svo hatrammur er áróðurinn orðinn. Allt vont stafar má eiginlega rekja til Davíðs. Í hugum margra er hann orðinn holdgerfingur alls þess sem mistekist hefur. Eiginlega má kenna honum um heimskreppuna alla og hlaupið í Skaftá. .

Þegar menn bera ekki hönd fyrir höfuð sér og mæta áróðri andstæðinga er ekki nema von að illa fari. Davíð er horfinn úr stjórnmálastarfi Sjálfstæðisflokksins en í augum andstæðinganna er hann þar ennþá og stjórnar öllu að tjaldabaki. Því er ekki mótmælt. Jafnvel heyrast þær raddir meðal Sjálfstæðismanna að fórna eigi Davíð, hvernig svo sem það er hægt.

Staða Sjálfstæðisflokksins er orðin afar slæm. Hann er í raun klofinn í fjölmörgum málum. Nefna má Evrumálið, aðild að Evrópusambandinu, landbúnaðarmál og fleira. Við meðaljónarir í flokkum stöndum ráðalausir og horfum á málsmetandi Sjálfstæðismenn færa rök fyrir ESB aðild og aðra ekki síður trausta mótmæla því. Sumir vilja evru, aðrir ekki, til eru þeir sem krefjast innflutningsfrelsis á landbúnaðarvörum, aðrir ekki.

Þingmenn flokksins þegja yfirleitt þunnu hljóði. Sumir segja þagnarbindindið sé fyrirskipun stjórnar þingflokksins. Aðrir segja þingmenn einfaldlega ráðþrota, málþrota. Fjölmargir mætir þingmenn hafa brugðist vonum kjósenda sinna. Virðast í besta falli vera samviskusamnir kontóristar í sölum Alþingis. Sama má segja með suma ráðherra sem virðast einfaldlega vera í gíslingu ráðuneyta sinna. Staðan er að minnsta kosti sú að þeir þegja þunnu hljóði og jafnt um stjórnmál sem hugsanleg afrek þeirra innan ráðuneyta. Þeir einu sem upp standa lenda í fárviðri ófrægingarherferða. Skiptir engu máli hversu frjóir og góðir þeir eru í starfi sínu, þeir fá sömu meðhöndlun og Davíð.

Hvað má verða til að breyta hinni ömurlegu stöðu Sjálfstæðisflokksins? Nýtt fólk, nýjar baráttuaðferðir, skara í glæður hugsjónanna ... Framar öllu efla alla kynningu. Skipa mönnum að tala.

Það hefur lengi verið regla innan Sjálfstæðisflokksins að efna ekki til óvinafagnaðar með opinberri gagnrýni á flokkinn og forystuna. Þetta er góð regla, en hún gildir ekki þegar vandamálin blasa við og lítið sem ekkert er gert til mótvægis. Að minnsta kosti er sá vinur sem til vamms segir.


Forsendurnar hafa ekki breyst

Sjávarútvegsráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að ekki eigi að auka við þorskveiðikvótann þrátt fyrir efnahaghremmingarnar. Hann hefur rétt fyrir sér enda ljóst að gengi fiskistofnanna ræðst ekki af gengi krónunnar.

Sama gildir með umhverfismat vegna álvers á Bakka. Forsendur ákvörðunar um umhverfismatið breytast ekki þrátt fyrir að efnahagsaðstæður séu aðrar núna en fyrir mánuði.

Menn verða einfaldlega að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem getur skapast ef farið er að hringla með þessi mál. Auk þess hljóta stjórnvaldsákvarðanir að stand nema því aðeins og þær séu illa grundaðar.

Það er svo allt annað mál og ekki síður alvarlegt ef ráðherra hefur ekki haldbær rök fyrir ákvörðunum sínum. Mér sýnist þó að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra standi sig alveg prýðilega í stykkinu.


mbl.is Allt í fína á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn hlustar, enginn les ...

Vinur minn einn hélt því fram að Davíð hefði orðið til þess að Kaupþing féll. Hann hafði rangt fyrir sér eins og í svo mörgu öðru þegar kemur að stjórnmálum.

Menn göspruðu um það sem Davíð átti að hafa sagt en engum datt í hug að skoða það sem hann sagði. Menn kjafta sig bara áfram án tillits til staðreynda og trúa öllu sem sagt er í bloggi. Menn trú því að Davíð sé vondur af því að fjöldi manna hefur sagt það nógu oft og nógu lengi. Enginn hlustar lengur, enginn les.

Nú er kjörtíð fyrir Gróu á Leiti. Við eigum að lesa okkur til áður en við fullyrðum. Það er grundvallaratriði. Hvað sagði svo Davíð sem varð þess valdandi að Kaupþing féll? Kannski er hann alsaklaus af því.


mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dilkakjötið á 699 kr/kg

Það skyldi þó ekki vera að íslenskur landbúnaður muni bjarga þjóðinni enn einu sinni. Í langan tíma hafa fjölmargir krafist þesss að innflutningur erlendra landbúnaðarafurða verði gefinn frjáls. Sem betur fer hefur það ekki verið gert ennþá enda hafði það gert því sem næst útaf við landbúnaðinn.

Staðreyndin er einfaldlega sú að við þurfum á innlendum landbúnaði að halda. Hvert einasta ríki verður að geta treyst því að geta brauðfætt landsmenn sína. Þetta á jafnvel enn frekar við um eyland eins og Ísland. Menn trúðu því ekki að til þess geti komið að innflutningur á matvælum geti stöðvast. Margir hlógu hrossahlátri og sögðu að ekkert gæti komið í veg fyrir innflutning. Aldrei neinar styrjaldir, aldrei sjúkdómar í gróðri, alltaf verða til skip, alltaf verða til umframafurðir hjá öðrum. En hvað hefur gerst? Núna vantar einfaldlega gjaldeyri til að kaupa inn matvæli. Greinilega liggur fæðuöryggi okkar í landbúnaðinum.

Ég treysti á íslenskan landbúnað. Er á leiðinni í Sölufélag Austur-Húnvetninga, sem er sláturhúsið á Blönduósi, og ætla að kaupa þar ýmislegt. Þar kostar dilkakjötið í heilum skrokki 699 kr/kg, frosið lambalæri 1.100 og af veturgömlu er kílóverðið enn lægra. Og hjörtun sem er herramannsmatur kostar 190 kr/kg hjá SAH.

Svo ætla ég að fara til Móa og athuga hvort ég fái ekki frosna kjúklinga á góðu verði.

Nei, ég er ekki að hamstra, en allur er varinn góður ...


mbl.is Íslendingar birgja sig upp af mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellur á Silfur Egils

Silfur Egils er stundum afar áhugaverður þáttur. Í hann koma margir góðir menn og segja ýmislegt spakt. Vandi þáttarins er hins vegar stjórnandinn. Hann virðist vera mjög óskipulagður, grípur oft frammí fyrir viðmælendum sínum og slítur stundum í sundur áhugaverðar pælingar með óáhugaverðum innskotum sínum.

Oft koma í þáttinn til hans frábærir gestir eins og til dæmis Jón Ásgeir Jóhannesson sem taldi ekki eftir sér að mæta til Egils í dag. Hann hefur áreiðanlega séð eftir því og mun eflaust hugsa sér tvisvar um áður en hann mætir aftur.

Yfirleitt er það kostur ef blaðamenn, fréttamenn eða þáttastjórnendur halda hlutleysi sínu gagnvart viðmælendum sínum. Það er kostur og er til styktrar. Egill tók í þættinum klára afstöðu gegn Jóni Ásgeiri. Tilfinningarnar báru hann ofurliði og hann lét sé sæma að vaða úr einu í annað og kasta fram margvíslegum og ógrunduðum ákærum en Jón Áseir fékk fá tækifæri til að tjá sig.

Í stað þess hefði Egill átt að undirbúa þáttinn. Lista upp spurningar í ákveðinni röð og halda sig við þær. Einnig hefði hann átt að hafa skynsemi til að hlusta á það sem Jón Ásgeir segði en ekki láta upplögð tækifæri framhjá sér fara og spyrja nánar.

Það sem hefði getað orðið gott viðtal fór í dag í súginn vegna þess að stjórnandinn missti stjórn á sér, hann ætlaði sér einfaldlega að taka Jón Ásgeir af lífi fyrir meintar sakir. Fyrir mitt leyti varð ég fyrir vonbrigðum með þáttinn eins og svo oft áður.


Nallinn verður sunginn

Nornaveiðarnar eru byrjaðar. Nú vilja menn hengja einhvern í hæsta gálga og sökudólgurinn er auðvitað Davíð Odsson. Maðurinn sem olli heimskreppunni, heimilaði sukk útrásarvíkinganna, vondi kallinn sem stóð fyrir einkavæðingu bankanna og gott ef það er ekki honum að kenna að Ingibjörg og Ólafur Ragnar lögðust inn á sjúkrahús. Já hengjum hann í hæsta tré. Og í visir.is stendur:

... Nallinn verður sunginn og gjallarhorn verður til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls. ...

Gera má fastlega ráð fyrir að aðstandendur fundarins sé ósköp venjulegt alþýðufólk sem leggi rök sín málefnalega fyrir fundargesti.


Nú hefðum við þurft fjölmiðlalögin

Mogginn hefur alla tíð verið yfirburðarblað. Stundað áreiðanlega og góða fréttamennsku undir stjórn afar góðra ritstjóra og blaðamennirnir hafa margir hverjir verið hinir bestu á landinu.

Hins vegar hvarflar hugurinn aftur til þeirra daga er ætlunin var að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Finnst fólki það réttlætanlegt að ein útgáfa hafi með höndum langstærsta hluta dagblaða og tvö fyrirtæki skipti næstum til helminga á milli síni markaði fyrir útvarp og sjónvarp? Það var röng ákvörðun af forseta Íslands að leggjast gegn fjölmiðlalögunum, það sannast núna.

Það getur varla verið hollt fyrir þjóðfélagið aðilar skipti markaðnum á milli sín. Það er ekki gert með vilja neytenda enda stendur þetta áreiðanlega þvert í hausnum á fleirum en mér. Skyldi ekki vera kominn grundvöllur fyrir nýju dagblaði?


mbl.is Fréttablaðið og Árvakur saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir búnir að fá hundleið á þessari þjóð

Fjölmiðlar hafa talið okkur trú um að Íslendingar væru eiginlega guðs útvalda þjóð, flottir, gáfaðir, allt sem þeir gera erlendis væri alveg hreint stórkostlegt.

Fyrir mörgum árum átti ég ákaflega skemmtilegt samtal við þingmann eins af „frændþjóðum vorum“ á Norðurlöndunum. Hann sagði mér aðra sögu. Íslensk stjornvöld og íslenskir þingmenn væru sívælandi og sífrandi um smæl landsins og hversu aðrir væru vondir við þá. Þess vegna, sagði þessi þingmaður, þyrfti sífellt að taka tillit til „sérstöðu“ Íslands og landið fengi alls kyns undanþágur sem öðrum stæðu ekki til boða. Ekki kann ég að meta sannleiksgildi þessara orða. Hitt vita allir núna að heimurinn er harður og þar verða menn og þjóðir að standa sig.

Gæti ekki verið að þessi mistök sem sagt er að Bandaríkjamenn og Evrópuríki hafi gert í fjármálakreppunni eigi rót sína að rekja í hreinum leiða, hundleiða á þessari litlu og freku þjóð. Þjóð sem hagar sér þannig að halda mætti að í 50 milljónir manna tilheyrðu henni en ekki 300 þúsund.

Nú, þegar búið er að gera okkur að vanskilamönnum í hinum stóra heimi er ástæða til að fara með veggjum, einbeina sér að innri málefnum þjóðarinnar, byggja upp frá grunni því svo virðist sem allt fjármálakerfi þjóðarinnar er hrunið. Geyma utanríkismálin til betri tíma þegar sjálfstraustið verði svo mikið að við getum hagað okkur eins og milljónaþjóðirnar.

Og eflaust er það rétt mat hjá Bandaríkjamönnum og Evrópuríkjum að raunveruleg hætta sé á því að Ísland verði um of háð rússneska birninum. Kannski hafa Rússar einhver not fyrir okkur. Vildi ekki Sírínovsky, sællar minningar, gera landið að fanganýlendu og brúka Síberíu undir einhverja gagnlega starfsemi?


mbl.is Mestu mistökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband