Samfylkingin; úr stórum meirihluta í minnihlutastjórn

Það er alveg hreint ótrúlegt að ríkisstjórn með tíu þingmanna meirihluta á Alþingi skuli hafa lagt upp laupanna. Í Morgunblaðinu í morgun eru birt „skilyrði" Samfylkingarinnar fyrir áframhaldandi samstarfi.

Ekkert af þeim er hefði átt að vera ásteitingarsteinn millli flokkanna - nema þetta eina. Átján manna þingflokkurinn vildi fá forsætisráðuneytið. Tuttugu og fimm manna þingflokknum fannst nóg að skipting ráðherraembætta væri jöfn þrátt fyrir stærðarmun.

Sá grunur læðist að flestum hugsandi mönnum að þetta með „verkstjóravaldið“ hafi einfaldlega verið fyrirfram tilbúin ástæða til að hætta í ríkisstjórn. Hvað gat Samfylkingin gert annað? Einstakir hlutar flokksins höfðu ályktað gegn ríkisstjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum, andstaða þingmanna, varaþingmanna, ekki síst nokkurra ráðherra var frá upphafi afar áberandi.

Mesta undrun vekur þó stríðið innan þingflokksins og milli ráðherra flokksins. Össur hafnaði því ótal sinnum að skjólstæðingur hans, viðskiptaráðherrann, segði af sér. Össur mun einnig hafa ráðið mestu um að ekki var farið út í stólaskipti og hafnaði því t.d. að embætti fjármálaráðherra kæmi í hlut Samfylkingarinnar. Ráð Össurar var efa þjóðráð fyrir flokkinn enda embættið beiskur kaleikur sem gagnast um þessar mundir lítið í vinsældaleiknum en yrði þeim mun meira til vandræða.

Eftir að hafa hafnað stólaskiptum var eiginlega ekkert annað eftir en að fylgja kröfu VG hluta Samfylkingarinnar og finna eitthvað til að láta brjóta á. „Heyrðu, við gerum bara kröfu til að Jóhanna verði forsætisráðherra,“ sagði Össur í tveggja manna tali við Ingibjörgu Sólrúnu, svo hátt að allir máttu heyra. Menn hlógu fyrst en skildu svo. Hugmyndin var svo fáránleg að hún gat eiginlega gengið upp.

Og þannig endaði fyrsta ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar. Úthaldið brást flokknum þegar aðstæður breyttust. Krepputímar henta ekki í vinsældaleikinn. 

Eftir sitjum við Sjálfstæðismenn. Kannski erum við sárir út í Samfylkinguna fyrir að hafa ekki staðið í lappirnar og reynt að vinna þjóðinni gagn í sterkum meirihluta á Alþingi. Kannski erum við fúlir, leiðir eða eitthvað annað. Eftir stendur undrunin yfir þessum skrýtna flokki sem telur sóma sinn meiri í því að hlaupast frá borði í miðri kreppu og velja þann kost að fara í minnihlutstjórn.


mbl.is „Samfylkingin bugaðist"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband