Ásthildur Lóa þingmaður í klækjastjórnmálum

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr: Að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari!

Þetta segir þingmaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, í pistli á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 22.6.22. Líklega er allt rétt sem hún segir en enginn rökstuðningur fylgir, bara ómerkilegt mas.

Þannig er þetta oft með fjölmarga þingmenn þegar þeir segja frá í eigin orðum hvernig staðan er. Þá freistast þeir til að draga upp afar dökka mynd, fyrst og fremst til að upphefja sjálfa sig en auðvitað kann að vera að þeir vilji koma málum áleiðis.

Ásthildur þingmaður staðfestir í raun og veru ofangreind kænskubrögð með túlka orð fjármálaráðherra á þennan hátt:

Í stað þess að mæta þeim raunveruleika sem við blasir stráir fjármálaráðherra um sig úreltum tölum um að leiguverð hafi ekki hækkað meira en launavísitalan, en gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum eins og t.d. því að greiðslur almannatrygginga eru enn og aftur látnar dragast aftur úr. Hækka ekki í samræmi við gildandi lög. Kjaragliðnunin heldur áfram að aukast þrátt fyrir falsfréttir ríkisstjórnarinnar.

Ekki ætla ég að ræða þetta efnislega, fjármálaráðherra getur druslast til að gera það. Hins vegar er ástæða til að benda á hvernig þingmaðurinn skrifar greinina og hversu svona óbein túlkun getur verið skökk. Líklega er tilgangurinn að hafa áhrif á skoðanir lesenda, ekki upplýsa þá.

Takið eftir orðalaginu „úreltum tölum“. Enginn rökstuðningur fylgir, þetta á líklega að vera alkunn staðreynd sem ekki þarf að orða frekar. Sama er með fullyrðinguna í upphafi. Hvers konar hagfræði byggir á því að gera einhverja ríkari og aðra fátækari. Svona er bara bull sem gengur aldrei upp. Því fleiri sem eru bjargálna því fleiri koma undir sig fótunum og verða jafnvel ríkir, sé það markmið í sjálfu sér.

Þingmaðurinn fullyrðir fjármálaráðherra  gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum“ sem hafa áhrif á leiguverð. Með því að segja að ráðherrann „gleymi“ á Ásthildur Lóa, þingmaður, við að hann hafi viljandi farið með rangt mál. Mér finnst þetta nokkuð alvegarleg ásökun. Hins vegar má spyrja, hversu margir leigjendur eru með greiðslur frá almannatryggingum? Líklega er það ekki síður lykilatriði rétt eins og margt annað sem þingmaðurinn nefnir ekki.

Það er afar alvarleg ásökun að ríkisstjórn Íslands dreifi „falsfréttum“, fölskum upplýsingum.

Og hverjar eru þessar „falsfréttir“? Þingmaðurinn lætur ekkert uppskátt um þær. Hann slær fram alvarlegum ásökunum eins og ekkert sé. Þannig er eiginlega búið að gengisfella orðið sem skiptir svo óskaplega miklu máli í heiminum í dag.

Er ekki ástæða til að ræða „falsfréttirnar“ frekar? Kalla saman þing, stofna til þingnefndar sem rannsaki málið, ákæra ráðherra og stefna síðan landsdómi saman. Þetta allt hafa þingmenn gert áður en eingöngu í pólitískum tilgangi og til þess eins að kom náðarhöggi á andstæðinga.

Eins og svo margir aðrir nýir þingmenn hefur Ásthildur Lóa Þórsdóttir lært tungutak stjórnarandstöðunnar, klækjabrögð hennar og tæknina sem byggir á hálfsannleika. Mikilvægu og gildishlöðnu orðin hafa misst gildi sitt vegna ofnotkunar. Ekkert er lengur að marka þau enda bara nýtt til að afvegaleiða lesendur. Er þá ekki komin „falsfrétt“ um „falsfrétt“? Hvar endar svona vitleysa?

Það er svona sem svo margir þingmenn tala. Byggja mál sitt að nokkrum kunnuglegum atriðum og draga síðan rangar ályktanir út frá þeim í þeim eina tilgangi að sverta andstæðinga sína. Almenn rökræða er næstum horfin, málefnaleg umfjöllun tíðkast ekki.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir öðlaðist ekki alheimsvisku um leið og hún náði kjöri á Alþingi Íslendinga. Kjörbréfi hennar fylgir ekkert slíkt. Hún situr einfaldlega uppi með það sem henni var áskapað í erfðum og hún hefur síðan lært af umhverfinu. Þingmenn eru ekki alvitrir en þeir geta verið brögðóttir og beitt klækjum. Á þingi virðist sú regla mikið notuð að höggva þegar færi gefst, svona eins og gert er á fésbókinni.

Mikið óskaplega er fólkið í klækjastjórnmálunum hvimleitt, í raun óþarft. Það kemur engu áleiðis. Flokkur fólksins byggst á afar góðum stefnumálum en þingmenn eins og Ásthildur Lóa klúðra þeim með hálfsannleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til hamingju. Þér tókst að komast að þeirri niðurstöðu að grein sem er skrifuð til höfuðs klækjastjórnmálum sé liður í ... klækjastjórnmálum.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2022 kl. 21:34

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Því miður sést ekki á pistlinum að höfundurinn sé í krossferð gegn klækjastjórnmálum. Miklu frekar virðist hann liðsmaður á þeim vettvangi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.6.2022 kl. 23:23

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það styður "hamingjuóskirnar" að þér hafi ekki tekist að bera kennsl á það. Hefurðu lesið einhver önnur skrif þingkonunnar?

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2022 kl. 23:29

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Heyrðu mig nú? Ertu búinn að draga hamingjuóskirnar til baka. Eða var þetta bara kaldhæðni? Bið þig að afsaka hafi ég sært tilfinningar þínar vegna þingmannsins.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.6.2022 kl. 23:36

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kemur á óvart ef þú skynjaðir ekki kaldhæðnina strax.

Engar tilfinningar særðar þó fólk hafi ólíka viðhorf, en þú svaraðir ekki spurningunni, hvort þú hafir lesið önnur skrif þingkonunnar, eða hefurðu yfir höfuð kynnt þér helstu áherslumál hennar?

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2022 kl. 23:44

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég er svona frekar einfaldur og seinn að skilja. Sleppti að svara spurningunni, fannst hún frekar grunsamleg. Var nokkuð viss um að í henni er fólgin gildra sem ég kolfélli í. Þetta er svona eins og ég spyrði þig hvort þú sért hættur að berja konuna þína. Já eða nei. Ekki að ég álíti þig ofbeldismann. Bara dæmi um klækjaspurningu. Þú skilur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.6.2022 kl. 23:55

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott og vel.

Ég vil þá góðfúslega benda á að Ásthildur Lóa datt ekki úr heiðskíru lofti inn á Alþingi heldur hefur hún mörgum árum saman barist fyrir þeim málstað sem hún leggur áherslu á sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna o.fl.

Auðvelt er að kynna sér þingmál hennar og ræður sem eru greiðlega aðgengileg á vef Alþingis:

    Það er að segja ef þú hefur áhuga. Ef þú gerir það myndirðu mjög líklega skilja betur samhengið sem hún vísar til í Morgunblaðsgrein sem samkvæmt skilyrðum ritstjórnar má ekki fara yfir tiltekinn orðafjölda og því ekki hægt að koma að ítarlegum rökstuðningi. Margar aðrar lengri greinar og ræður hennar hafa að geyma slíkan rökstuðning í miklu ítarlegra máli og allt það býr svo að baki umræddum skrifum í Morgunblaðið.

    Ég ætlast alls ekki til að þú skiptir um skoðun eða neitt svoleiðis. Vildi bara gera grein fyrir því að málflutningur þingkonunnar er ekki úr lausu lofti gripinn heldur ígrundaður.

    Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2022 kl. 00:16

    8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Við þetta má bæta að Ásthildur Lóa er Þórsdóttir.

    Ekki Þórisdóttir og ekki heldur Þórhallsdóttir.

    Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2022 kl. 13:31

    9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

    Ljótt að fara rangt með nafn þingmannsins. Hef leiðrétt það.

    Umræðuefni mitt var þessi pistill þingmannsins, ekki aðrar greinar og ræður. Já, hann er vel ígrundaður og nákvæmlega um það skrifaði ég.

    S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.6.2022 kl. 13:54

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband